Mennta- og menningarmálaráðuneyti

204/2012

Reglugerð um breyting á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, nr. 1150/2008.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr.

Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Framhaldsskóla er heimilt að veita nemendum sem eiga lögheimili í nágrenni skólans forgang að skólavist á öðrum námsbrautum en þeim er fela í sér sérhæft nám. Tilgreina skal fyrirkomulag forgangsins og sérhæfðar námsbrautir í skólasamningi sbr. 4. gr. og birta í skólanámskrá.

2. gr.

Á eftir 2. mgr. 7. gr. bætast við tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Eftirfarandi forgangsröðun umsókna skal lögð til grundvallar við innritun tilgreindra nemendahópa:

  1. nemendur sem flytjast milli anna eða skólaára í núverandi skóla, að meðtöldum nemendum yngri en 18 ára með ófullnægjandi námsárangur sem hafa haldið skólareglur að öðru leyti,
  2. nemendur á starfsbrautum fatlaðra,
  3. nýnemar sem útskrifast úr grunnskóla á næstliðnu vori fyrir upphaf skólaárs,
  4. umsækjendur yngri en 18 ára sem eru að sækja um í fyrsta sinn,
  5. umsækjendur yngri en 18 ára sem eru að sækja um eftir hlé á námi,
  6. umsækjendur yngri en 18 ára sem flytjast milli framhaldsskóla,
  7. aðrir umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði,
  8. aðrir umsækjendur um dagskóla og
  9. umsækjendur um fjarnám eða kvöldskóla.

Ef hluti fjárframlags til skóla er bundinn við sérstakt menntunarátak meðal nemenda sem falla utan forgangsröðunar skv. 3. mgr., er skóla heimilt að leggja önnur sjónarmið til grundvallar við innritun þeirra, enda teljist ekki um að ræða almennt framhaldsskólanám.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 32. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 27. febrúar 2012.

Katrín Jakobsdóttir.

Karitas H. Gunnarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica