1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til aðstöðu, búnaðar, slysavarna og öryggismála í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum á vegum sveitarfélaga og annarra rekstraraðila.
2. gr.
Ábyrgð og samráð.
Sveitarfélög annast undirbúning og gerð skólamannvirkja á þeirra vegum í samráði við skólanefnd og skólaráð. Stofnkostnaður ásamt kostnaði við viðhald skólahúsnæðis og endurnýjun og viðhald búnaðar þess greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi. Við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis skulu sveitarfélög ennfremur hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi svo sem foreldra, fulltrúa íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélaga og aðila úr atvinnulífinu.
Þegar um er að ræða rekstur grunnskóla á vegum annarra aðila en sveitarfélaga er undirbúningur, gerð nýs skólahúsnæðis, viðhald þess og endurnýjun og viðhald búnaðar á ábyrgð og kostnað hlutaðeigandi rekstraraðila.
3. gr.
Skólahúsnæði, skólalóð og búnaður.
Húsnæði og skólalóðir skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þarf að vera þannig úr garði gerður að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað.
4. gr.
Hönnun.
Við hönnun nýs skólahúsnæðis skal taka mið af áætluðum hámarksfjölda nemenda í skólanum. Við skipulag einstakra vinnurýma skal m.a. taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum og sveigjanleika í kennslufyrirkomulagi svo sem hvað varðar samkennslu árganga. Sérstaklega skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvern nemanda svo hann geti sinnt námi sínu. Þannig skal vinnurými að jafnaði vera a.m.k. 60 fermetrar fyrir 22 - 28 nemendur, 52 fermetrar fyrir 18 - 21 nemanda, 44 fermetrar fyrir 13 - 17 nemendur, 36 fermetrar fyrir 12 nemendur og aldrei minni en 16 fermetrar.
5. gr.
Lágmarksaðstaða.
Til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í grunnskólum telst:
Þar sem henta þykir er sveitarstjórn heimilt að ákveða að fleiri en einn skóli fái afnot af húsnæði, sem fyrir er í sveitarfélaginu, vegna íþrótta- og/eða sundkennslu eða annarrar sérgreinakennslu.
6. gr.
Samningar um afnot af húsnæði.
Sveitarstjórnum er heimilt að gera samning við önnur sveitarfélög og við rekstraraðila grunnskóla um afnot af húsnæði, t.d. vegna íþrótta- og/eða sundkennslu eða annarrar sérgreinakennslu.
7. gr.
Öryggi og slysavarnir.
Húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla skal miðast við að öryggi nemenda sé tryggt.
Nemandi er á ábyrgð skólans meðan á daglegum starfstíma skólans stendur, þegar hann tekur þátt í skipulögðu skólastarfi innan skólans, á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans.
8. gr.
Handbók um öryggi nemenda og slysavarnir í skólum.
Sveitarstjórn skal útbúa handbók fyrir starfsfólk grunnskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi nemenda og slysavarnir í grunnskólum. Leiðbeiningar þessar skulu grundvallaðar á gildandi lögum og reglugerðum um öryggis-, skipulags- og byggingarmál og samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir grunnskóla, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Leiðbeiningar þessar skulu staðfestar af sveitarstjórn sem jafnframt skal sjá um að þær séu aðgengilegar almenningi á vef skólans eða sveitarfélagsins og kynntar í skólasamfélaginu.
Sambandi íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneyti ber að móta leiðbeiningar um gerð slíkrar handbókar.
9. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 20. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 519/1996 um lágmarksbúnað grunnskóla.
Menntamálaráðuneytinu, 3. júlí 2009.
Katrín Jakobsdóttir.
Baldur Guðlaugsson.