Samgönguráðuneyti

419/1992

Reglugerð um símatorgsþjónustu. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um símatorgsþjónustu.

I. KAFLI

Inngangur.

1. gr.

Símatorg er þjónusta sem Póst- og símamálastofnun býður skráðum fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Sá sem setur upp upplýsingaþjónustu í Símatorgi nefnist upplýsingaveitandi. Upplýsingar eru lesnar inn á sjálfvirkan svörunarbúnað og er hægt að nálgast þær með því að hringja í sérstök uppkallsnúmer, sem Póst- og símamálastofnun úthlutar upplýsingaveitanda. Sérstakt gjald er tekið þegar hringt er í uppkallsnúmer í Símatorgi. Póst- og símamálastofnun skal ákveða hvaða tegund þjónustu má veita í Símatorgi í samræmi við reglur þessar.

II. KAFLI

Skráning, ábyrgð og þagnarskylda.

2. gr.

Upplýsingaveitandi sem óskar eftir að veita upplýsingaþjónustu í Símatorgi, skal sækja um Símatorgsnúmar til Póst- og símamálastofnunar. Í umsókn komi fram nafn, kennitala og heimilisfang upplýsingaveitanda, ásamt upplýsingum um fyrirhugaða upplýsingaþjónustu. Einnig skal tilgreina hver er ábyrgðarmaður þeirra upplýsinga sem fram eiga að koma í upplýsingaþjónustu.

Enginn upplýsingaveitandi getur fengið eða áskilið sér einkarétt á þjónustu í Símatorgi.

3. gr.

Númer í Símatorgi má aðeins tengja sjálfvirkri svörun.

4. gr.

Póst- og símamálastofnun ber enga ábyrgð á upplýsingum upplýsingaveitanda í Símatorgi. Slík ábyrgð er eingöngu hjá upplýsingaveitanda.

Upplýsingaveitandi og starfsmenn hans skulu bundnir þagnarskyldu gagnvart notendum í samræmi við fjarskiptalög.

5. gr.

Þjónusta í Símatorgi má ekki vera á því sviði sem einkaréttur Póst- og símamálastofnunar nær samkvæmt lögum um fjarskipti.

III. KAFLI

Flokkun þjónustu og gjaldtaka.

6. gr.

Uppkallsnúmer eru tengd verðflokki á eftirfarandi hátt:

1. flokkur 99 50 XX (skrefalengd 16 sek.)

2. flokkur 99 51 XX (skrefalengd 12 sek.)

3. flokkur 99 56 XX (skrefalengd 8 sek.)

4. flokkur 99 1X XX (skrefalengd 5 sek.)

5. flokkur 99 2X XX (skrefalengd 3 sek.)

Gjaldflokkar 3, 4 og 5 eru aðeins opnir notendum í stafræna símakerfinu, þ.m.t. farsímakerfinu, sem geta fengið sundurliðaða símreikninga.

Í öllum gjaldflokkum, nema 1. og 2. flokki skal ætíð koma fram í byrjun símtals hvað hver mínúta kostar. Verðkynning skal koma innan 10 sek. eftir að svörun hefst.

7. gr.

Notendur stafræna kerfisins sem þess óska geta látið læsa síma sínum fyrir þjónustu í 3. , 4. og 5. flokki eða öllum flokkum í Símatorgi. Hafi síma verið læst fyrir þessa þjónustu og óskað er eftir opnun á ný, skal það gert skriflega.

Fyrsta læsing er endurgjaldslaus, en kostnað af síðari læsingu eða opnun ber notandi.

8. gr.

Efni, sem ætlað er börnum sérstaklega, má ekki taka lengri tíma en 8 mín. og skal vera í 1. gjaldflokki.

IV. KAFLI

Almennar takmarkanir á efni þjónustu í Símatorgi.

9. gr.

