REGLUGERÐ
um varnir gegn útbreiðslu hundapestar.
1. gr.
Ef hundapestar (canin distemper) verður vart eða grunur leikur á að þessi veiki sé komin upp, skal eigandi eða umráðamaður hundsins tafarlaust tilkynna það viðkomandi hreppstjóra. Skal hreppstjóri án tafar kveða til dýralækni til að ganga úr skugga um, hvort um hundapest er að ræða eða ekki.
2. gr.
Hreppstjórar skulu í samráði við dýralækni sjá um, að öllum hundum, sem sýkjast af hundapest, verði lógað án tafar og hræin grafin. Sama máli gegnir um hunda, sem vitað er að haft hafa náin samgang við hunda veika af hundapest, svo ástæða er til að ætla að þeir hafi smitazt.
3. gr.
Öllum flækingshundum skal eytt eins fljótt og við verður komið.
4. gr.
Bæli sjúkra hunda skulu eydd með eldi og staðurinn sótthreinsaður samkvæmt fyrirsögn dýralæknis.
Á þeim bæjum, þar sem hundar hafa drepizt eða verið drepnir vegna hundapestar, er óheimilt að hafa hunda næstu þrjá mánuði á eftir.
5. gr.
Hundaeigendur skulu fylgjast vel með heilbrigði hunda sinna, og tilkynna hreppstjóra tafarlaust, ef þeir veikjast með þeim hætti, að um hundapest geti verið að ræða.
Hreppstjórar skulu fylgjast með því eins vel og kostur er, hvort hundapest komi upp í umdæmi þeirra.
Komi fram grunur um hundapest, skulu þeir tilkynna það án tafar viðkomandi dýralækni og sýslumanni.
6. gr.
Þegar hundapestar verður vart, er heimilt að fyrirskipa bann á samgöngum hunda um tiltekinn tíma. Skulu hundaeigendur á þeim svæðum, er bannið nær til, gæta þess, að halda hundum sínum heima, forðast að þeir hafi samgang við aðra hunda, og hafa þá aldrei með sér utan heimilis. Ef út af ber, eru hundar þeirra réttdræpir.
7. gr.
Ónæmisaðgerðir gegn hundapest má eingöngu framkvæma samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis.
8. gr.
Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða sektum. Sektir renna í ríkissjóð.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um dýralækna nr. 124 22. desember 1947, og lögum nr. 11 23. apríl 1928, sbr. lög nr. 16 31. janúar 1952, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hluta eiga að máli.
Jafnframt fellur út gildi reglugerð nr. 177 frá 24. október 1941.
Landbúnaðarráðuneytið, í. október 1966
F. h. r.
Gunnlaugur E. Briem.
Þorv. K. Þorsteinsson.