1. gr.
Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna framhaldsskóla. Hann hefur reglulegt eftirlit með starfi þeirra og fylgist með að það sé í samræmi við lög, reglugerðir og aðalnámskrá.
2. gr.
Menntamálaráðherra fylgist með því að skólar leggi reglulega mat á starfsemi sína og sér um að utanaðkomandi aðilar geri á fimm ára fresti úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla.
Menntamálaráðherra lætur, að eigin frumkvæði eða að ósk framhaldsskóla, fara fram úttekt á starfsemi skóla svo oft sem hann telur þörf á. Slík úttekt getur bæði tekið til faglegra og fjárhagslegra þátta og miðast við ákveðna þætti skólastarfs eða heildarmat á starfi einstakra framhaldsskóla.
Sem lið í eftirliti með starfi framhaldsskóla getur menntamálaráðherra látið fara fram könnunarpróf í einstökum námsgreinum sem kenndar eru á framhaldsskólastigi, m.a. í þeim tilgangi að afla upplýsinga um námsárangur og námsstöðu nemenda.
3. gr.
Menntamálaráðherra hefur eftirlit með því að það námsefni sem notað er í framhaldsskólum sé í samræmi við markmið aðalnámskrár og teljist uppfylla gæðakröfur að mati fagaðila er menntamálaráðherra tilnefnir. Eftirlit með námsefni felst m.a. í úttekt eða könnun á námsefni í tilteknum námsgreinum eða í einstökum skólum.
4. gr.
Ef í ljós kemur, að undangengnu mati eða að fengnum öðrum upplýsingum, að starfsemi framhaldsskóla er í einhverju efni ábótavant tilkynnir menntamálaráðherra það skólameistara og skólanefnd formlega með fyrirmælum um að úr verði bætt innan tiltekins tímafrests. Tillögur skólameistara og skólanefndar um úrbætur skulu berast menntamála-ráðherra til samþykktar innan tilgreinds tímafrests. Menntamálaráðherra hlutast til um að skólar fái ráðgjöf eftir því sem þörf krefur og fylgist með að úr sé bætt í samræmi við samþykktar tillögur.
5. gr.
Menntamálaráðherra sér til þess að starfsmönnum skóla standi til boða, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum, ráðgjöf vegna kennslu og þróunarstarfa. Slík ráðgjöf getur falist í námskeiðum fyrir einstaka starfsmenn framhaldsskóla eða skólann í heild, aðstoð sérfræðinga sem vinna tímabundið í framhaldsskólum eða samningi við stofnun sem sinnir verkefnum á þessu sviði í þágu framhaldsskóla.
6. gr.
Menntamálaráðherra fylgist reglulega með því að framhaldsskólar hafi, að hans mati, fullnægjandi aðstöðu varðandi húsnæði og búnað. Skólanefnd og skólameistari skulu gera grein fyrir ástandi húsnæðis og búnaðar þegar menntamálaráðherra óskar. Menntamálaráðherra lætur gera úttektir á fasteignum og búnaði framhaldsskóla eftir því sem hann telur þörf á.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr., sbr. 23. gr., laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 7. febrúar 1997.
Björn Bjarnason.
Guðríður Sigurðardóttir.