Menntamálaráðuneyti

386/1996

Reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla - Brottfallin

I. KAFLI

Skyldur sveitarfélaga og skilgreining sérfræðiþjónustu.

1. gr.

Öllum sveitarfélögum, sem standa að rekstri grunnskóla, er skylt að sjá skólunum fyrir sérfræðiþjónustu, bæði almennri og greinabundinni kennsluráðgjöf, er taki til þeirra námsgreina sem tilgreindar eru í 30. gr. grunnskólalaga og sálfræðiþjónustu. Sveitarstjórn skipuleggur sérfræðiþjónustu skóla og ræður starfsmenn til að sinna henni.

 

2. gr.

Þar sem sérfræðiþjónusta skóla er ekki rekin á vegum sveitarfélaga er sveitarstjórn skylt að semja um þjónustu við önnur sveitarfélög, stofnanir, svo sem kennaramenntunarstofnanir, eða aðra aðila er veita þjónustu á þessu sviði.

Þegar um slík þjónustukaup er að ræða skal sveitarstjórn fylgjast með því að sérfræðiþjónusta uppfylli fyrirmæli laga og reglugerða.

 

3. gr.

Sérfræðiþjónustu skóla er ætlað að stuðla að því að kennslufræðileg og sálfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi. Störf sérfræðiþjónustu skóla skulu því fyrst og fremst beinast að því að efla grunnskólana sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsmönnum skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á.

Kennurum og skólastjórnendum skal standa til boða ráðgjöf og stuðningur sérfræðiþjónustu vegna skólastarfs. Þjónustan felst m.a. í faglegri ráðgjöf vegna almennrar kennslu einstakra námsgreina og aðstoð og leiðbeiningum við kennara vegna sérkennslu.

Einnig skal sérfræðiþjónusta skóla veita grunnskólum aðstoð og leiðbeiningar vegna nýbreytni- og þróunarstarfa.

Sérfræðiþjónusta skóla skal gefa forráðamönnum kost á leiðbeiningum um uppeldi nemenda eftir því sem aðstæður leyfa.

 

II. KAFLI

Starfshættir sérfræðiþjónustu skóla.

4. gr.

Starfsmenn sérfræðiþjónustu skóla vinna störf sín samkvæmt því skipulagi sem sveitarstjórn ákveður í samræmi við 42. og 43. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla. Starfsmenn sérfræðiþjónustu skulu vinna að forvarnarstarfi í samvinnu við starfsmenn skóla m.a. með kennslufræðilegum og sálfræðilegum athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Forráðamenn nemenda geta komið með ósk um slíka athugun. Starfsmenn skóla og heilsugæslu geta lagt fram ósk um athugun að fengnu samþykki forráðamanna. Að athugun lokinni gera starfsmenn sérfræðiþjónustu tillögur um viðeigandi meðferð og úrbætur.

5. gr.

Allar athuganir og rannsóknir sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki forráðamanna.

 

6. gr.

Foreldrum og/eða forsjármönnum er heimilt að kynna sér gögn í vörslu sérfræðiþjónustu skóla með persónulegum upplýsingum varðandi börn þeirra að viðstöddum sérfræðingi viðkomandi starfsstéttar. Með allar slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

 

III. KAFLI

Stjórnun og skipulag.

7. gr.

Sveitarfélag, sem stendur að rekstri grunnskóla og hefur falið sérstakri stofnun á sínum vegum, eða í samvinnu við önnur sveitarfélög, að hafa umsjón með kennslu og skólahaldi fyrir hönd viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga, getur jafnframt falið henni að annast sérfræðiþjónustu skóla á viðkomandi svæði.

 

IV. KAFLI

Sérfræðingar.

8. gr.

Sérmenntaðir starfsmenn sérfræðiþjónustu skóla skulu vera kennarar með framhaldsmenntun, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar á sviði kennslu-, uppeldis- eða félagsmála. Umfang sérfræðiþjónustu skal miða við fjölda nemenda í viðkomandi sveitarfélagi, eða sveitarfélögum, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla ef um samrekstur er að ræða.

Lágmark sérfræðivinnu á kennsluviku skal að jafnaði miðast við samtölu eftirfarandi tveggja liða:

 1.            Á fyrstu 2000 nemendur reiknast 0,0625 klukkustundir á hvern nemanda.

 2.            Ef nemendur eru fleiri en 2000 reiknast að auki 0,05 klukkustundir á hvern nemanda sem er umfram 2000.

 

Í þeim tilvikum þar sem sveitarfélög reka sérfræðiþjónustu sameiginlega skal miða við samanlagðan nemendafjölda í viðkomandi sveitarfélögum.

 

V. KAFLI

Annað.

9. gr.

Sveitarfélögum er skylt að gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir skipulagi sérfræðiþjónustu skóla í sveitarfélaginu innan tveggja ára frá gildistöku reglugerðar þessarar. Gera skal menntamálaráðuneytinu grein fyrir starfsemi sérfræðiþjónustunnar á þriggja ára fresti þaðan í frá.

 

VI. KAFLI

Gildistaka.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 42. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast gildi frá og með 1. ágúst 1996.

 

Menntamálaráðuneytinu, 26. júní 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica