Landbúnaðarráðuneyti

345/1998

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 220/1995 um útflutning hrossa. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð nr. 220/1995 um útflutning hrossa.

1. gr.

Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til annað hefur verið ákveðið skulu eftirfarandi sérákvæði gilda um framkvæmd á útflutningi hrossa, til viðbótar öðrum ákvæðum reglugerðarinnar:

 a.            Aðeins er heimilt að flytja út hross sem ekki hafa sýnt einkenni smitandi hitasóttar né verið innan um hross með slík einkenni, svo vitað sé, í fjórar vikur áður en þau eru sett í sóttkví vegna útflutnings. Yfirdýralæknir gefur út sérstakt vottorð, sem skal útfyllt fyrir hvert hross sem flytja á út, undirritað af dýralækni og eiganda eða umráðamanni hrossins, þar sem fram kemur að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Hrossin skulu auðkennd með öruggum hætti, að mati dýralæknis, svo sem með örmerki, frostmerki eða klipptu merki í samræmi við 3. gr. þessarar reglugerðar og skal það skráð í vottorðið, sem sent er yfirdýralækni eftir að hrossið er farið úr landi.

 b.            Héraðsdýralæknir skal taka út og samþykkja sérstaka aðstöðu fyrir sóttkví þar sem geyma skal hross í 10 sólarhringa hið minnsta fyrir útflutning. Að hámarki fimm sólarhringum áður en hross eru flutt í sóttkví skal fara fram heilbrigðisskoðun, skv. IV. kafla reglugerðarinnar. Þau hross sem komin eru í sóttkví 10 sólarhringum fyrir útflutning teljast einn hópur og ekki má bæta öðrum hrossum í þann hóp.

 c.            Flutningstæki sem notuð eru til flutninga á hestum til útflutnings skal sótthreinsa sérstaklega fyrir þá notkun og ekki má flytja önnur hross með útflutningshrossum á sama farartæki. Flutningsmenn útflutningshrossa skulu einungis nota sótthreinsaðan skó- og hlífðarfatnað.

 d.            Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með smitvörnum og heilsufari hrossa í sóttkví. Umsjónarmaður sóttkvíar skal skrá daglega líkamshita og upplýsingar um heilsufar hrossanna meðan á sóttkví stendur og færa í þar til gert heilsukort, sem staðfest er af héraðsdýralækni. Umgangur óviðkomandi aðila um sóttkví skal bannaður.

 e.            Komi upp grunur um smitsjúkdóm í sóttkví, sem staðfestur er af dýralækni, getur ekki orðið af útflutningi á þeim hrossahópi.

 f.             Öll hross skulu skoðuð af héraðsdýralækni á útflutningsstað á síðustu 24 tímum fyrir útflutning og heilsufar þeirra og auðkenni staðfest.

 g.            Allur kostnaður sem hlýst af sérstökum sóttvarnaraðgerðum skv. reglugerð þessari skal greiddur af eigendum eða umráðmönnum hrossa.

 h.            Dýralæknir hrossasjúkdóma og yfirdýralæknir hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 161/1994 um útflutning hrossa og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 22. júní 1998.

F. h. r.

Björn Sigurbjörnsson.

Jón Höskuldsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnartíðindi B 52, nr. 345. Útgáfudagur 22. júní 1998.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica