1. gr.
Í stað orðsins "Yfirdýralæknis" í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar og sama orðs hvarvetna annars staðar í reglugerðinni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælastofnun.
2. gr.
2. málsliður, 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
3. gr.
Við reglugerðina bætast tvær nýjar greinar á eftir 6. gr. sem verða 7. gr. a. og 7. gr. b.:
7. gr. a.
Innra eftirlit.
Á hverju svínabúi skal starfrækja innra eftirlit. Innra eftirlitið skal lýsa þeim fyrirbyggjandi aðgerðum sem gripið er til, til að tryggja gæði, öryggi og hollustu svínaafurðanna. Matvælastofnun tekur út innra eftirlit svínabúanna einu sinni á ári.
Innra eftirlitið skal að lágmarki taka til eftirfarandi þátta:
a. Smitvarna, eftirlits og úrbóta.
b. Meindýraeftirlits.
c. Innkaupa á fóðri, geymslu þess, fóðurgerðar og notkunar.
d. Lyfjanotkunar.
e. Þjálfunar starfsmanna.
f. Hreinlætisáætlana sem fela í sér umgengnisreglur, þrif, sótthreinsun, hreinlætis- og viðhaldseftirlit.
g. Skiptingu ábyrgðar.
h. Skráningu fyrirbyggjandi aðgerða, m.a. lyfjanotkun, þrif, mælingar á sýrustigi, niðurstöður efnagreininga, viðbrögð við frávikum.
i. Árlegra innri úttekta eða árlegrar sannprófunar á innra eftirliti.
7. gr. b.
Varnir gegn salmonellu.
Framleiðandi skal í tengslum við innra eftirlit hvers svínabús, fóðurgerð og fóðurgjöf framkvæma fyrirbyggjandi aðgerðir gegn salmonellu. Aðgerðirnar skulu framkvæmdar í samræmi við bestu fáanlegu upplýsingar og leiðbeiningar.
Framleiðanda er skylt að blanda lífrænni sýru í allt óhitameðhöndlað þurrfóður handa fullorðnum dýrum, fráfæru- og eldisgrísum til að fyrirbyggja hættu af útbreiðslu salmonellu. Sýrustig votfóðurs skal vera á bilinu 4 til 4,5 og skal framleiðandi ef nauðsyn krefur blanda í votfóður lífrænni sýru til að tryggja að sýrustig fóðursins verði ekki hærra.
Framleiðandi skal jafnframt framkvæma aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn salmonellu við fóðurgerð, en þær geta falist í grófmölun mjölfóðurs, að nota bygg eða annað trefjaríkt korn í fóðurblönduna eða með notkun annarra viðurkenndra aðferða.
Þegar aðkeyptar fóðurblöndur eru gefnar á svínabúum geta fyrirbyggjandi aðgerðir falist í fóðrun með sérstökum tilbúnum fóðurblöndum sem einkum eru ætlaðar til þess að draga úr smitálagi vegna salmonellu.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 24. júní 2009.
F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.
Baldur P. Erlingsson.