Menntamálaráðuneyti

140/1997

Reglugerð um skólaráð við framhaldsskóla. - Brottfallin

1. gr.

Skólaráð starfa við framhaldsskóla. Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, kjörnir á fyrsta almenna kennarafundi skólaársins. Nemendaráð kýs tvo fulltrúa í skólaráð. Aðstoðarskólameistari og áfangastjóri sitja í skólaráði. Starfi öldungadeild við framhaldsskóla skulu fulltrúar nemenda við þær sitja fundi skólaráðs þegar málefni þeirra eru á dagskrá. Skólameistari er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess.

Beri engir starfsmenn framhaldsskóla starfsheitið aðstoðarskólameistari eða áfangastjóri taka þeir sem gegna sambærilegum störfum sæti í skólaráði.

2. gr.

Skólaráð:

 a. er skólameistara til aðstoðar og ráðgjafar um stjórn skólans,

 b. fjallar um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar,

 c. fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum, vinnu- og félagsaðstöðu nemenda,

 d. veitir umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað,

 e. fjallar um mál sem varða einstaka nemendur. Með slík mál skal farið sem trúnaðarmál.


3. gr.

Skólaráð getur vísað erindum sem það hefur fjallað um, ásamt umsögn, til skólanefndar, kennarafundar eða nemendaráðs.

Rísi ágreiningur í skólaráði skal leitast við að jafna hann og reyna að ná niðurstöðu án þess að greiða þurfi atkvæði. Komi til atkvæðagreiðslu um mál ræður afl atkvæða. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði skólameistara.

4. gr.

Skólaráð starfar á starfstíma skóla, en heimilt er að kalla það saman á öðrum tíma beri brýna nauðsyn til. Skólameistari boðar til funda. Skylt er að kalla saman fund ef tveir eða fleiri skólaráðsmenn óska þess.

Halda skal gerðabók um skólaráðsfundi og skulu fundargerðir liggja frammi í skólanum.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 7. febrúar 1997.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica