Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins við innflutning á gæludýrum og hundasæði.
Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd merkingu sem hér segir:
a) | Innflutningsleyfi, leyfi til innflutnings á gæludýri eða hundasæði, útgefið af landbúnaðarráðuneytinu. |
b) | Heilbrigðis- og upprunavottorð, eyðublað útgefið af yfirdýralækni sem dýralæknir í útflutningslandi notar til að staðfesta heilbrigði og uppruna viðkomandi gæludýrs eða hundasæðis. |
c) | Gæludýr eru hundar, kettir, skrautfiskar, vatnadýr, nagdýr, kanínur og búrfuglar. |
d) | Lönd án hundaæðis, lönd sem eru skilgreind sem slík af WHO (World Health Organisation) á hverjum tíma. |
e) | Lönd með hundaæði, lönd sem eru skilgreind sem slík af WHO (World Health Organisation) á hverjum tíma. |
f) | Einangrunarstöð er aðstaða viðurkennd af yfirdýralækni, þar sem hundar og kettir eru vistaðir meðan rannsakað er hvort dýrin eru haldin smitsjúkdómi. |
g) | Sóttkví er aðstaða, viðurkennd af yfirdýralækni, til einangrunar fiska, vatnadýra, nagdýra, kanína og búrfugla sem uppfyllir skilyrði reglugerðar um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr og, þar sem dýr eru vistuð meðan rannsakað er hvort þau eru haldin smitsjúkdómi. |
h) | Innflutningsstaður er flugvöllur sem hefur á að skipa aðstöðu sem uppfyllir skilyrði VII. kafla þessarar reglugerðar og samþykkt hefur verið af yfirdýralækni. |
i) | Sóttvarnaraðstaða er aðstaða fyrir dýr á innflutningsstað. |
j) | Héraðsdýralæknir er starfsmaður yfirdýralæknis sem skipaður hefur verið til starfsins eftir ákvæðum reglugerðar um embætti yfirdýralæknis nr. 782/1999. |
Innflutningur á gæludýrum og hundasæði er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.
Innflytjandi skal sækja um innflutningsleyfi til landbúnaðarráðuneytisins á þar til gerðu umsóknareyðublaði.
Innflytjandi skuldbindur sig og staðfestir með undirskrift sinni á umsóknareyðublað að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir setja sem skilyrði til innflutnings og einangrunar.
Óheimilt er að flytja inn gæludýr til landsins í trébúrum. Nánari reglur um gerð búra skulu settar af yfirdýralækni.
Innflutningsleyfi fiska og vatnadýra eru háð samþykki fisksjúkdómanefndar, skv. 80. gr. laga nr. 76/1970, um lax og silungsveiði, ásamt síðari breytingum.
Innflutningsleyfi gildir í allt að eitt ári frá útgáfudegi.
Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er fylgi dýrinu/hundasæðinu við innflutning og ber hann allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. nauðsynlegum sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.
Öllum gæludýrum og hundasæði sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal fylgja heilbrigðis- og upprunavottorð.
Yfirdýralæknir gefur út eyðublöð fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem nota skal við innflutninginn.
Vottorðið skal vera rétt útfyllt og skal sá dýralæknir, sem útfyllir það og staðfestir með undirritun sinni, hafa starfsleyfi í útflutningslandinu. Vottorðið gildir í 10 daga frá útgáfudegi.
Auk heilbrigðis- og upprunavottorðs, skal gæludýrum og hundasæði sem heimilað hefur verið að flytja til landsins, fylgja eftirtalin vottorð, þar sem við á:
i) | Staðfesting rannsóknarstofu á niðurstöðum blóðrannsóknar á hundaæðismótefnum, skv. 11. og 14. gr. |
ii) | Niðurstöður skapgerðarmats, skv. 12. og 15. gr. |
Viku fyrir áætlaðan komudag dýrs eða hundasæðis til landsins skal innflytjandi senda yfirdýralækni, með símbréfi, til umsagnar og samþykktar öll tilskilin vottorð, skv. 5. gr.
Yfirdýralæknir tilkynnir innflytjanda, héraðsdýralækni og viðkomandi einangrunarstöð, ef við á, umsögn sína að minnsta kosti þremur virkum dögum fyrir áætlaðan komudag.
Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr og hundasæði til Íslands um innflutningsstað eins og hann er skilgreindur í reglugerð þessari. Yfirdýralæknir skal taka út og samþykkja sóttvarnaraðstöðu á innflutningsstað áður en heimilt er að flytja gæludýr og hundasæði til landsins um innflutningsstaðinn.
Innflutningur á gæludýrum og hundasæði með skipum er óheimill.
Héraðsdýralæknir skoðar öll dýr við komuna til landsins á innflutningsstað og sannreynir að þau sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og jákvæða umsögn yfirdýralæknis og að frumrit allra tilskilinna vottorða fylgi. Sama gildir um hundasæði eftir því sem við á.
Komi í ljós að skilyrðum reglugerðar þessarar sé ekki framfylgt í hvívetna fellur innflutningsleyfið samstundis úr gildi og verður dýrið/hundasæðið sent úr landi til sama lands og það kom frá, sé þess kostur, en dýrið aflífað ella og hræinu/hundasæðinu eytt, bótalaust og á kostnað eiganda.
Eftir að innflytjandi hefur fengið innflutningsleyfi, sbr. 3. gr., skal hann sjálfur panta rými fyrir dýrið í einangrunarstöð. Þegar dagsetning innflutnings liggur fyrir skal innflytjandi leggja fram staðfestingu frá viðkomandi einangrunarstöð til yfirdýralæknis. Hunda og ketti sem heimilað hefur verið að flytja til landsins og uppfylla skilyrði I. kafla reglugerðar þessarar, skal við komuna til landsins flytja rakleiðis í einangrunarstöð þar sem dýrin skulu dvelja í 4 vikur.
Í einangrunarstöð skal taka sýni til rannsókna á smitsjúdómum skv. fyrirmælum yfirdýralæknis hverju sinni.
Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði, sbr. 5. gr.:
1) | Útflutningsland: Dýrið skal hafa dvalið í útflutningslandi síðustu sex mánuði fyrir innflutning. |
2) | Hundategund/kattategund. |
3) | Eigandi/umboðsmaður/innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer, auk faxnúmers og netfangs ef við á. |
4) | Örmerking: Merkja skal dýrið með örmerki sem uppfyllir FECAVA- eða ISO staðla áður en það er heilbrigðisskoðað, bólusett, sýni tekin eða það meðhöndlað. Merkja má dýrið með öðru örmerki ef eigandi leggur til lesara. |
5) | Fæðingardagur: Dýrið skal vera að minnsta kosti fimm mánaða gamalt við komu til landsins. |
6) | Nafn dýrs. |
7) | Smitsjúkdómar: |
a) | Heilbrigðisskoðun: Við heilbrigðisskoðun á síðustu 10 dögum fyrir innflutning má dýrið ekki hafa sýnt nein einkenni smitsjúkdóms. | |
b) | Bólusetningar: |
i) | Bólusetning gegn hundaæði (rabies) – hundar og kettir: | ||
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda og ketti sem koma frá landi með hundaæði, sbr. e-lið 2. gr., með deyddu bóluefni gegn hundaæði. Dýrin skulu vera að minnsta kosti 12 vikna gömul við fyrstu bólusetningu. | |||
Mæla skal magn mótefnis í blóði í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það vera að minnsta kosti 0,5 a.e./ml. Sé það lægra er óheimilt að flytja dýrið til landsins. Mælingarnar skulu framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu á EES-svæðinu eða í Bandaríkjunum. | |||
Óheimilt er að flytja hunda og ketti til landsins fyrr en 120 dagar eru liðnir frá því þeir voru fyrst bólusettir gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minsta kosti 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið inn 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu. | |||
ii) | Bólusetning gegn leptóspírósu (leptospirosis) – hundar: | ||
Á síðustu 180 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda með deyddu bóluefni gegn leptóspírósu og skulu þeir vera að minnsta kosti 12 vikna gamlir við fyrstu bólusetningu. | |||
Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn leptospírósu. | |||
iii) | Bólusetning gegn hundafári (canine distemper) – hundar: | ||
Á síðustu 730 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda gegn hundafári. | |||
Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn hundafári fyrir 12 vikna aldur, skulu bólusettir þrisvar, með fjögurra vikna millibili. Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn hundafári við eða eftir 12 vikna aldur, skulu bólusettir tvisvar, með fjögurra vikna millibili. | |||
Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn hundafári. | |||
iv) | Aðrar bólusetningar – hundar: | ||
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda með deyddu bóluefni gegn eftirtöldum tveimur sjúkdómum: | |||
(1) smitandi lifrarbólgu (hepatitis contagiosa canis) | |||
(2) smáveirusótt (parvovirus). | |||
Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn smitandi lifrarbólgu og/eða smáveirusótt fyrir 12 vikna aldur, skulu bólusettir þrisvar, með fjögurra vikna millibili. Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn smitandi lifrarbólgu og/eða smáveirusótt við eða eftir 12 vikna aldur, skulu bólusettir tvisvar, með fjögurra vikna millibili. | |||
Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt. | |||
v) | Aðrar bólusetningar – kettir: | ||
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja ketti með deyddu bóluefni gegn eftirtöldum þremur sjúkdómum: | |||
(1) kattafári (feline panleukopenia) | |||
(2) kattaflensu (rhinotracheitis) | |||
(3) kattakvefi (Feline calicivirus). | |||
Kettir sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn kattafári/kattaflensu/kattakvefi fyrir 12 vikna aldur, skulu bólusettir þrisvar, með fjögurra vikna millibili. Kettir sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn kattafári/kattaflensu/kattakvefi við eða eftir 12 vikna aldur, skulu bólusettir tvisvar, með fjögurra vikna millibili. | |||
Óheimilt er að flytja ketti til landsins, fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn kattafári, kattaflensu og kattakvefi. |
c) | Rannsóknir: |
i) | Blóðrannsókn vegna brúsellósu (brucellosis) – hundar: | ||
Innan 21 dags fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á Brucella canis. | |||
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið inn. | |||
ii) | Blóðrannsókn vegna kattaalnæmis (Feline immunodeficiency virus) – kettir: | ||
Innan 21 dags fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á kattaalnæmi. | |||
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins. | |||
iii) | Blóðrannsókn vegna kattahvítblæðis (Feline leukemia virus) – kettir: | ||
Innan 21 dags fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á kattahvítblæði. | |||
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins. | |||
iv) | Rannsókn vegna salmonellu - hundar og kettir: | ||
Innan 21 dags fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á Salmonella-sýklum. | |||
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins, nema áhættan við innflutning sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis. |
d) | Meðhöndlun. |
i) | Meðhöndlun gegn bandormum: | ||
Á síðustu 10 dögum fyrir innflutning skal meðhöndla hunda og ketti gegn bandormum (Echinococcus multilocularis, Echinococcus granulosus). | |||
ii) | Meðhöndlun gegn útvortis sníkjudýrum: | ||
Á síðustu 10 dögum fyrir innflutning skal meðhöndla hunda og ketti gegn sníkjudýrum. |
Yfirdýralæknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort krefjast skuli sérstaks skapgerðarmats á hundi sem sótt er um leyfi til að flytja inn. Hann skal taka mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar og leita álits sérfræðinga eftir þörfum.
Skapgerðarmatið skal framkvæmt af sérfræðingi sem hefur viðurkenningu hundaræktarfélags, sem er aðili í Alþjóðasambandi hundaræktarfélaga (FCI), í útflutningslandinu til slíkra prófa.
Standist hundurinn ekki matið er óheimilt að flytja hann til landsins.
Óheimilt er að flytja til landsins:
a) | Hvolpafullar tíkur. |
b) | Kettlingafullar læður. |
c) | Tíkur með hvolpa á spena. |
d) | Læður með kettlinga á spena. |
e) | Dýr sem hafa undirgengist aðgerðir fyrir innflutning og þarfnast eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi. |
f) | Hunda og sæði hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim: |
1. | Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier. | |
2. | Fila Brasileiro. | |
3. | Toso Inu. | |
4. | Dogo Argentino. |
g) | Blendinga af úlfum og hundum, svo og sæði blendinga af úlfum og hundum. |
Komi í ljós við komu dýrs til landsins að ákvæði a-g liðar eigi við um dýr sem komið er á innflutningsstað skal fara eftir ákvæðum 9. gr. þessarar reglugerðar.
Innflutningur á djúpfrystu hundasæði í þar til gerðum stráum er heimill að uppfylltum neðangreindum skilyrðum. Óheimilt er að flytja til landsins ófrosið hundasæði.
Um komu hundasæðis til landsins og eftirlit á innflutningsstað fer eftir ákvæðum 6. - 8. gr. reglugerðar þessarar.
Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði, sbr. 5. gr.:
1) | Útflutningsland: Sæðisgjafinn skal hafa dvalið í útflutningslandi síðustu sex mánuði fyrir sæðistöku. |
2) | Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer innflytjanda, auk faxnúmers og netfangs ef við á. |
3) | Eigandi sæðisgjafa eða umboðsmaður: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk faxnúmers og netfangs ef við á. |
4) | Örmerking: Sæðisgjafi skal vera örmerktur áður en sæðistaka, bólusetningar og blóðpróf fara fram. |
5) | Nafn, tegund og fæðingardagur sæðisgjafa. |
6) | Dagsetning sæðistöku. |
7) | Dýralæknir sem undirritar vottorðið skal hafi tekið sæðið eða verið viðstaddur töku þess. |
8) | Smitsjúkdómar: |
a) | Heilbrigðisskoðun: Við heilbrigðisskoðun við sæðistöku skal sæðisgjafi ekki hafa sýnt nein einkenni smitsjúkdóms. | |
b) | Bólusetningar: |
i) | Bólusetning gegn hundaæði (rabies): | ||
Komi sæðið frá landi með hundaæði, sbr. e-lið 2. gr., skal sæðisgjafi bólusettur með deyddu bóluefni á síðustu 365 dögum fyrir sæðistöku, og hafa verið að minnsta kosti 12 vikna gamall við bólusetningu. | |||
Mæla skal magn mótefnis í blóði í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það vera að minnsta kosti 0,5 a.e./ml. Mælingarnar skulu framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu á EES-svæðinu eða í Bandaríkjunum. | |||
Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 120 daga frá því hann var fyrst bólusettur gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minnsta kosti 0,5 a.e./ml, er heimilt að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið er 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu. | |||
ii) | Bólusetning gegn leptóspírósu (leptospirosis): | ||
Á síðustu 180 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa með deyddu bóluefni gegn leptóspírósu, og skal hann vera að minnsta kosti 12 vikna gamall við fyrstu bólusetningu. | |||
Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn leptospírósu. | |||
iii) | Bólusetning gegn hundafári (canine distemper): | ||
Á síðustu 730 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa gegn hundafári. | |||
Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn hundafári fyrir 12 vikna aldur, skulu bólusettir þrisvar, með fjögurra vikna millibili. Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn hundafári við eða eftir 12 vikna aldur, skulu bólusettir tvisvar, með fjögurra vikna millibili. | |||
Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn hundafári. | |||
iv) | Aðrar bólusetningar: | ||
Á síðustu 365 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa með deyddu bóluefni gegn eftirtöldum tveimur sjúkdómum: | |||
(1) smitandi lifrarbólgu (hepatitis contagiosa canis) | |||
(2) smáveirusótt (parvovirus). | |||
Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn smitandi lifrarbólgu og/eða smáveirusótt fyrir 12 vikna aldur, skulu bólusettir þrisvar, með fjögurra vikna millibili. Hundar sem bólusettir eru í fyrsta sinn gegn smitandi lifrarbólgu og/eða smáveirusótt við eða eftir 12 vikna aldur, skulu bólusettir tvisvar, með fjögurra vikna millibili. | |||
Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt. |
c) | Rannsóknir | |
Blóðrannsókn vegna brúsellósu (Brucellosis): | ||
Á síðustu þremur vikum fyrir sæðistöku skal taka blóðsýni til rannsókna á Brucella canis. | ||
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja sæði úr hundinum til landsins. | ||
d) | Náttúruleg pörun: | |
Óheimilt er að nota sæðisgjafa í náttúrulega pörun frá því blóðpróf voru tekin og fram að sæðistöku. |
Yfirdýralæknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort krefjast skuli sérstaks skapgerðarmats á sæðisgjafa sem sótt er um leyfi til að flytja inn sæði úr. Hann skal taka mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar og leita álits sérfræðinga eftir þörfum.
Skapgerðarmatið skal framkvæmt af sérfræðingi sem hefur viðurkenningu hundaræktarfélags, sem er aðili í Alþjóðasambandi hundaræktarfélaga (FCI), í útflutningslandinu til slíkra prófa.
Standist hundurinn ekki matið er óheimilt að flytja sæði úr honum til landsins.
Sæði skal geymt í innsigluðum höggþéttum umbúðum sem merkt er númeri örmerkis sæðisgjafa, nafni hans og uppruna.
Einungis dýralæknum með starfsleyfi á Íslandi er heimilt að sæða tíkur með innfluttu sæði. Tíkur sem sæddar hafa verið með innfluttu sæði er óheimilt að para á sama gangmáli.
Dýralæknir sem sæðir tík með innfluttu sæði skal tilkynna um það til yfirdýralæknis.
Láti tíkin eða veikist eftir sæðingu eða á meðgöngu skal eigandi tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni. Fóstur og fylgjur eftir fósturlát skal varðveita og þeim komið til héraðsdýralæknis til rannsóknar.
Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði sbr. 5. gr.:
a) | Útflutningsland skrautfiskanna/vatnadýranna. |
b) | Eigandi/innflytjandi skrautfiskanna/vatnadýranna: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk faxnúmers og netfangs ef við á. |
c) | Fisktegund/dýrategund. |
d) | Smitsjúkdómar: Fiskarnir/vatnadýrin skulu ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms sem borist getur í nytjafisk. |
Skrautfiskum og vatnadýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun frá öðrum fiskum og vatnadýrum fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sjá nánar um sóttkví í reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr.
Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði fyrir nagdýr og kanínur sbr. 5. gr.:
a) | Útflutningsland nagdýrs eða kanínu. |
b) | Eigandi/innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk faxnúmers eða netfangs ef við á. |
c) | Dýrategund. |
d) | Smitsjúkdómar: Dýrið skal ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms. |
e) | Salmonella: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á salmonellu. Reynist sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis. |
Nagdýrum og kanínum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sjá nánar um sóttkví í reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr.
Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði, sbr. 5. gr.:
a) | Útflutningsland búrfugls. |
b) | Eigandi/innflytjandi búrfugls: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk faxnúmers og netfangs ef við á. |
c) | Fuglategund. |
d) | Smitsjúkdómar: Búrfuglinn skal ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms. |
e) | Salmonella: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á salmonellu. Reynist sýnið jákvætt er óheimilt að flytja búrfuglinn til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis. |
f) | Paramyxoviridae: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á mótefnum gegn paramyxoveirum (Newcastle disease). Reynist sýnið jákvætt er innflutningur óheimill. |
Búrfuglum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sjá nánar um sóttkví í reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr.
Á innflutningsstað skal vera sóttvarnaraðstaða til að vista dýr í stuttan tíma við komu þeirra til landsins og þegar um millilendingu er að ræða. Í sóttvarnaraðstöðu skulu vera eitt eða fleiri herbergi, þannig útbúin að dýr geti ekki sloppið út úr þeim. Í því skyni skal vera forstofa framan við hvert herbergi. Bæði dyr inn í forstofuna og í herbergið skulu vera sjálflokandi. Herbergin skulu merkt greinilega þannig að fram komi að um sóttvarnaraðstöðu sé að ræða og að óviðkomandi sé óheimill aðgangur. Yfirborð veggja og gólfs herbergjanna skal vera auðvelt að þrífa en gólf má ekki vera hált. Herbergin skulu vera vel loftræst og skulu dýr hafa aðgang að hreinu vatni. Í hverri forstofu skal vera handlaug, handsápa og pappírsþurrkur.
Ávallt skal skipa einn ábyrgðarmann fyrir sóttvarnaraðstöðu og skal ætíð vera hægt að ná í hann í síma. Tilkynna ber nafn og símanúmer hans til héraðsdýralæknis. Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að starfsmaður sé ávallt í aðstöðunni þegar dýr eru vistuð þar.
Dýr skulu flutt rakleiðis í sóttvarnaraðstöðu við komu til landsins, þar sem tollverðir og héraðsdýralæknir skoða dýrið og innflutningsleyfi þess. Ábyrgðarmaður skal tryggja að dýr séu vistuð í sóttvarnaraðstöðu við komu til landsins, þar til þau eru sótt af flutningsaðila sem uppfyllir skilyrði reglugerðar um einangrunarstöðvar.
Dýrum má ekki hleypa út úr búrum sínum fyrr en þau eru komin inn í herbergi í sóttvarnaraðstöðu.
Ábyrgðarmaður skal tryggja að aðeins eftirtöldum aðilum sé leyfður aðgangur að sóttvarnaraðstöðu:
- starfsfólki sóttvarnarstöðvarinnar
- flutningsaðilum
- héraðsdýralækni
- aðilum á vegum yfirvalda svo sem starfsmönnum tollgæslu.
Aðrir aðilar en taldir eru upp hér að ofan þurfa sérstakt skriflegt leyfi héraðsdýralæknis til að fá aðgang að sóttvarnaraðstöðu.
Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að allir skrifi nafn sitt, dagsetningu og tíma í hvert sinn sem þeir fara inn og út úr sóttvarnaraðstöðu. Sé viðkomandi ekki starfsmaður, skal hann gefa upp kennitölu sína. Skráningarnar skulu geymdar í 6 mánuði. Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að allt starfsfólk fái fræðslu um afleiðingar hundaæðis og varnir gegn smiti. Starfsfólk skal einnig uppfrætt um þær reglur sem gilda ef hundur strýkur úr einangrun og ef óviðkomandi fólk fer inn í sóttvarnaraðstöðu.
Ábyrgðaraðili skal tilkynna héraðsdýralækni um bit og klór dýra í sóttvarnaraðstöðu og tryggja að sá sem er bitinn eða klóraður fái læknisaðstoð.
Týnist dýr eða strjúki skal ábyrgðaraðili gera héraðsdýralækni viðvart, án tafar.
Ábyrgðaraðili skal tryggja að allt starfsfólk klæðist hlífðarfatnaði þegar það er inni í sóttvarnaraðstöðu. Hlífðarfatnaðurinn skal skilinn eftir í forstofu herbergjanna og ávallt skal fyllsta hreinlætis gætt.
Sóttvarnaraðstöðu skal ávallt haldið hreinni og snyrtilegri. Aðstaðan skal þrifin og sótthreinsuð strax eftir að dýr hafa verið sótt, sem og öll tæki og tól sem notuð hafa verið. Búr sem dýrin koma í skulu geymd inni í herbergjunum á meðan dýrin eru vistuð þar.
Allur úrgangur skal meðhöndlaður samkvæmt ákvæðum reglugerðar um úrgang nr. 805/1999.
Hafi dýrin verið flutt inn á löglegan hátt er heimilt að afhenda þau til flutningsaðila sem leyfi hefur til flutnings dýra á einangrunarstöð, sbr. ákvæði reglugerðar um einangrunarstöðvar.
Hafi dýr verið flutt inn á ólöglegan hátt skal yfirdýralækni gert viðvart og með málið farið samkvæmt ákvæðum laga um innflutning dýra nr. 54/1990, ásamt síðari breytingum.
Ábyrgðarmaður skal tryggja að dýr sem vistað er í sóttvarnaraðstöðu komist ekki í snertingu við önnur dýr, að undanskildum þeim sem það var flutt með til landsins sé því að skipta.
Ef upp koma grunsemdir um að dýr sem dvelur í einangrun sé haldið smitsjúkdómi, er yfirdýralækni heimilt að ákveða að dýr verði vistað lengur en í 4 vikur í einangrunarstöð, sbr. 2. mgr. 10. gr., uns fullljóst er hvort dýrið sé hæft til innflutnings eður ei og ber eigandi dýrsins allan kostnað sem af áframhaldandi einangrun kann að hljótast.
Gjaldtaka vegna kostnaðar við vinnu og eftirlit yfirdýralæknis vegna útgáfu vottorða skv. reglugerð þessari, vegna eftirlits héraðsdýralæknis á innflutningsstað og í einangrunarstöð fer eftir gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneytið setur.
Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir ákvæðum laga. Hinn brotlegi ber allan kostnað vegna brots og getur honum m.a. verið gert að þola bótalaust að dýri eða hundasæði sé fargað eða sent úr landi á hans kostnað.
Með mál sem rísa út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Heimilt er að fara eftir eldri reglum um einangrun hunda og katta í Hrísey fram til 1. janúar 2004.