REGLUGERÐ
um búfjársæðingar og flutning fósturvísa.
1. gr.
Gildissvið o. fl.
Reglugerð þessi tekur til sæðinga og fósturvísaflutninga búfjár, þ.e. nautgripa, sauðfjár, geita svína, hrossa, loðdýra og alifugla. Búnaðarfélag Íslands hefur yfirumsjón með starfrækslu sæðingarstöðva og kynbótastarfsemi þeirra í samvinnu við yfirdýralækni.
Sæðingarstöð er staður þar sem söfnun og meðhöndlun sæðis fer fram. Fósturvísastöð er aðstaða þar sem söfnun og meðhöndlun fósturvísa fer fram.
Hver sá sem hefur í hyggju að setja á stofn sæðingarstöð eða fósturvísastöð skal sækja um það til Búnaðarfélags Íslands og gefa upplýsingar um tilhögun, útbúnað og starfssvæði stöðvarinnar. Landbúnaðarráðherra veitir leyfi til starfrækslu stöðvarinnar að fengnum meðmælum Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknis.
Sæðingar- og fósturvísastöðvar skulu senda Búnaðarfélagi Íslands árlega skýrslu um kynbótastarfsemina.
2. gr.
Yfirstjórn og starfslið sæðingarstöðva.
Forstöðumaður sæðingarstöðvar skal hafa kynnt sér starfsemi sæðingarstöðva þeirrar tegundar sem hann skal veita forstöðu. Áður en forstöðumaður er ráðinn skal leita skriflegas samþykkis Búnaðarfélags Íslands fyrir ráðningunni að fenginni umsögn yfirdýralæknis. Á sæðingarstöð skal vera hið minnsta einn starfsmaður sem hefur staðgóða þekkingu á öllu er lýtur að sæðistöku, sæðisgæðum, þynningu og pökkun sæðis og smitgát.
Heimilt er að synja ráðningu starfsmanns ef rök hníga að því að hætta geti verið á smitburði inn á stöðina að mati yfirdýralæknis.
3. gr.
Aðstaða og búnaður.
Öll húsakynni á sæðingarstöð skulu vera björt og rúmgóð og allar innréttingar, veggir, dyra- og gluggabúnaður þannig að auðvelt sé að þrífa það og sótthreinsa. Þar þarf að vera nægilegt heitt og kalt vatn og nauðsynleg hreinlætisaðstaða. Húsaskipan á sæðingarstöð skal vera þannig að óviðkomandi umferð fari ekki um fóðurgeymslur, gripahús, sæðistökuherbergi og vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð.
Í sæðistökuherbergi má eigi geyma aðra hluti en þá sem nauðsynlegir eru til starfans. Gólf skal vera óskreipt og auðvelt að þrífa og sótthreinsa herbergi og innréttingar. Vinnuherbergi þar sem fram fer rannsókn á sæði og pökkun skal vera bjart og vel upphitað. Á stöðinni skal vera kæligeymsla, tæki til sótthreinsunar og dauðhreinsunar, smásjá, handlaug og annar búnaður sem nauðsynlegur er. Öll áhöld sem notuð eru til sæðistöku, blöndunar, pökkunar og sæðinga skulu vera af vandaðri gerð, þannig að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa. Við hirðingu gripa á sæðingarstöð skal notaður sérstakur hlífðarfatnaður sem auðvelt er að halda hreinum og skal sá fatnaður ekki notaður utan stöðvarinnar. Við sæðistöku skal nota hlífðarfatnað sem ekki er notaður við önnur störf á stöðinni.
Umhverfi bygginga skal vera þurrt og þrifalegt. Girðingar og réttir skulu vera gripheldar og þannig úr garði gerðar að gripir stöðvarinnar fari ekki um þann hluta svæðisins sem almenn umferð til stöðvarinnar fer um.
4. gr.
Kynbótagripir.
Allir kynbótagripir, sem notaðir eru á sæðingarstöðvum, skulu hafa hlotið til þess viðurkenningu viðkomandi búfjárræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands og/eða viðkomandi búfjárræktarnefndar. Heimilt er að taka inn á sæðingarstöð gripi til einblendingsræktar vegna sérstakra eiginleika. Allir gripir á sæðingarstöðvum skulu einkenndir með einstaklingsmerkjum. Óheimilt er að nota til sæðistöku og kynbóta gripi með erfðagalla, s.s eistna-, tann- og bitgalla.
5. gr.
Heilbrigðiseftirlit.
Færa skal dagbók um öll dagleg störf á sæðingarstöð. Öllum gripum á sæðingarstöð skal fylgja kort þar sem skráð er ætt og uppruni þeirra og allt er varðar heilsufar, heilbrigðisskoðun, sýnatökur, bólusetningar og meðhöndlun. Kortið skal fylgja gripnum frá því að hann kemur fyrst á stöð og þar til hann er felldur.
Í húsum sæðingarstöðvar er óheimilt að hafa annað búfé en það sem notað er við sæðistöku. Ekki má leiða undir gripi þann tíma sem þeir eru notaðir til sæðistöku.
Ítarleg heilbrigðisskoðun á gripunum, einkum er tekur til getnaðarfæra, skal fara fram áður en þeir eru teknir inn á sæðingarstöð. Jafnframt skal kanna heilbrigði búfjár á þeim stöðum þar sem gripurinn hefur verið. Heimilt er að láta einangra gripi áður en þeir eru teknir inn á sæðingarstöð. Sæðingarstöðvum er skylt að láta fara fram eftirlit með búnaði og heilbrigði alls búfjár á stöðinni minnst einu sinni á ári eða oftar ef yfirdýralæknir óskar þess. Eftirlitið skal framkvæmt af héraðsdýralækni eða öðrum dýralækni, sem yfirdýralæknir tilnefnir. Stöðin leggur dýralækninum til hlífðarfatnað, nauðsynlega aðstoð og þær upplýsingar sem óskað er eftir.
Veikist gripur á sæðingarstöð skal þegar í stað hafa samband við héraðsdýralækni og er óheimilt að nota gripinn til sæðinga fyrr en dýralæknir gefur leyfi til þess. Komi upp næmur sjúkdómur sem hætta er á að geti breiðst út vegna starfsemi sæðingarstöðvar er héraðsdýralækni heimilt í samráði við yfirdýralækni að takmarka eða stöðva sæðingar þar til smithætta er um garð gengin. Komi upp rökstuddur grunur um að gripur, sem notaður er á sæðingarstöð, sé haldinn næmum dýrasjúkdómi, skal einangra hann svo lengi sem þurfa þykir. Telji héraðsdýralæknir nauðsynlegt að feIla sýktan grip, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins eða vegna þess að sterkar líkur séu á að gripurinn nái ekki bata, skal hann leita samþykkis yfirdýralæknis. Sérstök rannsókn skal fara fram á öllum gripum sem felldir eru vegna sjúkdóma. Sæði sem tekið er úr sýktum grip skal eyða í samráði við héraðsdýralækni.
6. gr.
Sæðistaka.
Halda skal skýrslu yfir sæðistöku, gæði og magn sæðis og afdrif allra sæðisskammta, hvort sem þeir eru notaðir til sæðinga eða er eytt. Þess skal gætt að sæði sé pakkað og merkt númeri sæðisgjafa og fram komi hvenær sæðið var tekið. Halda skal nákvæma skrá yfir pökkun, merkingar og birgðir djúpfrysts sæðis. Forstöðumaður sæðingarstöðvar skal skila árlegri skýrslu til Búnaðarfélags Íslands um starfsemi stöðvarinnar, heilsufar gripa, sæðistöku og afdrif sæðis.
7. gr.
Dreifing sæðis
Þeir sem óska eftir að fá leyfi til búfjársæðinga skulu hafa aflað sér þekkingar á byggingu og starfsemi getnaðarfæra búfjár og hlotið góða þjálfun við framkvæmd verksins. Búnaðarfélagi Íslands er heimilt að gefa út leyfisbréf fyrir þá sem starfa við sæðingar að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Skal þar nánar tilgreint starfssvið þeirra og skyldur. Dýralæknar sem lært hafa sæðingar erlendis skulu hafa staðfest þekkingu sína fyrir yfirdýralækni áður en þeir hefja störf. Öllum öðrum en þeim sem hafa hlotið slíka viðurkenningu er óheimilt að starfa við búfjársæðingar.
Þeir sem sæða búfé skulu halda dagbók um störf sín samkvæmt nánari fyrirmælum ráðunauta Búnaðarfélags Íslands í búfjárrækt, þannig að fram komi upplýsingar um afdrif sæðisins og hvernig heldur við hverju karldýri. Þeir sem sæða búfé skulu klæðast hentugum, hreinum hlífðarfatnaði og skófatnaði sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Þeir skulu vinna störf sín eins hreinlega og frekast er kostur og halda áhöldum og útbúnaði ávallt hreinum.
Óheimilt er að flytja búfjársæði á milli sóttvarnarsvæða nema með leyfi yfirdýralæknis og með þeim skilyrðum sem hann setur. Sama máli gegnir um flutning á búfjársæði til og frá sveitum, þar sem kunnugt er um næma búfjársjúkdóma, t.d. riðuveiki. Óheimilt er að flytja til landsins búfjársæði nema með leyfi landbúnaðarráðherra og að fengnu samþykki yfirdýralæknis, eftir að leitað hefur verið álits búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein. Sömu reglur gilda um flutning búfjársæðis til annarra landa.
8. gr.
Nautgripir.
Naut sem flytja á inn á sæðingarstöð skulu flutt yngri en tveggja mánaða í sérstaka ungkálfaeinangrun í viðurkenndri nautauppeldistöð að fengnu samþykki yfirdýralæknis. Eigi er heimilt að flytja kálfa úr ungkálfaeinangrun fyrr en að undangenginni heilbrigðisskoðun og að fengnu samþykki héraðsdýralæknis eða annars dýralæknis sem yfirdýralæknir tilnefnir.
Naut skulu höfð í einangrun í nautauppeldisstöð í a.m.k. sex mánuði og eigi flutt þaðan á nautastöð fyrr en farið hefur fram ítarleg heilbrigðisskoðun héraðsdýralæknis eða annars dýralæknis sem yfirdýralæknir tilnefnir. Áður en naut eru flutt inn á sæðingarstöð skulu liggja fyrir niðurstöður úr þeim rannsóknum sem fyrirskipaðar eru á hverjum tíma.
Um starfsmenn nautgripasæðingarstöðvar gilda ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar.
Þeir einir hafa leyfi til að sæða kýr sem lokið hafa námi á námskeiðum sem Búnaðarfélag Íslands og yfirdýralæknir viðurkenna og hafa sannað hæfni sína að loknu námskeiði með prófi. Dýralæknar sem hafa lært sæðingar sem lið í dýralæknisnámi hafa einnig leyfi til að sæða kýr. Þá hafa þeir leyfi til kúasæðinga sem lært hafa á viðurkenndum erlendum sæðinganámskeiðum. Þó skulu allir sem lært hafa sæðingar erlendis sanna hæfni sína og þekkingu á meðferð sæðis fyrir forstöðumanni nautastöðvar eða þeim sem yfirdýralæknir tilnefnir áður en þeir hefja störf. Hafi frjótæknir ekki starfað við sæðingar í tvö ár skal hann sækja um endurnýjun leyfis til Búnaðarfélags Íslands og sanna hæfni sína sé þess óskað.
Frjótæknum er heimilt að fangskoða kýr sem þeir eða afleysingamenn þeirra hafa sætt hafi þeir hlotið þá kennslu til starfsins sem yfirdýralæknir viðurkennir. Frjótæknum er óheimilt að framkvæma aðrar aðgerðir er varða frjósemi kúa.
9. gr.
Sauðfé og geitfé.
Hrúta sem flytja á inn á sæðingarstöð skal velja eigi síðar en 15. júní ár hvert. Leitað skal samþykkis yfirdýralæknis fyrir flutningi þeirra. Þá skal liggja fyrir að fullorðnir hrútar hafi eðlilega frjósemi. Hrútar sem ákveðið hefur verið að taka inn á sæðingarstöð skulu hafðir í sérstöku beitarhólfi frá og með 1. ágúst þangað til þeir eru teknir á hús að hausti og þeir skoðaðir af héraðsdýralækni eða fulltrúa hans þegar þeir eru settir inn. Umbúnaður beitarhólfa fyrir hrúta á sæðingarstöð skal vera þannig að annað búfé komist aldrei inn í þau og þess sé gætt að hrútarnir komist aldrei í snertingu við annað búfé. Heimilt er að flytja hrúta á milli sæðingarstöðva með samþykki yfirdýralæknis og eftir fyrirsögn hans.
Heimilt er að hafa ær á hrútastöð til að standa undir við sæðistöku. Skulu sömu reglur gilda um ærnar og hrútana þegar þær eru teknar inn á stöð. Forstöðumaður sæðingarstöðvar skal sjá til þess að ætíð sé eðlilegur fjöldi áa á stöðinni og að ekki þurfi að taka inn ær fyrirvaralaust um fengitíð. Ær á sæðingarstöð skulu aðeins fá fang við sæðingu. Þær skulu hafðar sér í húsi og skulu beitarhólf vera eins vel úr garði gerð og hólf hrútanna.
Um starfsmenn stöðvarinnar gilda ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar.
Þeir einir hafa leyfi til að sæða ær sem hafa fengið tilsögn í sauðfjársæðingum hjá þeim sem yflrdýralæknir viðurkennir til þeirrar kennslu. Þeim er skipuleggja sauðfjársæðingar ber að tilkynna héraðsdýralæknum hverjir hafa verið ráðnir til sauðfjársæðinga haust hvert og á hvaða svæði þeir sæða. Héraðsdýralækni ber að tilkynna sauðfjársæðingarmönnum ef sérstakir sjúkdómar, sem ber að varast, eru á sæðingasvæðinu. Um sæðingar á bæjum, þar sem komið hafa upp alvarlegir smitsjúkdómar svo sem riða, skal farið eftir þeim reglum sem yfirdýralæknir setur hverju sinni.
Yfirdýralæknir setur nánari reglur um heilbrigðiseftirlit, flutning hrúta á sæðingarstöð, sýnatöku og bólusetningar svo sem við á hverju sinni. Samþykki yfirdýralæknis þarf til flutnings hrútasæðis á milli varnarhólfa.
Ær sem á að sæða skulu vera auðkenndar tryggilega með númeruðum plötumerkjum on skulu sauðfjársæðingarmenn færa skýrslu í samræmi við 7. gr. þessarar reglugerðar.
Um geitasæðingarstöðvar og geitasæðingar skal farið eftir sömu reglum og um sauðfjársæðingar.
10. gr.
Svín.
Geltir skulu fluttir inn á sæðingarstöð að undangenginni heilbrigðisskoðun og að fengnu samþykki yfirdýralæknis eða dýralæknis svínasjúkdóma. Heilbrigðisskoðun skal einnig taka til föður, móður og gotsystkina og jafnframt skal tekið tillit til heilsufars annarra svína á búinu. Geltir sem teknir eru inn á sæðingarstöð skulu eigi vera yngri en þriggja mánaða né eldri en níu mánaða og skal ekki hafa verið haldið undir þá. Á sæðingarstöðinni skulu þeir hafðir í sérstakri einangrun í a.m.k. fjórar vikur áður en þeir eru teknir í notkun á stöðinni.
Sérstakur klæðnaður skal notaður við gegningar á meðan gripir eru í einangrun og annar klæðnaður í galtarhúsi.
Óheimilt er að nota gyltur við sæðistöku eða hafa önnur dýr á stöðinni.
Þeir einir hafa leyfi til að sæða gyltur sem hafa fengið tilsögn í svínasæðingum hjá þeim sem yflrdýralæknir viðurkennir til þeirrar kennslu. Skipuleggjendum svínasæðinga ber að tilkynna héraðsdýralæknum hverjir hafa verið ráðnir til svínasæðinga og á hvaða búum. Héraðsdýralækni ber að tilkynna svínasæðingarmönnum ef sérstakir sjúkdómar, sem ber að varast, eru á sæðingarsvæðinu. Um sæðingar á búum þar sem komið hafa upp alvarlegar smitsjúkdómar, skal farið eftir þeim reglum sem yfirdýralæknir setur hverju sinni.
11. gr.
Hross.
Allir stóðhestar sem teknir eru inn á sæðingarstöð skulu vera skráðir á fullnægjandi hátt í skýrsluhaldi Búnaðarfélags Íslands og valdir í samræmi við ákvæði 4. gr. þessarar reglugerðar. Einnig skulu þeir blóðflokkaðir og örmerktir. Eigi er heimilt að flytja stóðhest á sæðingarstöð nema að undangenginni heilbrigðisskoðun héraðsdýralæknis eða annars dýralæknis sem yfirdýralæknir tilnefnir.
Óheimilt er að halda undir stóðhest, sem fara skal á sæðingarstöð, frá áramótum og þar til hann er tekinn af stöðinni. Dýralæknir stöðvarinnar skal heilbrigðisskoða hryssur sem notaðar eru við sæðistöku áður en hún hefst.
Við hrossasæðingarstöð skal ætíð starfa dýralæknir sem hefur þekkingu á þroska og gæðum sæðisfruma, einnig töku og blöndun hrossasæðis. Hann skal hafa góða þekkingu á æxlunarfræðum hrossa og viðurkennda kunnáttu til að sæða hryssur.
Eingöngu dýralæknar sem hafa hlotið viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn yfirdýralæknis, hafa leyfi til að sæða hryssur. Við sæðingu hryssa skal búa svo um að þær geti ekki slegið. Sæðingarhryssur skulu blóðflokkaðar, frost- eða örmerktar og sæðingar skulu skráðar í samræmi við ákvæði 7. gr. þessarar reglugerðar.
12. gr.
Loðdýr.
Loðdýrabú sem afhenda sæði skulu hafa sérstakt herbergi til sæðistöku og blöndunar, sbr. 3. gr. þessarar reglugerðar.
Áður en fengitíð hefst skal héraðsdýralæknir eða annar dýralæknir sem yfirdýralæknir tilnefnir rannsaka heilbrigði allra dýra á búinu og taka þau sýni sem krafist er hverju sinni. Þá skal liggja fyrir skrá yfir þau dýr sem notuð verða við sæðistöku og skal dýralæknir skoða þau sérstaklega. Á búum sem karldýr koma frá má ekki hafa orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 18 mánuðina. Þá skal óheimilt að nota karldýr sem sæðisgjafa á sæðingarstöð ef leitt hefur verið undir þau sama ár.
Óheimilt er að hleypa hundum og köttum inn á loðdýrabú þar sem sæðingarstöð er til húsa.
Um starfsmenn loðdýrasæðingarstöðva og loðdýrasæðingamenn gilda ákvæði 2. gr. þessarar reglugerðar. Forstöðumaður ber ábyrgð á því að eingöngu séu notuð viðurkennd dýr til sæðistöku og skal afla tilskilinna leyfa áður en sæðing hefst. Hann ber ábyrgð á að halda til haga upplýsingum um afdrif sæðisins.
Á sæðingarstöð skal vera aðskilin aðstaða þar sem sæðing aðkomudýra fer fram. Aðeins er heimilt að færa til sæðingar læður frá búum þar sem ekki hefur orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 18 mánuðina. Bú þar sem slíkra sjúkdóma hefur orðið vart síðustu 18 mánuðina geta sótt um leyfi til sæðinga skv. sérstökum reglum sem yfirdýralæknir setur.
Sæða má læður frá sama búi án þess að sótthreinsun á sæðingarbekk fari fram á milli einstakra dýra. Áður en læður frá öðru búi eru sæddar skal þrífa sæðingarbekkinn vandlega og sótthreinsa. Í lok hvers vinnudags skal þrífa rækilega og sótthreinsa áhöld, biðstofu, sæðistöku- og sæðingarherbergi, sæðingarbekki og vinnuborð.
13. gr.
Alifuglar.
Einungis er heimilt að flytja á milli búa sæði úr sérstökum kynbótafuglum, sem alifuglaráðunautar Búnaðarfélags Íslands viðurkennir frá alifuglabúum er hafa fengið leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
Á búum sem afhenda sæði skal vera sérstakt herbergi þar sem blöndun og frágangur sæðis fer fram. Eingöngu má afhenda sæði á bú sem hafa starfsleyfi sbr. reglugerð nr. 428/ 1990 og uppfylla skilyrði um reglubundið heilbrigðiseftirlit sem yfirdýralæknir setur.
Á alifuglabúi sem afhendir sæði skal vera sérstakur maður sem ber ábyrgð á töku, meðferð sæðis og sæðingum. Hann skal hafa tilskilin leyfi og hann skal einnig halda skrá yfir töku sæðis og afdrif þess.
Þeir sem sæða alifugla skulu hafa hlotið viðurkenningu til starfans sem dýralæknir alifuglasjúkdóma metur gilda. Sæðingamaður skal skrá allar sæðingar og árangur þeirra. Viðhafa skal fyllsta hreinlæti í meðferð og notkun sæðis. Við sæðingar skal þess ætíð gætt að smit berist ekki á milli búa.
14. gr.
Flutningur fósturvísa.
Flutningur fósturvísa á milli búa skal lúta sömu reglum og flutningur lifandi dýra samkvæmt gildandi reglum um varnir gegn dýrasjúkdómum. Aðeins er heimilt að flytja fósturvísa úr heilbrigðum dýrum á milli búa. Yfirdýralækni er heimilt að víkja frá þessum reglum séu aðstæður þannig að fósturvísaflutningur sé talinn hættuminni en flutningur lifandi dýra. Fósturmæður skulu vera heilbrigðar og hraustar og svo stórar að tryggt sé að þær geti borið fósturafkvæmum sínum eðlilega.
Taka, meðhöndlun og innlögn fósturvísa skal vera undir umsjón dýralæknis sem hlotið hefur viðurkenningu yfirdýralæknis til starfans. Hann skal einnig hafa umsjón með fósturvísum sem geymdir eru í frysti og halda skýrslur um þá á hverjum tíma. Viðkomandi dýralæknir getur falið frjótækni, sem til þess hefur hlotið viðurkennda menntun, að leggja inn fósturvísana, sé það gert án skurðaðgerðar.
Efni og tæki til fósturvísaflutnings skulu vera af viðurkenndum gæðum og skulu ekki geta borið með sér smitefni. Blóðvatn sem notað er við fósturvísaflutning skal vera úr dýrum sem til þess hafa hlotið viðurkenningu yfirdýralæknis.
Óheimilt er að leggja inn í leg kvendýra fósturvísa sem hafa verið frjóvgaðir í tilraunaglasi ("in vitro"), kyngreindir, skipt, einræktaðir eða ef egghýði ("zona pellucida") hefur verið rofið. Þó er yfirdýralækni heimilt að leyfa slíkar aðgerðir í afmörkuðum tilraunum sem sótt er um í hverju tilviki.
15. gr.
Refsiákvæði og gildistaka.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum um búfjárrækt nr. 84/1989,
lögum um innflutning dýra nr. 54/1990, lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um búfjársæðingar nr. 226/ 1969, reglugerð um sæðingar loðdýra nr. 156/ 1987, svo og III. kafli reglugerðar um loðkanínurækt nr. 263/ 1991.
Landbúnaðarráðuneytið, 14. október 1994.
Halldór Blöndal.
Jón Höskuldsson.