1. gr.
6. gr. reglugerðar nr. 388/1995 orðist svo:
Fyrir skoðun kvikmynda á myndböndum skulu skoðunarbeiðendur greiða gjald í ríkissjóð vegna kostnaðar við skoðun kvikmynda. Gjald þetta skal miðast við lengd hverrar kvikmyndar þannig að fast gjald, kr. 1.800, greiðist fyrir hverja skoðun auk kr. 60 fyrir hverja mínútu kvikmyndarinnar og merkingu allt að 150 eintaka af hverri kvikmynd. Gjaldið hækkar sem nemur kr. 2,50 fyrir hvern merkimiða umfram þann fjölda.
Fyrir skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsi skal sá er skoðunar beiðist greiða gjald í ríkissjóð, kr. 5.800. Fari skoðun fram utan venjulegs dagvinnutíma skal greiða eitt og hálft gjald fyrir skoðun og tvöfalt gjald fari skoðun fram að nóttu til eða um helgi.
Fjárhæðir skv. 1. og 2. mgr. eru miðaðar við vísitölu neysluverðs 175.5 stig og taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölunni í janúar, apríl, júlí og október ár hvert.
Nú hefur kvikmynd, sem dreifa skal til almennings á myndbandi, verið áður skoðuð í kvikmyndahúsi og skal þá skoðunarbeiðandi einvörðungu greiða mínútugjald, kr. 60, fyrir hverja mínútu myndarinnar skv. 1. mgr. vegna skoðunar og skráningar kvikmyndarinnar. Ekki er áskilið að tveir skoðunarmenn skoði kvikmynd þegar svo stendur á ef forstöðumaður metur það svo.
Fyrir endurmat á sýningarhæfni kvikmyndar skv. 3. mgr. 2. gr. skal ekki greiða skoðunargjald.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 20. maí 1996.
Björn Bjarnason.
Árni Gunnarsson.