Almenn ákvæði.
1. gr.
Örnefnanefnd starfar á grundvelli laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953 með síðari breytingum, sbr. og 4. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
Örnefnanefnd hefur aðsetur í húsakynnum Örnefnastofnunar Íslands.
Kostnaður við störf örnefnanefndar greiðist úr ríkissjóði.
Fundir örnefnanefndar og verkaskipting.
2. gr.
Fundi örnefnanefndar skal halda eftir þörfum. Formaður boðar til fundar og er það skylt ef meiri hluti nefndarmanna krefst þess. Nefndarmaður skal án tafar tilkynna formanni um forföll. Skal formaður þá boða varamann í hans stað. Varaformann skal jafnan boða til funda og situr hann þá án atkvæðisréttar nema hann gegni starfi formanns í forföllum hans. Örnefnanefnd er ályktunarhæf þegar meiri hluti nefndarmanna situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jafnt sker atkvæði formanns úr.
Formaður stýrir fundum og undirritar bréf og önnur skjöl fyrir hönd nefndarinnar. Nefndin velur sér fundarritara sem skráir fundargerðir.
Verkefni örnefnanefndar.
3. gr.
Verkefni örnefnanefndar eru:
1) að taka við tilkynningu um nafn nýbýlis og fjalla um það til samþykktar eða synjunar og senda samþykkt nafn til þinglýsingarstjóra;
2) að fjalla um beiðni um breytingu á nafni býlis til samþykktar eða synjunar og senda samþykkta nafnbreytingu til þinglýsingarstjóra;
3) að fjalla um beiðni sveitarstjórnar um lögfestingu á nafni á nýju þéttbýli eða þorpi, sem myndast hefur í landi jarðar eða jarða, til samþykktar eða synjunar og senda samþykkt nafn til þinglýsingarstjóra;
4) að úrskurða hvaða örnefni skuli sett á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra, sé ágreiningur eða álitamál um það efni;
5) að úrskurða um nýtt götunafn eða sambærilegt örnefni innan sveitarfélags, hafi risið ágreiningur um efnið;
6) að úrskurða um nýtt eða breytt nafn húss í kaupstað, kauptúni eða þorpi, hafi risið ágreiningur um efnið og honum hafi verið skotið til nefndarinnar;
7) að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýju sveitarfélagi eða nafnbreytingu og um þau nöfn sem greiða skal atkvæði um ef könnun er gerð á viðhorfi íbúa sveitarfélags til nafns þess.
Heimilt er nefndinni að leita álits sérfræðinga utan nefndarinnar ef þurfa þykir.
Nefndin birtir árlega skýrslu um störf sín og ákvarðanir og er heimilt að koma upp vefsíðu með þeim upplýsingum, sem hún telur við eiga, um nefndina og verkefni hennar. Nefndin sendir ár hvert Stjórnartíðindum til birtingar skrá um nöfn þau sem tekin hafa verið upp á árinu.
Örnefnanefnd skal í störfum sínum miða að varðveislu íslensks menningararfs og örnefnavernd og að því að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju.
Nöfn nýrra býla.
4. gr.
Hvert býli utan kaupstaða, kauptúna eða þorpa skal hafa nafn.
Eigandi skal tilkynna örnefnanefnd um nafn á nýbýli. Í tilkynningu eiganda skal hann greina frá þeim ástæðum er ráðið hafa vali hans á nafni. Sé nafn dregið af staðháttum eða örnefni í nágrenni skal því lýst. Þá skal fylgja vottorð sýslumanns um eignarrétt eiganda á býlinu eða húseigninni.
Við nafngiftir býla skal þess gætt að fylgt sé þeim venjum sem ráðið hafa nafngjöfum býla hér á landi. Ekki má nafngjöf leiða til samnefna á fasteignum í sama umdæmi sýslumanns. Jafnframt skal sneiða hjá nöfnum sem eru svo lík öðrum nöfnum á fasteignum í umdæminu að það geti valdið ruglingi.
Telji örnefnanefnd í ljósi framantalinna skilyrða ekkert athugavert við nafn sem tilkynnt hefur verið til hennar skal hún senda það hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra.
Nú telur örnefnanefnd að nafn, sem henni hefur verið tilkynnt, sé ónothæft eða andstætt nafngiftahefð og skal hún þá tilkynna það málsaðila svo fljótt sem mögulegt er og óska eftir nýrri tillögu um nafn á býlið. Þeirri tilkynningu skulu fylgja skýringar nefndarinnar á því hvað gerir nafnið óhæft eða óheppilegt og eftir atvikum leiðbeiningar um heppilegri nafngift.
Hafi málsaðili ekki valið nýtt nafn innan sex mánaða, tilkynnt það örnefnanefnd og hún fallist á, ber örnefnanefnd að úrskurða um það hvert nafn býlið skuli fá. Úrskurð sinn sendir nefndin málsaðila og hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra.
Nafnbreytingar á býlum.
5. gr.
Nöfnum á býlum utan kaupstaða, kauptúna eða þorpa, sem skráð hafa verið hjá Fasteignamati ríkisins, má ekki breyta nema með leyfi örnefnanefndar. Í beiðni til örnefnanefndar um nafnbreytingu skal eigandi skýra frá ástæðum þess að farið er fram á að eldra nafn býlis verði lagt niður og þeim ástæðum er ráðið hafa vali umsækjanda á nýju nafni. Breytingar á nafni býlis skal ekki leyfa nema alveg sérstaklega standi á svo sem að býlið sé samnefnt öðru lögbýli í sama umdæmi sýslumanns eða því um líkt, t.d. að eldra nafn sé mjög óviðeigandi eða óheppilega myndað eða þannig að það geti skaðað þá starfsemi sem fram fer á býlinu.
Heimili örnefnanefnd breytingu á nafni býlis skal hún senda nafnið hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra. Ella sendir hún málsaðila tilkynningu um að beiðni hans sé hafnað.
Nafn á nýju þéttbýli eða þorpi.
6. gr.
Nú myndast þéttbýli - þorp - í landi einhverrar jarðar eða jarða og er þá rétt að sveitarstjórn sæki um það til örnefnanefndar að fá lögfest nafn á því enda geri hún þá jafnframt tillögur um nafnið og lýsi staðháttum, eftir því sem ástæða er til. Örnefnanefnd sendir samþykkt nafn til þinglýsingarstjóra. Ella sendir hún málsaðila tilkynningu um að beiðni hans sé hafnað.
Þéttbýlisstaðir eða þorp, er myndast hafa í landi einnar eða fleiri jarða, geta fengið nafn af viðkomandi jörð ef það þykir ekki líklegt til að valda ruglingi eða óþægindum.
Nafnsetningar á landakort.
7. gr.
Æskja má úrskurðar örnefnanefnar sé ágreiningur eða álitamál um hvaða örnefni verða sett á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra. Málshefjandi skal ásamt úrskurðarbeiðni senda örnefnanefnd greinargóða lýsingu á ágreinings- eða álitaefninu.
Örnefnanefnd birtir auglýsingu um þau örnefni sem ágreiningur er um, þannig að hverjum þeim sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum er að haldi komi gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt. Auglýsing skal birt í Lögbirtingablaði og dagblöðum og jafnframt send Landmælingum Íslands, Örnefnastofnun Íslands, hlutaðeigandi landeiganda eða landeigendum, hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum, menntamálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Tekið skal fram í auglýsingu hvert skila skuli ábendingum og innan hvaða tímamarka. Frestur til að koma á framfæri vitneskju eða ábendingum skal ekki vera skemmri en fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.
Örnefnanefnd fjallar um nafnsetninguna í ljósi eigin athugunar og þeirrar vitneskju og ábendinga sem fram kunna að hafa komið og úrskurðar í málinu þegar frestur til ábendinga er liðinn. Málsniðurstaða skal tilkynnt Landmælingum Íslands, Örnefnastofnun Íslands, hlutaðeigandi landeiganda eða landeigendum, hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum, menntamálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sem og málshefjanda og öðrum þeim sem sent hafa nefndinni skriflega ábendingu um úrskurðarefnið eftir birtingu auglýsingar um það.
Ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga.
8. gr.
Æskja má úrskurðar örnefnanefndar ef ágreiningur rís um nýtt götunafn eða sambærilegt örnefni innan sveitarfélags. Með úrskurðarbeiðni skal málshefjandi senda örnefnanefnd greinargóða lýsingu á ágreiningsefninu.
Örnefnanefnd auglýsir þau götunöfn eða sambærileg örnefni sem ágreiningur er um þannig að hverjum þeim sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum er að haldi komi gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt. Auglýsing skal birt í Lögbirtingablaði og dagblöðum og jafnframt send Landmælingum Íslands, Örnefnastofnun Íslands, hlutaðeigandi landeiganda eða landeigendum, hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum, menntamálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Tekið skal fram í auglýsingu hvert skila skuli ábendingum og innan hvaða tímamarka. Frestur til að koma á framfæri vitneskju eða ábendingum skal ekki vera skemmri en fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.
Örnefnanefnd fjallar um nafnið í ljósi eigin athugunar og þeirrar vitneskju og ábendinga sem fram kunna að hafa komið og úrskurðar í málinu þegar frestur til ábendinga er liðinn.
Málsniðurstaða skal tilkynnt Landmælingum Íslands, Örnefnastofnun Íslands, hlutaðeigandi landeiganda eða landeigendum, hlutaðeigandi sveitarstjórn, menntamálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sem og málshefjanda og öðrum þeim sem sent hafa nefndinni skriflega ábendingu um úrskurðarefnið eftir birtingu auglýsingar um það.
Nýtt eða breytt nafn húss í kaupstað, kauptúni eða þorpi.
9. gr.
Æskja má úrskurðar örnefnanefndar ef ágreiningur rís um nafngift húss í kaupstað, kauptúni eða þorpi, sbr. 1. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953 með síðari breytingum.
Málsniðurstaða skal tilkynnt eiganda og þinglýsingarstjóra.
Nafn sveitarfélags.
10. gr.
Sveitarstjórn ákveður nafn sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar. Ef könnun er gerð á viðhorfi íbúa sveitarfélags til nýs nafns eða breytingar á eldra nafni, t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga, skal leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem greiða skal atkvæði um.
Nefndin skal skila rökstuddu áliti sínu til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna innan þriggja vikna. Nefndin sendir afrit af áliti sínu til félagsmálaráðuneytis.
Nafn sveitarfélags skal samrýmast íslenskri málfræði og íslenskri málvenju.
Eigi má breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu félagsmálaráðuneytis.
Birting úrskurðar.
11. gr.
Þegar úrskurður örnefnanefndar í máli er tilkynntur skal honum að jafnaði fylgja rökstuðningur. Það á þó ekki við ef umsókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti. Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem úrskurðurinn er byggður á. Einnig skal aðila skýrt frá rétti hans til að skjóta úrskurðinum til menntamálaráðuneytis samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Að því marki, sem úrskurðurinn byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.
Gildistaka.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 35/1953 með síðari breytingum, um bæjanöfn o.fl., og með hliðsjón af 4. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 22. febrúar 1999.
Björn Bjarnason.
_______________
Árni Gunnarsson.