Menntamálaráðuneyti

89/1983

Reglugerð um rannsóknastofnanir við heimspekideild Háskóla Íslands - Brottfallin

REGLUGERÐ

um rannsóknastofnanir við heimspekideild Háskóla Íslands.

I. Bókmenntafræðisstofnun Háskóla Íslands

1. gr.

Við heimspekideild Háskóla Íslands starfar rannsóknastofnun í bókmenntafræði samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun skv. 1. gr. téðra laga.

2. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er:

a) Stofnunin annast grundvallarrannsóknir í íslenskri og almennri bókmenntafræði: bókmenntasögu, bókmenntalegri fagurfræði og bókmenntagagnrýni.

b) Stofnunin annast þjóðfélagslegar rannsóknir á íslenskum og almennum bókmenntum.

c) Stofnunin annast rannsóknir á íslenskum og almennum leikhúsbókmenntum í tengslum við íslenska leiklistar- og leikhússögu, uns sérstakri stofnun yrði komið á fót í þeirri grein.

d) Stofnunin annast rannsóknir í íslenskri og almennri samanburðarbókmenntafræði, svo og á sambandi bókmennta við aðrar listgreinar, til að mynda myndlist og tónlist.

e) Stofnunin annast útgáfu bókmenntatexta og fræðirita um íslenskar og almennar bókmenntir.

f) Stofnunin gengst fyrir ráðstefnum, námskeiðum til kynningar á fræðilegum nýjungum, rannsóknaæfingum og fyrirlestrum og fæst við hver önnur þau verkefni, er stuðlað geta að því að efla rannsóknastarfsemi stofnunarinnar, eftir því sem við verður komið og fé er veitt til.

g) Stofnunin gengst fyrir námskeiðum, æfingum og fyrirlestrum fyrir starfandi skólakennara í þeim greinum, er undir stofnunina falla, nema heimspekideild ákveði annað, og fæst við hvað annað, er gildi getur haft fyrir bókmenntakennslu í skólum landsins.

h) Stofnunin skal vinna að því að efla tengsl rannsókna og kennslu eftir því sem kostur er. i) Stofnunin skal kosta kapps um að veita stúdentum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna við rannsóknastörf á vegum stofnunarinnar.

j) Stofunin skal vinna að því að skapa rannsóknaaðstöðu fyrir lausráðna kennara, sem veita tilsögn á fræðasviðum stofnunarinnar.

3. gr.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð þremur mönnum, tveimur kjörnum af heimspekideild til tveggja ára í senn úr hópi fastráðinna háskólakennara í þeim greinum sem heyra undir stofnunina að fengnum tillögum starfsliðs stofnunarinnar, svo og einum stúdent með íslenskar bókmenntir eða almenna bókmenntafræði sem aðalgrein, kjörnum til eins árs í senn af Mími, félagi stúdenta í íslenskum fræðum, og Félagi stúdenta í almennri bókmenntafræði. Stjórnin kýs sér formann til tveggja ára í senn og skal hann vera annar þeirra sem kjörnir eru af heimspekideild.

Stjórnarformaður er jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar og skal hann annast rekstur hennar. Ráða skal framkvæmdastjóra að stofnuninni þegar heimild er fyrir í fjárlögum og setur stjórnin honum erindisbréf.

Stjórninni er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir rannsóknasviðum eftir því sem þörf er fyrir og fé er veitt til. Starfslið getur þá kosið deildarstjóra.

Stjórnin fjallar um málefni stofnunarinnar sbr. 2. gr. og hefur umsjón með fjármálum hennar, gengur frá rekstraráætlun og tillögum um fjárveitingar til hennar.

4. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé, skv. því sem veitt er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

a) Styrkir til einstakra verkefna.

b) Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

c) Tekjur af bókaútgáfu stofnunarinnar.

d) Gjafir.

Fjárhagsáætlun stofnunarinnar skal borin undir deildarráð heimspekideildar en heyrir endanlega undir rektor og háskólaritara skv. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands. Skal reikningshaldið vera hluti af heildarreikningi Háskólans.

5. gr.

Stofnunin er til húsa í Árnagarði, uns annað verður ákveðið.

Ennfremur ber stofnuninni að vinna að því að tryggja sérstaklega aðstöðu innan vébanda Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns.

6. gr.

Til bókasafns stofnunarinnar skal leggja þann bókakost Háskólabókasafns, er fellur undir fræðasvið hennar, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, bókasafnsnefndar og háskólabókavarðar til háskólaráðs.

Við stofnunarbókasafnið skal árlega auka í samræmi við fjárveitingu til Háskólabókasafns, enda heyrir stofnunarbókasafnið undir það.

 

Ennfremur njóti stofnunin þeirrar þjónustu sem um getur í lögum nr. 38/1969, um Landsbókasafn Íslands, sbr. sérstaklega 1. mgr. 8. gr., þar sem svo er mælt fyrir, að stofnanir Háskólans hafi söfn í sinni vörslu, sbr. og 2. mgr. sömu greinar, svo og 12. og 13. gr. téðra laga.

7. gr.

Starfslið stofnunarinnar er:

 

a) Fastráðnir kennarar í íslenskri og almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands.

 

b) Gistiprófessorar, sérfræðingar og styrkþegar, er vinna að tímabundnum verkefnum, rannsóknum eða kennslu (sjá einnig i- og j- lið 2. gr.).

Forstöðumaður, deildarstjórar svo og annað starfslið skulu fá greidda þóknun eftir gildandi reglum innan Háskólans eða eftir nánari ákvörðun, þegar fært þykir.

Háskólinn sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu.

II. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

8. gr.

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands starfar við heimspekideild Háskóla Íslands samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun samkvæmt 1. gr. téðra laga.

9. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er:

 

a) Að annast grundvallarrannsóknir í sagnfræði og öðrum þeim greinum henni skyldum, sem aðrar stofnanir sinna ekki, eða þá í samvinnu við þær.

b) Að sinna þeim verkefnum, sem henni kunna að vera falin til úrlausnar, enda komi greiðsla fyrir.

 

c) Að gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum, rannsóknaæfingum, fyrirlestrum og hvers konar annarri starfsemi, er verða megi til gagns fyrir almenning og kennslu í sagnfræði í skólum landsins, eftir því sem við verður komið og fé er veitt til.

d) Að annast útgáfustarfsemi.

e) Að vinna að því að efla tengsl rannsókna og kennslu eftir því sem kostur er.

f) Að kosta kapps um að veita stúdentum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna við rannsóknastörf á vegum stofnunarinnar.

g) Að vinna að því að skapa rannsóknaaðstöðu fyrir lausráðna kennara.

10. gr.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð þremur mönnum, tveimur kjörnum af heimspekideild til tveggja ára í senn úr hópi fastráðinna háskólakennara í þeim greinum sem heyra undir stofnunina að fengnum tillögum starfsliðs stofnunarinnar, svo og einum stúdent með sagnfræði sem aðalgrein, kjörnum til eins árs í senn af Félagi sagnfræðinema. Stjórnin kýs sér formann til tveggja ára í senn og skal hann vera annar þeirra sem kjörnir eru af heimspekideild.

Stjórnarformaður er jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar og skal hann annast rekstur stofnunarinnar. Ráða skal framkvæmdastjóra að stofnuninni þegar heimild er fyrir í fjárlögum og setur stjórnin honum erindisbréf.

Stjórninni er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir rannsóknasviðum eftir því sem þörf er fyrir og fé er veitt til. Starfslið getur þá kosið deildarstjóra.

Stjórnin fjallar um málefni stofnunarinnar og hefur umsjón með fjármálum hennar, gengur frá rekstraráætlun og tillögum um fjárveitingar til hennar.

11. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé skv. því sem veitt er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

a) Styrkir til einstakra verkefna.

b) Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

c) Tekjur af útgáfuritum stofnunarinnar.

d) Gjafir.

Fjárhagsáætlun stofnunarinnar skal borin undir deildarráð heimspekideildar en heyrir endanlega undir rektor og háskólaritara samanber 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands. Skal reikningshaldið vera hluti af heildarreikningi Háskólans.

12. gr.

Uns öðruvísi yrði ákveðið, hefur stofnunin til umráða húsnæði í Árnagarði.

Ennfremur ber stofnuninni að vinna að því að tryggja sérstaklega aðstöðu innan vébanda Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns.

13. gr.

Til bókasafns stofnunarinnar skal leggja þann bókakost Háskólabókasafns, er fellur undir fræðasvið hennar, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, bókasafnsnefndar og háskólabókavarðar til háskólaráðs.

Við stofnunarbókasafnið skal árlega auka í samræmi við fjárveitingu til Háskólabókasafns, enda heyrir stofnunarbókasafnið undir það.

Ennfremur njóti stofnunin þeirrar þjónustu, sem um getur í lögum nr. 38/1969 um Landsbókasafn Íslands, sbr. sérstaklega 1. mgr. 8. gr., þar sem svo er mælt fyrir, að stofnanir Háskólans hafi söfn í sinni vörslu, sbr. og 2. mgr. sömu greinar, svo og 12. og 13. gr. téðra laga.

14. gr.

Starfslið stofnunarinnar er:

a) Fastráðnir kennarar í sagnfræði við heimspekideild Háskóla Íslands.

b) Gistiprófessorar, sérfræðingar og styrkþegar, er vinna að tímabundnum verkefnum, rannsóknum eða kennslu (sbr. f- og g- liði 9. gr.).

Forstöðumaður, deildarstjórar svo og annað starfslið skulu fá greidda þóknun eftir gildandi reglum innan Háskólans eða eftir nánari ákvörðun, þegar fært þykir.

Háskólinn sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu.

III. Málvísindastofnun Háskóla Íslands

15. gr.

Við heimspekideild Háskóla Íslands starfar rannsóknastofnun í málvísindum skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun samkvæmt 1. gr. téðra laga.

16. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er:

a) Stofnunin skal annast grundvallarrannsóknir í íslenskum og almennum málvísindum. Í tengslum við rannsóknastörfin hefur stofnunin á hendi útgáfu fræðirita, gengst fyrir fræðafundum og ráðstefnum, námskeiðum til kynningar á fræðilegum nýjungum, rannsóknaæfingum og fyrirlestrum, og fæst við hver önnur þau verkefni er stuðlað geti að því að efla rannsóknastarfsemi hennar, eftir því sem við verðum komið og fé er veitt til.

b) Uns komið verður á fót rannsóknastofnun í hljóðfræði, skal stofnunin safna gögnum (segulbandsupptökum o. fl.) um íslenskt nútímatalmál og varðveita þau. Skal í stofnuninni vera aðstaða til að vinna úr þessum gögnum.

c) Stofnunin skal sinna verkefnum í hagnýtum málvísindum, eftir því sem við verður komið og fé er veitt til, svo sem að annast rannsóknir á verkefnum er .varða móðurmálskennslu í skólum, að gangast fyrir námskeiðum, æfingum eða fyrirlestrum fyrir starfandi skólakennara í þeim greinum er undir stofnunina falla, nema heimspekideild ákveði annað, og að fást við hvað annað er hagnýtt gildi getur haft í kennslu íslenskrar og almennrar málfræði.

d) Stofnunin skal vinna að því að efla tengsl rannsókna og kennslu eftir því sem kostur er.

e) Stofnunin skal kosta kapps um að veita stúdentum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna við rannsóknastörf á vegum stofnunarinnar.

f) Stofnuninni ber að vinna að því að skapa rannsóknaaðstöðu fyrir lausráðna kennara.

17. gr.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð þremur mönnum, tveimur kjörnum af heimspekideild til tveggja ára í senn úr hópi fastráðinna háskólakennara í þeim greinum sem heyra undir stofnunina, að fengnum tillögum starfsliðs stofnunarinnar, svo og einum stúdent með íslensku eða almenn málvísindi sem aðalgrein, kjörnum til eins árs í senn af Mími, félagi íslenskunema, og Málvísindum, félagi stúdenta í almennum málvísindum. Stjórnin kýs sér formann til tveggja ára í senn og skal hann vera annar þeirra sem kjörnir eru af heimspekideild.

Stjórnarformaður er jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar og skal hann annast rekstur hennar. Ráða skal framkvæmdastjóra að stofnuninni þegar heimild er fyrir í fjárlögum og setur stjórnin honum erindisbréf.

Stjórninni er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir rannsóknasviðum eftir því sem þörf er fyrir og fé er veitt til. Starfslið getur þá kosið deildarstjóra.

Stjórnin fjallar um málefni stofnunarinnar og hefur umsjón með fjármálum hennar, gengur frá rekstraráætlun og tillögum um fjárveitingar til hennar.

18. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé skv. því sem veitt er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

a) Styrkir til einstakra verkefna.

b) Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

c) Tekjur af útgáfuritum stofnunarinnar.

d) Gjafir.

Fjárhagsáætlun stofnunarinnar skal borin undir deildarráð heimspekideildar en heyrir endanlega undir rektor og háskólaritara skv. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands. Skal reikningshaldið vera hluti af heildarreikningi Háskólans.

19. gr.

Uns öðruvísi verður ákveðið, hefur stofnunin til umráða húsnæði í Árnagarði. Ennfremur ber stofnuninni að vinna að því að tryggja sérstaklega aðstöðu innan vébanda Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns.

20. gr.

Til bókasafns stofnunarinnar skal leggja þann bókakost Háskólabókasafns er fellur undir fræðasvið hennar, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, bókasafnsnefndar og háskólabókavarðar til háskólaráðs.

Við stofnunarbókasafnið skal árlega auka í samræmi við fjárveitingu til Háskólabókasafns, enda heyrir stofnunarbókasafnið undir það.

Ennfremur njóti stofnunin þeirrar þjónustu sem um getur í lögum nr. 38/1969 um Landsbókasafn, sbr. sérstaklega 1. mgr. 8. gr. þar sem svo er mælt fyrir að stofnanir Háskólans hafi söfn í sinni vörslu, sbr. og 2. mgr. sömu greinar svo og 12. og 13. gr. téðra laga.

21. gr.

Starfslið stofnunarinnar er:

a) Fastráðnir kennarar í íslenskri málfræði, þar með taldir málfræðikennarar í íslensku fyrir erlenda stúdenta.

b) Fastir kennarar í almennum málvísindum.

c) Erlendur sérfræðingur er boðið er til starfs við stofnunina, að jafnaði til hálfs eða eins misseris í senn, eftir því sem fé er veitt til. Fela má honum skv. tillögu stjórnarinnar, takmarkaða kennsluskyldu að fengnu samþykki deildarráðs.

d) Gistiprófessorar, sérfræðingar og styrkþegar er vinna að tímabundnum verkefnum, rannsóknum eða kennslu (sjá einnig e- og f- liði 16. gr.).

Forstöðumaður, deildarstjórar svo og annað starfslið skulu fá greidda þóknun eftir gildandi reglum innan Háskólans eða eftir nánari ákvörðun, þegar fært þykir.

Háskólinn sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu.

22. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. háskólareglugerð nr. 78/1979, 66. gr., og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 71/1971 um sama efni.

Í Menntamálaráðuneytið, 1. mars 1983.

Ingvar Gíslason.

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica