Við reglugerðina bætist eftirfarandi kafli:
Markmiðið er að koma í veg fyrir að kúariðusmit berist með fóðri.
B. Gildissvið.
Reglurnar gilda um notkun á dýrapróteini í fóður fyrir dýr til manneldis.
C. Orðskýringar.
Eftirfarandi orðskýringar eiga aðeins við í þessum kafla.
Dýraprótein: Kjöt- og beinamjöl, kjötmjöl, beinamjöl, blóðmjöl, blóðvatnsmjöl og annað það sem unnið er úr blóði og mjöl unnið úr hófum, klaufum, hornum, úrgangi úr alifuglaslátrun og fiðri og hömsum, díkalsíumfosfat, gelatin og önnur svipuð hráefni unnin úr spendýra- og fuglaafurðum.
Dýr til manneldis: Dýr sem gefa af sér afurðir til manneldis, þar með talin hross.
Próteinfóður: Fóðurhráefni, hreint fóður, fóðurblöndur, forblöndur og/eða aukefni sem innihalda dýraprótein.
Notkun: Innflutningur, framleiðsla, verslun og fóðrun dýra.
D. Bann við notkun dýrapróteins.
Bannað er að nota dýraprótein í próteinfóður fyrir dýr til manneldis.
E. Merkingar.
Umbúðir próteinfóðurs sem ætlað er fyrir loðdýr og gæludýr skal greinilega merkt með eftirfarandi áletrun: "Þetta fóður inniheldur dýraafurðir - óheimilt er að gefa það dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis." Þegar gæludýrafóður er selt í einingum sem eru undir 500 g að þyngd er heimilt að setja þessar upplýsingar á skilti/auglýsingaspjöld á sölustað þó þannig að ekki leiki vafi á um hvaða fóður átt sé við.
F. Flutningur.
Bannað er að flytja dýraprótein í lausu formi (búlk). Bannað er að flytja innanlands fóður eða hráefni í fóður, s.s. fiskimjöl, korn, plöntuprótein, hreint fóður, fóðurblöndur, forblöndur og/eða aukefni sem ekki innihalda dýraprótein, í flutningstækjum sem flutt hafa dýraprótein nema þau séu þvegin og sótthreinsuð áður.
G. Geymsla.
Bannað er að meðhöndla, nota eða geyma dýraprótein í fóður- og fóðurblöndunarverksmiðjum og annarsstaðar þar sem fóður er framleitt eða blandað fyrir dýr til manneldis. Sama gildir um staði þar sem fóðrun þessara dýra fer fram.
H. Framleiðsla.
Kjötmjölsverksmiðjur og aðrar verksmiðjur sem framleiða dýraprótein verða að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 660/2000 um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi ásamt síðari breytingum."
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerðin er einnig sett með hliðsjón af ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 2000/766 og ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2001/9. Reglugerðin öðlast þegar gildi.