Hámarkslengd símtals í Símatorgi skal vera 30 mínútur. Ef notandi gerir enga aðgerð skal sambandið rofið eftir 10 mínútur. Upplýsingaveitandi er ábyrgur fyrir því að búnaður hans rjúfi símtalið þegar þessum hámarkstímum er náð.

10. gr.

Rabblínur, þ.e. þegar fleiri en einn notandi eru tengdir saman, eru ekki leyfilegir í Símatorgi.

Leikir eru einungis leyfðir að fenginni skriflegri heimild Póst- og símamálastofnunar.

11. gr.

Óheimilt er að kynna annað uppkallsnúmer í Símatorgssímtali.

12. gr.

Ekki má bjóða upp á efni sem brýtur gegn almennum siðgæðisreglum.

13. gr.

Ef nauðsynlegt er að breyta uppkallsnúmeri í Símatorgi af tæknilegum ástæðum, er Póst og símamálastofnun það heimilt enda skal slík breyting tilkynnast upplýsingaveitanda með góðum fyrirvara.

V . KAFLI

Gjaldtaka og innheimta greiðslna.

14. gr.

Upplýsingaveitandi greiðir Póst- og símamálastofnun fyrir númer og línur í samræmi við gjaldskrá sem samgönguráðherra gefur út. Tækjabúnaður upplýsingaveitanda skal vera viðurkenndur af Fjarskiptaeftirlitinu og geta annað þeirri umferð sem býðst.

Greiðslur vegna reikninga, sem innheimtast ekki, verða bakfærðar hjá þeim aðilum, sem veita Símatorgsþjónustu, samkvæmt nánari reglum. Póst- og símamálastofnun áskilur sér rétt til að loka ekki fyrir almenna símaþjónustu notanda þó að hann sé í vanskilum vegna Símatorgsþjónustu.

Í uppgjöri við upplýsingaveitanda er heimilt að draga frá allar skuldir hans við Póst- og símamálastofnun vegna Símatorgsþjónustu.

Póst- og símamálastofnun getur látið koma fram á símareikningi notenda stafræna kerfisins hve stór hluti reikningsins er vegna símtala í Símatorgi.

Fyrir tölfræðilegar upplýsingar greiðist sérstaklega.

VI. KAFLI

Auglýsingar, kynning og eftirlit.

15. gr.

Í öllum auglýsingum og kynningum um Símatorgsþjónustu skal koma fram með greinilegum hætti verð fyrir hverja mínútu. Í prentuðum auglýsingum skal verðið vera í ekki minni stöfum en megintexti.

Í auglýsingum og kynningum skal ekki gefa til kynna að veittar séu aðrar eða víðtækari upplýsingar en fram koma við upphringingu.

16. gr.

Markaðsaðgerðir upplýsingaveitanda skulu gerðar með hliðsjón af afkastagetu. Upplýsingaveitendur mega eingöngu vísa til þjónustu hvers annars í markaðsaðgerðum, ef þeir gera um það samning sín á milli. Póst- og símamálastofnun má fjalla um þjónustu Símatorgsins í sínum markaðsaðgerðum.

17. gr.

Póst-og símamálastofnun er heimilt að hafa eftirlit með þjónustu upplýsingaveitanda t.d. með upphringingum. Upplýsingaveitandi fær ekki tekjur af þessum upphringingum.

18. gr.

Þagnarskylda skal gilda um gagnkvæmar upplýsingar milli Póst- og símamálastofnunar og upplýsingaveitanda í samræmi við góða viðskiptahætti.

VII. KAFLI

Viðurlög og heimild til lokunar.

19. gr.

Brjóti upplýsingaveitandi reglugerð þessa skal póst- og símamálastofnun gefa honum kost á að bæta úr því sem talið er brjóta gegn reglugerð þessari.

Við ítrekuð eða stórfelld brot getur stofnunin lokað uppkallsnúmeri.

20. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984 og lögum um stjórn og starfrækslu póst- og símamála nr. 36/1977 staðfestist hér með til að taka gildi 15. desember 1992 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 30. nóvember 1992.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica