Mennta- og menningarmálaráðuneyti

315/2018

Reglugerð um breytingu á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 73/2017. - Brottfallin

1. gr.

Við ákvæði reglugerðarinnar til bráðabirgða bætist nýtt ákvæði, svohljóðandi:

Þrátt fyrir fyrirmæli 1. og 4. gr. um að samræmd könnunarpróf skuli haldin í 9. bekk grunnskóla er skólastjórum heimilt að velja á milli þess að halda samræmd könnunarpróf í íslensku og ensku vor eða haust 2018 fyrir nemendur sem eru í 9. bekk skólaárið 2017-18 vegna annmarka sem voru á fyrirlögn þeirra 7. og 9. mars 2018. Skólastjóri skal halda bæði prófin annaðhvort að vori eða hausti.

Heimild skólastjóra til að veita undanþágu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. nær einnig til þeirra nemenda sem kjósa að taka ekki samræmd könnunarpróf vorið eða haustið 2018 vegna þeirra annmarka sem voru á fyrirlögn prófanna 7. og 9. mars 2018 þrátt fyrir að þeir uppfylli ekki skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Menntamálastofnun er heimilt að víkja frá skyldum sínum samkvæmt 10. gr. um úrvinnslu og birtingu niðurstaðna samræmdra könnunarprófa vorið og haustið 2018.

 

2. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 6. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 19. mars 2018.

 

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica