Velferðarráðuneyti

1007/2013

Reglugerð um kærunefnd barnaverndarmála. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Kærunefnd barnaverndarmála sker úr í tilteknum ágreiningsmálum, sbr. 6. og 7. gr., er kunna að rísa vegna ákvarðana barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

II. KAFLI

Skipulag og starfshættir.

2. gr.

Skipun kærunefndar.

Ráðherra skipar kærunefnd barnaverndarmála til fjögurra ára í senn.

Í kærunefnd barnaverndarmála sitja þrír menn. Hæstiréttur Íslands tilnefnir formann og skal hann uppfylla hæfisskilyrði til að vera héraðsdómari. Nefndarmenn skulu hafa sér­staka þekkingu á barnaverndarmálum, svo sem varðandi þroska barna og uppeldis­aðstæður, vegna menntunar sinnar eða starfsreynslu.

3. gr.

Starfsmenn og skrifstofuhald.

Heimilt er nefndinni, í samráði við velferðarráðuneytið, að ráða starfsmenn til að sinna daglegum rekstri.

Kærunefnd getur ákveðið að formaður nefndarinnar fari einn með mál og kveðið upp úrskurð ef mál þykir ekki varða mikilsverða hagsmuni barns.

Starfsmaður kærunefndar sér um þau störf sem nefndin felur honum vegna undirbúnings úrskurða og annarra nauðsynlegra starfa við rekstur nefndarinnar.

Nefndin hefur aðsetur á þeim stað sem ráðherra ákveður.

4. gr.

Þagnarskylda.

Nefndarmönnum ber að gæta þagmælsku um þau atvik sem þeim verða kunn í starfinu og leynt skulu fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða eðli máls. Sama gildir um starfsmenn nefndarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

III. KAFLI

Málskot.

5. gr.

Málskot til kærunefndar barnaverndarmála.

Aðilar barnaverndarmáls geta skotið úrskurði eða ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðun eða úrskurð.

Jafnframt getur aðili skotið ákvörðunum Barnaverndarstofu til kærunefndar innan sömu tímamarka.

6. gr.

Málskot á ákvörðunum eða úrskurðum barnaverndarnefnda.

Eftirtöldum ákvörðunum eða úrskurðum barnaverndarnefnda verður skotið til kæru­nefndar:

  1. Ákvörðun um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd, sbr. 19. gr. barna­verndar­laga.
  2. Ákvörðun um að hefja könnun máls eða hefja ekki könnun máls, sbr. 21. gr. barnaverndarlaga.
  3. Ákvörðun um að loka máli, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga.
  4. Synjun um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga.
  5. Úrskurði um úrræði án samþykkis foreldris, sbr. 26. gr. barnaverndarlaga.
  6. Synjun barnaverndarnefndar um fjárstyrk, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga.
  7. Synjun um að það foreldri sem barn býr ekki hjá geti fengið umsjá barns, sbr. 67. gr. barnaverndarlaga.
  8. Úrskurði um umgengni við barn, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga.
  9. Úrskurði um endurskoðun fóstursamnings, sbr. 77. gr. barnaverndarlaga.
  10. Úrskurði um rétt fósturbarns til umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir, sbr. 81. gr. barnaverndarlaga.
  11. Úrskurði um framfærsluskyldu foreldra barns sem vistað er utan heimilis, sbr. 89. gr. barnaverndarlaga.

7. gr.

Málskot ákvarðana Barnaverndarstofu.

Eftirtöldum ákvörðunum Barnaverndarstofu varðandi valdsvið barnaverndarnefnda má skjóta til nefndarinnar, sbr. 15. gr. barnaverndarlaga:

  1. Hvaða barnaverndarnefnd fari með mál þegar hentugra þykir að mál sé að ein­hverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn býr.
  2. Hvaða barnaverndarnefnd fari með mál barns sem á ekki lögheimili hér á landi og er hér án forsjáraðila sinna.
  3. Hvaða barnaverndarnefnd fari með mál barns sem sækir um hæli og er veitt hæli eða dvalarleyfi.

Jafnframt má skjóta til kærunefndar ákvörðunum Barnaverndarstofu um leyfisveitingar til fósturforeldra, sbr. 66. gr. barnaverndarlaga, og ákvörðunum stofunnar um leyfis­veit­ingar og leyfissviptingar aðila sem taka að sér að vista börn utan heimilis, sbr. 84. og 89. gr. c laganna.

IV. KAFLI

Málsmeðferð.

8. gr.

Aðili máls.

Aðili máls telst sá sem hefur beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta í máli því sem nefndin tekur til úrlausnar, auk viðkomandi barnaverndarnefndar.

Barn er aðili máls hjá kærunefnd barnaverndarmála, hafi það náð 15 ára aldri og málið varði barnið.

9. gr.

Barn sem er ekki aðili máls.

Barni sem er yngra en 15 ára, og því ekki aðili máls, skal gefinn kostur á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

10. gr.

Kæra.

Kæra skal vera skrifleg og tilgreina skal þar nafn, heimilisfang og kennitölu þess sem kærir auk nafns og kennitölu barnsins. Ef kæra er borin fram af öðrum en þeim sem hefur hagsmuna að gæta af úrlausn máls skal skriflegt umboð fylgja. Kæra skal berast innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi fékk vitneskju um hina kærðu ákvörðun.

11. gr.

Frávísunarástæður.

Þegar mál berst kærunefnd til meðferðar skal svo fljótt sem auðið er tekið fyrir hvort málið fellur undir valdsvið nefndarinnar. Teljist málið falla utan verksviðs nefndarinnar, kærandi ekki vera aðili máls eða málið of seint fram komið, skal því vísað frá með tilheyrandi rökstuðningi.

12. gr.

Gögn sem úrskurður er byggður á.

Kærunefndin skal að jafnaði byggja úrskurð sinn á þeim gögnum sem fyrir eru í málinu. Nefndin getur þó, ef hún telur ríka ástæðu til, lagt fyrir aðila að afla frekari tilgreindra gagna, svo sem álitsgerðar sérfræðinga. Kærunefnd á rétt til skriflegra upplýsinga úr sakaskrá um aðila máls. Kærunefnd kveður á um hver skuli bera kostnað vegna öflunar gagna, þar með talinna álitsgerða sérfræðinga.

13. gr.

Málflutningur.

Málflutningur er að jafnaði skriflegur. Kærunefnd getur þó ákveðið að málflutningur verði munnlegur, eða hvatt aðila til munnlegrar skýrslugjafar, telji kærunefnd að með því fáist betri innsýn eða yfirlit yfir málið.

14. gr.

Rannsóknarregla og málshraði.

Kærunefnd skal sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en það er tekið til úrskurðar. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en þörf krefur.

Nefndin skal innan tveggja vikna frá því að henni berst kæra taka mál til meðferðar. Kveða skal upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að mál var kært til nefndarinnar.

15. gr.

Innihald úrskurða.

Kærunefnd getur ýmist staðfest ákvörðun eða úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Jafnframt getur nefndin vísað málinu til barna­verndar­nefndar til nýrrar meðferðar.

Úrskurðir kærunefndar barnaverndarmála eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður þeim ekki skotið til æðra stjórnvalds.

16. gr.

Áhrif málskots.

Málskot til kærunefndar barnaverndarmála frestar ekki framkvæmd ákvörðunar barna­verndarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á getur kærunefnd þó ákveðið, að kröfu aðila, að framkvæmd ákvörðunar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.

17. gr.

Útgáfa og kynning úrskurða.

Kærunefnd barnaverndarmála skal árlega gefa út skýrslu um starfsemi sína.

Jafnframt skal kærunefndin birta úrskurði þó einungis með þeim hætti að þeir séu ekki persónulega rekjanlegir. Úrskurðir, sem eru persónulega rekjanlegir þrátt fyrir að nöfn og önnur einkenni séu máð út, skulu ekki birtir.

V. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 25. október 2013.

Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica