Menntamálaráðuneyti

346/1998

Reglugerð um Reiknistofnun Háskólans. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Reiknistofnun Háskólans.

1. gr.

Reiknistofnun Háskólans lýtur yfirstjórn háskólaráðs.

2. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er að:

 a)            Vera háskólaráði og einstökum deildum til ráðuneytis um upplýsinga- og tölvutækni og leggja reglulega fram tillögur um skipulag og framkvæmd upplýsingamála;

 b)           byggja upp og reka upplýsinga- og gagnanet fyrir Háskóla Íslands, og annast þjónustu við notendur;

 c)            koma upp og reka, í nánu samráði við deildir, aðstöðu fyrir nemendur allra deilda til kennslu og náms í greinum þar sem notkunar tölvu er þörf;

 d)           annast rekstur reiknimiðstöðvar við Háskóla Íslands til úrvinnslu verkefna kennara, nemenda og annarra starfsmanna háskólans og stofnana hans;

 e)            annast hugbúnaðar- og reikniþjónustu fyrir aðila utan háskólans, þó hafi þarfir háskólans forgang við val verkefna;

 f)            fylgjast með alhliða þróun í tölvutækni og gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum til kynningar á nýjungum og stöðlum;

 g)           hafa yfirsýn yfir eign, notkun og þekkingu Háskóla Íslands á tölvubúnaði og stuðla að hagstæðum og samræmdum innkaupum;

 h)           tryggja vitneskju starfsmanna og nemenda um þá þjónustu sem stofnunin veitir og kunnáttu þeirra til að nota hana.

3. gr.

Rektor ræður forstöðumann stofnunarinnar að fengnum tillögum stjórnar og setur honum erindisbréf. Háskólaráð skipar fimm manna stjórn stofnunarinnar til tveggja ára að fenginni einni tilnefningu frá hverri deild háskólans, auk sjálfstæðra tilnefninga frá tölvunarfræðiskor og háskólarektor. Forstöðumaður og einn fulltrúi starfsmanna Reiknistofnunar skulu sitja stjórnarfundi án atkvæðisréttar en með málfrelsi og tillögurétt.

4. gr.

Stjórnin kýs úr sínum hópi formann og varaformann. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns. Stjórnin markar stefnu og fjallar um öll meiriháttar mál, samþykkir ráðningu starfsliðs, rekstraráætlanir og gjaldskrá fyrir selda þjónustu.

5. gr.

Forstöðumaður stofnunarinnar stjórnar daglegum rekstri hennar, gerir tillögur til rektors um ráðningu starfsliðs og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn og rektor.

6. gr.

Tekjur stofnunarinnar eru:

 a)            Fjárveitingar á fjárlögum, sem miðað er við að standi undir rekstri samkvæmt liðum a, b og c í 2. gr.;

 b)           fjárveitingar á fjárlögum til ákveðinna tímabundinna verkefna sem stofnuninni er falið að annast;

 c)            tekjur af þjónustu sem seld er utan og innan skólans;

 d)           styrkir sem stofnunin og starfsmenn hennar afla úr rannsóknasjóðum til rannsóknaverkefna;

 e)            gjafir.

Fjárveitingar og tekjur af þjónustu skulu standa undir fjárþörf stofnunarinnar til reksturs og tækjakaupa miðað við eðlilegan endingartíma. Stofnunin getur þó í samkeppni við aðrar þarfir háskólans sótt um að Happdrætti háskólans, fjármagni meiriháttar tækjakaup. Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárlagatillögur stofnunarinnar skulu vera hluti af fjárlagatillögum háskólans.

7. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 139/1990, um Reiknistofnun Háskólans. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands.

 

Menntamálaráðuneytinu, 18. júní 1998.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica