Innviðaráðuneyti

1140/2024

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 122/2004 um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

Í stað orðanna "viðauka A.1 við reglugerð nr. 988/2000" í 2. mgr. 4. gr. kemur: tilskipun 2014/90/ESB, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 989/2016 um skipsbúnað.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. reglu VII. kafla viðauka I við reglugerðina:

Liður (1) orðast svo:

"Losunarbúnaður björgunarfleka" er:
a) Handvirkur búnaður sem losar festingar björgunarflekans.
b) Sjóstýrður búnaður sem losar festingar björgunarflekans.

Liður (5) orðast svo:

"Sjósetningarbúnaður" er tæki/fyrirkomulag, t.d. skábraut til að flytja björgunarfar eða léttbát frá geymslustað í sjóinn.

Liður (10) orðast svo:

"Losunar- og sjósetningarbúnaður" er tæki til að losa uppblásanlegan björgunarfleka frá skipi, sjósetja hann og ræsa uppblástur hans sjálfvirkt.

 

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. reglu VII. kafla viðauka I við reglugerðina:

Í stað orðanna "reglugerð um skipsbúnað, nr. 988/2000 með síðari breytingum" í lið (2) kemur: tilskipun 2014/90/ESB, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 989/2016 um skipsbúnað.

Liður (6) orðast svo: Björgunarbúnaður sem krafist er samkvæmt þessum kafla, án þess að hann sé tilgreindur í smáatriðum í hluta C eða tilskipun 2014/90/ESB, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 989/2016 um skipsbúnað, skal vera fullnægjandi að mati stjórnvalda, að teknu tilliti til ítarlegra upplýsinga um slíkan búnað í III. kafla SOLAS-samþykktarinnar frá 1974 eins og henni hefur verið breytt í IMO-kóðanum um björgunarbúnað (LSA-kóðanum).

 

4. gr.

h) liður (4) liðar 6. reglu VII. kafla viðauka I við reglugerðina orðast svo:

h) Sérhvert skip skal á hvorri hlið búið losunarbúnaði ásamt sjósetningarbúnaði eða fyrirkomu­lagi fyrir a.m.k. einn uppblásanlegan björgunarfleka, sem rúmar a.m.k. helming af heildar­fjölda þeirra manna sem eru um borð í skipinu. Slík útfærsla skal annaðhvort:
  i. uppfylla ákvæði 34. reglu um losunar- og sjósetningarbúnað, eða;
  ii. geta losað og sjósett björgunarflekann við allt að 10° stafnhalla á hvorn veginn sem er og allt að 20° slagsíðu til hvorrar hliðar sem er. Flekann skal vera hægt að losa frá skipinu frá geymslustað sem og frá stjórnpalli eða öðrum hentugum stað.
 

Á skipum, sem eru styttri en 24 metrar, er heimilt að vikið sé frá staðsetningu eins björg­unar­fleka og að sá fleki sé eingöngu búinn sjóstýrðum og handvirkum losunarbúnaði sam­kvæmt þessum staflið ef öryggi skipverja er fullnægjandi að mati stjórnvalda. Heimilt er að nota uppblásanlega björgunarfleka, sem krafist er samkvæmt þessum lið, til að uppfylla ákvæði 5. reglu.

 

 

5. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 1. tl. 34. reglu VII. kafla viðauka I við reglugerðina:

  a) liður orðast svo: vera þannig að unnt sé að losa björgunarflekann handvirkt frá skipinu á geymslustað flekans.
  b) liður orðist svo: vera þannig að unnt sé að losa björgunarflekann frá skipinu frá stjórnpalli eða öðrum hentugum stað;

 

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild 2. mgr. 24. gr. skipalaga nr. 66/2021, öðlast þegar gildi.

 

Innviðaráðuneytinu, 1. október 2024.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Aðalsteinn Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica