Landbúnaðarráðuneyti

15/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. - Brottfallin

1. gr.

Við V. viðauka bætist eftirfarandi:

4.0 RÆKTUN ÆTISVEPPA

4.1 Ákvæði þessi taka til ræktunar ætisveppa innan tegundarinnar Psalliota campestris var. bispora.

4.2 Ekki er leyfilegt að markaðssetja sömu gerð sveppa bæði undir merkjum vistvænnar og hefðbundinnar ræktunar.

4.3 Plöntulyf má aðeins nota í neyðartilvikum eða samkvæmt notkunaráætlun í fullu samræmi við notkunarleiðbeiningar.

4.4 Skrá verður á sérstök eyðublöð alla notkun plöntulyfja allt frá byrjun hverrar ræktunar.

4.5 Skrá verður á sérstök eyðublöð alla áburðarnotkun allt frá byrjun hverrar ræktunar.

4.6 Við gerð rotmassa skal mæla og skrá þurrefnis- og köfnunarefnismagn massans, sem og C:N - hlutfall.

4.7 Ræktunarklefar skulu þrifnir vandlega áður en ný ræktun hefst.

4.8 Framleiðandi sem ekki virðir og fylgir settum reglum varðandi vistvæna ræktun getur misst réttinn til að merkja og markaðssetja vöru sína undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma, skv. mati eftirlitsaðila.

4.9 Sérhverjum þeim sem ræktar undir merkjum vistvænnar ræktunar er skylt að veita eftirlitsaðila allar umbeðnar upplýsingar um ræktunina.

2. gr.

Við reglugerðina bætist:

VII. VIÐAUKI

Afurðir svína í dreifbærum búskap.

1.0 Gildissvið.

Viðauki þessi tekur til afurða svína í dreifbærum búskap sem alin hafa verið samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar með áherslu á hreinleika, velferð dýra og umhverfisvernd. Framleiðslan skal samræmast góðum búskaparháttum og markmiðum sjálfbærrar þróunar. Nema annað sé tekið fram skal við svínahaldið fylgt ákvæðum reglugerðar um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit á svínabúum nr. 219/1991.

2.0 Meðferð.

Þess skal gætt að svínin njóti eðlislægs atferlis í hvívetna. Þau skulu vera á lausagöngu í húsi og njóta útivistar þegar aðstæður leyfa. Óheimilt er að binda gyltur.

3.0 Húsakostur og búnaður.

Hús og útigerði skulu vera þurr og hús vel loftræst, hæfilega björt og auðþrífanleg. Tryggja þarf nægan undirburð í húsi, svo sem hey eða hálm. Lágmarkslegurými skal vera:

Gylta með grísum

4,0 m2

Gylta án grísa

2,5 m2

Göltur

5,0 m2

Grísir, fyrir hver 100 kg lífþunga

0,7 m2

Stærð flórs skal eigi vera meira en 25% af heildargólffleti. Flór telst ekki til legurýmis. Utandyra skulu svínin ekki ganga stöðugt á sömu blettunum.

4.0 Merking og skráning.

Öll svín á búinu skulu einstaklingsmerkt sem fyrst eftir got og skráð í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands eða öðru sambærilegu kerfi. Aðeins þeir gripir fá viðurkenningu sem aldir hafa verið frá goti til slátrunar hjá viðkomandi framleiðanda. Þó er heimilt að viðurkenna eldisgrísi sem fæddir eru á öðru viðurkenndu búi samkvæmt reglugerð þessari. Lyfjanotkun skal haldið í lágmarki. Ef lyf eru notuð skal skrá tegund, magn og notkunartíma með dagsetningum. Eftirlitsaðilar skulu hafa ótakmarkaðan aðgang að skýrslum um kynbætur, frjósemi, fóður- og lyfjanotkun, vanhöld, vænleika grísa o.fl. til að tryggja reglubundið eftirlit á búinu.

5.0 Fóður og fóðrun.

Tryggt skal að allt fóður sem notað er á búinu sé hollt og ómengað. Allt innlent fóður skal vera laust við skordýraeitur og illgresiseyða. Innlent fóður svo sem bygg, fiskimjöl, þangmjöl, grænfóður, gras, graskögglar, hey, vothey, hálmur, kartöflur, kál og rófur skal vera a.m.k. 25% af heildarfóðrinu á búinu. Á ræktuðu landi sem nýtt er til fóðuröflunar eða beitar fyrir svín á búinu skal hámarksnotkun köfnunarefnis í áburði miðast við 120 kg N/ha fyrir tún og 180 kg N/ha fyrir grænfóður og aðra einæra ræktun, sbr. ákvæði reglugerðar þessarar.

6.0 Heilsuvernd.

Öll meðferð og fóðrun skal við það miðuð að fyrirbyggja sjúkdóma og tryggja sem best heilsufar og eðlileg þrif gripa á öllum framleiðslustigum. Héraðsdýralæknir skal sinna eftirliti á búinu a.m.k. einu sinni á ári.

7.0 Gæðaeftirlit við slátrun.

Framleiðandi skal skila skrá með númerum allra slátursvína við afhendingu þeirra í sláturhús. Hafna skal gripum sem ekki eru auðkenndir eða ranglega skráðir. Þeim skal slátra sér og fá þeir ekki viðurkenningu samkvæmt reglugerð þessari. Hver skrokkur skal auðkenndur allt frá slátrun til hlutunar þannig að rekjanleiki sé ætíð tryggður.

8.0 Viðurkenning _ vörumerking.

Framleiðslu svínabús, sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar og viðauka þessa, er heimilt að merkja sem vistvæna landbúnaðarafurð. Auk kjöts er heimilt að nota vörumerkið fyrir aðrar svínaafurðir búsins.

9.0 Förgun svínaskíts.

Um meðferð úrgangs frá viðurkenndum svínabúum samkvæmt viðauka þessum fer eftir gildandi reglum í hverju sveitarfélagi um heilbrigðishætti, mengunarvarnir o.fl. Auk þess er skylt að nýta allan svínaskít frá búinu til áburðar eða uppgræðslu.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum og lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, forðagæslu o.fl. með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 3. janúar 2000.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica