Menntamálaráðuneyti

220/1991

Reglugerð um Íþróttamiðstöð Íslands. - Brottfallin

I. KAFLI

Hlutverk.

1. gr.

Íþróttamiðstöð Íslands (ÍMÍ) er þjónustustofnun sem hefur það meginhlutverk að stuðla að heilbrigðu lífi og heilsurækt allra landsmanna jafnt meðal almennings, skólafólks og fatlaðra sem keppnis- og afreksfólks í íþróttum með íþróttir, íþróttafræðslu og útivist að leiðarljósi.

II. KAFLI

Markmið.

2. gr.

Að veita viðskiptavinum, einstaklingum sem hópum, góða aðstöðu og þjónustu árið um kring til æfinga og keppni, funda, námskeiðis- og ráðstefnuhalds eða annarrar tómstundastarfsemi.

3. gr.

leiðbeina og fræða um íþróttir, útiveru, heilsurækt og félagsmál á eigin vegum eða í samvinnu við aðra.

4. gr.

hvetja fólk, einstaklinga og félagasamtök, til aukinnar þátttöku og samstarfs í íþróttum, jafnt almenningsíþróttum sem keppnisíþróttum.

III. KAFLI

Samstarf.

5. gr.

ÍMÍ er sameign íslenska ríkisins og íþrótthreyfingarinnar (Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands). Starfsemi og uppbygging ÍMÍ er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Laugardalshrepps, Menntaskólans að Laugarvatni, Héraðsskólans að Laugarvatni, Íþróttakennaraskóla Íslands, Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands samkvæmt samningi þar um.

IV. KAFLI

Stjórnun.

6. gr.

Menntamálaráðherra skipar sjö fulltrúa í stjórn ÍMÍ til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum frá eftirtöldum aðilum sem tilnefna einn fulltrúa hver: íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Laugardalshreppi og frá öðrum skólum á Laugarvatni sameiginlega. Auk þess skal forseti ÍSÍ eiga sæti í stjórninni og vera formaður hennar. Menntamálaráðherra skipar varaformann án tilnefningar. Aðrir varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

7. gr.

Hlutverk stjórnar er að móta markmið og stefnu ÍMÍ, ráða framkvæmdastjóra og vinna ásamt honum að uppbyggingu starfseminnar og vera menntamálaráðuneytinu til ráðgjafar um gerð og uppbyggingu íþróttamannvirkja að Laugarvatni. Stjórnin skal gera samninga um afnot af landi, íþróttamannvirkjum, húsnæði og annarri aðstöðu sem starfsemin þarfnast og ákveða gjaldskrá fyrir selda aðstöðu og þjónustu.

V. KAFLI

Rekstur

8. gr.

Stjórnstöð ÍMÍ er að Laugarvatni enda miðast reksturinn við að nýta þau íþrótta- og skólamannvirki að Laugarvatni, sem eru í eigu ríkisins, utan skólatíma samkvæmt samningi þar um.

9. gr.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur ÍMÍ og framkvæmir samþykktir stjórnar. Ennfremur er hlutverk framkvæmdastjóra:

Að annast bókhald og fjárreiður. Að ráða starfsfólk.

Að gera tillögur til stjórnar um starfsemi ÍMÍ.

Að leggja fyrir stjórn áætlun um starfsemi hvers árs.

Að semja rekstraráætlanir.

Að vinna að kynningu Íþróttamiðstöðvarinnar.

10. gr.

Tekjur ÍMÍ eru eftirfarandi:

a. Tekjur af seldri aðstöðu og þjónustu.

b. Framlög frá ÍSÍ og UMFÍ.

c. Framlög frá ríkissjóði samkvæmt því sem ákveðið kann að vera í fjárlögum.

d. Framlög frá öðrum aðilum.

Stjórn ÍMÍ getur ekki skuldbundið ríkissjóð umfram þær fjárveitingar sem nefndar eru í c.- lið.

11. gr.

Reikningsár ÍMÍ skal vera almanaksárið. Ársreikningur ÍMÍ, endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda, skal lagður fyrir stjórnina eigi síðar en 31. mars ár hvert og sendur ríkisendurskoðun.

VI. KAFLI

Gildistaka.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af 2. gr. íþróttalaga nr. 49/1956 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 26. apríl 1991.

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica