Menntamálaráðuneyti

911/2000

Reglugerð um skilgreiningu á því hvað telst vera evrópskt sjónvarpsefni. - Brottfallin

1. gr.

Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um, að meiri hluta útsendingartíma sé varið ííslenskt dagskrárefni og annaðdagskrárefni frá Evrópu, sbr. 2. gr. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðvaað frádregnum þeim tíma, sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.


2. gr.

Hugtakið "evrópskt efni" tekur til sjónvarpsefnis, sem upprunnið er í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ("EES-ríkjum") eða ríkjum, sem eru aðilar að sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp milli landa ("sáttmálaríkjum"), sbr. 4. mgr. Efnið skal vera framleitt með þátttöku höfunda og launþega, sem búsettir eru í einu eða fleiri framangreindra ríkja. Ennfremur skal efnið uppfylla að minnsta kosti eitt eftirfarandi þriggja skilyrða:

a) það skal vera framleitt af einum eða fleiri framleiðendum, er hafa staðfestu í einhverju framangreindra ríkja, eða
b) fylgst er með framleiðslunni og henni stýrt af einum eða fleiri framleiðendum, er hafa staðfestu í einhverju ríkjanna, eða
c) meðframleiðendur í einhverju ríkjanna standa undir meiri hluta heildarkostnaðar við sameiginlega framleiðslu efnis og hinu sameiginlega framleiðsluverkefni er ekki stýrt af einum framleiðanda eða fleirum, er hafa staðfestu utan framangreindra ríkja.

Hugtakið evrópskt efni nær einnig til efnis, sem upprunnið er í Evrópuríkjum öðrum en EES-ríkjum og sáttmálaríkjum, enda sé eftirgreindum skilyrðum fullnægt:

a) efnið sé aðallega framleitt með þátttöku höfunda eða launþega, sem búsettir eru í einu Evrópuríki eða fleirum,
b) efnið sé að öllu leyti framleitt með þátttöku eða í samvinnu við framleiðendur, sem staðfestu hafa í einu eða fleirum EES-ríkjum, eða
c) efnið sé framleitt af framleiðendum, er hafa staðfestu í öðrum Evrópuríkjum, enda hafi viðkomandi EES-ríki gert samning á sviði hljóð- og myndmiðlunar við það eða þau Evrópuríki, sem um er að tefla.

Efni, sem ekki telst vera evrópskt efni í skilningi 1. mgr., en er aðallega framleitt með þátttöku höfunda og launþega, sem búsettir eru í einu EES-ríki eða fleirum, skal teljast vera evrópskt efni að því marki, er svarar til hlutfalls framlaga meðframleiðenda innan EES-ríkja til heildarframleiðslukostnaðar.

Sáttmálaríki samkvæmt 1. mgr. þ.e. þau ríki sem eru aðilar að sáttmála Evrópuráðsins um sjónvarp milli landa eru: Austurríki, Búlgaría, Kýpur, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Ungverjaland, Ítalía, Lichtenstein, Malta, Noregur, Pólland, San Marínó, Slóvenía, Spánn, Sviss, Tyrkland, Bretland, Vatíkanið, Eistland, Albanía, Króatía, Tékkland, Grikkland, Litháen, Luxemborg, Moldavía, Holland, Portúgal, Rúmenía, Svíþjóð og Úkraína.


3. gr.
Reglugerð þessi tekur því aðeins til sjónvarpsefnis frá sáttmálaríkjum, sbr. 1. mgr. 2. gr. og sjónvarpsefnis, sem upprunnið er í öðrum Evrópuríkjum en EES-ríkjum og sáttmálaríkjum, sbr. 2. mgr. 2. gr., að efni, sem upprunnið er í EES-ríkjum, sé ekki mismunað í viðkomandi þriðju ríkjum.


4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. útvarpslaga nr. 53, 17. maí 2000 og í samræmi við 6. gr. tilskipunar ráðherraráðs Evrópubandalaganna frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjum um sjónvarpsrekstur (89/552/EBE) svo sem henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðherraráðsins frá 30. júní 1997 (97/36/EB), en tilskipun 97/36/EB var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/99 frá 25. júní 1999.


Menntamálaráðuneytinu, 7. desember 2000.

Björn Bjarnason.
Guðríður Sigurðardóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica