Mennta- og menningarmálaráðuneyti

980/2009

Reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til viðurkenningar grunnskóla, sem reknir eru af öðrum en sveitar­félögum, og eftirlits með starfsemi þeirra. Ennfremur tekur reglugerð þessi til ákvörðunar framlaga úr sveitarsjóði til starfsemi einkarekinna grunnskóla.

2. gr.

Viðurkenning mennta- og menningarmálaráðherra.

Mennta- og menningarmálaráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunn­skóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar, hluta­félags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitar­félags um stofnun skólans. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda nemenda.

3. gr.

Umsókn um viðurkenningu.

Umsókn um viðurkenningu skal berast mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir 1. mars ár hvert.

Í umsókn um viðurkenningu grunnskóla skulu fylgja gögn og upplýsingar um eftirfarandi:

  1. eiganda og ábyrgðaraðila skólans,
  2. upplýsingar um rekstrarform skólans, fjármögnun hans og rekstraráætlun,
  3. samþykki sveitarfélags um stofnun skólans,
  4. gögn sem lýsa markmiðum, innihaldi og skipulagi náms skólans í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla, þ.m.t. skólanámskrá, skipulagsskrá og starfsáætlun viðkomandi grunnskóla,
  5. gögn um húsnæði skólans og lýsing á starfsaðstöðu, sbr. reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða,
  6. lýsing á stjórn og skipulagi skólans,
  7. upplýsingar um væntanlega stjórnendur skólans og hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsmanna skólans,
  8. yfirlýsing ábyrgðaraðila um að sveitarstjórn og mennta- og menningar­mála­ráðuneytinu verði veittar upplýsingar um skólahald og starfsemi skólans, og breytingar sem á því kunna að verða, á hverjum tíma,
  9. staðfest afrit af starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélags og vottorð brunavarna og vinnueftirlits þarf að berast ráðuneytinu mánuði fyrir áætlaða skólabyrjun.

4. gr.

Skilyrði viðurkenningar.

Skilyrði þess að grunnskóli hljóti viðurkenningu er að starfsemi hans og starfsaðstaða sé í samræmi við gildandi lög og reglur um grunnskóla, eftir því sem við á. Gildandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og fram­halds­skóla, gilda einnig um grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð þessari. Heimilt er að veita viðurkenningu grunnskóla í fyrsta sinn til tveggja ára og síðan ótímabundið, enda liggi fyrir upplýsingar frá skólanum um starfsemi hans. Skal sérstakt vottorð gefið út um viðurkenninguna og er hún bundin við þann skóla sem ábyrgðaraðilinn fær viðurkenningu fyrir. Verði skólanum fundið annað húsnæði eða árgöngum fjölgað skal ábyrgðaraðili fyrst leita afstöðu viðkomandi sveitarfélags fyrir því og síðan samþykkis ráðuneytisins.

Hætti ábyrgðaraðilinn rekstri tímabundið eða hefjist starfsemi skólans ekki innan tveggja ára frá veitingu viðurkenningar, er ráðherra heimilt að fella viðurkenninguna úr gildi og þarf þá að sækja um hana að nýju.

5. gr.

Réttindi og skyldur nemenda.

Réttindi og skyldur nemenda í grunnskólum sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð þessari skulu vera í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.

Um heimild til þess að kæra ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda fer samkvæmt 47. gr. laga um grunnskóla. Við meðferð slíkra mála skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Ákvarðanir viðurkenndra grunnskóla um gjaldtöku sæta ekki kæru til ráðherra.

6. gr.

Upplýsingagjöf, mat og eftirlit.

Ákvæði grunnskólalaga um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga taka til skóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélagi með sama hætti og til opinberra skóla. Það sama á við um ákvæði reglugerðar um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald. Þeim aðila er ábyrgð ber á rekstri grunnskóla sem hlotið hefur viðurkenningu er skylt að veita mennta- og menningarmálaráðuneytinu og því sveitarfélagi sem skólinn starfar í allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans þegar óskað er.

Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs í viðurkenndum grunnskólum samkvæmt lögum um grunnskóla og hlíta þeir skólar sama eftirliti og grunnskólar sem reknir eru af sveitarfélagi.

7. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Komi í ljós eða liggi fyrir rökstuddur grunur um að starfsemi grunnskóla, sem hlotið hefur viðurkenningu, sé ekki í samræmi við gildandi lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda tekur mennta- og menningarmálaráðuneytið slíkt mál til meðferðar. Verði talið að verulegir annmarkar séu á starfsemi viðkomandi grunnskóla skal skólanum tilkynnt um það, tilgreint hverjir annmarkarnir eru og eftir atvikum jafnframt með hvaða hætti skuli bætt úr, innan tilgreindra tímamarka. Hafi ekki verið bætt úr tilgreindum annmörkum innan veitts tímafrests getur ráðherra afturkallað viðurkenningu viðkomandi grunnskóla.

8. gr.

Þjónustusamningur sveitarstjórnar við ábyrgðaraðila skóla.

Að fenginni viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra getur hlutaðeigandi sveitar­stjórn gert þjónustusamning við ábyrgðaraðila skólans til nánari útfærslu á skyldum ábyrgðaraðilans og öðrum þáttum, svo sem fjárhagslegum samskiptum aðila, þar með talið vegna nemenda með sérþarfir og nemenda með annað móðurmál en íslensku, innritun nemenda, mati og eftirliti með starfsemi skólans og upplýsingagjöf um skóla­haldið.

9. gr.

Réttur til framlags úr sveitarsjóði.

Grunnskólar sem hljóta viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra á grundvelli laga um grunnskóla og reglugerðar þessarar eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starf­semi sinnar vegna nemenda sinna sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar.

Sama gildir um grunnskóla sem þegar eru starfandi á grundvelli viðurkenningar ráð­herra, en sveitarfélagi er þó heimilt að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarks­fjölda nemenda.

Grunnskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum en njóta framlags úr sveitarsjóði, skulu senda áætlun um kennslu og fjölda nemenda á næsta fjárhagsári til sveitarstjórnar eigi síðar en 1. maí ár hvert nema annað sé tekið fram í reglum sveitarfélags. Jafnframt skulu slíkir grunnskólar senda viðkomandi sveitarfélagi ársskýrslu ásamt ársreikningi.

10. gr.

Upphæð framlags úr sveitarsjóði.

Framlag skv. 6. gr. skal nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildar­rekstrar­kostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verð­lags­breytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunn­skóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 43. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 320/2007 um viðurkenningu grunnskóla og lágmarksframlög úr sveitarsjóði til slíkra skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 1. desember 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Þórhallur Vilhjálmsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica