Samgönguráðuneyti

710/1998

Reglugerð um tilkynningarskyldu skipa sem flytja hættulegan varning. - Brottfallin

Reglugerð

um tilkynningarskyldu skipa sem flytja hættulegan varning.

1. gr.

Rekstraraðilum og skipstjórum skipa er flytja hættulegan eða mengandi varning, í lausu eða pakkaðan svo og farmsamningshöfum slíks varnings er skylt að tryggja að farið sé eftir lágmarkskröfum þeim sem settar eru með reglugerð þessari.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

 a) Herskip og önnur skip í opinberri þágu sem eru ekki notuð í atvinnuskyni.

 b) Eldsneyti, birgðir og búnað sem notaður er um borð í skipum.

2. gr.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 a)Rekstraraðili er eigandi, leigutaki, útgerðar- eða umboðsmaður skipsins;

 b)Skip er sérhvert flutningaskip, tankskip sem flytur olíu, kemísk efni eða gas eða farþegaskip á leið til eða frá íslenskum höfnum með hættulegan eða mengandi varning innanborðs, í lausu eða pakkaðan;

 c)Hættulegur varningur er hver sá varningur sem flokkaður er í IMDG-kóðanum, í 17. kafla IBC-kóðans og í 19. kafla IGC-kóðans, þ.m.t. geislavirk efni sem vísað er til í INF-kóðanum;

 d)Mengandi varningur er:

olíur samkvæmt skilgreiningu í I. viðauka við MARPOL,

fljótandi eiturefni samkvæmt skilgreiningu í II. viðauka við MARPOL,

skaðleg efni samkvæmt skilgreiningu í III. viðauka við MARPOL;

 e)MARPOL er alþjóðasamningur frá 1973 um varnir gegn mengun sjávar frá skipum ásamt bókun við hann frá 1978;

 f)IMDG-kóðinn er alþjóðlegur kóði um flutning hættulegs varnings á sjó;

 g)IBC-kóðinn er alþjóðlegur kóði Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um smíði og búnað skipa sem flytja hættuleg efni í lausu;

 h)IGC-kóðinn er alþjóðlegur kóði Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um smíði og búnað skipa sem flytja fljótandi gas í lausu;

 i)INF-kóðinn er kóði Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öruggan flutning á geislavirkum efnum um borð í skipum;

 j)Ályktun IMO er ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar nr. A. 851(20) sem samþykkt var á 20. allsherjarþinginu þann 27. nóvember 1997 undir yfirskriftinni _General principles for ship reporting systems and ship reporting requirements, including guidelines for reporting incidents involving dangerous goods, harmful substances and/or marine pollutants";

 k)Farmsamningshafi er hver sá aðili sem gerir samning við farmflytjanda um flutning á varningi á sjó. Á það jafnt við þegar slíkur samningur er gerður af farmsamningshafa sjálfum, í hans nafni eða fyrir hans hönd;

 l)EES-svæðið er hið Evrópska efnahagssvæði (EES);

 m)Hafnaryfirvöld er hafnarstjóri viðkomandi hafnar eða annar starfsmaður í hans umboði.

3. gr.

Hafnaryfirvöld taka á móti þeim tilkynningum og upplýsingum sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

4. gr.

Ekki má bjóða flutning með skipum á hættulegum eða mengandi varningi, né taka um borð, nema skipstjóri eða rekstraraðili skips hafi fengið yfirlýsingu frá farmsamningshafa með réttum tækniheitum þessa hættulega eða mengandi varnings, númerum Sameinuðu þjóðanna ef einhver eru, hættuflokkum IMO í samræmi við IMDG-, IBC- og IGC-kóðanna og magni slíkra efna og ef þau eru í færanlegum geymum eða flutningagámum, auðkenni þeirra.

Farmsamningshafi ber ábyrgð á að afhenda skipstjóra eða rekstraraðila þá yfirlýsingu sem krafist er samkvæmt reglugerð þessari og að tryggja að farmurinn sem boðinn er til flutnings sé raunverulega sá sem lýst er yfir, í samræmi við 1. mgr.

5. gr.

Rekstraraðili skips sem lætur úr höfn skal láta hafnaryfirvöldum þeirrar hafnar í té allar þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt I. viðauka.

Rekstraraðili skips sem kemur erlendis frá til hafnar á Íslandi eða inn á akkerislægi í íslenskri landhelgi skal sem skilyrði fyrir aðgangi, láta hafnaryfirvöldum í té allar þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt I. viðauka. Þessar upplýsingar skulu berast hafnaryfirvöldum við brottför skipsins frá lestunarhöfn.

