Garðyrkjuskóli ríkisins er rannsókna- og menntastofnun sem starfar eftir lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Garðyrkjuskólinn hefur höfuðaðsetur á Reykjum í Ölfusi, annast þar staðarhald og varðveitir umhverfi og menningararf staðarins.
Garðyrkjuskóli ríkisins er mennta- og rannsóknastofnun er býður nemendum hagnýtt nám á sviði garðyrkju, skógræktar og umhverfismála. Meginmarkmið Garðyrkjuskólans er að styðja við nýsköpun, framþróun og vöxt í þessum atvinnugreinum þannig að þær geti orðið mikilvægar í atvinnulífi dreifbýlis sem og þéttbýlis. Þetta gerir Garðyrkjuskólinn með öflugu mennta- og rannsóknarstarfi, sem býr einstaklinga undir þátttöku í atvinnulífinu, sjálfstæð vísindastörf eða frekara háskólanám.
Garðyrkjuskólanum er heimilt að veita endurmenntun í þeim fræðigreinum sem kenndar eru við skólann.
Þá skal skólinn veita almenningi fræðslu og þjónustu í krafti þekkingar sinnar.
Kennsla á vegum Garðyrkjuskólans getur verið á framhaldsskólastigi og háskólastigi sbr. 34. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Kennslan fer fram í deildum. Fyrirkomulag kennslu innan hverrar deildar getur verið í formi námsbrauta, sjálfstæðra námskeiða eða í formi endurmenntunar. Skólinn setur sérstakar reglur um form kennslunnar, tilhögun námsins, inntökuskilyrði og próf, sem staðfestar skulu af landbúnaðarráðherra. Tryggt skal að nám til B.S. gráðu sé viðurkennt af háskólum sem veita sambærilegar prófgráður, sbr. 4. gr.
Kennsla á framhaldsskólastigi og háskólastigi skal vera í samræmi við lög og reglur sem um slíka kennslu gilda, sbr. lög um framhaldsskóla nr. 80/1996 og lög um háskóla nr. 136/1997.
Í Garðyrkjuskólanum skal fara fram reglulegt sjálfsmat á innra starfi skólans með stöðugar umbætur í huga í samræmi við reglur nr. 331/1999, um gæðaeftirlit með háskólakennslu. Jafnframt skal undirbúningur námsins og veiting prófgráðu fara fram að höfðu samráði við viðurkenndan háskóla.
Við Garðyrkjuskólann starfa þrjár deildir: garðyrkjuframleiðsludeild, skógræktardeild og umhverfistæknideild. Landbúnaðarráðherra getur heimilað samruna eða stofnun fleiri deilda eða rannsóknastofnana á vegum skólans. Deildirnar skulu hafa með sér náið samstarf, þar á meðal um samnýtingu kennslutækja, starfskrafta og aðstöðu. Deildirnar geta haft náið samstarf við aðrar háskólastofnanir um uppbyggingu námsins, kennslunnar og rannsókna.
Við garðyrkjuframleiðsludeild fer fram kennsla og rannsóknir á sviði garð- og skógarplöntuframleiðslu, ylræktar og útimatjurtaræktunar og blómaskreytinga. Að loknu þriggja ára bóklegu og verklegu námi, sem er á framhaldsskólastigi, útskrifast nemendur sem garðyrkjufræðingar af garð- og skógarplöntubraut eða ylræktar- og útimatjurtabraut, nema á blómaskreytingabraut útskrifast nemendur með lokapróf í blómaskreytingum. Prófgráðan B.S. í garðyrkjuframleiðslu er veitt að loknu 90 eða 120 eininga háskólanámi af garð- og skógarplöntubraut eða ylræktarbraut og útskrifast nemendur þá sem garðyrkjutæknifræðingar. Styttra námi á háskólastigi lýkur með diploma í garðyrkjuframleiðslu.
Við skógræktardeild fer fram kennsla og rannsóknir í skógrækt. Að loknu þriggja ára bóklegu og verklegu námi, sem er á framhaldsskólastigi, útskrifast nemendur sem garðyrkjufræðingar af skógræktarbraut. Prófgráðan B.S. í skógrækt er veitt að loknu 90 eða 120 eininga háskólanámi og útskrifast nemendur þá sem skógfræðingar. Styttra námi á háskólastigi lýkur með diploma í skógtækni.
Við umhverfistæknideild fer fram kennsla og rannsóknir í skrúðgarðyrkju og umhverfistækni. Að loknu þriggja ára bóklegu og verklegu námi á skrúðgarðyrkjubraut eða umhverfisbraut, sem eru á framhaldsskólastigi, útskrifast nemendur sem garðyrkjufræðingar af skrúðgarðyrkjubraut eða umhverfisbraut. Heimilt er að bjóða upp á sérstakt sveinspróf í skrúðgarðyrkju, sem er löggilt iðngrein. Prófgráðan B.S. í skrúðgarðyrkjutækni er veitt að loknu 90 eða 120 eininga háskólanámi af skrúðgarðyrkjubraut og útskrifast nemendur þá sem skrúðgarðyrkjutæknifræðingar. Styttra námi á háskólastigi lýkur með diploma í skrúðgarðyrkjutækni.
Garðyrkjuskólinn sinnir endurmenntun á vettvangi fræða sem kennd eru í deildum skólans. Hver deild skipuleggur endurmenntun á sínu fagsviði og ber ábyrgð á henni. Heimilt er að skipa sérstök fagráð með fulltrúum atvinnulífsins við hverja braut sem er skólanum til ráðgjafar varðandi kennslu, endurmenntun og tilraunir við viðkomandi deild.
Stjórn Garðyrkjuskólans er falin skólanefnd og skólameistara. Skólanefnd er ráðgefandi um skipulag og áherslur, kennslu, rannsóknir og önnur verkefni skólans.
Skólameistari er yfirmaður stjórnsýslu skólans og ber ábyrgð á starfsemi skólans sbr. 30. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Skólameistari ræður kennara og annað starfsfólk stofnunarinnar. Innan skólans starfar deildaráð sem sinnir daglegum rekstri skólans og samræmir starf deilda.
Hverri deild stýra deildarstjórar sem bera ábyrgð á faglegum og fjárhagslegum þáttum deildarinnar. Skólameistari getur falið sérstökum fagstjóra ábyrgð á faglegum og fjárhagslegum þáttum tiltekinnar námsbrautar. Deildarstjórar geta jafnframt verið fagstjórar námsbrauta. Í deildaráði sitja skólameistari, aðstoðarskólameistari, endurmenntunarstjóri, deildarstjórar deilda, fagstjórar hverrar námsbrautar og fjármálastjóri.
Kennarar og aðrir sérfræðingar skólans skulu hafa lokið háskólaprófi eða hafa hliðstæða menntun eða reynslu á sínu sviði. Þeir skulu auk kennslu vinna að rannsóknum og þróunarvinnu í þágu skólans. Um hæfni og rannsóknir kennara skal að öðru leyti miðað við löggjöf og reglur sem gildir um kennslu á háskólastigi.
Skólinn setur sérstakar reglur um atriði sem fjallað er um í þessari grein sem staðfestar skulu af landbúnaðarráðherra.
Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf getur sótt um inngöngu í háskólanám við Garðyrkjuskólann gegn greiðslu skrásetningargjalds. Heimilt er að leyfa skrásetningu nemenda í háskólanám, sem lokið hafa öðrum prófum en stúdentsprófi eða búa yfir hliðstæðum þroska og þekkingu og stúdentsprófið veitir, ef viðkomandi deild telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning undir nám við deildina.
Um inngöngu í annað nám við Garðyrkjuskólann fer eftir reglum sem skólinn setur.
Inntaka nemenda er í höndum deildaráðs og getur það að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir eða námsbrautir skólans.
Garðyrkjuskólinn getur stofnað rannsóknasjóði sbr. 18. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Rannsóknasjóðir standa fyrir rannsóknastarfsemi á vegum skólans. Heimilt er að leita eftir styrkjum og þátttöku annarra aðila í slíkri starfsemi. Rannsóknasjóðir þessir starfa sem sjálfseignarstofnanir og er heimilt að fá aðila utan skólans til þátttöku í stjórn þeirra og fulltrúaráðum. Skipulagsskrár rannsóknasjóða skulu staðfestar af dómsmálaráðherra.
Við Garðyrkjuskólann er rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðisviðum skólans. Tilgangur safnsins er að veita nemendum og kennurum skólans, og öðrum lánþegum safnsins sérhæfða þjónustu vegna náms og rannsókna. Við garðyrkjuskólann skal kappkostað að hafa greiðan aðgang að gagnasöfnum hérlendis og erlendis.
Garðyrkjuskólinn getur stofnað eða tekið þátt í sjálfseignarstofnunum eða sjálfstæðum rekstrareiningum, sbr. 18. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, í því skyni að efla starf skólans enda samræmist tilgangur þessarar starfsemi meginmarkmiðum Garðyrkjuskólans, sbr. 1. gr. þessarar reglugerðar.
Fjárhag og reikningshald skólans skal aðgreina eftir því sem við á frá einstökum stofnunum, rekstrareiningum eða viðfangsefnum þannig að yfirsýn fáist yfir einstaka þætti í rekstri skólans.
Skólameistari skal árlega boða til sérstaks ársfundar skólans og stofnana á hans vegum þar sem gerð er grein fyrir starfsemi og fjárhagslegri útkomu næstliðins árs og fyrirliggjandi áætlanir um líðandi og næstu ár kynntar. Ársfundur skólans og stofnana hans getur eftir atvikum verið hluti af árlegum skólaslitum og útskrift nemenda eða sjálfstæður fundur. Til ársfundar skal boðið fulltrúum landbúnaðarráðuneytis, skólanefnd, helstu hagsmunaaðilum og stjórnum og fulltrúaráðum stofnana skólans.
Reglugerð þessi er sett skv. 37. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 712/1996.