REGLUGERÐ
um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
1. gr.
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands lýtur yfirstjórn háskólaráðs. Háskólaráð getur heimilað að félög háskólamanna og aðrir skólar á háskólastigi taki þátt í stjórn stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samstarfssamningi, sem það gerir um það efni að fengnu samþykki menntamálaráðherra.
2, gr.
Meginhlutverk Endurmenntunarstofnunar er að standa fyrir endurmenntun háskólamanna með námskeiðum; fræðslufundum og útgáfustarfsemi. Ennfremur sinnir stofnunin fræðslu fyrir almenning eftir því sem aðstæður leyfa.
Endurmenntunarstofnun skal starfa í nánum tengslum við allar deildir háskólans svo og aðra aðila stofnunarinnar.
3. gr.
Háskólaráð skipar allt að tíu menn í stjórn stofnunarinnar til tveggja ára í senn. Allt að fimm þeirra skulu skipaðir úr hópi háskólakennara. Ef gerður hefur verið samstarfssamningur samkvæmt 1. gr. skal háskólaráð skipa jafnmarga stjórnarmenn til viðbótar frá aðilum þess samnings og samkvæmt tilnefningu þeirra. Stjórnin tekur til starfa í byrjun háskólaárs.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs sér formann úr hópi þeirra sem háskólaráð skipar án tilnefningar. Stjórnin fjallar um öll stefnumarkandi mál, starfs- og rekstraráætlanir og reikninga. Stjórnarfundir skulu vera a.m.k. tvisvar á ári. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef tveir þriðju hlutar stjórnarmanna eru viðstaddir og ræður einfaldur meirihluti niðurstöðu. Falli atkvæði jöfn í atkvæðagreiðslu ræður atkvæði formanns.
Um þóknun stjórnar fari eftir reglum Háskólans.
4. gr.
Stjórn ræður endurmenntunarstjóra. Endurmenntunarstjóri annast daglegan rekstur starfseminnar, sér um áætlanagerð og fjármál, og sér um framkvæmd þeirra mála er stjórnin felur honum. Endurmenntunarstjóri sitji stjórnarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar. Endurmenntunarstjóri getur í samráði við formann stjórnar tekið ákvarðanir fyrir hönd stofnunarinnar um smærri námskeið eða verkefni.
5 gr.
Tekjur stofnunarinnar eru námskeiðsgjöld, framlög frá aðilum samstarfssamnings samkvæmt 1. gr. og fjárveitingar eftir því sem ákveðið kann að verða á fjárlögum hverju sinni. Miða skal við að þátttökugjöld í námskeiðum standi undir breytilegum kostnaði við þau. Árleg framlög samstarfsaðila skulu ákveðin í samstarfssamningi.
6. gr.
Fjárlagatillögur stofnunarinnar skulu vera hluti af fjárlagatillögum Háskólans. Reikningshald stofnunarinnar er hluti af reikningshaldi Háskólans. Háskóli Íslands leggur stofnuninni til húsnæði og aðra aðstöðu svo sem kostur er.
7. gr.
Stjórn stofnunarinnar ráðstafar sjálfsaflafé hennar. Eignir stofnunarinnar eru óskiptanlegar og fylgja henni.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 36. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytið, 7. nóvember 1991.
Ólafur G. Einarsson.
Árni Gunnarsson.