1. gr.
1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Einstaklingi, sem hefur aflað sér iðnmenntunar og áskilinnar starfsreynslu á því sviði sem menntunin nær til í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilt að stunda það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir ríkisborgarar. Rétturinn til starfa tekur einnig til ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem verið hafa í starfsþjálfun í öðru landi en heimalandinu.
Þá gildir rétturinn til starfa einnig um þá aðila sem hlotið hafa menntun á grundvelli sameiginlegra menntunarkrafna sem staðfestar hafa verið af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða sameiginlegs lokaprófs sem staðfest hefur verið með sama hætti.
Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til ENIC-NARIC skrifstofunnar. Við afgreiðslu umsóknar skal gengið úr skugga um að umsækjandi uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.
2. gr.
Á eftir 1. málslið 3. gr. reglugerðarinnar kemur nýr málsliður svohljóðandi: Nemendur, sem verið hafa í starfsþjálfun í öðru EES-ríki, skulu eiga þess kost að njóta viðurkenningar á starfsþjálfunartíma sínum.
Lokamálsliður 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Við afgreiðslu umsóknar er lagt mat á hvort framangreindar heimildir eigi við.
3. gr.
1. málsliður 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Sá sem óskar eftir að starfa á sviði löggiltrar iðngreinar hér á landi á grundvelli erlendrar starfsmenntunar sækir um viðurkenningu á menntun sinni og starfsreynslu til ENIC-NARIC skrifstofunnar.
4. gr.
Við fyrstu efnisgrein 4. gr. reglugerðarinnar bætist eftirfarandi málsliður: Leiki vafi á um áreiðanleika gagna er fylgja með umsókn er heimilt að kalla eftir frumeintökum skjala.
2. efnisgrein 4. gr. fellur niður.
5. gr.
2. málsliður 5. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Skal hann gefa skriflega yfirlýsingu til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis í samræmi við 5. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.
6. gr.
1. málsliður 6. gr. reglugerðarinnar orðast svo: ENIC-NARIC skrifstofan skal afla umsagnar til þess bærra fræðsluaðila á viðkomandi sviði um þau gögn sem umsækjandi leggur fram með umsókn, m.a. til þess að ganga úr skugga um að starfið er um ræðir sé hið sama og óskað er eftir að stunda hér á landi.
2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Ef ekki reynist unnt að afgreiða umsókn á grundvelli þeirra viðmiða skal lagt mat á hvort umsókn geti fallið undir almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám samkvæmt 16. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 477/2020.
7. gr.
Við 7. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:
Þess skal gætt við úrlausn umsóknar að fræðsluaðili geri raunhæfar tillögur um leiðir sem umsækjanda eru færar til þess að bæta sér það upp sem vanta kann á að menntun eða starfsreynsla viðkomandi uppfylli sett skilyrði, svo sem með raunfærnimati eða viðbótarþjálfun.
8. gr.
1. málsliður 8. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Þegar umsögn ENIC-NARIC skrifstofu liggur fyrir staðfestir sýslumaður réttmæti framlagðra gagna og gefur út leyfisbréf umsækjanda til handa.
9. gr.
9. gr. reglugerðarinnar fellur niður.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, og öðlast gildi 1. febrúar 2024.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. desember 2023.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.