1. gr.
Íþróttahúsið er staðsett í Garðakaupstað og starfrækt undir nafninu Ásgarður.
2. gr.
Íþróttahúsið Ásgarður er að 2/3 hlutum skólamannvirki, en að 1/3 hluta íþróttamannvirki bæjarfélagsins.
3. gr.
Starfræksla hússins er í höndum húsnefndar, sem skipuð er þremur mönnum. Tveir þeirra eru kosnir af bæjarstjórn og einn af skólanefnd. Varamenn eru kosnir af sömu aðilum, en nefndarmenn skipta sjálfir með sér verkum.
4. gr.
Nefndin er ábyrg fyrir rekstri hússins gagnvart bæjarstjórn og skólanefnd. Nefndin skal halda gerðabók um störf sín og starfrækslu hússins.
5. gr.
Hlutverk húsnefndar er:
a) að setja reglur um umgengni í húsinu.
b) að raða niður afnotum af húsinu. Forgangsréttar um afnot njóti skólar bæjarins og því næst íþróttafélög innan bæjarins og þá almenningur.
c) að gera tillögu til bæjarstjórnar um afnotagjöld.
d) að ráða starfsfólk og setja því starfsreglur.
e) að gera tillögur um viðhald hússins og áhalda þess, svo og öflun tækja.
f) að gera árlega áætlun um fjárþörf rekstrarins og skila henni það snemma, að hún liggi fyrir þegar unnið er að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs.
g) að sjá um að fjárhagsáætlun fyrir húsið sé fylgt.
6. gr.
Húsnefnd gæti þess við skipulagningu afnota skóla og leiguafnot íþróttafélaga og almennings, að nýting hússins verði sem virkust, afkastamest og samfelldust svo að sem mestur fjöldi iðkenda geti notið íþrótta og baða.
Við afnot og útlán leggi hún til grundvallar skiptingu salar, búnings- og baðklefa í þriðjunga af heildarrými. Við ákvörðun leigugjalds og kostnaðarskiptingu, vegna skólaafnota, sé til viðmiðunar sem eining þriðjungur salar og tilheyrandi húsrými.
7. gr.
Formaður boðar til funda húsnefndar. Óski samnefndarmenn hans báðir eftir fundi er honum skylt að boða til hans.
8. gr.
Greiðslur á kostnaði við rekstur hússins fara fram í skrifstofu bæjarins, svo og bókhald. Engir reikningar greiðist nema forstöðumaður hússins hafi staðfest þá.
9. gr.
Rekstrarárið er almanaksárið og skal rekstrarreikningur hússins koma fram í ársreikningum bæjarsjóðs og endurskoðast af endurskoðendum.
10. gr.
Rísi ágreiningur vegna skilnings á ákvæðum þessarar reglugerðar, sker menntamálaráðuneytið úr.
11. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 10. gr. íþróttalaga nr. 49 frá 7. apríl 1956, samþykkt af bæjarstjórninni í Garðakaupstað 15. janúar 1976, og öðlast þegar gildi.
Í menntamálaráðuneytinu, 10. mars 1976.
Vilhjálmur Hjálmarsson.
Birgir Thorlacius.