1 . gr.
Leiklistarstarfsemi í landinu, þ. e. flutningur sjónleikja, óperustarfsemi, listdans og flutningur leikbrúðulistar, skiptist í fjóra meginþætti:
- Ríkisreknar leiklistarstofnanir.
- Aðrar leiklistarstofnanir, sem að hluta til eru reknar með ríkisstyrk og nafngreindar eru í fjárlögum.
-Önnur leiklistarstarfsemi, sem fé er veitt til árlega í fjárlögum.
-Leiklistarstarfsemi áhugafélaga, sem fé er veitt til árlega í fjárlögum.
2. gr.
Ríkisreknar leiklistarstofnanir starfa svo sem fyrir er mælt í lögum og samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
3. gr.
Framkvæmdastjórn Leiklistarráðs metur samkvæmt reglum, er ráðið setur, hvenær leiklistarstarfsemi fullnægi þeim skilyrðum að eðlilegt sé að hún verði skilgreind sem viðurkennd leiklistarstofnun hljóti sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Framkvæmdastjórn Leiklistarráðs gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um þessi efni.
4. gr.
Framkvæmdastjórn Leiklistarráðs gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um fjárveitingar til starfsemi ráðsins, til annarrar leiklistarstarfsemi, sem ekki er tilgreind í 1. gr. reglugerðar þessarar.
5. gr.
Bandalag íslenskra leikfélaga gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um fjárveitingar til starfsemi bandalagsins og til leikstarfsemi áhugaleikfélaga.
6. gr.
Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið verður í fjárhagsáætlun þeirra. Leiklistarráð beitir sér fyrir því í samráði við menntamálaráðuneytið að gert verði samkomulag við viðkomandi sveitarstjórnir um viðmiðun og skiptingu á fjárstuðningi ríkis og sveitarfélaga við sjálfstæðar leiklistarstofnanir og aðra leiklistarstarfsemi í sveitarfélagi þeirra.
Fjárstuðningur sveitarfélaga við starfsemi áhugafélaga skal eigi nema lægri fjárhæð til hvers leikfélags en ríkissjóður greiðir.
7. gr.
Menntamálaráðuneytið úthlutar fé því, sem veitt er í fjárlögum til annarrar leiklistarstarfsemi, svo og öðrum fjárveitingum til leiklistarstarfsemi, sem ekki eru tilgreindar í 1. grein reglugerðarinnar. Styrkveitingar þessar skulu auglýstar og framkvæmdastjórn Leiklistarráðs ákvarða í samráði við menntamálaráðuneytið hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsóknum. Framkvæmdastjórn Leiklistarráðs gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um úthlutun samkvæmt reglum, sem hún setur sér. Þessar reglur skulu kynntar á fundi Leiklistarráðs, sem fjallar um þær og markar stefnu framkvæmdastjórnar.
8. gr.
Þeir aðilar, sem njóta fjárstuðnings ríkis og sveitarfélaga, skulu skila Leiklistarráði og viðkomandi sveitarstjórn eintaki af endurskoðuðum reikningum fyrir það almanaksár eða leik ár, sem styrkurinn var veittur til.
9. gr.
Aðild að Leiklistarráði eiga fulltrúar félaga og stofnana samkvæmt 5. gr. laganna, svo og fulltrúar félaga og stofnana, sem ráðherra veitir aðild að ráðinu að fenginni umsögn þess. Leiklistarráð felur framkvæmdastjórn ráðsins að gera umsögn um aðild að ráðinu og markar stefnu framkvæmdastjórnar í því efni. Fulltrúar í Leiklistarráði hafa upplýsinga- og samráðsskyldu við stjórn félags síns eða stofnunar.
Skipunartími ráðsmanna er þrjú ár í senn. Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann.
10. gr.
Framkvæmdastjórn þriggja manna fer með málefni Leiklistarráðs milli funda. Leiklistarráð kýs tvo menn í framkvæmdastjórn og tvo til vara, en formaður ráðsins er sjálfkjörinn, og er varaformaður varamaður hans í framkvæmdastjórn. Að jafnaði skal aðeins einum stjórnarmanni heimilt að sitja tvö starfstímabil í röð.
11. gr.
Leiklistarráð kemur saman til fundar einu sinni á ári, nema sérstök ástæða sé til fleiri funda að mati framkvæmdastjórnar. Skylt er að boða fund, ef 5 ráðsmenn hið fæsta óska þess bréflega og tilgreina umræðuefni.
Fundi Leiklistarráðs skal framkvæmdastjórn boða með minnst þriggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundarins.
Framkvæmdastjórn leggur fram skýrslu um störf sín og reikningsskil á árlegum fundi ráðsins.
Fundarstjóri staðfestir fundargerðir ráðsins og framkvæmdastjórn dreifir henni til fulltrúa.
12. gr.
Leiklistarráð markar meginstefnu framkvæmdastjórnar í samræmi við leiklistarlög og reglugerð og allar meiri háttar ákvarðanir skal framkvæmdastjórn bera undir ráðið á fundum þess.
Framkvæmdastjórn sendir í fréttabréfi upplýsingar til fulltrúa ráðsins.
13. gr.
Framkvæmdastjórn ráðstafar fjárveitingum til ráðsins í samræmi við stefnumörkun þess og fjárlög hverju sinni.
14. gr.
Menntamálaráðuneytið ákveður greiðslu þóknunar fyrir störf framkvæmdastjórnar og endurgreiðir ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna vegna fundarsetu.
15. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. gr. leiklistarlaga nr. 33/1977 og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytið, 10. desember 1982.
Ingvar Gíslason.
Knútur Hallsson.