Greiða skal gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð, sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, ásamt síðari breytingum. Gjaldið miðast við raunkostnað við heilbrigðiseftirlitið.
Gjaldið greiðist skv. innvegnu magni kjöts í afurðastöð í samræmi við framleiðsluskýrslur sláturleyfishafa til Bændasamtaka Íslands. Sláturleyfishafa er skylt að skila undirritaðri framleiðsluskýrslu mánaðarlega fyrir 15. hvers mánaðar fyrir framleiðslu liðins mánaðar. Framleiðsluskýrsla skal undirrituð af framkvæmdastjóra eða af öðrum aðila fyrir hans hönd.
Bændasamtök Íslands skulu skila til álagningaraðila, sem er embætti yfirdýralæknis, framleiðslutölum hvers tímabils eigi síðar en 20. hvers mánaðar fyrir liðinn mánuð.
Gjaldið skal standa straum af eftirtöldum þáttum í heilbrigðiseftirliti sláturafurða:
a. | Launum og ferðakostnaði kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólks þeirra. | |
b. | Kostnaði við töku eftirfarandi sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra: | |
1. | hálsaskinnssýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna innleggs allra alifuglaframleiðenda, til rannsókna vegna Salmonella; | |
2. | botnlangasýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna innleggs allra alifuglaframleiðenda, til rannsókna vegna kampýlóbakter; | |
3. | vöndulsýna eða kjötsafasýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna innleggs allra svínaframleiðenda, til rannsókna vegna Salmonella; | |
4. | kjötsýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna útflutnings til Evrópusambandsins á innleggi allra hrossakjötsframleiðenda, til rannsókna vegna Tríkína; | |
5. | sýna sem tekin eru af búnaði sláturhúsa. | |
c. | Rannsóknum á sýnum vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnun í sláturafurðum. | |
d. | Nauðsynlegu námskeiðahaldi fyrir kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólk þeirra, til viðhaldsmenntunar og samræmingar eftirlits milli afurðastöðva. |
Gjaldið tekur ekki til greiðslu á öðrum kostnaði við heilbrigðiseftirlit en að ofan greinir. Kostnaður vegna viðbótarsýna eða prófana sem framleiðandi á búi þar sem greinst hefur smitefni er ógnar matvælaöryggi kann að óska eftir greiðist af viðkomandi framleiðanda. Beiðni um viðbótarsýnatökur skal vera skrifleg.
Sláturleyfishafa er skylt að standa skil á gjaldi eftir lok hvers tímabils þannig að fyrir framleiðslu hvers mánaðar skal gjalddagi vera 10. dag þar næsta mánaðar á eftir. Gjalddagi fyrir framleiðslu í janúar skal þannig vera 10. mars, o.s.frv.
Sé gjaldið ekki greitt innan 15 daga frá gjalddaga skal innheimta hæstu dráttarvexti sem lög leyfa frá gjalddaga til greiðsludags skv. ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Embætti yfirdýralæknis annast innheimtu álagðra gjalda skv. reglugerð þessari í umboði landbúnaðarráðherra. Rísi ágreiningur um gjaldskyldu eða önnur atriði er varða framkvæmd reglugerðarinnar sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.
Öll gjöld skv. reglugerð þessari má innheimta með fjárnámi.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 21. gr. laga nr. 96/1997, með síðari breytingum. Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.
Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Með setningu reglugerðar þessarar er jafnframt felld úr gildi reglugerð um sama efni nr. 708/1996.