Þegar hafnaryfirvöldum hefur verið tilkynnt um upplýsingar í samræmi við 1. eða 2. mgr. skulu þau senda Siglingastofnun Íslands þær upplýsingar.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að undanþiggja reglubundnar áætlunarferðir, sem eru innan við einnar klukkustundar sigling, frá ákvæði 1. mgr.

Skip sem koma til hafnar eða fara frá höfn skulu í samræmi við reglur þar um:

 a) nota skipaumferðarþjónustu (VTS); og

 b) nota hafnsögumenn.

6. gr.

Ef óhapp verður á sjó eða þær aðstæður skapast sem ógnað geta strandlengju eða hagsmunum tengdum henni ber skipstjóra viðkomandi skips þegar í stað að tilkynna Landhelgisgæslu Íslands þar um og þurfa að koma fram í þeirri tilkynningu í það minnsta málsatvik varðandi atburðinn auk þeirra upplýsinga sem fjallað er um í I. viðauka.

Landhelgisgæsla Íslands getur litið svo á að tilkynningarskyldunni samkvæmt 1. mgr., varðandi upplýsingar samkvæmt I. viðauka, sé fullnægt ef skipið tilgreinir hvaða lögbært yfirvald innan EES-svæðisins hafi upplýsingar þær sem krafist er samkvæmt 5. gr. undir höndum.

Tilkynningin sem kveðið er á um í 1. mgr. skal vera í samræmi við ályktun IMO við allar aðstæður sem getið er um í þeirri ályktun.

7. gr.

Skipstjórar skulu fylla út, rétt og nákvæmlega, gátlista þann sem er sýndur í II. viðauka þessarar reglugerðar og hafa hann tiltækan til glöggvunar fyrir hafnsögumann og fyrir hafnaryfirvöld ef þau æskja þess.

Hafnsögumenn sem sjá um að koma skipi í og úr legurými eða annast aðra stjórnun skips skulu þegar í stað tilkynna Siglingastofnun Íslands ef þeir fá vitneskju um vanbúnað sem getur haft áhrif á siglingaöryggi.

8. gr.

Siglingastofnun Íslands skal ef nauðsyn krefur sjá um að tilkynna sjófarendum um öll óhöpp sem tilkynnt hafa verið samkvæmt 1. mgr. 6. gr. svo og upplýsingum um skip sem öðrum skipum getur stafað hætta af.

9. gr.

Um mál er rísa kunna út af brotum á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála. Um refsingar fer samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um leiðsögu skipa nr. 34/1993, með síðari breytingum.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 9. gr. laga um leiðsögu skipa nr. 34/1993 með síðari breytingum og með hliðsjón af tilskipun ráðsins nr. 93/75/EBE frá 13. september 1993 um lágmarkskröfur fyrir skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning til eða frá höfnum innan bandalagsins, sbr. tilskipanir framkvæmdastjórnarinnar nr. 96/39/EB, 97/34/EB og 98/74/EB tilskipun ráðsins nr. 98/55/EB, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 19. nóvember 1998.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 

I. VIÐAUKI

Upplýsingar um skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning.

(5. gr.)

 1. Nafn og kallmerki skipsins.

 2. Þjóðerni skipsins.

 3. Lengd og djúprista skipsins.

 4. Ákvörðunarhöfn.

 5. Áætlaður komutími til ákvörðunarhafnar eða hafnsögustöðvar, eftir því sem hafnaryfirvöld krefjast.

 6. Áætlaður brottfarartími.

 7. Fyrirhuguð leið.

 8. Rétt tækniheiti hins hættulega eða mengandi varnings, númer Sameinuðu þjóðanna, ef einhver eru, hættuflokkar IMO í samræmi við IMDG-, IBC- og IGC-kóðana og þar sem það á við flokkur skipsins eins og hann er skilgreindur samkvæmt INF-kóðanum, magn slíks varnings og staðsetning hans um borð og, ef hann er í færanlegum geymum eða gámum, auðkenni þeirra.

 9. Staðfesting á að í skrá eða farmskrá eða viðeigandi hleðsluáætlun séu nákvæmar upplýsingar um hættulegan eða mengandi varning um borð í skipinu og staðsetningu hans.

10. Fjöldi skipverja.

II. VIÐAUKI

(Gátlisti fyrir skip.

7. gr. og III. viðauki)

Sjá Stjórnartíðindi.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica