1. gr.
Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna framhaldsskóla og ber ábyrgð á öflun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi, úrvinnslu slíkra upplýsinga og miðlun þeirra til Alþingis, stofnana innanlands og utan og almennings.
Kerfisbundinni söfnun upplýsinga um skólahald er m. a. ætlað að leggja grunn að mati á skólastarfi og eftirliti með því.
2. gr.
Þegar menntamálaráðherra óskar, er skólameistara og skólanefnd framhaldsskóla skylt að gera menntamálaráðherra grein fyrir skólahaldi í skóla sínum og hafa þær upplýsingar á tölvutæku formi.
3. gr.
Menntamálaráðherra sér til þess að fyrir liggi m.a. upplýsingar um eftirtalda þætti:
a. Nemendur: Fjöldi nemenda í framhaldsskólum, aldur þeirra, kyn og dreifingu á námsbrautir og skóla.
b. Námsferill og árangur: Námsgengi, brottfall, niðurstöður lokaprófa og samræmdra lokaprófa.
c. Innra starf skóla: Námsgreinar, kennslumagn, námsgögn, skólanámskrá, mat á skólastarfi, starfstími, sérkennsla.
d. Aðstaða: Húsa- og tækjakostur.
e. Fjármál: Kennslukostnaður, rekstrarkostnaður, sértekjur.
f. Starfsfólk: Fjöldi, starfsheiti, menntun, starfsferill, stöðuhlutfall, aldur, starfsaldur og kyn.
Við söfnun og dreifingu upplýsinga skal gæta ákvæða laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. grein laga um framhaldsskóla nr. 80/1996 og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 7. febrúar 1997.
Björn Bjarnason.
Guðríður Sigurðardóttir.