Menntamálaráðuneyti

334/1998

Reglugerð um Þjóðminjavörslu. - Brottfallin

I. KAFLI

Almennt um þjóðminjavörsluna.

1. Hlutverk þjóðminjavörslunnar.

1. gr.

                Hlutverk þjóðminjavörslunnar er að stuðla sem best að varðveislu menningarminja þjóðarinnar, rannsókn þeirra og kynningu.

                Þjóðminjavarslan tekur eigi til þeirra menningarminja, svo sem bóka, skjala og listaverka, sem lögum samkvæmt eru í umsjá annarra stofnana en þeirra er falla undir þjóðminjalög.

2. Stjórnskipan þjóðminjavörslunnar.

2. gr.

                Yfirstjórn þjóðminjavörslunnar er í höndum menntamálaráðherra.

                Þjóðminjaráð er stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands, vinnur að stefnumörkun um þjóðminjavörsluna og fer með önnur verkefni sem ráðinu eru falin í þjóðminjalögum.

                Þjóðminjavörður er forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands, framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs og hefur jafnframt umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu.

                Húsafriðunarnefnd ríkisins og fornleifanefnd fjalla um þau mál, sem þeim eru falin í þjóðminjalögum.

3. gr.

                Landinu er skipt í minjasvæði eftir nánari ákvæðum í reglugerð þessari. Um starfssvið minjavarða fer eftir ákvæðum þjóðminjalaga og reglugerðar þessarar.

II. KAFLI

Yfirstjórn Þjóðminjasafns Íslands.

1. Þjóðminjaráð.

4. gr.

                Þjóðminjaráð vinnur að stefnumörkun og gerir langtímaáætlun um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og þjóðminjavörslunnar í heild. Það hefur yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar og framkvæmd hennar. Þjóðminjaráð er jafnframt stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands og hefur umsjón með rekstri þess. Auk þessa sinnir ráðið, jafnframt því sem ákvarðað er í reglugerð þessari, eftirgreindum verkefnum, sem því eru sérstaklega falin í þjóðminjalögum:

                1.             Að vera umsagnaraðili gagnvart menntamálaráðherra við skipun í embætti þjóðminjavarðar.

                2.             Að gera tillögu að reglugerð og að breytingum á reglugerð um skipulag Þjóðminjasafns Íslands.

                3.             Að gera tillögu til menntamálaráðherra að skiptingu Íslands í minjasvæði.

                4.             Að gera tillögu að reglugerð um byggðasöfn.

                5.             Að gera tillögu um að menntamálaráðherra samþykki stofnskrá byggðasafns.

                6.             Að tilnefna tvo fulltrúa af fimm í húsafriðunarnefnd ríkisins.

                7.             Að tilnefna einn fulltrúa af þremur í fornleifanefnd.

                8.             Að vera umsagnaraðili um lán eða útflutning þjóðminja, sem eru eldri en 100 ára, en jafnframt getur ráðið komið í veg fyrir útflutning yngri gripa með samþykki menntamálaráðuneytisins.

                9.             Að úrskurða um, hvar varðveita skuli forngripi sé ágreiningur um það milli safna.

                10.             Að vera þjóðminjaverði til samráðs um friðun og forvörslu kirkjugripa.

5. gr.

                Þjóðminjaráð hefur umsjón með rekstri Þjóðminjasafns Íslands og tekur allar meiri háttar ákvarðanir, sem varða fjárhagsgrundvöll og starfsramma safnsins, þar með taldar skilgreiningar á tilgangi þess, hlutverki og framtíðarsýn á grundvelli þjóðminjalaga.

                Þjóðminjaráð samþykkir að sínu leyti breytingar á stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands en leitar eftir staðfestingu menntamálaráðherra áður en ráðist er í meiri háttar breytingar á starfsemi og skipan stofnunarinnar.

                Þjóðminjaráð hefur eftirlit með því, að Þjóðminjasafn Íslands framfylgi stefnumarkandi ákvörðunum ráðsins. Í þessu eftirliti felst m.a. að fylgst skal með gerð og framkvæmd markmiðs- og verkefnaáætlana auk fjárhagsáætlunar Þjóðminjasafns. Komi veruleg frávik fram eða sýnt þykir, að Þjóðminjasafn Íslands nái ekki þeim árangri, sem að er stefnt og eðlilegur getur talist, skal þjóðminjaráð gera menntamálaráðuneytinu viðvart.

2. Þjóðminjavörður og framkvæmdaráð.

6. gr.

                Þjóðminjavörður ber, undir eftirliti þjóðminjaráðs, ábyrgð á því að Þjóðminjasafn Íslands sinni þeim verkefnum og skyldum, sem kveðið er á um í þjóðminjalögum og í reglugerð þessari, og að fjárhagslegur rekstur sé í samræmi við fjárlög og fjármunir nýttir á árangursríkan hátt.

                Þjóðminjavörður skal sjá til þess, að Þjóðminjasafn Íslands komi samþykktri stefnumörkun þess í framkvæmd. Hann hefur forystu um gerð fjárhagsáætlunar, markmiðs- og verkefnaáætlana og ber ábyrgð á að starfsemin sé í samræmi við þann ramma sem áætlanir setja.

                Þjóðminjavörður ræður starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands og fer með yfirstjórn málefna þeirra. Hann ákveður hvaða starfsmenn skuli vera formlegir talsmenn Þjóðminjasafns út á við, t.d. við fjölmiðla, um grundvallaratriði í starfsemi og stefnu stofnunarinnar, sbr. og 5. mgr. 9. gr.

                Þjóðminjavörður hefur forystu um undirbúning endurskoðunar á stefnumörkun, starfsáætlunum og starfi Þjóðminjasafns Íslands, sem fram fer með reglubundnum hætti á vettvangi þjóðminjaráðs.

                Safnstjóri er staðgengill þjóðminjavarðar, sbr. 4. mgr. 15. gr.

7. gr.

                Til ráðuneytis sér hefur þjóðminjavörður framkvæmdaráð, skipað hinum þrem sviðsstjórum við Þjóðminjasafn Íslands. Þjóðminjavörður eða staðgengill hans stýrir vikulegum fundum framkvæmdaráðs.

                Framkvæmdaráð er vettvangur fyrir samráð og samræmingu við undirbúning ákvarðanatöku eftir því sem við á, m.a. um stefnumótun, starfsemi, fjármál og starfsmannamál Þjóðminjasafns Íslands.

                Formaður þjóðminjaráðs hefur rétt til setu á fundum framkvæmdaráðs.

                Sviðsstjórar skulu, í samráði við þjóðminjavörð, undirbúa markmiðs- og verkefnaáætlanir hver fyrir sitt svið og leggja þær fram í framkvæmdaráði í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Þeir skulu leita eftir hugmyndum og tillögum frá starfsmönnum, er undir starfssvið þeirra heyra, svo og frá minjavörðum. Þjóðminjavörður sendir þjóðminjaráði niðurstöður um áætlanir og fjárbeiðni til umfjöllunar þar. Að fenginni fjárveitingu skulu áætlanir ræddar í framkvæmdaráði og fjárveitingum skipt til einstakra starfssviða. Komi til ágreinings þar um milli sviðsstjóra í framkvæmdaráði sker þjóðminjavörður úr. Þjóðminjavörður hefur eftirlit með því, að áætlunum sé framfylgt og leggur ársskýrslur sviða fyrir þjóðminjaráð.

III. KAFLI

Svið og starfseiningar.

1. Almennt.

8. gr.

                Meginstarfsemi Þjóðminjasafns Íslands fer fram á vettvangi þriggja sviða. Nefnast þau safnsvið, útiminjasvið og fjármálasvið. Undir þau heyra einstakar deildir og aðrar smærri starfseiningar eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð þessari. Þjóðminjavörður hefur sem forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands eftirlit með starfsemi allra þessara sviða.

9. gr.

                Sviðsstjóri fer með daglega stjórn hlutaðeigandi sviðs. Samhliða stjórnun sviðs getur sviðsstjóri verið deildarstjóri eða forsvarsmaður annarrar smærri starfseiningar innan þess sviðs.

                Sviðsstjórar skulu, auk stjórnunarreynslu, hafa sérþekkingu í einhverjum þeim fagþáttum er tengjast þeim sviðum sem undir þá heyra.

                Þjóðminjavörður ræður sviðsstjóra og ákveður ráðningarkjör þeirra innan marka kjarasamninga.

                Sviðsstjóra ber að stuðla að markvissri starfsemi á sínu sviði. Verði ágreiningur um starfsmörk milli einstakra sviða sker þjóðminjavörður úr.

                Sviðsstjóri er höfuðtalsmaður síns sviðs út á við í samráði við þjóðminjavörð, hafi þjóðminjavörður eigi mælt fyrir um á annan veg, sbr. 3. mgr. 6. gr.

                Sviðsstjóri ber, ásamt deildarstjórum og öðrum forsvarsmönnum smærri starfseininga er undir svið hans heyra, stjórnunarlega ábyrgð á því að starfsemi sviðsins samrýmist stefnumörkun Þjóðminjasafns Íslands, sem þjóðminjaráð hefur markað, þannig að tryggt sé eftir föngum að starfsemin beri árangur og að hún fari fram í samræmi við lög og reglur um þjóðminjavörsluna.

                Sviðsstjóri ábyrgist að starfsemi hlutaðeigandi sviðs sé í samræmi við þann fjárhagsramma sem settur hefur verið í markmiðs- og verkefnaáætlun.

                Sviðsstjóri gerir samninga við verktaka er annast tiltekin verkefni fyrir Þjóðminjasafn Íslands á hans sviði. Jafnframt gerir hann samninga við aðila utan Þjóðminjasafns um að deildir eða aðrar smærri starfseiningar, er undir svið hans heyra, taki að sér nánar tilgreind verkefni fyrir þá. Um samningagerð sem um ræðir í þessari málsgrein skulu sviðsstjórar safnsviðs og útiminjasviðs hafa samráð við fjármálastjóra, sbr. 27.-28. gr.

10. gr.

                Um heimild þjóðminjaráðs til að mæla fyrir um stöðu sérsafna, er undir Þjóðminjasafn Íslands heyra, þ. á m. um að þau hafi stöðu deilda þar, vísast til 2. mgr. 15. gr. Þjóðminjaráð getur ákveðið, að auk deilda verði öðrum smærri starfseiningum komið fyrir innan sviðanna þriggja, og mælir þá fyrir um stöðu þeirra starfseininga að öðru leyti.

11. gr.

                Nú er sviðsstjóri útiminjasviðs eða safnsviðs fjarverandi lengur en um stundarsakir og getur þá þjóðminjavörður falið sviðsstjóra hins starfssviðsins að fara með starf hans, jafnframt sínu eigin, meðan þörf er á. Ella fellur stjórn sviðsins undir þjóðminjavörð meðan fjarvera sviðsstjórans varir.

                Þjóðminjavörður ákvarðar um staðgengil fjármálastjóra.

12. gr.

                Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal þjóðminjavörður halda reglulega húsfundi með sviðsstjórum, deildarstjórum og öðru starfsfólki Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjavörður eða staðgengill hans stýra húsfundum. Á húsfundum þessum skulu m.a. kynntar þær ákvarðanir þjóðminjaráðs, sem fjalla um starfsemi Þjóðminjasafns, og önnur þau mál sem ráðið óskar eftir að starfsmenn þess fjalli um. Húsfundur er umræðuvettvangur en hefur eigi ákvörðunarvald.

                Öllum fundarmönnum er heimilt að bera upp mál á húsfundi.

                Þjóðminjavörður setur nánari reglur um húsfundi, verkefni þeirra og tilhögun.

13. gr.

                Leiki vafi á um stöðu starfsmanna innan stjórnkerfis Þjóðminjasafns Íslands, fer um það efni að ákvörðun þjóðminjavarðar.

2. Safnsvið.

14. gr.

                Safnsvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar. Undir sviðið fellur einnig skipulagning verkefna og þróun innan starfsramma þess, einkum forgangsröðun verkefna og fjármál í tengslum við áætlun sviðsins fyrir hvert ár. Þá heyra undir safnsvið sýningar á vegum Þjóðminjasafns Íslands og sýningargerð ásamt safnkennslu og öðru fræðslustarfi.

                Til minja samkvæmt 1. mgr. teljast allir þeir safngripir og munir, sem Þjóðminjasafn Íslands eignast, forngripir, kirkjugripir, listmunir og nytjahlutir; auk þess minjar um atvinnuhætti og tækniþróun, svo og myndir, kvikmyndir, hljóðritanir og skráðar heimildir um þjóðhætti.

                Safngripur telst sérhver sá hlutur, sem skráður hefur verið í Þjóðminjasafn Íslands. Eftir að safngripur hefur fengið endanlega skráningu, skal honum ekki fargað frá Þjóðminjasafni nema með samþykki þjóðminjaráðs.

15. gr.

                Undir safnsvið heyra þrjár almennar deildir: munadeild, myndadeild og þjóðháttadeild, auk sérsafna og smærri starfseininga ef stofnaðar verða, sbr. 2. mgr. Nesstofusafn og Sjóminjasafn Íslands hafa stöðu deilda undir safnsviði.

                Sérsöfn, er heyra undir Þjóðminjasafn Íslands, auk Nesstofusafns og Sjóminjasafns Íslands sbr. 1. mgr., geta haft stöðu deilda innan safnsviðs. Þjóðminjaráð ákvarðar um stöðu hlutaðeigandi safna að þessu leyti og í öðrum efnum og setur forstöðumönnum þeirra erindisbréf. Þjóðminjaráð getur skipað safni, er undir Þjóðminjasafn heyrir, sérstaka stjórnarnefnd og sett henni starfsreglur, en starfsemi safnsins lýtur allt að einu undir safnsvið og þjóðminjaráð. Ákvörðunum safnstjórnar má skjóta til þjóðminjaráðs til endurmats. Þjóðminjaráð getur og samþykkt, að komið verði á sérstökum starfseiningum við safnsvið, utan almennu deildanna, sbr. 10. gr.

                Marka skal söfnunar- og varðveislustefnu fyrir hverja deild safnsviðs sem og sérsöfn, en allar deildirnar skulu taka þátt í sýningargerð á vegum Þjóðminjasafns Íslands.

                Sviðsstjóri safnsviðs hefur starfsheitið safnstjóri. Hann heyrir undir þjóðminjavörð og er staðgengill hans, sbr. 6. gr.

