I. KAFLI
1. gr.
Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum starfar samkvæmt ákvæðum laga um framhaldsskóla nr. 57/1988. Markmið skólans og skipulag skal miðast við að hann veiti þá fræðslu, er þarf til að standast skipstjórnarpróf 1. og 2. stigs samkvæmt ákvæðum prófreglugerðar fyrir skipstjórnarnám nr. 481/1986.
II. KAFLI
Um inntöku nemenda.
2. gr.
Þessi eru almenn inntökuskilyrði:
1. Að hafa lokið grunnskólaprófi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun. Nemandi, sem orðinn er 18 ára gamall, getur þó hafið nám í skólanum án þess að fullnægja ofangreindum skilyrðum, ef öðrum er fullnægt. Þeim nemenda er þó skylt að sækja hjálparkennslu, sem skólinn býður upp á eða útvegar.
2. Að leggja fram vottorð um 24 mánaða siglingatíma, skv. 6. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, þar af skuli a.m.k. 18 mánuðir vera eftir 15 ára aldur á skipi yfir 12 rúmlestir.
3. Að hafa þá sjón, heyrn og málfæri sem yfirmannsstaða krefst, eins og tilskilið er í reglugerð um sjón og heyrn skipstjórnarmanna.
4. Að vera syndur.
5. Að vera ekki haldinn neinum næmum sjúkdómi eða 1íkamskvilla, er orðið geti öðrum nemendum skaðvænn.
6. Að leggja fram sakavottorð.
Heimilt er að hafa könnunarpróf upp í 1. bekk að haustinu, áður en kennsla hefst, í stærðfræði, eðlisfræði, íslensku, ensku og dönsku eða sérstök inntökupróf.
III. KAFLI
Um kennslu og próf og námstíma.
3. gr.
Í skólanum skal kenna samkvæmt námsvísi um skipstjórnarnám sem menntamálaráðuneytið samþykkir.
4. gr.
Um próf fer eftir prófreglugerð um skipstjórnarnám nr. 481/1986.
5. gr.
Skólinn skal starfa í 9 mánuði og hefst skólaárið 1. ágúst og lýkur 31. júlí.
6. gr.
Um leyfi fer eftir reglugerð um leyfi í skólum.
IV. KAFLI
Um starfslið og stjórn skólans.
7. gr.
Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans. Við skólann skal starfa skólanefnd. Í skólanefnd skulu sitja 5 menn. Skulu 4 tilnefndir af bæjarstjórn Vestmannaeyja og skal fulltrúi viðkomandi starfsgreinar eiga sæti í skólanefnd. Skipunartími skólanefndar skal vera fjögur ár og miðast við kjörtímabil sveitarstjórnar. Menntamálaráðherra skipar formann skólanefndar án tilnefningar. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar. Skólanefndin skal fylgjast með kennslutilhögun og námsefni og vera skólastjóra til aðstoðar í málefnum skólans almennt, fylgjast með þróun skipstjórnarmenntunar og stuðla að sem nánustum tengslum skólans við atvinnulífið.
8. gr.
Menntamálaráðuneytið setur eða skipar skólameistara og fasta kennara við skólann að fengnum tillögum skólanefndar. Skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd.
Laun skólameistara og kennara fara eftir kjarasamningum starfsmanna ríkisins.
9. gr.
Um embættisgengi skólastjóra og kennara fer eftir ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra nr. 48/1986.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 1. greinar laga um framhaldsskóla nr. 57/1988 og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytið 22. september 1988.
Birgir Ísl. Gunnarsson.
Knútur Hallsson