Reglugerðin er hluti af innra eftirliti í sláturhúsum og tekur til sýnatöku og rannsókna á kolígerlum í sauðfjárafurðum í sláturhúsum sem hafa leyfi til útflutnings til Bandaríkja Norður-Ameríku. Tilgangurinn er að fylgjast með því að ekki verði saurmengun á sláturafurðum við slátrun.
Sláturleyfishafi skal útbúa skriflega áætlun sem er liður í innra eftirliti, um eftirlit í sláturhúsum samkvæmt reglugerðinni. Í áætluninni skulu m.a. vera skriflegar leiðbeiningar varðandi sýnatöku, merkingu sýna, sýnatökuaðferð, meðferð sýna, túlkun niðurstaðna og viðbrögð við frávikum.
Sýnin skulu rannsökuð á rannsóknarstofu sem viðkomandi héraðsdýralæknir hefur viðurkennt að höfðu samráði við yfirdýralækni.
Í sláturtíð að hausti skal taka sýni daglega í hlutfalli við sláturfjárfjölda þannig að tekið sé 1 sýni af hverjum 300 skrokkum. Utan aðalsláturtíðar skal taka eitt sýni af hverjum 300 skrokkum eða a.m.k. einu sinni í viku ef slátrun er undir því marki.
Við sýnatöku skal nota dauðhreinsaðan bómullarpinna. Pinnann skal geyma í dauðhreinsuðu íláti og 10 ml af buffruðu petonvatni (PBS) skal bætt út í ílátið fyrir notkun til þess að væta pinnann. Eftir sýnatöku skal pinninn látinn aftur í ílátið og 15 ml af PBS bætt út í þannig að heildarrúmmál verði 25 ml.
Taka skal sýnin af tilviljunarkenndu úrtaki skrokka samkvæmt fyrirfram ákveðinni, skriflegri áætlun. Taka skal sýnin að slátrun lokinni eftir að skrokkarnir hafa verið í kæli í a.m.k. 12 klst.
Taka skal strok með svamppinnanum á u.þ.b. 50 cm² svæði (5 x 10 cm) á þremur mismunandi stöðum á hverjum skrokki þannig að tekið sé strok af alls 150 cm². Nota skal einn pinna á hvert svæði og setja pinnana í sama ílát eftir notkun.
Stroksýnin skulu tekin af bringu, á síðu og lærum ofan- og innanverðum við endaþarm. Nota skal einn pinna á hvert svæði.
Strax eftir sýnatöku skal koma sýnum í kæli (4-8°C) og þau geymd þannig þar til þau eru tekin til rannsóknar.
Ef sýnin eru rannsökuð í sláturhúsinu skal taka þau til rannsóknar strax eftir sýnatöku. Ef þau eru rannsökuð annarsstaðar skal senda þau þegar eftir sýnatöku (samdægurs) þannig að tryggt sé að þau verði tekin til rannsóknar innan 24 klst. Sýnin skal senda í kæliumbúðum þannig að þau haldist við 0-10°C þar til þau koma á rannsóknarstofuna.
Rannsaka skal sýnin samkvæmt NMKL aðferð nr. 147/1993 (991.14 of Official Methods of Analysis of the AOAC International), eða sambærilegri aðferð.
Gefa skal niðurstöðu upp sem bakteríuþyrpingar á fersentimetra (CFU/cm²).
Sláturleyfishafi skal varðveita allar rannsóknaniðurstöður í a.m.k. 12 mánuði. Yfirdýralæknir eða fulltrúi hans skal hafa yfirumsjón með framkvæmd eftirlitsins.
Hvert einstakt sláturhús skal setja sér viðmiðunarmörk byggð á eigin niðurstöðum. Fari fjöldi kolígerla yfir leyfileg viðmiðunarmörk viðkomandi sláturhúss gefur það vísbendingu um að vinnubrögð við slátrun séu ófullnægjandi og að saurmengun eigi sér stað.
Sláturleyfishafa er skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta ef niðurstöður úr kolígerlarannsóknum fara yfir leyfileg viðmiðunarmörk.
Fari fjöldi kolígerla yfir leyfileg viðmiðunarmörk ber héraðsdýralækni að gefa sláturleyfishafa skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Sinni hann ekki aðvörun innan þess frests skal yfirdýralæknir að höfðu samráði við héraðsdýralækni gefa stuttan lokafrest til úrbóta. Að þeim tíma liðnum er yfirdýralækni heimilt að tilkynna sláturleyfishafanum að löggilding falli niður og að heilbrigðisskoðun og heilbrigðismerking afurða verði ekki framkvæmd í sláturhúsinu fyrr en viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar til að hindra mengun af völdum kolígerla við slátrun.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum og tekur þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 599/2000 um sýnatöku og rannsóknir á kolígerlum í sauðfjárafurðum.