                Deildarstjórar og eftir atvikum forsvarsmenn annarra starfseininga innan safnsviðs heyra undir safnstjóra.

16. gr.

                Munadeild varðveitir, skráir, rannsakar og sýnir muni Þjóðminjasafns Íslands og veitir ráðgjöf og fræðslu á sínu fagsviði. Í umsjá deildarinnar eru allir munir skráðir í Þjóðminjasafn sem og munir í sérsöfnum innan vébanda þess nema hlutaðeigandi sérsafn hafi stöðu deildar innan safnsviðs. Í munadeild fer og fram forvarsla gripa, eftir atvikum í samráði við aðrar deildir eða starfseiningar, sem og ýmiss konar ráðgjöf, er varðar forvörslu almennt, bæði fyrir Þjóðminjasafn Íslands og aðra er eftir leita. Eftir ákvörðun safnstjóra annast munadeild útlán safngripa til annarra aðila til rannsókna eða sýningarhalds í samræmi við ákvæði 10. gr. þjóðminjalaga og 76. gr. reglugerðar þessarar.

17. gr.

                Myndadeild varðveitir myndasöfn Þjóðminjasafns Íslands. Deildin annast söfnun, skráningu, forvörslu, rannsóknir og sýningar á hverskonar myndefni og veitir ráðgjöf þar að lútandi. Frummyndir í eigu Þjóðminjasafns skulu ekki lánaðar út nema í undantekningartilvikum, t.d. á sýningar, og þá í samræmi við reglur, sem Þjóðminjaráð setur. Deildin annast eftirtökur frummynda til notkunar utan safnsins og setur notendum skilmála um nýtingu myndanna. Deildin gætir höfundarréttar og semur við rétthafa að myndum. Kvikmyndir í eigu Þjóðminjasafns Íslands má geyma á opinberu kvikmyndasafni, enda sé þar fullnægjandi aðstaða til varðveislu og sýningar.

18. gr.

                Þjóðháttadeild annast heimildaöflun, skráningu, rannsóknir og kynningu á íslenskum þjóðháttum. Á vegum hennar eru samdar og sendar út spurningaskrár um þjóðhætti og efni jafnframt safnað með viðtölum. Efnið skal gert aðgengilegt með uppskriftum af segulböndum, skráningu allra aðfanga og síðan með því að tölvusetja texta og vinna þá í orðaleitarforriti deildarinnar. Um aðgang fræðimanna, háskólanema og alls almennings að efniviði þjóðháttadeildar fer eftir því sem mælt er fyrir um í 77. gr.

19. gr.

                Verkefnastjórar í miðlunar- og markaðsmálum sem og skráningar- og upplýsingavinnslu, sbr. IV. kafla, starfa í tengslum við safnsvið.

20. gr.

                Auk fastráðinna fagmanna starfa við safnsvið lausráðnir starfsmenn, er sinna tilteknum verkefnum, eftir atvikum í tengslum við Rannsóknastofnun Þjóðminjasafns Íslands, sbr. VI. kafla reglugerðar þessarar.

3. Útiminjasvið.

21. gr.

                Útiminjasvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar. Undir sviðið fellur einnig skipulagning verkefna og þróun innan starfsramma þess, einkum forgangsröðun verkefna og fjármál í tengslum við áætlun sviðsins fyrir hvert ár.

                Til minja samkvæmt 1. mgr. teljast hvers kyns jarðfastar leifar og mannvirki, hús eða aðrar staðbundnar minjar sem mannaverk eru á og talin eru hafa menningarsögulegt gildi í samræmi við ákvæði þjóðminjalaga. Undir sviðið falla hús og kirkjur í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sbr. 24. gr., ásamt gripum og minningarmörkum í kirkjum og kirkjugörðum, svo og búsetulandslag, lögboðin fornleifaskráning, svo og umhverfismat vegna skipulags og framkvæmda að því leyti sem það kemur til kasta Þjóðminjasafns Íslands.

22. gr.

                Undir útiminjasvið heyra tvær deildir: fornleifadeild og húsverndardeild, auk annarra smærri starfseininga sem þjóðminjaráð kann að ákvarða um, sbr. 10. gr.

                Sviðsstjóri útiminjasviðs hefur starfsheitið minjastjóri. Hann heyrir undir þjóðminjavörð.

                Deildarstjórar og eftir atvikum forsvarsmenn annarra starfseininga heyra undir minjastjóra.

23. gr.

                Fornleifadeild annast rannsóknir, skráningu og kynningu fornleifa og birtingu á skrám um fornleifar, fornleifakönnun vegna umhverfismats, eftirlit með þekktum fornleifum í samstarfi við minjaverði, undirbúning að friðlýsingu fornleifa að höfðu samráði við fornleifanefnd, birtingu friðlýsingar, sem þjóðminjavörður hefur staðfest, og þinglýsingu hennar, umsjón með auðkenningu friðlýstra fornleifa í samstarfi við minjaverði, útgáfu á skrá um friðlýstar fornleifar, verndun og umsjón með friðlýstum fornleifum í samstarfi við minjaverði og eftirlit með fornleifarannsóknum innlendra og erlendra rannsakenda, sjá nánar ákvæði 63.-68. gr.

24. gr.

                Húsverndardeild annast rannsóknir á þeim byggingum, er heyra til húsasafns Þjóðminjasafns Íslands, sem og á öðrum byggingarminjum og byggingarsögu og sinnir útgáfu fræði- og fræðsluefnis um viðfangsefni sín. Deildin annast jafnframt viðhald, rekstur, sýningar og eftirlit með húsasafni Þjóðminjasafns. Í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands eru allar þær byggingar, sem Þjóðminjasafn hefur tekið til varðveislu vegna menningarsögulegs gildis þeirra, hvort heldur sem Þjóðminjasafn á byggingarnar eða hefur gert samkomulag um rekstur og viðhald á þeim. Húsverndardeild hefur samráð við minjaverði um framkvæmdir er undir hana heyra.

                Minjastjóri gerir tillögu til þjóðminjaráðs um fjölgun þeirra húsa, sem varðveitt eru á vegum Þjóðminjasafns, eftir því sem fé fæst til. Þess háttar mannvirkjum skal fundið viðeigandi hlutverk svo sem kostur er.

                Heimilt er Þjóðminjasafni Íslands að fela öðrum varðveislu og rekstur gamalla húsa í þess eigu, samkvæmt sérstökum samningi sem þjóðminjaráð staðfestir.

25. gr.

                Verkefnastjórar í miðlunar- og markaðsmálum sem og skráningar- og upplýsingavinnslu, sbr. IV. kafla, starfa í tengslum við útiminjasvið.

                Starfsemi húsafriðunarnefndar ríkisins, sbr. X. kafla, hefur starfstengsl við útiminjasvið en heyrir beint undir þjóðminjaráð, sbr. 35. gr. þjóðminjalaga.

26. gr.

                Auk fastráðinna fagmanna starfa við útiminjasvið lausráðnir starfsmenn, er sinna tilteknum verkefnum, eftir atvikum í tengslum við Rannsóknarstofnun Þjóðminjasafns Íslands, sbr. VI. kafla reglugerðar þessarar.

4. Fjármálasvið.

27. gr.

                Fjármálasvið annast sameiginlega rekstrarþætti Þjóðminjasafns Íslands. Starfsemi sviðsins er m.a. ætlað að auðvelda samvirkni þeirra starfssviða, deilda og eftir atvikum smærri starfseininga, sem sinna minjavörslu, rannsóknum og miðlun þekkingar um safnmuni og aðrar minjar. Fjármálasvið starfar fyrir fagsviðin tvö, safnsvið og útiminjasvið.

                Undir fjármálasvið heyra fjárreiður og fjármálastjórn Þjóðminjasafns Íslands auk fjárhagsáætlana þess. Jafnframt vinnur fjármálasvið fyrir safnsvið og útiminjasvið við áætlanagerð einstakra deilda og smærri starfseininga innan fagsviða, starfsmannahald þeirra, öflun sértekna, afgreiðslu launa, bókhald og rekstrar- og kostnaðaryfirlit. Það fylgist reglubundið með framkvæmd fjárhagsáætlana einstakra sviða og stofnunarinnar í heild og sér til þess að þjóðminjaráð fái nauðsynlegar upplýsingar um þau efni.

                Fjármálasvið annast daglegan rekstur skrifstofu og á vegum þess fer fram umsjón með þeim byggingum Þjóðminjasafns Íslands, sem ekki eru hluti húsasafns þess, og með almennri aðstöðu starfsmanna og gesta þess. Með umsjón bygginga er hér m.a. átt við almennt viðhald, öryggismál í byggingum, gæslu þeirra og húsvörslu.

                Undir fjármálasvið heyrir almenn umsjón með útgáfu rita á vegum Þjóðminjasafns Íslands, umsjón með skjalasafni, rekstur bókasafns og umsjón með upplýsingabúnaði, svo sem tölvuvæðingu og upplýsingakerfi Þjóðminjasafns Íslands, og auk þess rekstur móttöku, þ.m.t. símvörslu, kaffistofu og safnbúðar.

                Bókasafn Þjóðminjasafns Íslands er rannsóknarbókasafn. Það annast jafnframt skjalavörslu fyrir Þjóðminjasafn. Safnið leggur áherslu á öflun rita, er snerta starfsemi Þjóðminjasafns, svo sem um fornleifafræði, þjóðháttafræði, textílfræði, byggingarlist, skreytilist, kirkjulist, forvörslu og safnfræði. Það annast flokkun og skráningu rita, svo og upplýsingaþjónustu, sbr. 77. gr.

                Um heimild þjóðminjaráðs til að ákvarða um einstakar starfseiningar innan fjármálasviðs fer eftir ákvæðum 10. gr.

28. gr.

                Sviðsstjóri fjármálasviðs hefur starfsheitið fjármálastjóri. Hann heyrir undir þjóðminjavörð.

29. gr.

                Verkefnastjórar í miðlunar- og markaðsmálum sem og skráningar- og upplýsingavinnslu, sbr. IV. kafla, starfa í tengslum við fjármálasvið.

30. gr.

                Auk fastra starfsmanna starfa við fjármálasvið lausráðnir menn á grundvelli verkefnasamninga eða þjónustusamninga.

IV. KAFLI

Verkefnastjórar.

31. gr.

                Til starfa við Þjóðminjasafn Íslands má ráða verkefnastjóra til sérstakra verkefna. Verkefnastjórum er ætlað að tengja saman og efla tiltekna þætti í starfsemi Þjóðminjasafns. Þjóðminjavörður velur verkefnastjórum yfirmann úr hópi sviðsstjóra.

32. gr.

                Verkefnastjóri miðlunar- og markaðsmála veitir sviðum og eftir atvikum einstökum stjórnunar- eða starfseiningum Þjóðminjasafns Íslands og öðrum stofnunum minjavörslunnar í landinu, svo sem byggðasöfnum, faglega þjónustu við sýninga-, kynningar-, fræðslu- og markaðsstarf. Hann aðstoðar sviðsstjóra og starfsmenn, sem og stjórnendur einstakra safna, við að koma á framfæri fróðleik, bæði í sýningarformi og rituðu máli, en auk þess er hann ráðgjafi framangreindra aðila um samskipti við fjölmiðla.

                Verkefnastjóri miðlunar- og markaðsmála skal hafa það að markmiði að tryggja heildræna stefnu og markviss vinnubrögð í markaðsstarfi Þjóðminjasafns Íslands og stuðla að samræmingu verkþátta, er því tengjast, og eðlilegu samráði. Hann skal sjá til þess, að verkefni, er hann hefur afskipti af, séu unnin á tilsettum tíma og innan þess fjárhagsramma, sem þeim er ætlaður.

33. gr.

                Verkefnastjóri skráningar og upplýsingavinnslu veitir sviðum og eftir atvikum einstökum stjórnunar- eða starfseiningum Þjóðminjasafns Íslands og öðrum stofnunum minjavörslunnar í landinu, svo sem byggðasöfnum, faglega þjónustu við skráningu og tölvutæka margmiðlun upplýsinga um minjar og einstaka safnmuni. Hann starfar með stjórnendum sviða og starfsmönnum og leitast við að tryggja, að samvinnu, samráðs og samvirkni sé gætt við skráningu, gagnavinnslu og margmiðlun heimilda. Hann fylgist af nákvæmni með öllum meiri háttar verkefnum á þessu sviði og sér til þess, að þau verði framkvæmd á tilsettum tíma og innan marka þess fjárhagsramma, sem þeim er ætlaður.

V. KAFLI

Rannsóknarstaða tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns.

34. gr.

                Við Þjóðminjasafn Íslands skal vera sérstök rannsóknarstaða, tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands.

                 Staðan er ætluð fræðimönnum, er sinna rannsóknum á íslenskum fornminjum eða öðrum þáttum íslenskrar menningarsögu sem falla undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands.

                Staðan skal auglýst og ráðið í hana til eins árs í senn. Framlengja má ráðningu um allt að eitt ár í senn án auglýsingar. Þó verður ráðningartími aldrei lengri en þrjú ár samfellt. Menntamálaráðherra ræður í stöðuna að fenginni tillögu þjóðminjavarðar.

                Þjóðminjavörður ákvarðar um launakjör fræðimannsins, innan marka kjarasamninga, og um annan kostnað af stöðunni.

                Fræðimaðurinn skal skila áfanga- eða rannsóknarskýrslum árlega. Skal stefnt að því, að niðurstöður rannsókna hans meðan hann gegndi stöðunni birtist á viðurkenndum vísindalegum vettvangi að ráðningartíma loknum. Skulu þær rannsóknarniðurstöður jafnframt varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands, eins þótt óbirtar séu.

35. gr.

                Fræðimaður sem gegnir rannsóknarstöðu samkv. 34. gr. skal starfa við Þjóðminjasafn Íslands. Hann heyrir undir þjóðminjavörð en getur hvort heldur sem er starfað á vettvangi útiminjasviðs eða safnsviðs, eða á vettvangi beggja starfssviðanna, auk þess sem starf hans getur tengst rannsóknum á vegum Rannsóknarstofnunar Þjóðminjasafns Íslands. Fræðimaðurinn nýtur faglegs sjálfstæðis í starfi sínu. Heimilt er, með samþykki þjóðminjavarðar, að fræðimaðurinn hafi um stundar sakir starfsaðstöðu utan Þjóðminjasafns Íslands.

VI. KAFLI

Rannsóknarstofnun Þjóðminjasafns Íslands.

36. gr.

                Við Þjóðminjasafn Íslands má koma á fót sérstakri stofnun, sem beri heitið Rannsóknarstofnun Þjóðminjasafns Íslands, enda hafi menntamálaráðherra staðfest starfsreglur hennar sbr. 44. gr.

                Hlutverk þeirrar stofnunar verði:

1.             Að vera vettvangur rannsókna ííslenskri minjafræði, þ.e. fornleifafræði, þjóðháttafræði, safnfræði og öðrum fræðigreinum á starfssviði Þjóðminjasafns Íslands.

2.             Að annast þjónusturannsóknir og ráðgjöf og veita álitsgerðir.

                Stofnunin hefur sjálfstæðan fjárhag og aflar sér sjálf rekstrartekna, sbr. 41. gr. Hún getur gert samninga við aðra um tilteknar rannsóknir gegn endurgjaldi.

37. gr.

                Rannsóknarstofnun Þjóðminjasafns Íslands hefur sérstaka stjórn sem skipuð er þremur aðalmönnum og þremur til vara. Þjóðminjaráð skipar stjórnarmennina. Eru tveir aðalmanna skipaðir án tilnefningar en einn aðalmann skulu fastir starfsmenn við Þjóðminjasafn Íslands tilnefna úr sínum hópi. Þjóðminjaráð skipar formann stjórnarinnar úr röðum aðalmanna.

                Um skipun varamanna og varaformanns fer með sama hætti og mælt er fyrir um aðalmenn í 1. mgr.

                Rannsóknarstofnunin greiðir stjórnarmönnum þóknun fyrir störf þeirra eftir ákvörðun þjóðminjaráðs.

38. gr.

                Stjórn Rannsóknarstofnunar Þjóðminjasafns skal marka stefnu stofnunarinnar og ráða vali verkefna auk þess sem hún hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar og gerir tillögur að fjármögnun einstakra verkefna.

                Stjórnin ræður forstöðumann, sem stjórnar daglegum rekstri stofnunarinnar.

                Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi. Forstöðumaður á seturétt á stjórnarfundum og hefur þar tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

39. gr.

                Fyrir aðstöðu og þjónustu, sem Þjóðminjasafn kann að láta Rannsóknarstofnuninni í té, skal koma hæfilegt gjald sem greiðist af rekstrartekjum Rannsóknarstofnunarinnar.

40. gr.

                Að verkefnum fyrir Rannsóknarstofnunina geta starfað:

1.             Fastir starfsmenn við Þjóðminjasafn Íslands.

2.             Sérfræðingar, sem stjórn stofnunarinnar heimilar.

3.             Háskólanemar og aðstoðarmenn.

41. gr.

                Rannsóknarstofnunin hefur eftirtalda tekjustofna:

1.             Greiðslur fyrir verkefni.

2.             Styrki til verkefna.

3.             Fjárveitingar til sérstakra verkefna.

4.             Aðrar tekjur.

42. gr.

                Stjórn Rannsóknarstofnunar Þjóðminjasafns Íslands getur samið við erlendar rannsóknarstofnanir um sameiginleg rannsóknarverkefni.

43. gr.

                Þjóðminjavörður ákveður um mörk verkefna Rannsóknarstofnunar Þjóðminjasafns Íslands gagnvart einstökum deildum og öðrum starfseiningum Þjóðminjasafns.

44. gr.

                Þjóðminjaráð setur Rannsóknarstofnuninni sérstakar starfsreglur og leitar staðfestingar menntamálaráðherra á þeim.

VII. KAFLI

Minjasvæði og minjaverðir.

45. gr.

                Landinu skal skipt í minjasvæði sem hér segir:

1.             Vestursvæði, sem nær frá Botnsá í Hvalfirði að vesturmörkum Strandasýslu.

2.             Norðursvæði vestra, sem nær frá vesturmörkum Strandasýslu að vesturmörkum Eyjafjarðarsýslu að Siglufjarðarkaupstað meðtöldum.

3.             Norðursvæði eystra, sem nær frá vesturmörkum Eyjafjarðarsýslu og austurmörkum Siglufjarðarkaupstaðar að norðurmörkum Norður-Múlasýslu.

4.             Austursvæði, sem nær frá norðurmörkum Norður-Múlasýslu að austurmörkum Vestur-Skaftafellssýslu.

5.             Suðursvæði, sem nær frá austurmörkum Vestur-Skaftafellssýslu að austurmörkum Gullbringusýslu.

6.             Reykjanessvæði, sem nær frá austurmörkum Gullbringusýslu að Botnsá í Hvalfirði að Reykjavíkursvæði undanskildu.

7.             Reykjavíkurvæði, sem nær yfir Reykjavík að Kjalarnesi meðtöldu.

                Þjóðminjasafn Íslands fer með minjavörslu á Reykjanessvæði. Fer um nánari tilhögun hennar eftir ákvörðun þjóðminjaráðs að fengnum tillögum þjóðminjavarðar. Getur þjóðminjaráð m.a. mælt fyrir um samstarf útiminjasviðs og safnsviðs varðandi einstaka þætti minjavörslunnar á þessu minjasvæði eða um hana í heild.

                Minjavarsla á Reykjavíkursvæði heyrir undir borgarminjavörð, en aðrir minjaverðir eru starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands, sbr. þó 2. mgr. 46. gr.

46. gr.

                Þeir minjaverðir, sem eru starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands, heyra stjórnunarlega undir þjóðminjavörð sem ræður þá til starfa að fenginni tillögu þjóðminjaráðs.

                Þjóðminjaráði er heimilt að fela forstöðumanni byggðsafns að gegna hlutverki minjavarðar á hlutaðeigandi minjasvæði. Um það skal þá gerður sérstakur starfssamningur við minjavörð og jafnframt samningur við stjórn hlutaðeigandi byggðasafns.

47. gr.

                Á hverju minjasvæði skal starfa einn minjavörður, sjá þó 45. gr.

                Minjaverðir skulu, í samráði við útiminjasvið Þjóðminjasafns Íslands, hafa umsjón með menningarminjum, skráningu og eftirliti fornleifa og gamalla bygginga og vera byggða- og minjasöfnum svæðisins til ráðuneytis og aðstoðar. Þeir eru tengiliðir milli Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna á hverju minjasvæði og skulu stuðla að góðu samstarfi milli þessara aðila.

                Sviðsstjórar Þjóðminjasafns Íslands geta, með samþykki þjóðminjavarðar, falið minjavörðum einstök verkefni.

                Nánari ákvæði um starf minjavarða skulu vera í almennum starfsreglum fyrir þá, sem þjóðminjaráð setur, og auk þess í erindisbréfi sem þjóðminjavörður setur hverjum minjaverði um sig.

48. gr.

                Minjaverðir skulu að öðru jöfnu hafa sérfræðimenntun á sviði minjafræði, en undir það fræðasvið heyra m.a. fornleifafræði, þjóðháttafræði, listfræði, safnfræði og aðrar greinar menningarsögu er tengsl hafa við starfsemi Þjóðminjasafns Íslands.

49. gr.

                Á hverju minjasvæði skal starfa minjaráð, sem, auk minjavarðar, er skipað forstöðumönnum viðurkenndra byggðasafna á svæðinu.

                Hlutverk minjaráðs er að samhæfa starfsemi byggðasafna, eftir því sem við verður komið, m.a. með ályktunum sem beint er til stjórna þeirra, og vera minjaverði til ráðuneytis um varðveislu þjóðminja á svæðinu. Minjaráð hefur ekki ákvörðunar- eða úrskurðarvald á starfsvettvangi sínum.

                Minjavörður er formaður minjaráðs.

                Fundi minjaráða skal halda eftir því sem nauðsynlegt verður talið, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Afrit fundargerða minjaráða skal senda þjóðminjaverði.

                Kostnaður af fundum minjaráða skal greiddur af hlutaðeigandi söfnum.

VIII. KAFLI

Byggðasöfn.

50. gr.

                Hlutverk byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka menningarsögulegar minjar, sem telja má einkennandi eða hafa minjagildi fyrir hlutaðeigandi byggðarlög eða stærri landsvæði, og kynna þær almenningi og skólafólki í samvinnu við fræðsluyfirvöld.

                Til byggðasafna samkvæmt þjóðminjalögum teljast söfn sem sett hafa verið á stofn í þeim tilgangi sem lýst er í 1. mgr. og hlotið hafa viðurkenningu þjóðminjaráðs.

                Byggðasöfn geta verið sjálfseignarstofnanir eða í eigu sveitarfélaga, stofnana eða félagasamtaka.

51. gr.

                Með umsókn til þjóðminjaráðs um viðurkenningu á byggðasafni skal fylgja stofnskrá fyrir safnið, þar sem m.a. sé kveðið á um hlutverk þess, sbr. 1. mgr. 50. gr., eignaraðild, sbr. 3. mgr. sömu gr., stjórn safnsins, ráðningu og starfssvið forstöðumanns og greiðslu stofn- og rekstrarkostnaðar, þ. á m. kostnaðarþátttöku ríkisins á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig skulu fylgja umsókninni starfsreglur fyrir safnið með nánari ákvæðum um tilhögun starfseminnar. Í umsókn skal greina frá húsnæði og öðrum aðbúnaði safnsins og rekstrarforsendum að öðru leyti.

                Telji þjóðminjaráð að viðurkenna beri safnið sem byggðasafn gerir það tillögu til menntamálaráðherra um staðfestingu á stofnskrá safnsins. Þegar stofnskrá byggðasafns hefur hlotið staðfestingu ráðherra staðfestir þjóðminjaráð starfsreglur safnsins.

                Í sérstakri reglugerð um byggðasöfn má kveða nánar á um skilyrði sem safn þarf að fullnægja til að hljóta viðurkenningu þjóðminjaráðs sem byggðasafn.

52. gr.

                Þjóðminjaráð gerir tillögu til menntamálaráðherra um hvort og þá hvers konar ríkisstyrk byggðasöfn, sem hlotið hafa viðurkenningu ráðsins, skuli hljóta.

                Styrkir úr ríkissjóði til starfsemi viðurkenndra byggðasafna geta verið með þrennum hætti, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum:

1.             Styrkir til sérgreindra verkefna.

2.             Hálf laun og launatengd gjöld vegna forstöðumanns, miðuð við starfsskyldu hans og starfstíma og samþykkt af þjóðminjaráði, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðminjalaga.

3.             Allt að einum þriðja hluta stofnkostnaðar við öflun húsnæðis fyrir byggðasafnið, hvort heldur er með kaupum eða nýsmíði, enda samþykki þjóðminjaráð húsnæðið og stofnkostnað.

                Framlag ríkissjóðs vegna húsnæðisöflunar skal bundið vísitölu byggingarkostnaðar og innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi og greiðsluáætlun, sem stjórn byggðasafns gerir við menntamálaráðuneytið áður en framkvæmdir hefjast.

                Sótt skal sérstaklega um ríkisstyrki ár hvert samkvæmt auglýsingu frá þjóðminjaverði.

                Þjóðminjaráð setur nánari starfsreglur um þau atriði sem um ræðir í þessari grein.

53. gr.

                Byggðasöfn senda minjaverði hlutaðeigandi svæðis og þjóðminjaverði árlega starfsskýrslu sína ásamt ársreikningi og fjárhags- og framkvæmdaáætlun næsta árs. Minjavörður leggur gögn þessi fyrir minjaráð og þjóðminjavörður fyrir þjóðminjaráð ásamt umsögnum sínum. Útdrátt úr ársskýrslum byggðasafna skal birta í ársskýrslu Þjóðminjasafns Íslands.

IX. KAFLI

Fornleifavarsla.

1. Starfssvið fornleifanefndar.

54. gr.

                Fornleifanefnd fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna og er Þjóðminjasafni Íslands til ráðgjafar um fornleifavörslu, fornleifaskráningu, fornleifarannsóknir og friðlýsingar fornleifa.

55. gr.

                Með fornleifarannsókn er, í 54. gr., átt við hvers kyns skipulagt jarðrask, sem fram fer í vísindalegum tilgangi og með það að markmiði að rannsaka jarðfastar fornleifar, sem þegar er vitað um eða líklegt er að finnast muni, eða að ganga úr skugga um hvort um þess háttar fornleifar sé að ræða á rannsóknarsvæðinu.

                Yfirborðskannanir (mælingar, myndun o.þ.h.), jarðsjármælingar, kannanir með málmleitartæki (eftir leyfi þjóðminjavarðar) og aðrar þær aðgerðir á fornleifasvæðum, sem ekki hafa í för með sér jarðrask, teljast ekki til fornleifarannsókna í merkingu 54. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.

56. gr.

                Leyfi fornleifanefndar þarf til allra fornleifarannsókna, hvort sem þær fara fram á vegum innlendra eða erlendra rannsakenda. Skulu leyfi ætíð bundin við ákveðinn stað og tíma, sjá þó 59. gr.

                Við allar fornleifarannsóknir skal gæta skipulegrar nákvæmni og vísindalegra vinnubragða.

57. gr.

                Fornleifanefnd skal taka afstöðu til framkominna umsókna um rannsóknarleyfi svo fljótt sem við verður komið.

58. gr.

                Leyfi til fornleifarannsókna skal gefið út þeim manni til handa, er fullnægir settum skilyrðum til að mega standa fyrir fornleifarannsókn, og verður eigi fallist á umsókn um leyfisveitingu nema hún sé undirrituð af manni, sem þar til sé hæfur. Sæki fleiri um leyfi sameiginlega og fullnægi þeir báðir eða allir fyrrnefndum skilyrðum, skal þeim veitt umbeðið leyfi sameiginlega.

                Enginn er hæfur til að standa fyrir fornleifarannsókn nema hann hafi lokið prófi frá viðurkenndum háskóla með fornleifafræði sem aðalgrein.

                Leyfi eigenda og eftir atvikum umráðamanna lands þarf til hvers kyns fornleifarannsókna hér á landi. Fornleifadeild Þjóðminjasafns Íslands verður þó veitt rannsóknarleyfi án þess að leyfi landeiganda eða umráðamanns lands liggi fyrir, sbr. 23. gr. þjóðminjalaga. Hafi formlegt leyfi landeiganda eða umráðamanns þegar verið veitt er fornleifadeild sækir um rannsóknarleyfi skal það þó fylgja umsókninni.

                Rannsóknarstofnun Þjóðminjasafns Íslands lýtur að öllu leyti almennum reglum um skilyrði leyfisveitinga til fornleifarannsókna.

                Um skilyrði þess að almenn leyfi til fornleifarannsókna verði veitt, svo og um vörslu og varðveislu þeirra gripa, sem rannsókn tengjast, skal kveðið nánar á í reglum, er menntamálaráðherra staðfestir.

59. gr.

                Fornleifanefnd skal veita fornleifadeild Þjóðminjasafns Íslands almennt en tímabundið leyfi til að framkvæma - án nánara leyfis í hvert eitt sinn - staðbundnar, einfaldar, minni háttar og skjótunnar fornleifarannsóknir, er nauðsynlegar teljast og einkum tengjast björgunaraðgerðum af hálfu fornleifadeildar sökum minja, er fundist hafa við jarðrask, sem þegar er orðið, t.d. vegna mannvirkjagerðar.

                Leyfi samkvæmt 1. mgr. veitir fornleifanefnd án þess að sérstök umsókn liggi fyrir og skal það endurnýjað með reglubundnum hætti.

                Leyfi samkvæmt 1. mgr. skal veitt á nafn deildarstjóra fornleifadeildar, en hann getur síðan falið öðrum manni, er fullnægir settum skilyrðum fornleifanefndar, nauðsynlegar aðgerðir. Deildarstjóri og minjastjóri sjá til þess sameiginlega, að skilmálum leyfis, er hér um ræðir, svo og hlutaðeigandi ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

60. gr.

                Leyfi samkvæmt 1. mgr. 59. gr. má binda skilyrðum, svo sem um að sá, er rannsókn framkvæmir, fullnægi skilyrði 2. mgr. 58. gr. og um að stutt skýrsla um hverja þá rannsókn, sem fram fer á grundvelli leyfisins, berist fornleifanefnd innan tilskilins frests frá því að rannsókn fór fram. Leyfi má afturkalla ef skilmálar eru ekki haldnir.

                Leyfi verður eigi afturkallað samkvæmt 1. mgr. nema fornleifanefnd hafi áður gefið minjastjóra og deildarstjóra fornleifadeildar kost á að skýra þeirra afstöðu.

                Verði leyfi afturkallað samkvæmt 1. mgr. gildir sú afturköllun um sinn, en fornleifanefnd skal þegar í stað tilkynna menntamálaráðuneyti um þá ákvörðun sína og ákveður ráðuneytið síðan hvort afturköllun skuli standa og þá hve lengi. Er leyfi er endurnýjað samkvæmt því er hér sagði, skal fornleifanefnd hafa samráð við menntamálaráðuneyti um skilmála hins endurútgefna leyfis og gefa jafnframt minjastjóra og deildarstjóra fornleifadeildar kost á að tjá sig um fyrirhugaða skilmála.

61. gr.

                Fornleifanefnd lætur minjastjóra í té fullnægjandi gögn um veitt rannsóknarleyfi þannig að deildin megi sinna eftirlitshlutverki sínu, sbr. 63. gr.

62. gr.

                Árlegar áætlanir Þjóðminjasafns Íslands um fornleifarannsóknir skulu lagðar fyrir fornleifanefnd til kynningar.

2. Starfssvið fornleifadeildar Þjóðminjasafns Íslands o.fl.

63. gr.

                Um stöðu og meginstarfsemi fornleifadeildar Þjóðminjasafns Íslands innan útiminjasviðs vísast til þess sem mælt er fyrir um í 23. gr.

                Fornleifadeild hefur eftirlit með framkvæmd allra fornleifarannsókna, þ.m.t. frágangi á vettvangi að uppgreftri loknum og skilum rannsóknarskýrslna. Fornleifadeild gætir þess m.a. að farið sé eftir skilmálum rannsóknarleyfa er fornleifanefnd hefur veitt.

                Minjastjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, falið minjaverði eftirlit, eða afmarkaða þætti eftirlits, með tilteknum fornleifarannsóknum, er fram fara á hans minjasvæði, sbr. 3. mgr. 47. gr., og skal þá minjavörður hafa náið samráð við fornleifadeild um tilhögun eftirlitsins.

                Verði minjavörður eða starfsmenn fornleifadeildar varir við að eigi sé farið að veittu rannsóknarleyfi gera þeir fornleifanefnd viðvart, sbr. og 68. gr. Jafnframt er deildarstjóra fornleifadeildar af sömu ástæðu heimilt að stöðva rannsókn um stundarsakir þar til fornleifanefnd hefur gefist ráðrúm til að grípa til viðeigandi aðgerða.

64. gr.

                Fornleifadeild lætur skrá eftir föngum allar fornleifar, sbr. 23. gr. Deildin kostar kapps um samvinnu við aðra aðila, er fást við fornleifaskráningu, leitast við að koma á samhæfingu skráningar og skapar eftir föngum aðgengi að fornleifaskrám fyrir almenning, m.a. fyrir tilstilli netsambands við gagnabanka um fornleifaskráningu, sbr. og 2. mgr. 77. gr.

                Fornleifaskráning skal gerð undir stjórn fornleifafræðings. Við fornleifaskráningu skal þess gætt, að teknar séu saman ritaðar jafnt sem munnlegar heimildir um fornleifar og allir minjastaðir kannaðir á vettvangi, hvort sem fornleifar eru sýnilegar á yfirborði eða ekki. Allir minjastaðir skulu færðir á kort og gerðar lýsingar og uppdrættir af þeim minjum sem sýnilegar eru. Fornleifaskráningu telst því aðeins lokið að út hafi komið fjölrituð, prentuð eða stafræn skýrsla um hana.

                Skylt er að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess samkvæmt skipulagslögum.

65. gr.

                Fornleifadeild skal leita samstarfs við sveitarstjórnir, landeigendur, skipulagsyfirvöld, Landmælingar Íslands, framkvæmdaaðila vegna mannvirkjagerðar svo sem um vegagerð, virkjanir, flugvallagerð, veitulagnir o.fl., hagsmunaaðila um landnýtingarmál svo sem skógrækt og landgræðslu og Náttúruvernd ríkisins í því skyni að vinna að vernd, varðveislu og skráningu fornleifa og kynningu þeirra fyrir almenningi.

66. gr.

                Að höfðu samráði við fornleifanefnd gerir minjastjóri tillögu til þjóðminjavarðar um hvaða fornleifar skuli friðlýstar og skal hann síðan hafa yfirumsjón með framkvæmd friðlýsingar. Þjóðminjavörður getur einnig átt frumkvæði að friðlýsingu. Hið sama og hér var sagt gildir um afnám friðlýsingar.

                Þjóðminjavörður gefur út skjal til staðfestingar friðlýsingu eins og tíðkast hefur og jafnframt um afnám friðlýsingar verði um hana að ræða.

                Fornleifadeild annast um samningu og útgáfu vandaðra skráa um allar þekktar fornleifar svo og um friðlýstar fornleifar. Skal leitast við að fræðimenn og allur almenningur geti m.a. nálgast upplýsingar úr skrám þessum af gagnagrunnum Þjóðminjasafns fyrir tilstilli nettengingar um tölvur, sbr. og 2. mgr. 77. gr. Þá annast deildin um birtingu og þinglýsingu friðlýsingarskjala og jafnframt um aflýsingu þeirra verði um afnám friðlýsingar að ræða.

67. gr.

                Erindum vegna nýfundinna fornleifa og umsóknum um leyfi til jarðrasks, er haggar við fornleifum, sbr. 17., 20. og 21. gr. þjóðminjalaga, skal beint til fornleifadeildar sem þegar í stað gerir minjastjóra viðvart. Sé um framkvæmdir að ræða skal sá, er fyrir þeim stendur, gera nákvæma grein fyrir ráðgerðri tilhögun og þeim breytingum sem af framkvæmd mundi leiða.    Minjastjóri leggur slík erindi fyrir fornleifanefnd og að fengnum úrskurði hennar skal tilkynna, eigi síðar en sjö dögum eftir að erindi barst, hvort framkvæmd megi hefja eða fram halda og með hvaða skilmálum.

68. gr.

                Telji fornleifanefnd eða starfsmenn fornleifadeildar, minjastjóri eða þjóðminjavörður sig verða vara við vítavert gáleysi eða vísvitandi skemmdarverk á fornleifum, er verndar njóta samkvæmt þjóðminjalögum, þannig að varði við refsiákvæði þeirra laga, skal athæfið kært til hlutaðeigandi lögreglustjóra.

X. KAFLI

Húsafriðun.

69. gr.

                Hlutverk Húsafriðunarnefndar ríkisins er, í umboði þjóðminjaráðs, að stuðla, að varðveislu og rannsóknum á byggingararfi þjóðarinnar.

                Menntamálaráðherra ákveður friðun húsa eða brottfall friðunar.

                Húsafriðunarnefnd metur, hvaða hús sé ráðlegt að friða hverju sinni, eða um brottfall friðunar, og gerir um það tillögur til menntamálaráðherra. Nefndin skal hafa samráð við minjavörð þegar fjallað er um hús og önnur mannvirki á minjasvæði hans, enda skulu minjaverðir tilkynna nefndinni um hvaðeina sem gert er til verndar húsum á minjasvæðum. Nefndin úthlutar styrkjum úr húsafriðunarsjóði eftir því sem mælt er fyrir um í þjóðminjalögum.

70. gr.

                Húsafriðunarnefnd ræður framkvæmdastjóra sem jafnframt er ritari nefndarinnar og sér um daglega afgreiðslu þeirra mála sem eru á verksviði nefndarinnar. Skal kostnaður við starf framkvæmdastjórans greiddur úr húsafriðunarsjóði.

                Framkvæmdastjóri kostar kapps um að góð samvinna sé milli húsafriðunarnefndar og annarra aðila, sem vinna að húsverndarmálum, þ.m.t. húsverndardeild Þjóðminjasafns Íslands.

71. gr.

                Húsafriðunarnefnd lætur skrá þau hús í landinu, sem teljast hafa menningarsögulegt og listrænt gildi. Sérstaklega skal hún halda skrá yfir hús, sem njóta friðunar skv. 1. mgr. 35. gr. og 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga. Þá skal nefndin stuðla að gerð húsakannana í þéttbýli og að útgáfu þeirra.

72. gr.

                Ákveði menntamálaráðherra friðun húss eða húsa að tillögum húsafriðunarnefndar annast framkvæmdastjóri nefndarinnar um þinglýsingu friðunarskjals svo og um auglýsingu friðunarinnar í Stjórnartíðindum. Framkvæmdastjóri tilkynnir eigendum ákvörðun um friðlýsingu sem og hlutaðeigandi lögreglustjóra, bæjar- eða sveitarstjórn, byggingarnefnd og byggingarfulltrúa. Húsafriðunarnefnd skal sjá um að sveitar- og bæjarstjórnum, byggingarnefndum og byggingarfulltrúum sé kunnugt um ákvæði 36. gr. þjóðminjalaga um sjálfkrafa friðun mannvirkja og ákvæði um tilkynningarskyldu eigenda húsa reistra fyrir 1918, þannig að byggingarfulltrúar fái sinnt lögboðinni skyldu sinni gagnvart nefndinni.

73. gr.

                Húsafriðunarnefnd markar sér stefnu á starfsvettvangi sínum og setur sér starfsreglur. Þjóðminjaráð staðfestir stefnuskrá og starfsreglur nefndarinnar að höfðu samráði við menntamálaráðuneyti.

74. gr.

                Húsafriðunarnefnd skal halda heimildasafn og gagnagrunn, sem varðveita skal í því formi og á þeim stað sem þjóðminjaráð ákveður. Um þetta skal nefndin hafa samráð við húsverndardeild Þjóðminjasafns Íslands og minjaverði.

XI. KAFLI

Almannatengsl.

75. gr.

                Þjóðminjasafn Íslands sýnir að staðaldri valda muni úr söfnum sínum er hafa menningarsögulegt gildi. Jafnframt hefur Þjóðminjasafn sérsýningar eftir því sem tök eru á.

76. gr.

                Safnstjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, heimilað að safngripir í eigu Þjóðminjasafns Íslands séu hafðir til sýnis í þeim húsum, er undir það heyra.

                Safnstjóra er heimilt, með samþykki þjóðminjavarðar, að lána söfnum, stofnunum eða öðrum ábyrgum aðilum safngripi í eigu Þjóðminjasafns Íslands á sérstakar sýningar á þeirra vegum, en skilyrði skal þá setja um tryggingar og örugga vörslu, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga. Sama gildir um langtímalán gripa til safna eða kirkna samkvæmt heimild í þeirri lagagrein. Um myndir og kvikmyndir í eigu Þjóðminjasafns fer eftir því, sem segir í 17. gr. reglugerðar þessarar.

                Um lán safngripa til annarra landa fer að ákvörðun Þjóðminjaráðs og menntamálaráðherra, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga.

77. gr.

                Þjóðminjasafn Íslands þjónar eftir megni öllum þeim er leita eftir upplýsingum og leiðbeiningum um hvaðeina er lýtur að menningarminjum þjóðarinnar og heyrir undir starfssvið þess. Skal boðin fram vinnuaðstaða í því augnamiði, m.a. á bókasafni, eftir því sem aðstæður leyfa.

                 Lögð skal áhersla á að fræðimenn og allur almenningur geti aflað sér upplýsinga um fræðirit og um efni úr fræðiritum í eigu Þjóðminjasafns Íslands svo og upplýsinga úr heimildasöfnum og gagnagrunnum, m.a. með tilstilli nettengingar um tölvur.

                Þjóðminjasafn Íslands skal styðja við kennslu í öllum þáttum menningarsögu, sem falla undir starfssvið þess, eftir því sem henni verður komið á við Háskóla Íslands eða á öðrum vettvangi. Auk þessa getur Þjóðminjasafn annast námskeiðahald á einstökum fræðasviðum er undir það heyra.

78. gr.

                Þjóðminjasafn Íslands heldur eftir föngum uppi og stuðlar að skipulegri safnkennslu nemenda á öllum skólastigum og lætur gera kennsluefni í þágu nemenda, tengt Þjóðminjasafni Íslands, eftir atvikum í samvinnu við aðra.

XII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

79. gr.

                Um framkvæmd reglugerðar þessarar fer eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

80. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 60. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989 og öðlast hún þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um þjóðminjavörslu nr. 323/1990 með síðari breytingum og jafnframt reglugerð um rannsóknastöðu í fornleifafræði við Þjóðminjasafn Íslands í minningu dr. Kristjáns Eldjárns nr. 297/1993.

Menntamálaráðuneytinu, 4. júní 1998.

Björn Bjarnason.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica