Landbúnaðarráðuneyti

671/1997

Reglugerð um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

                Tryggja skal svo sem kostur er góða meðferð og aðbúnað nautgripa svo að þörfum þeirra sé fullnægt, hvort sem þeir eru á húsi, á beit eða útigangi.

                Eingöngu skal nota gripi til framleiðslu mjólkur og sláturafurða, sem eru heilbrigðir og lausir við sjúkdóma hættulega mönnum.

                Reglugerð þessi gildir um nautgripi sem aldir eru til framleiðslu afurða til neyslu.

 

2. gr.

Yfirstjórn og eftirlit.

                Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.

                Yfirdýralæknir skal vera ráðherra til aðstoðar og hafa undir sinni stjórn dýralækni júgursjúkdóma sem starfar samkvæmt erindisbréfi.

                Dýralæknir júgursjúkdóma skal stuðla að góðri meðferð og heilbrigði nautgripa, bættum framleiðsluháttum, vörnum og greiningu sjúkdóma í samvinnu við dýralækna, bændur, ráðunauta, mjólkureftirlitsmenn og búfjáreftirlitsmenn. Hann skal með almennri fræðslu og leiðbeiningastarfi leitast við að auka skilning manna á nautgripasjúkdómum, vörnum gegn þeim og því tjóni sem þeir geta valdið. Hann skal gera tillögur að reglum um innra eftirlit og skráningu sjúkdóma og lyfjanotkun við mjólkurframleiðslu.

                Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar þessarar sé framfylgt. Landbúnaðarráðherra getur þó falið öðrum dýralæknum þetta eftirlit á tilteknum svæðum, ef henta þykir, að fengnum tillögum yfirdýralæknis og viðkomandi héraðsdýralæknis.

 

3. gr.

Umhverfi gripahúsa.

                Umhverfi og næsta nágrenni fjóss skal vera þrifalegt til varnar því að óhreinindi og smitefni berist inn í það. Hlað framan við mjólkurhús skal vera svo stórt að mjólkurbílar geti auðveldlega athafnað sig þar. Þannig skal frá því gengið að það haldist hreint og þrifalegt.

                Geymsla fyrir mykju skal vera við hvert fjós og skal vera tryggt að ekki berist frá henni lykt eða óþrifnaður, þ.m.t. skordýr, né að hætta stafi af fyrir skepnur, menn og umhverfi. Flutningur á mykju og hlandi má ekki valda óþrifnaði eða hættu fyrir skepnur, menn og umhverfi og að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar.

                Frárennsli frá salerni, mjólkurhúsi og mjaltabás skal leiða í rotþró.

 

4. gr.

Aðbúnaður og innréttingar.

                Í húsum þar sem nautgripir eru hýstir skulu dyr og gangar vera þannig frágengnir að fljótlegt sé að rýma húsin í neyðartilfellum.

                Loftræsting skal vera góð og í samræmi við viðauka 2. Koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum. Magn varhugaverðra lofttegunda skal að jafnaði vera innan viðurkenndra hættumarka, sbr. viðauka 4. Ryki og annarri loftmengun skal haldið í lágmarki. Hita- og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka 2 með reglugerð þessari.

                Á öllum húsum skulu vera gluggar sem tryggi að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera til staðar sem fullnægir lýsingarþörf hverju sinni, sbr. viðauka 3. Ljós skulu þannig staðsett að þau valdi ekki gripunum óþægindum. Hvorki má vera stöðug sterk lýsing né stöðugt myrkur.

                Óheimilt er að hafa gripi í stöðugum hávaða og varast ber að þeir verði fyrir miklum óvæntum hávaða. Hávaði skal að jafnaði vera innan þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka 5.

                Gólf, veggir og loft skulu vera úr traustu efni og með yfirborði, sem auðvelt er að þrífa og mála. Flór skal vera með góðu frárennsli. Hann má ýmist vera úr steinsteypu (vatnsþéttur) eða rimlaflór, þ.e.a.s. rimlagólf yfir djúpflór eða haughúsi.

                Innréttingar skulu vera þannig gerðar að þær hefti ekki eðlilegar hreyfingar gripanna, að þeir sjái hverjir aðra og að ekki sé hætta á að þeir skaði sig.

                Óheimilt er að nota rafstraum til að hindra nautgripi í að óhreinka bása.

                Að öðru leyti skulu innréttingar vera í samræmi við viðauka 1 með reglugerð þessari.

 

5. gr.

Básafjós.

                Básar og bindingar skulu vera þannig að gripirnir geti lagst niður, legið, risið á fætur, staðið, sleikt sig og hreyft á annan hátt án erfiðleika. Gólf í bás skal halla 2-3% frá jötu og í þeim skulu vera gúmmímottur eða annað sambærilegt undirlag með óskreipu yfirborði. Básum skal haldið þurrum og hreinum. Eitt drykkjarker skal vera fyrir hverjar tvær kýr hið minnsta. Að öðru leyti skulu básar og innréttingar vera í samræmi við viðauka 1.

 

6. gr.

Lausagöngufjós.

                Í lausagöngufjósum þar sem eru mjólkurkýr skal vera einn legubás fyrir hvern grip. Í básum skulu vera gúmmímottur eða annað sambærilegt undirlag með óskreipu yfirborði. Í lausagöngufjósum skal einnig vera haganleg og rúmgóð burðar- og sjúkrastía þannig að auðvelt sé að veita nauðsynlega fæðingarhjálp og umönnun sjúkra gripa. Jöturými skal vera nægjanlegt til þess að allir gripir geti étið samtímis og skal þá miðað við fullvaxna gripi. Fjöldi drykkjarkerja skal vera nægjanlegur og þau þannig staðsett að gripirnir komist auðveldlega að þeim. Að öðru leyti skulu básar og innréttingar vera í samræmi við viðauka 1 með reglugerð þessari.

 

7. gr.

Fóðrun og umhirða.

                Gripir skulu ávallt hafa nægan aðgang að hreinu, ómenguðu drykkjarvatni.

                Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum gripanna til vaxtar, viðhalds og framleiðslu.

                Klaufir skulu jafnan vera vel hirtar og gripum haldið hreinum og klipptir eftir því sem þörf er á.

 

8. gr.

Aðbúnaður ungviðis og geldneytis.

                Stíur fyrir kálfa og geldneyti, skulu þannig gerðar og viðhaldið að þær haldist þurrar og sem minnst hætta sé á að gripir slasist. Loftræsting skal vera góð og stíur staðsettar þar sem ekki gætir dragsúgs. Loftraki skal vera að jafnaði innan viðmiðunarmarka, sbr. viðauka 2. Jöturými skal vera nægjanlegt til þess að allir gripir geti étið á sama tíma. A.m.k. eitt drykkjarker skal vera fyrir hverja 10 gripi. Stærð stía, jöturými, rimla- og rifubreidd í gólfum skal vera í samræmi við viðauka 1 með reglugerð þessari.

                Sérstakar stíur skulu ætlaðar til uppeldis á kálfum, 0-3ja mánaða. Fjöldi kálfa í hverri stíu skal miðast við að allir geti legið samtímis og með útteygða fætur. Gera skal ráðstafanir til að koma í veg fyrir að kálfarnir sjúgi hvern annan en fái fullnægt sogþörf sinni á annan hátt. Bannað er að binda kálfa en heimilt er að tjóðra þá hjá mæðrum sínum fyrstu dagana eftir fæðingu.

                Óheimilt er að hafa sauðfé, svín og alifugla í sömu húsum og nautgripi.

 

9. gr.

Útigangur nautgripa.

                Gripir sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir óveðrum í gripahúsi eða sérstöku skýli sem hefur þrjá veggi hið minnsta, nema jafngilt náttúrulegt skjól sé til staðar. Héraðsdýralæknir tekur út slík skýli og getur bannað útigöngu ef viðunandi skilyrði eru ekki til staðar. Umhverfi, hönnun og viðhald skýla og húsa skal vera þannig að gripir haldist hreinir. Ætíð skal vera til staðar rými innanhúss fyrir gripi á útigangi sem þurfa sérstakrar umönnunar við.

 

10. gr.

Mjaltir og meðferð mjólkur í fjósi.

                Eftirfarandi reglur skulu gilda um mjaltir og meðferð mjólkur í fjósi:

                1.             Fjósum skal haldið hreinum. Flórar skulu hreinsaðir kvölds og morgna. Veggi og loft skal þvo og sótthreinsa árlega eða oftar ef þurfa þykir og mála eða kalka eftir þörfum.

                2.             Fjósverkum skal haga þannig að ekki berist í mjólkina reykur, óþefur, ryk eða önnur óhreinindi.

                3.             Eigi skal hefja mjaltir fyrr en hálfri klukkustund eftir heyfóðrun og flórmokstur. Vothey má ekki gefa fyrr en að mjöltum loknum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við, þar sem mjólkað er í mjaltabás í sérstöku rými og ekki er hætta á að ryk berist í mjólkina.

                4.             Mjólkurkúm skal kembt og haldið vel hreinum og þær klipptar reglulega þegar þær eru á húsum.

                5.             Óheimilt er að hafa sauðfé, svín, alifugla, hunda og ketti í fjósi og hlöðu.

                6.             Fjós skulu varin flugum og meindýrum.

                7.             Notkun tóbaks í fjósi er óheimil meðan á mjöltum stendur.

                8.             Ljósstyrkur við mjaltir skal vera í samræmi við viðauka 3.

                9.             Mjaltafólk skal þvo sér vandlega um hendur fyrir mjaltir og meðan á mjöltum stendur ef með þarf. Það skal klæðast hreinum hentugum vinnufatnaði. Hafi mjaltafólk sár á höndum eða handleggjum skulu þau hulin með einnota hönskum eða á annan viðunandi hátt. Mjaltafólk skal ekki sinna öðrum störfum sem geta haft óheppileg áhrif á gæði mjólkurinnar meðan á mjöltum stendur.

                10.           Mjaltafólk má ekki vera haldið sjúkdómum sem geta borist með mjólkinni í fólk.

                11.           Starfsmenn í fjósi skulu hafa greiðan aðgang að salerni og þar skal einnig vera handlaug og við hana gerileyðandi sápulögur og einnota handþurrkur og skal þessari aðstöðu haldið þrifalegri.

                12.           Júgur og spenar skulu vera hreinir og þurrir áður en kýr er mjólkuð. Ef þvottaklútar eru notaðir skulu þeir þvegnir vandlega á milli mjalta og soðnir eða sótthreinsaðir með viðurkenndum sótthreinsiefnum, sbr. ákvæði 2. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

                13.           Hefja skal mjaltir strax eftir hreinsun júgurs og spena og eftir að fyrstu mjólkurbogarnir hafa verið mjólkaðir í sýnakönnu. Verði vart sjáanlegra breytinga á mjólkinni skal mjólk úr viðkomandi júgurhluta haldið sér. Ef spenar eru smurðir, úðaðir eða dýft í sótthreinsilög skal það gert strax eftir mjaltir með efnum samþykktum af Hollustuvernd ríkisins, sbr. ákvæði 2. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

                14.           Leitast skal við að mjólka kýr með júgursjúkdóma sem spilla mjólkinni og kýr sem eru á lyfjameðferð og útskolunartíma lyfjanna er eigi lokið, á eftir heilbrigðum kúm. Mjaltatæki sem notuð hafa verið á kýr í lyfjameðferð eða með júgurbólgu skulu þrifin og skoluð með vel heitu vatni áður en þau eru sett á næstu kýr. Spillt mjólk vegna sjúkdóma eða lyfja er óhæf til neyslu og dýrafóðurs og skal mjólkinni fargað svo að hætta stafi ekki af.

                15.           Broddmjólk og geldmjólk má ekki blanda saman við aðra mjólk.

                16.           Bannað er að sía, kæla og geyma mjólk í fjósi.

                17.           Við mjaltir, kælingu, geymslu og flutninga mjólkur skal verja hana fyrir flugum, frosti, sólskini, ryki, reyk, óþef, lyktarsterkum efnum og öðru sem getur spillt henni.

                18.           Mjólkurframleiðendur skulu starfrækja innra eftirlit samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur.

 

11. gr.

Mjólkurhús, mjaltabásar og mjaltabúnaður.

                Mjólkurhús skal vera við hvert fjós. Það skal vera áfast við fjósið og skilið frá því með sjálflokandi dyrum. Mjaltabásar og mjólkurhús skulu vera rúmgóð, vel umgengin, björt og vel loftræst. Ljósstyrkur skal vera í samræmi við viðauka 3.

                Loft og veggir mjólkurhúsa og mjaltabása skulu vera úr traustu efni með yfirborði sem auðvelt er að þrífa og mála. Þeir skulu málaðir í ljósum lit eða lagðir flísum eða öðru hliðstæðu efni. Gólf skulu vera steinsteypt og vatnsheld með nægum vatnshalla að góðu niðurfalli. Þau skulu vera slétt en þó ekki hál. Mjólkurhús má einungis nota til þess að sía, kæla og geyma mjólk og þvo mjólkurbúnað. Dýrum má ekki hleypa inn í mjólkurhús og skulu þau einnig varin flugum og meindýrum. Í mjólkurhúsi skal vera hæfilegt borð úr efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa.

                Lyf, hreinsiefni og önnur efni, sem notuð eru í mjólkurhúsi og fjósi skulu geymd í lokuðum skápum, þar sem börn ná ekki til. Notkun tóbaks er óheimil í mjólkurhúsi og mjaltabás.

                Í mjólkurhúsi og mjaltabás skal vera viðunandi aðstaða og nægjanlegt rennandi heitt og kalt vatn til þvotta á mjaltabúnaði. Þar skal einnig vera sérstök handlaug til handþvotta og við hana skal vera gerileyðandi sápulögur og einnota handþurrkur. Vatnið skal fullnægja kröfum gildandi reglugerðar um neysluvatn. Mjaltabúnaður skal vandlega hreinsaður og síðan sótthreinsaður samkvæmt viðurkenndum þvotta- og sótthreinsiaðferðum svo fljótt sem verða má eftir notkun og síðan varinn óhreinindum milli mjalta. Öll mjólk skal síuð með einnota síu eða á annan sambærilegan hátt.

                Kæling mjólkur skal fara fram í mjólkurhúsi í geymi úr ryðfríu sýruþolnu stáli. Nægilegt rými skal vera undir og umhverfis kæligeyma svo auðvelt sé að þvo þá og sótthreinsa. Mjólk skal kæld niður í 2-4°C svo fljótt sem unnt er að loknum mjöltum og geymd við það hitastig. Hitamælar skulu vera á öllum kæligeymum.

                Við uppsetningu og eftirlit mjaltabúnaðar skal stuðst við ISO/DIS 5707. Áhöld og tæki, sem koma í snertingu við mjólk, mega ekki vera úr oxandi efnum eða efnum sem geta mengað hana. Mjólkurbílstjórar, frjótæknar, dýralæknar og aðrir sem koma í mjólkurhús og/eða fjós skulu gæta ítrasta hreinlætis til að koma í veg fyrir að smit berist í fjósið.

 

12. gr.

Leyfi til mjólkurframleiðslu.

                Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi, annast reglulegt eftirlit með heilbrigði og hirðingu allra mjólkurkúa, ungviðis og annarra nautgripa hjá mjólkurframleiðendum. Þeir skulu a.m.k. árlega skoða húsakost, mjaltaaðstöðu, mjaltabúnað, hreinlæti, umgengni og annað sem að framleiðslu sölumjólkur snýr. Ef héraðsdýralæknir telur að fullnægt sé þeim skilyrðum, sem sett eru í reglugerð þessari, skal hann að skoðun lokinni, afhenda framleiðanda fjósaskoðunarvottorð, sem veitir honum leyfi til mjólkursölu. Afrit skulu varðveitt af héraðsdýralækni og viðkomandi afurðastöð. Vottorðin skulu skrifuð á eyðublöð í þríriti sem yfirdýralæknir lætur í té. Gildistími vottorðsins er þar til næsta skoðun fer fram. Óheimilt er að framleiða mjólk til sölu eða taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur gilt fjósaskoðunarvottorð, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 392/1997 um mjólk og mjólkurvörur.

                Komi í ljós að aðstaða mjólkurframleiðanda brýtur í bága við eða fullnægir ekki ákvæðum reglugerðar þessarar skal héraðsdýralæknir krefjast úrbóta skriflega. Héraðsdýralæknir skal gefa framleiðanda hæfilegan, tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Afrit af fyrirmælum þessum skal þegar í stað senda afurðastöð. Héraðsdýralæknir skal gefa heilbrigðisnefnd upplýsingar um málið telji hann þess þörf. Héraðsdýralæknir getur veitt frekari frest til úrbóta ef óviðráðanlegar ástæður hafa tafið þær, svo sem slys eða náttúruhamfarir.

                Hyggist framleiðandi hætta mjólkurframleiðslu fyrir fullt og allt má veita honum undanþágu í allt að 6 mánuði, án þess að úrbætur fari fram. Þegar veittur er tímabundinn frestur skal héraðsdýralæknir afhenda framleiðanda vottorð er veiti honum undanþágu til sölu á mjólk, en aðeins á meðan á hinum tilskilda fresti stendur. Afrit þessa vottorðs skal senda afurðastöð. Eldra fjósaskoðunarvottorð dýralæknis fellur þá sjálfkrafa úr gildi. Jafnskjótt og úrbótum er lokið skal framleiðandi tilkynna það héraðsdýralækni. Nú telur héraðsdýralæknir eftir að veittur frestur er liðinn, að enn sé ástand í fjósi mjólkurframleiðanda óviðunandi, þar sem ekki hafi verið sinnt ítrekuðum kröfum eða þeim eigi sinnt á viðunandi hátt, þá skal héraðsdýralæknir veita stuttan lokafrest. Hafi viðhlítandi úrbætur ekki verið gerðar að lokafresti liðnum, skal mjólkursala stöðvuð. Héraðsdýralæknir skal tafarlaust senda skýrslu um veittan lokafrest og kröfu um stöðvun á móttöku mjólkur og aðdraganda hennar til viðkomandi afurðastöðvar og yfirdýralæknis.

                Verði héraðsdýralæknir þess var, að svo mikið sé áfátt heilbrigði mjólkurkúa, umgengni, þrifnaði eða mjólkinni sé spillt í meðferð að hætta geti stafað af fyrir neytendur t.d. vegna bráðra smitsjúkdóma, þá skal héraðsdýralæknir þegar í stað stöðva sölu mjólkur frá því kúabúi og láta framleiðanda í té rökstudd, skrifleg fyrirmæli um það. Fjósaskoðunarvottorð dýralæknis fellur sjálfkrafa úr gildi meðan á slíkri sölustöðvun stendur. Í slíkum tilvikum skal héraðsdýralæknir tafarlaust tilkynna afurðastöð um ákvörðun sína og krefjast þess, að hætt verði móttöku mjólkur frá viðkomandi kúabúi uns úrbætur hafa farið fram eða sjúkdómur afstaðinn. Héraðsdýralæknir skal senda yfirdýralækni greinargerð um málið. Afurðastöð er skylt að taka til greina fyrirmæli héraðsdýralæknis um tímabundið sölubann og tilkynna framleiðanda tafarlaust að móttaka mjólkur frá honum sé stöðvuð. Ákvörðun héraðsdýralæknis um sölustöðvun er heimilt að áfrýja þegar í stað til úrskurðar yfirdýralæknis. Hafi bann verið lagt við sölu mjólkur frá framleiðanda um stundarsakir, skal héraðsdýralæknir fylgjast með því hvað líður gangi sjúkdóms sé slíku til að dreifa. Þegar héraðsdýralæknir telur fært, að undangenginni athugun, að heimila sölu mjólkur á nýjan leik, skal hann án tafar tilkynna framleiðanda það, viðkomandi afurðastöð og yfirdýralækni með bréfi. Skal héraðsdýralæknir þá láta framleiðanda í té nýtt fjósaskoðunarvottorð, er heimilar sölu mjólkur að nýju.

                Framleiðanda er skylt að leyfa eftirtöldum eftirlitsmönnum aðgang að kúabúi sínu til skoðunar hvenær sem óskað er, hvort sem um er að ræða reglubundið eftirlit eða skoðun að gefnu tilefni: Yfirdýralækni, héraðsdýralæknum, dýralækni júgursjúkdóma og mjólkureftirlitsmönnum. Nú neitar framleiðandi ofangreindum eftirlitsaðilum leyfis til skoðunar og skal þá eftirlitsmaður samstundis kæra það til viðkomandi lögreglustjóra eða sýslumanns og krefjast þess að afurðastöðin stöðvi móttöku mjólkur frá viðkomandi framleiðanda um stundarsakir.

 

13. gr.

Leyfi til nautakjötsframleiðslu og uppeldis á ungviði til mjólkurframleiðslu.

                Héraðsdýralæknar skulu hver á sínu svæði skoða a.m.k. árlega, aðstöðu, aðbúnað og kanna heilbrigðisástand nautgripa á þeim búum þar sem fram fer uppeldi kálfa og nautgripa til nautakjöts- eða mjólkurframleiðslu en sölumjólk er ekki framleidd.

                Telji héraðsdýralæknir að þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerð þessari sé fullnægt skal hann að skoðun lokinni afhenda framleiðandanum vottorð sem veitir honum leyfi til framleiðslu á nautakjöti og uppeldi á ungviði til mjólkurframleiðslu þar til næsta skoðun fer fram. Afrit skal varðveitt af héraðsdýralækni. Vottorðin skulu skrifuð á eyðublöð í þríriti sem yfirdýralæknir lætur í té. Afrit af vottorðinu skal lagt inn til sláturleyfishafa eða fylgja gripum af búinu til slátrunar.

 

14. gr.

Sjúkdómar og lyfjameðhöndlun.

                Við lyfjagjöf og sölu á lyfjum er dýralækni skylt að sjá til þess að útskolunartími viðkomandi lyfja sé umráðamanni gripanna kunnur. Gripir sem meðhöndlaðir hafa verið með lyfjum sem áhrif hafa á neysluhæfi afurða skulu merktir á tryggilegan hátt meðan á meðhöndlun stendur og þar til útskolunartíma lyfjanna er lokið og afurðir eru hæfar til manneldis á ný.

                Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur á nautgripabúi eða grunur um slíkan sjúkdóm skal dýralæknir búsins þegar í stað tilkynna það yfirdýralækni.

 

15. gr.

Skráning nautgripa og sjúkdóma.

                Umráðamaður nautgripa skal sjá um að allir gripir búsins séu plötumerktir í eyra með raðnúmerum eða á annan viðurkenndan hátt. Jafnframt skal hann halda nákvæma skýrslu á þar til gerð eyðublöð, sem héraðsdýralæknir lætur í té, um heilsufar einstakra gripa, aðgerðir og þá lyfjameðferð sem hann framkvæmir. Skýrslur þessar skulu ávallt vera aðgengilegar fyrir héraðsdýralækna.

                Dýralæknum er skylt í lok hverrar vitjunar að skrá á staðnum upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meðhöndlun og lyfjanotkun. Þetta skal gert fyrir hvern grip þegar það á við. Einnig skal hann skrá leiðbeiningar um framhaldsmeðferð og nýtingu afurða. Þessar upplýsingar skulu afhentar umráðamanni gripanna en afrit varðveitt af viðkomandi dýralækni. Upplýsingar þessar skulu ávallt vera aðgengilegar fyrir yfirdýralækni og dýralækni júgursjúkdóma.

                Árlega skulu héraðsdýralæknar semja yfirlitsskýrslu um fjósaskoðun og júgursjúkdóma mjólkurkúa á eyðublöð sem yfirdýralæknir lætur þeim í té og skal skýrslan send honum fyrir 1. júlí ár hvert.

 

16. gr.

Samvinna kúabús, mjólkurstöðvar og sláturhúss.

                Afurðastöð skal sjá um að upplýsingar er varða mjólkurgæði séu varðveittar og niðurstöður sendar viðkomandi framleiðanda eins fljótt og unnt er eftir að þær liggja fyrir.

                Sláturleyfishafi skal sjá um að skýrslur kjötskoðunardýralæknis um sjúkdóma og sjúkdómseinkenni séu geymdar og niðurstöður sendar viðkomandi framleiðanda reglulega.

                Forráðamaður skal halda skrá um alla aðfengna gripi og gripi sem látnir eru til lífs, slátrað eða misfarast. Héraðsdýralæknir, dýralæknir júgursjúkdóma og búfjáreftirlitsmaður skulu hafa aðgang að þessum upplýsingum.

 

17. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

                Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

 

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum um búfjárhald nr. 46/1991, lögum um dýralækna nr. 77/1981 með síðari breytingum og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og öðlast gildi 1. janúar 1998.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

                Heimilt er að veita undanþágu til allt að sex ára frá gildistöku reglugerðar þessarar hvað varðar fullbyggð fjós og aðstöðu vegna einstakra krafna í reglugerðinni, sem erfitt og kostnaðarsamt er að uppfylla. Þessi undanþága gildir ekki um ákvæði 10. og 11. gr. Héraðsdýralæknir leggur fram tillögur sínar um undanþágur ásamt rökum til yfirdýralæknis, sem synjar eða veitir umbeðnar undanþágur. Í sérstökum tilfellum er heimilt að veita lengri aðlögunartíma en þó aldrei lengur en til 10 ára.

                Ákvæði 1. málsl. 15. gr. taka ekki gildi fyrr en við lögfestingu ákvæða um skyldumerkingu nautgripa.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 1. desember 1997.

 

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

 

 

VIÐAUKI 1

 

Básastærðir (lágmarksmál):

 

Mesta þyngd

Básar, sem gripir eru festir/bundnir á

Legubásar gripa í lausgöngufjósi

 

kg

lengd

breidd

lengd

breidd

 

 

m

m

m

m

Geldneyti

200

1,20

0,80

1,50

0,75

Geldneyti

300

1,30

0,90

1,70

0,85

Geldneyti

400

1,40

1,00

1,90

0,95

Mjólkurkýr

450

1,40

1,05

2,00

1,05

Mjólkurkýr

500

1,45

1,10

2,10

1,10

                                                               

Báslengd: Mæld frá aftanverðum jötukanti að flór.

Básbreidd: Mæld frá miðju milligerða.

Mesta hæð jötukants frá básgólfi: 20 cm.

Fóðurgangur (jata) sé a.m.k. 6 cm hærri en básgólf (mælt fremst í bás).

Halli á bás sé 2-3%.

Flórristar: Breidd teina: 16 mm. Rifubreidd: 36 mm.

 

Stíustærð/rýmisþörf í stíu (lágmarksmál):

 

Mesta þyngd gripa

Einstaklingsstía

Fjöldastía

 

 

lengd

breidd

m²/grip

 

 

 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica