Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

11/2008

Reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2008-2013. - Brottfallin

1. gr.

Beingreiðslumark og greiðslumark lögbýla.

Heildarfjárhæð beingreiðslna á ári er 1.716 millj. kr. Heildargreiðslumark 1. janúar 2008 er 368.457 ærgildi. Það samanstendur annars vegar af samanlögðu greiðslumarki allra lögbýla eins og það er skráð 31. desember 2007, alls 350.857 ærgildi, að viðbættum 17.600 ærgildum sem deilt er út á handhafa jöfnunargreiðslna sbr. eftirfarandi.

Jöfnunargreiðslur til hvers framleiðanda árin 2004, 2005 og 2006 skal reikna til verðlags 1. janúar 2007. Að því loknu skal velja tvö bestu árin hjá hverjum framleiðanda og síðan meðaltal þeirra. Á grundvelli þessa verði 17.600 ærgildum skipt hlutfallslega milli framleiðenda og bætt við heildargreiðslumark 31. desember 2007. Réttur til úthlutunar fellur niður hafi kindakjötsframleiðslu verið hætt árið 2007 og ekkert innlegg verið skráð í afurðastöð í sumar- eða haustslátrun.

Beingreiðslur til lögbýla taka breytingum í samræmi við ákvæði IX. kafla laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum (búvörulög).

2. gr.

Handhafar beingreiðslna.

Handhafi beingreiðslna er ábúandi lögbýlis.

Matvælastofnun heldur skrá yfir rétthafa greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila, er að ræða sem standa að búinu að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör.

Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.

Handhafar beingreiðslna skulu láta Matvælastofnun í té upplýsingar um sérstakan reikning í banka eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.

3. gr.

Aðilaskipti.

Aðilaskipti að greiðslumarki skulu taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast nýjum handhafa frá sama tíma. Tilkynna skal Matvælastofnun aðilaskipti að greiðslumarki á eyðublöðum sem Matvælastofnun lætur í té fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna ársins.

Með tilkynningu um aðilaskipti að greiðslumarki sem bundið er við lögbýli sbr. 1. og 2. mgr. 38. gr. búvörulaga skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu.

Með tilkynningu um aðilaskipti að sérskráðu greiðslumarki í eigu ábúanda eða leiguliða við lok ábúðar eða leigu, sbr. 4. mgr. 38. gr. búvörulaga skal fylgja staðfesting á eignarhaldi lögbýlis og því að eiganda jarðar hafi verið boðin forkaupsréttur.

Matvælastofnun skal staðfesta aðilaskipti að greiðslumarki með áritun á tilkynningu og öðlast þau þá gildi frá og með 1. janúar, sbr. 2. mgr. 38. gr. búvörulaga. Matvælastofnun skal tilkynna báðum aðilum bréflega um staðfestingu aðilaskipta.

4. gr.

Búskaparhlé.

Lögbýli heldur greiðslumarki sínu óskertu þótt réttur til beingreiðslna falli niður vegna búskaparhlés án þess að samið sé um búskaparlok og greiddar bætur fyrir. Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir 15. janúar ár hvert ef framleiðandi óskar eftir að fá beingreiðslur aftur að loknu hléi. Beingreiðslur greiðast handhafa frá og með 1. janúar það ár.

5. gr.

Ásetningshlutfall.

Til að fá óskertar beingreiðslur á árinu 2008 þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga auglýsa ásetningshlutfall skv. 3. mgr. 39. gr. búvörulaga fyrir árin 2009-2013 fyrir 15. september ár hvert vegna næsta almanaksárs, í fyrsta sinn fyrir 15. september 2008.

Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ef greiðslumarki lögbýlisins er skipt á fleiri en einn rekstraraðila, þá skal miðað við greiðslumark og ásetning hvers rekstraraðila fyrir sig.

6. gr.

Lækkun ásetningshlutfalls.

Ásetningshlutfall hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar bótaskyldum sjúkdómum skal á fyrsta almanaksári eftir fjártöku aðeins nema 1/3 af því sem ákveðið er samkvæmt 5. gr. og á öðru ári 2/3, til að þeir haldi fullum beingreiðslum.

Um lækkun ásetningshlutfalls á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland fer skv. 3. mgr. 39. gr. búvörulaga.

7. gr.

Gjalddagar beingreiðslna.

Beingreiðslur greiðast með níu jöfnum mánaðarlegum greiðslum 1. hvers mánaðar frá janúar til september ár hvert, þó þannig að greiðsla fyrir janúar fer fram 1. febrúar ásamt greiðslu fyrir þann mánuð. Verðbætur greiðast með septembergreiðslu, en greiðslur eru miðaðar við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs 1. janúar 2007 og taka mánaðarlegum breytingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs.

8. gr.

Skerðing eða niðurfelling beingreiðslna.

Matvælastofnun er heimilt er að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjár­framleiðandi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.

9. gr.

Fjármunir til markaðsaðgerða.

Beingreiðslum sem sparast vegna skerðingarákvæða 5. og 8. gr. skal varið til sameiginlegra markaðsaðgerða. Landbúnaðarráðherra staðfestir ráðstöfun á fjármunum til markaðsaðgerða að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga.

10. gr.

Málskotsheimild.

Ákvörðun Matvælastofnunar um skráningu á greiðslumarki lögbýla og rétt til beinna greiðslna er heimilt að skjóta til úrskurðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra innan þriggja mánaða, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

11. gr.

Viðurlög og gildistaka.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið sem opinber mál.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 19/2001 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum, beingreiðslur, uppkaupaálag og jöfnunargreiðslur 2001-2007, með síðari breytingum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. janúar 2008.

Einar K. Guðfinnsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica