Barnaverndarstofa skal vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs. Hún annast daglega stjórn barnaverndarmála. Meginhlutverk hennar er að:
Félagsmálaráðherra skipar forstjóra barnaverndarstofu. Hann skal hafa háskólapróf og víðtæka reynslu á sviði stjórnunar og barnaverndar.
Forstjóri ræður deildarstjóra og annað starfsfólk, að fenginni heimild félagsmálaráðuneytis. Deildarstjórar skulu hafa háskólamenntun í sálarfræði, félagsráðgjöf, lögfræði eða öðrum greinum sem tengjast verkefnum barnaverndarstofu.
Forstjóri barnaverndarstofu annast m.a. skrifstofu- og starfsmannahald, gerð fjárlagatillagna, áætlanagerð, þróunar- og rannsóknarstarf og yfirstjórn og umsjón með heimilum og stofnunum, sem rekin eru á grundvelli 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Að öðru leyti skiptist barnaverndarstofa í eftirfarandi starfsdeildir:
Ráðgjafadeild, sem m.a. fylgist með störfum barnaverndarnefnda og veitir ráðgjöf og fræðslu.
Vistunardeild, sem m.a. hefur umsjón með vistun barna og ungmenna á heimili og stofnanir, sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna, og aðstoðar barnaverndarnefndir við öflun hæfra fósturforeldra.
Forstjóra er heimilt að færa verkefni milli starfsdeilda eftir því sem best þykir henta.
Barnaverndarstofa semur fjárlagatillögur vegna reksturs stofunnar og heimila og stofnana sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna og leggur þær fyrir félagsmálaráðuneytið.
Barnaverndarstofa skal hlutast til um að myndað verði teymi sérfræðinga sem hafi það hlutverk að treysta samstarf og samhæfingu meðferðastofnana fyrir börn og ungmenni. Í því skal sitja fulltrúi frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga og barnaverndarstofu, einn frá hverri stofnun. Fagteymið starfar á vegum barnaverndarstofu. Stofan getur ennfremur óskað eftir að fulltrúar annarra stofnana taki þátt í starfi fagteymisins.
Barnaverndarstofa skal að jafnaði leggja umsóknir um vistun á heimili eða stofnun, sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna, fyrir teymið til umsagnar. Teymið getur tekið að sér hliðstætt umsagnarhlutverk fyrir aðrar meðferðarstofnanir fyrir börn og ungmenni að ósk þeirra.
Fagteymið skal hafa yfirsýn yfir tiltæk meðferðar- og vistunarúrræði fyrir börn og ungmenni. Það getur gert tillögur að leiðbeinandi reglum um meðferð umsókna um vistanir á meðferðarstofnanir fyrir börn og ungmenni.
Barnaverndarstofa skal eiga samstarf við alla þá sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna og hvetja þá til að eiga gagnkvæmt samstarf við önnur barnaverndaryfirvöld. Það skal gert í því augnamiði að treysta framkvæmd laga um vernd barna og ungmenna.
Barnaverndarstofa skal veita almenningi upplýsingar og fræðslu um starfsemi barnaverndaryfirvalda, t.d. með útgáfu upplýsinga- og fræðsluefnis. Sérstaka áherslu skal leggja á að kynna þær skyldur sem hvíla á almenningi samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna, svo sem tilkynningarskyldu.
Barnaverndarstofa skal vinna að því að þau verkefni, sem lög um vernd barna og ungmenna fela í sér, séu kynnt reglulega starfsstéttum, svo sem heilbrigðisstéttum, starfsfólki leikskóla og grunnskóla, starfsfólki þjóðkirkjunnar, lögreglu, dagmæðrum og öðrum þeim sem starfa sinna vegna hafa samskipti við börn og fjölskyldur þeirra. Kynningin skal m.a. taka mið af ákvæðum fjórða kafla laganna um tilkynningarskyldu og samstarf við barnaverndarnefndir. Stofan skal stuðla að því að fræðsluefni um barnavernd sé fyrir hendi í námi þessara starfsstétta. Í því skyni skal stofan eiga samstarf við menntastofnanir, svo sem Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og aðrar stofnanir þar sem starfsþjálfun fer fram, svo sem sjúkrahús.
Barnaverndarstofa skal stuðla að því að sveitarstjórnarmenn hafi þekkingu á þeim skyldum og verkefnum sem lög um vernd barna og ungmenna fela í sér, svo sem með námskeiðum, fræðslufundum og útgáfu upplýsingaefnis.
Barnaverndarstofa skal eiga frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum á sviði barnaverndar. Hún skal eiga samstarf við þá rannsóknaraðila hér á landi sem að slíkum verkefnum vinna. Stofan skal jafnframt leitast við að hafa yfirlit yfir þær rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið hér á landi á þessu sviði, svo og þær sem unnið er að. Hið sama á við um erlend samstarfsverkefni, sem Íslendingar eru þátttakendur í. Þá skal hún, eftir því sem unnt er, safna upplýsingum um erlendar rannsóknir um barnavernd. Þessum upplýsingum skal miðlað til þeirra sem, starfa sinna vegna, þurfa að bera skyn á það sem fram fer á sviði barnaverndarrannsókna.
Barnaverndarstofa skal hvetja til nýjunga á sviði barnaverndar, t.d. tilrauna á sviði forvarnarstarfs og veita slíku liðsinni sitt eftir því sem kostur er.
Barnaverndarstofa skal hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og beita sér fyrir því að þær starfi lögum samkvæmt. Fái barnaverndarstofa vegna rökstuddrar kvörtunar, eða á annan hátt, vitneskju um að starfi barnaverndarnefndar kunni að vera ábótavant skal stofan, svo fljótt sem auðið er, leita skýringa hjá nefndinni og veita henni hæfilega frest í því sambandi. Barnaverndarstofa getur, að fengnum skýringum barnaverndarnefndar og athugun málsins, lagt fyrir nefndina að bæta úr því sem talið er ábótavant. Barnaverndarstofan skal skriflega tilkynna barnaverndarnefnd og þeim aðila sem bar fram kvörtun, ef við á, niðurstöðu sína sem skal vera rökstudd.
Ákvörðunum barnaverndarnefndar, sem er ekki unnt að skjóta til úrskurðar barnaverndarráðs skv. 1. mgr. 49. gr. laga um vernd barna og ungmenna, geta aðilar skotið til úrskurðar barnaverndarstofu.
Ákvörðunum og úrskurðum barnaverndarstofu er unnt að skjóta til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins.
Barnarverndarstofa skal skipulega vinna að því markmiði að efla barnaverndarstarf, t.d. þannig að barnaverndarnefndum fækki og umdæmi þeirra stækki, svo og að sérhæft starfslið sé ráðið í þjónustu barnaverndarnefnda, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Þetta skal gert með hvatningum, leiðbeiningum og annarri aðstoð sem stuðlar að fyrrgreindum markmiðum.
Barnaverndarstofa skal sjá um að haldin séu námskeið fyrir þá sem starfa að barnavernd, einkum fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra. Heimilt er að leggja á sérstakt námskeiðsgjald til að standa straum af kostnaði við slík námskeið að einhverju leyti eða öllu.
Barnaverndarstofa skal á grundvelli ársskýrslna barnaverndarnefnda og afskipta sinna af störfum þeirra taka árlega saman upplýsingar um störf barnaverndarnefnda landsins og birta þær í skýrsluformi eigi sjaldnar en annað hvert ár. Til þess að auðvelda skýrslugerð getur hún mælt fyrir um skráningu einstakra mála hjá barnaverndarnefndum og stofnunum á þeirra vegum og setja reglur þar að lútandi.
Barnaverndarstofa skal gefa út nauðsynlegar handbækur fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra. Hún skal miðla upplýsingum til barnaverndarnefnda og starfsmanna þeirra um lagatúlkun og annað sem lýtur að úrlausn barnaverndarmála og koma á framfæri við þær fræðilegu efni um barnavernd eftir því sem efni standa til.
Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum liðsinni vegna fósturráðstafana. Í því felst eftirfarandi, að:
halda námskeið fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra í því skyni að þessir aðilar öðlist nauðsynlega þekkingu á fósturráðstöfunum.
auglýsa eftir hæfum fósturforeldrum og sjá um mat á hæfni þeirra eftir reglum sem barnaverndarstofa setur. Þannig skal barnaverndarstofa sjá til þess að hæfir fósturforeldrar séu til taks fyrir barnaverndarnefndir þegar á þarf að halda.
sjá um og skipuleggja námskeið fyrir þá sem hyggjast gerast fósturforeldrar. Sömuleiðis skal stofan halda námskeið fyrir starfandi fósturforeldra í samráði við samtök þeirra.
veita starfsmönnum barnaverndarnefnda leiðbeiningar og ráðgjöf um mál einstakra fósturbarna þegar eftir því er leitað og eiga frumkvæði að því sé talin ástæða til. Einnig skal aðstoða barnaverndarnefnd eða starfsmenn hennar við val á fósturforeldrum og leiðbeina þeim um önnur atriði sem lúta að framkvæmd fósturs, svo sem um aðlögun barns að fósturheimili.
Barnaverndarstofa heldur skrá yfir öll börn sem ráðstafað er í fóstur. Hún skal hafa eftirlit með því að reglugerð um fóstur sé fylgt. Sérstaklega skal fylgjast með því að fóstursamningar séu gerðir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í 31. gr. laga um vernd barna og ungmenna.
Barnaverndarstofa lætur fara fram almennar kannanir og mat á fósturráðstöfunum svo unnt sé að meta hvaða úrræði reynast best fyrir börn sem þurfa að fara í fóstur.
Heimilum og stofnunum sem rekin eru af sveitarfélögum, félagasamtökum og einkaaðilum á grundvelli 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna er óheimilt að starfa nema samkvæmt leyfi barnaverndarstofu.
Barnaverndarstofa fer með yfirstjórn sérhæfðra meðferðarheimila og stofnana fyrir börn og ungmenni sem rekin eru á vegum ríkisins. Í því felst m.a. að stofan skal hafa faglegt og fjárhagslegt eftirlit með starfsemi þessara stofnana og hún getur mælt fyrir um tiltekna sérhæfingu þeirra.
Barnaverndarstofa getur, með samþykki félagsmálaráðuneytisins, gert þjónustusamninga við einkarekin meðferðarheimili eða stofnanir. Samningar þessir skulu m.a. kveða á um inntak meðferðar, fjölda rýma, starfsmannahald, innlagnir, mögulega sérhæfingu, svo og árleg fjárframlög ríkissjóðs. Barnaverndarstofa hefur eftirlit með framkvæmd þjónustusamninga.
Barnaverndarstofa skal hlutast til um að sveitarfélög starfræki vistheimili eða hafi á annan hátt tiltæk úrræði til að veita börnum viðtöku vegna aðstæðna á heimili þeirra, forfalla foreldra, vanrækslu eða illrar meðferðar eða til könnunar á aðstæðum þeirra, sbr. f-lið 21. gr., 1. mgr. 22. gr. og c-lið 24. gr. laga um vernd barna og ungmenna.
Barnaverndarstofa skal hafa yfirsýn yfir þau vistunar- og fósturúrræði sem til eru hverju sinni fyrir börn og ungmenni og fylgjast með nýtingu þeirra. Í þeim tilgangi skal stofan afla og varðveita upplýsingar um innritun og útskrift skjólstæðinga á heimili og stofnanir sem rekin eru skv. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna.
Barnaverndarnefnd skal senda beiðni um vistun barns á heimili eða stofnun, sem ríkið rekur eða styrkir, til ákvörðunar barnaverndarstofu. Heimilt er þó barnaverndarnefnd og lögreglu að senda beiðni um skammtímavistun í neyðar- og bráðatilvikum beint til Meðferðarstöðvar ríkisins sem ber að tilkynna barnaverndarstofu um slíkar vistanir.
Barnaverndarstofa skal útbúa eyðublöð um innlagnir samkvæmt þessari grein og setja nánari reglur um þær.
Barnaverndarstofa skal sjá um að haldin séu námskeið fyrir starfsmenn stofnana og heimila sem rekin eru á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992, með síðari breytingum, öðlast gildi hinn 1. júní 1995.
Félagsmálaráðuneytið, 10. apríl 1995.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Húnbogi Þorsteinsson.