1. gr.
Nemendur á skólaskyldualdri skulu sækja grunnskóla nema veikindi eða önnur forföll hamli.
2. gr.
Hver grunnskóli skal setja sér skólareglur sem skylt er að fara eftir. Skólastjóri, kennarar og aðrir starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra skulu í sameiningu kosta kapps um að starfsandi og skólabragur í skólanum sé sem bestur og eiga skólareglur að stuðla að því. Forsendur góðs starfsanda eru vellíðan, gagnkvæmt traust, virðing og samábyrgð allra í skólasamfélaginu.
3. gr.
Skólastjóri hefur forgöngu um og ber ábyrgð á að skólareglur séu settar. Reglurnar skulu unnar í samvinnu við fulltrúa nemenda og foreldra. Leitast skal við að ná sem víðtækastri sátt um þær en skólastjóri hefur þó ávallt úrskurðarvald um orðalag skólareglna ef ágreiningur kemur upp.
Ár hvert skulu skólareglurnar kynntar og afhentar nemendum og forráðamönnum þeirra og birtar í skólanámskrá.
Umsjónarkennarar skulu fjalla um skólareglurnar með nemendum sínum eins oft og þurfa þykir. Þeir skulu einnig ræða skólareglurnar í foreldraviðtölum og á foreldrafundum eftir þörfum.
4. gr.
Skólareglur skulu vera skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.
Í þeim skal kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar og hollar lífsvenjur.
Í reglunum skal koma skýrt fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.
5. gr.
Samskipti starfsfólks, nemenda og foreldra skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteislegri framkomu og tillitssemi.
Líkamlegar refsingar eru óheimilar.
Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni.
Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina foreldrum/forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.
6. gr.
Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn ræður yfir til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemanda.
Leita þarf allra mögulegra orsaka innan skólans til að viðurlög verði bæði markviss og komi nemandanum að gagni við að bæta hegðun sína.
Ef ekki tekst að leysa málið innan skólans skal skólinn í samvinnu við sérfræðiþjónustu skóla kanna orsakir þeirra vandamála sem um ræðir og leita leiða til úrlausna.
Verði ítrekað misbrestur á hegðun nemanda skal skólinn leita úrbóta í samstarfi við foreldra/forráðamenn.
7. gr.
Viðurlög skulu sett við brotum á skólareglum og þau kynnt nemendum og foreldrum/ forráðamönnum þeirra.
Viðurlög skulu til þess fallin að hvetja nemanda til bættrar hegðunar.
Gæta skal hófs við ákvörðun og beitingu viðurlaga við brotum á skólareglum.
Brjóti nemandi af sér, skal umsjónarkennari, skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða sérfróður ráðgjafi ræða við nemanda um hegðun hans til þess að nemandi geri sér grein fyrir eðli brotsins og afleiðingum þess.
8. gr.
Gagnvart nemanda sem ekki lætur sér segjast, þrátt fyrir undangengnar aðvaranir og áminningar, má grípa til þeirra hámarksviðurlaga að taka nemanda úr kennslu og láta hann fást við önnur viðfangsefni það sem eftir lifir skóladags. Einnig er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr kennslustundum í ákveðninni námsgrein.
Við beitingu þessara viðurlaga skal tryggt að nemandi sé í umsjá starfsmanns á vegum skólans.
Ef allt um þrýtur og nemandi lætur sér enn ekki segjast, ef ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg, eða hann stefnir eigin eða annarra lífi eða heilsu í hættu innan skólans, má vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans.
9. gr.
Sé nemanda vikið úr skóla um stundarsakir skv. 8. gr. skal skólastjóri þegar tilkynna foreldrum/forráðamönnum og skólanefnd þá ákvörðun. Takist skólastjóra ekki að leysa vanda nemanda innan skóla á viku vísar hann málinu til skólanefndar. Skólanefnd tekur málið til úrlausnar, útvegar nemandanum tafarlaust viðeigandi kennsluúrræði og beitir sér fyrir úrbótum í samráði við alla aðila málsins. Skólanefnd ber ábyrgð á að innan þriggja vikna frá brottvísun hafi nemanda verið tryggð skólavist.
Takist enn ekki að leysa málið getur hvor aðili, foreldri/forráðamaður eða skólanefnd, vísað ágreiningi til úrlausnar og úrskurðar menntamálaráðuneytisins.
Óheimilt er að víkja nemanda að fullu úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað kennsluúrræði.
10. gr.
Nemanda og foreldrum/forráðamönnum hans skal gefinn kostur á að tjá sig ef ítrekað er að hegðun nemanda fundið og alltaf við brotum á skólareglum.
Foreldrum/forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og beitingu viðurlaga.
Ávallt skal hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemanda um úrlausn máls.
11. gr.
Við meðferð máls samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar og beitingu viðurlaga samkvæmt þeirri málsgrein skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig skal gæta stjórnsýslulaga þegar nemanda er tímabundið meinað að sækja tíma í tiltekinni námsgrein.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 41. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 385/1996 um skólareglur og aga í grunnskólum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 2000.
Björn Bjarnason.
Þórunn J. Hafstein.