REGLUGERÐ
Um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum
og blöndun laxastofna.
1. gr.
Orðaskýringar.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir, sem ætla má að skapi eða auki fiskmagn veiðivatns, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 76/1970.
Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun laxfiska, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
Fiskeldisstöð: Staður þar sem fram fer eldi laxfiska í sjó, vötnum, eða á landi, þar með taldar hafbeitarstöðvar.
Kvíaeldi: Eldi laxfiska í netbúrum í söltu eða ósöltu vatni. Strandeldi: Eldi laxfiska í tönkum eða kerjum á landi.
Hafbeitarstöð: Staður þar sem laxfiski er sleppt í hafbeit og hann veiddur í gildrur að s j ávardvöl lokinni.
Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði fiska að sjávardvöl lokinni er þeir ganga í fiskeldisstöð eða veiðivatn.
Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og á tilteknum tíma, og hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða á öðrum tíma.
Villtur laxastofn: Hópur laxfiska sem klekst út og elst upp í veiðivatni.
Eldisstofn: Hópur laxfiska alinn í eldisstöð undan fiski sem alið hefur allan sinn aldur í fiskeldisstöð.
Hafbeitarstofn: Hópur laxfiska sem klakinn hefur verið út undan fiski úr hafbeit. Geldstofn: Laxfiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
2. gr.
Flutningur og sleppingar á lifandi villtum laxfiskum og frjóvguðum hrognum þeirra.
2.1. Flutningur á lifandi villtum löxum er óheimill nema með samþykki fisksjúkdómanefndar og viðkomandi veiðifélags. Óheimill er einnig flutningur lifandi villtra laxa og hrogna milli ótengdra vatnasvæða til geymslu, klaks eða sleppinga í náttúruleg vatnakerfi. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu til flutnings á lifandi villtum klakfiskum til tímabundinnar geymslu á öðrum svæðum, að fenginni umsögn fisksjúkdómanefndar. Að lokinni hrognatöku skal slátra öllum klaklaxi og taka sýni til rannsókna í samræmi við ákvörðun fisksjúkdómanefndar hverju sinni.
2.2. Við fiskrækt í ám og vötnum skal sleppa seiðum af stofni viðkomandi veiðivatns.
Formaður veiðifélags þess veiðivatns skal hafa forgöngu um að ekki sé lagt í slíka fiskrækt nema að fenginni umsögn veiðimálastjóra. Veiðimálastjóri getur heimilað flutning sótthreinsaðra hrogna og seiða úr þeim til fiskræktar í fisklítil eða fisklaus vötn og ár, enda séu þá notaðir stofnar úr nærliggjandi veiðivötnum með svipaða vistgerð. Við fiskrækt í vatnsfalli, sem rennur til sjávar á ósasvæði veiðivatns eða nærri ósi veiðivatns skal nota stofna úr sama eða nærliggjandi veiðivötnum.
2.3. Veiðimálastjóri getur heimilað flutning á villtum seiðum og fiski úr veiðivatni til eldis í fiskeldisstöðvum, enda falli frárennsli stöðvar ekki í önnur vatnakerfi en fiskur var veiddur í og eigi sé um eldi á öðrum laxfiskum að ræða og fyrir liggi jákvæð umsögn fisksjúkdómanefndar. Á sama hátt getur veiðimálastjóri heimilað flutning á villtum seiðum og öðrum fiski í strandeldisstöð eða kvíar.
3. gr.
Flutningur og sleppingar á eldis- og hafbeitarfiski.
3.1. Áður en hafin er hafbeit, skal leitað umsagnar veiðimálastjóra. Í hafbeitarstöð er heimilt að nota hafbeitarstofna frá öllum hafbeitarstöðvum sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 66. gr. 1. nr. 76/1970.
3.2. Í eldisstöð þar sem vatn getur borið inn tiltekna sýkla frá villtum fiskum, skal flutningur hrogna og alifiska úr stöðinni vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 403/1986. Að öðru leyti skal flutningur hrogna og eldisfiska vera í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
3.3. Flytja má innlend sótthreinsuð hrogn og seiði úr þeim á milli fiskeldisstöðva, svo og klakfiska af eldisstofni, enda brjóti flutningurinn ekki í bága við reglur um varnir gegn smitsjúkdómum skv. rg. nr. 403/1986.
3.4. Flutningur laxfiska af erlendum uppruna til fiskræktar og hafbeitar er óheimill. Landbúnaðarráðuneytið getur þó veitt undanþágu til flutnings á slíkum fiski milli fiskeldisstöðva, enda liggi fyrir jákvæð umsögn veiðimálastjóra og fisksjúkdómanefndar.
4. gr.
Ýmis ákvæði.
4.1. Sækja skal skriflega um leyfi samkvæmt reglugerð þessari til landbúnaðarráðuneytis eða Veiðimálastofnunar eftir því sem við á.
4.2. Í hafbeit og fiskrækt skal sleppa seiðum úr villtum klakfiski af Norður- eða Austurlandi þar og seiðum úr villtum klakfiski af Suður- eða Vesturlandi skal sleppt á það svæði. Skal í því sambandi miða við eftirtalin svæðamörk:
4.2.1. Suður- og Vesturland. Afmarkast af Stokksnesi að sunnanverðu og Hornbjargi að norðanverðu.
4.2.2. Norður- og Austurland. Afmarkast af Bjargtöngum að vestanverðu og Ingólfshöfða að sunnanverðu.
4.2.3. Veiðimálastjóri getur vikið frá ákvæðum þessarar málsgreinar vegna samanburðarrannsókna á laxastofnum.
4.3. Við leyfisveitingar fyrir hafbeitar-, strandeldis- og sjókvíastöðvar skal miða við, að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði s.l. 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skal fjarlægðin vera 15 km nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar, má þá stytta fjarlægðina niður í 5 km. Vegalengd milli sjókvía-, strandeldis- og hafbeitarstöðva innbyrðis skal ekki vera minni en 2 km. Miðast framangreind fjarlægðarmörk við loftlínu, nema þegar tangar skilja á milli, en veiðimálastjóri getur vikið frá þessum lágmarksfjarlægðum komi fram ósk um það frá veiðiréttareigendum eða eldisaðilum á viðkomandi svæði.
4.4. Aðilar sem hafbeit stunda skulu láta örmerkja 10% af sleppingu vegna allt að 100 þúsund seiða sleppingu, en að lágmarki 10 þúsund seiði við stærri sleppingar. Aðilar með sjókvíarekstur skulu láta merkja a.m.k. 1000 laxa með örmerkjum eða útvortis merkjum. Niðurstöður úr heimtum viðkomandi laxa skulu lagðar til grundvallar við endurskoðun þessarar reglugerðar.
4.5. Óheimilt er að sleppa fiski í ár eða vötn til endurveiða nema notaður sé stofn af viðkomandi vatnasvæði. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá ákvæði þessu, að fengnu samþykki fisksjúkdómanefndar og viðkomandi veiðifélags.
5. gr.
Refsiákvæði og gildistaka.
5.1. Um brot á ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt j-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði enda varði brotið ekki þyngri refsingu samkvæmt öðrum lögum.
5.2. Með mál út af brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála.
5.3. Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild 22., 66. og 81. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, öðlast þegar gildi og skal endurskoðuð fyrir 1. júlí 1990.
Landbúnaðarráðuneytið, 12. júlí 1988.
Jón Helgason.
Jón Höskuldsson.