Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

723/2017

Reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir með því að gera kröfur um fyrirbyggjandi brunavarnir, rekstur þeirra og tryggja fullnægjandi eldvarnareftirlit.

2. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða og orðasambanda í reglugerð þessari er sem hér segir:

Brunavarnir: Eldvarnir, starfsemi slökkviliðs og aðrar aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem mælt er fyrir um í lögum um brunavarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Forráðamaður: Sá sem hefur afnotarétt af mannvirki og/eða lóð að hluta eða að fullu.

Eigandi: Þinglýstur eigandi mannvirkis og/eða lóðar.

Eigið eldvarnareftirlit: Eigið eftirlit er daglegt og reglubundið eldvarnareftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og á eigin kostnað.

Eldvarnir: Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða eða hindra útbreiðslu elds.

Sótun: Hreinsun á reykrörum og eldstæðum.

Öryggiskerfi: Föst kerfi í mannvirkjum til þess að uppgötva eða halda eldi í skefjum og senda boð á sjálfvirkan hátt.

II. KAFLI

Kröfur til eiganda og forráðamanns.

3. gr.

Almennar kröfur til eiganda.

Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.

Eigandi ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Eigandi skal gæta þess að viðhalda ávallt brunatæknilegu öryggi í mannvirki og á lóð í sam­ræmi við forsendur útgefins byggingarleyfis og eðli starfseminnar á hverjum tíma.

Eiganda er skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunavarnir, byggingarmál, öryggismál, holl­ustu­hætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.

Eigandi skal kynna sér kröfur um eldvarnir sem gilda um mannvirkið, lóð þess og þá starfsemi sem þar fer fram. Þá skal hann afla sér þekkingar á þeim tæknibúnaði og byggingarhlutum mann­virk­is­ins sem hafa það hlutverk að gera viðvart um eld eða takmarka afleiðingar ef eldur kemur upp.

Hafi aðrir afnotarétt af eigninni er eiganda skylt að koma á nauðsynlegu samstarfi við forráðamann til að tryggja að kröfur reglugerðarinnar séu uppfylltar.

Eigandi getur ekki takmarkað ábyrgð sína skv. reglugerð þessari með samningum.

4. gr.

Almennar kröfur til forráðamanns.

Forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglu­bundið eftirlit með þeim. Jafnframt er honum skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitar­félaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um bruna­varnir, byggingarmál, öryggismál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.

Forráðamaður skal haga starfsemi sinni þannig að eldur geti ekki auðveldlega kviknað og að öryggis­aðgerðir og búnaður til brunavarna virki eins og til er ætlast.

Forráðamaður skal sjá til þess að byggingartæknilegar brunavarnir og aðrar öryggisaðgerðir tapi ekki gildi sínu. Forráðamaður skal tilkynna eiganda um allt sem máli skiptir varðandi brunaöryggi.

Forráðamaður skal kynna sér kröfur um eldvarnir sem gilda um mannvirkið, lóð þess og þá starf­semi sem þar fer fram. Þá skal hann afla sér þekkingar á þeim tæknibúnaði og bygging­ar­hlutum mannvirkisins sem hafa það hlutverk að gera viðvart um eld eða takmarka afleið­ingar ef eldur kemur upp.

III. KAFLI

Tæknilegar kröfur.

5. gr.

Flóttaleiðir, brunahólfun og öryggiskerfi.

Eigandi og forráðamaður skulu sjá til þess að flóttaleiðir séu ávallt greiðfærar þannig að þær uppfylli þörfina fyrir fljóta og örugga rýmingu.

Eigandi skal sjá til þess að nægjanlegur flóttatími sé tryggður með viðeigandi tæknilegum lausnum s.s. leiðamerkingum, öryggiskerfum og slökkvitækjum og viðhaldi þeirra.

Eigandi skal setja upp og viðhalda brunahólfun og öryggiskerfum sem hæfa aðstæðum þar sem það er nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu og koma í veg fyrir mikið eignatjón.

Öryggiskerfi sem krafa er um skulu tengd vaktstöð í samræmi við leiðbeiningar Mann­virkja­stofnunar og ákvæði byggingarreglugerðar.

6. gr.

Eftirlit og viðhald kerfa, búnaðar, tækja, byggingarhluta, kyndingar o.fl.

Eigandi skal, þar sem þess er þörf, sjá til þess að aðili með starfsleyfi samkvæmt reglugerð um þjónustuaðila brunavarna sinni reglubundnu eftirliti, þjónustu, yfirferð og viðhaldi kerfa, búnaðar, tækja og mannvirkja í samræmi við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar. Eigandi getur með samningi falið forráðamanni að sjá til þess að reglubundið eftirlit skv. þessari málsgrein fari fram.

Eigandi skal sjá til þess að reyk- og brunahólfun byggingarhluta sé virk og með fullnægjandi hurðum. Lagnir, rör og þess háttar sem fara í gegnum reyk- og brunahólfandi byggingarhluta skulu þannig frágengin að brunamótstaðan minnki ekki.

Um byggingarleyfisskyldu eldstæða og skorsteina fer samkvæmt lögum um mannvirki og bygging­ar­reglugerð. Eigandi skal ávallt tilkynna slökkviliði þegar sett er upp nýtt eldstæði í mann­virki. Eigandi skal sjá til þess að skorsteinn og aðrir hlutar kyndingar virki eins og til er ætlast og að aðkoma til sóthreinsunar sé tryggð. Uppgötvist bilun eða gallar sem augljóslega geta aukið hættu á eldsvoða má ekki nota kyndinguna. Skorsteinar skulu hreinsaðir á viðunandi hátt með reglu­legu millibili af til þess hæfum aðila í samræmi við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar.

7. gr.

Reykskynjari og slökkvibúnaður í íbúð.

Eigandi íbúðar skal sjá til þess að í íbúðinni og á hverri hæð sé a.m.k. einn CE-merktur reykskynjari fyrir hverja 80 m² staðsettir þannig að til þeirra heyrist greinilega í öllum svefnherbergjum þegar dyrnar eru lokaðar.

Eigandi íbúðar skal einnig sjá til þess að í íbúðinni sé a.m.k. eitt slökkvitæki með slökkvigetu a.m.k. 21 A, 183 B og C. Slökkvibúnaðinn skal vera hægt að nýta í öllum herbergjum. Slíkt slökkvitæki skal einnig vera í öllum bílgeymslum.

8. gr.

Slökkvivatn.

Eigandi atvinnuhúsnæðis skal á eigin lóð sjá til þess að slökkvivatn sé aðgengilegt og að nægjan­legt vatn sé til staðar til slökkvistarfs sé það áskilið í byggingarleyfi.

9. gr.

Tilteknir starfsmenn þjálfaðir í brunavörnum og slökkvistarfi.

Eigandi atvinnuhúsnæðis skal sjá til þess að nægjanlegur fjöldi starfsmanna sé tiltækur og þjálfaður í brunavörnum og slökkvistarfi í samræmi við aðstæður sé það áskilið í byggingarleyfi eða sam­kvæmt kröfu slökkviliðsstjóra, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000. Mannvirkjastofnun getur sett leiðbeiningar um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

IV. KAFLI

Skipulag og verklag eiganda og forráðamanns.

10. gr.

Skjalfesting öryggis.

Eigandi skal sjá til þess að brunaöryggi mannvirkja, lóða og starfsemi sem falla undir 19. gr. sé skjalfest. Skjalfesting skal ná til tæknilegra atriða og skipulagsþátta, þ. á m. reglna um viðhald, þjálfun, æfingar og innra eftirlit. Sé eigandi ekki sjálfur notandi mannvirkis eða lóðar skal for­ráða­maður sjá til þess að skjalfesta skipulagsþætti öryggismála.

Skjalfestingin skal vera aðgengileg eldvarnareftirliti slökkviliðs, eftir atvikum rafrænt auk þess sem slökkvilið getur krafist ítarlegri gagna.

11. gr.

Eldvarnarfulltrúi.

Eigandi og forráðamaður mannvirkja, lóða og starfsemi sem falla undir 19. gr. skulu tilnefna eld­varnar­fulltrúa sem sér um eldvarnir og sem eldvarnareftirlit slökkviliðs getur haft samskipti við.

Eldvarnarfulltrúi skal taka þátt í tilkynntum eftirlitsskoðunum, hafa þekkingu á brunavarnalöggjöf og brunatæknilegu og skipulagslegu fyrirkomulagi í mannvirkinu og jafnframt á möguleikum slökkviliðs til að bregðast við eldi í mannvirkinu.

Það léttir ekki skyldum skv. ákvæðum reglugerðar þessarar af eiganda og forráðamanni þó eld­varnar­fulltrúi hafi verið tilnefndur.

12. gr.

Þjálfun og brunaæfingar.

Allir starfsmenn og stjórnendur í mannvirkjum, lóðum og starfsemi sem falla undir 19. gr. skulu fá kennslu í brunavörnum og halda skal reglulega brunaæfingar sem taka mið af áhættunni í mann­virkinu. Nýráðnir og afleysingafólk skulu fá upplýsingar um hvernig beri að haga sér við bruna áður en þeir taka til starfa.

13. gr.

Verklagsreglur, viðbragðsáætlanir og fleira.

Forráðamaður mannvirkis, lóðar og starfsemi sem fellur undir 19. gr. skal útbúa og innleiða umgengnisreglur og neyðaráætlanir sem stýra aðgerðum sem snerta brunavarnir eða viðbrögð við eldi. Fyrir mannvirki þar sem eldsvoði getur leitt til stórfellds manntjóns skal auk þess gera björgunar- og viðbragðsáætlun. Eldvarnareftirlit slökkviliðs getur gert kröfu um að slíkt sé einnig gert fyrir önnur mannvirki og/eða lóðir.

Umgengnisreglum, neyðaráætlunum og öðrum áætlunum skal viðhaldið og þær uppfærðar reglulega.

14. gr.

Óvenjuleg eða mjög breytileg áhætta.

Við rekstur og notkun sem getur leitt til verulega aukinnar hættu á íkviknun eða útbreiðslu elds, skal forráðamaður virkja viðbótaraðgerðir sem tryggja að áhættan aukist ekki. Haft skal samráð við eldvarnarfulltrúa. Hið sama á við ef tæknilausnir, byggingarhlutar, búnaður, kerfi o.s.frv. eða hlutar þeirra, sem gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja brunaöryggi eru tímabundið gerð óvirk.

V. KAFLI

Aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir.

15. gr.

Skoðanir á tæknibúnaði sem hefur í för með sér hættu á eldsvoða.

Tækjabúnaður sem getur haft í för með sér aukna eldhættu og starfsemi þar sem unnið er með eldfima vökva, gas eða önnur hættuleg efni, skal skoðuð reglulega af hálfu slökkviliðs, skv. 19. gr. Þetta á t.d. við um olíukatla, reykháfa og ýmiss konar efnaiðnað.

16. gr.

Vinna sem hefur í för með sér hættu á eldsvoða.

Suðuvinnu, logavinnu og aðra sambærilega vinnu sem hefur í för með sér hættu á eldsvoða skal framkvæma á föstum vinnustað, sé þess nokkur kostur, sem hannaður er til að koma í veg fyrir og takmarka bruna. Sá sem vinnur slíka vinnu á tímabundnum vinnustað, þ.m.t. vinnu á þaki, skal sýna sérstaka aðgát. Hann skal framkvæma nauðsynlegar fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir bruna og hafa á staðnum nauðsynlegan slökkvibúnað til að geta brugðist tafarlaust við ef eldur kemur upp. Fylgja skal leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar við framkvæmd vinnu skv. þessari grein.

Atvinnurekandi skal sjá til þess að hæfur starfsmaður framkvæmi vinnu skv. 1. mgr. og að starfs­manninum sé veitt nægjanleg fræðsla um örugga framkvæmd áður en verkið er hafið.

Starfsmaður sem framkvæmir vinnu skv. 1. mgr. skal áður hún hefst kynna sér aðstæður á vettvangi og afla sér þekkingar á þeim tæknibúnaði og byggingarhlutum mannvirkisins sem hafa það hlutverk að gera viðvart um eld eða takmarka afleiðingar ef eldur kemur upp. Haft skal samráð við eldvarnarfulltrúa. Starfsmaðurinn skal jafnframt viðhafa nauðsynlegar varúðarráðstafanir vegna brunavarna við framkvæmd vinnunnar og vera reiðubúinn að bregðast við ef eldur kemur upp.

17. gr.

Úrgangur og brennanlegir hlutir sem af stafar brunahætta.

Úrgangur og brennanlegir hlutir sem af stafar brunahætta skulu meðhöndlaðir á tryggan hátt þannig að ekki kvikni í. Gáma undir úrgang sem og brennanlega hluti skal staðsetja þannig að ekki sé eldhætta fyrir nálægar byggingar.

18. gr.

Geymsla eitraðrar og ætandi vöru, gas undir þrýstingi o.fl.

Tilkynna skal til slökkviliðsstjóra um umfangsmikla geymslu á eitraðri og ætandi vöru, eldnærandi efnum, gasi undir þrýstingi o.þ.h. sem við eldsvoða getur haft í för með sér sérstaka hættu. Sama gildir um geymslu mikils magns af eldsneyti, áburði eða timbri og öðru með mikið brunaálag. Slökkviliðsstjóri getur sett skilyrði fyrir geymslu eða takmarkað hana ef vörurnar eða aðstæður á staðnum þykja sérlega hættulegar vegna hættu á bruna eða sprengingum.

VI. KAFLI

Eldvarnareftirlit.

19. gr.

Skoðunarskylda.

Eldvarnareftirlit skal haft með mannvirkjum, lóðum og starfsemi þar sem eldhætta getur skapast og ógnað lífi, heilsu, umhverfi og eignum.

Eftirfarandi mannvirki, lóðir eða starfsemi eru skoðunarskyld af hálfu eldvarnareftirlits slökkviliðs eða eftir atvikum háð eigin eftirliti eiganda, sbr. 26. gr.:

  1. Þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast og/eða þar sem hætta er á stór­felldu manntjóni í eldsvoða,
  2. þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta, þar sem hætta er á stórfelldu eigna­tjóni í eldsvoða eða þar sem eldsvoði getur haft alvarlegar samfélagslegar afleiðingar,
  3. allar byggingar í notkunarflokki 4, 5 og 6 skv. ákvæðum byggingarreglugerðar,
  4. mikilvægar menningarsögulegar byggingar og mannvirki,
  5. annað atvinnuhúsnæði og opinberar byggingar sem slökkviliðsstjóri telur nauðsynlegt að sæti reglubundnu eldvarnareftirliti.

Eldvarnareftirlit skv. 2. mgr. skal framkvæmt með eftirfarandi tíðni:

  1. Mannvirki sem falla undir a-, b- og c-lið 2. mgr.: að lágmarki einu sinni á ári.
  2. Mannvirki sem falla undir d- og e-lið 2. mgr.: skoðun að lágmarki fjórða hvert ár.

Slökkviliðsstjóri getur ákveðið að í stað árlegrar eftirlitsskoðunar á mannvirkjum sem falla undir a-lið 2. mgr. sé framkvæmt átaksverkefni þar sem slökkviliðið skoðar eingöngu einn eða fleiri fyrir­fram­ákveðna þætti brunavarna fyrir sambærileg mannvirki.

Slökkviliðsstjóri metur og heldur skrá um hvaða mannvirki, lóðir og starfsemi á hans starfssvæði falla undir skoðunarskyldu þessarar greinar. Við það mat skal slökkviliðsstjóri m.a. byggja á leið­bein­ingum Mannvirkjastofnunar. Skráin skal birt í brunavarnaáætlun og uppfærð a.m.k. einu sinni á ári á vefsíðu viðkomandi slökkviliðs eða sveitarfélags.

20. gr.

Árleg eftirlitsáætlun.

Sveitarfélag skal gæta þess að nægjanlegur hluti af heildarframlagi til slökkviliðsins sé nýttur til forvarna og eftirlitsstarfa.

Fyrir 1. febrúar ár hvert skal slökkviliðsstjóri gefa út eftirlitsáætlun ársins þar sem gerð er grein fyrir því hvaða mannvirki, lóðir og starfsemi í sveitarfélaginu munu sæta eldvarnareftirliti það árið. Áætlunin skal birt á vefsíðu slökkviliðsins eða viðkomandi sveitarfélags.

Fyrir 1. mars ár hvert skal slökkviliðsstjóri taka saman skýrslu um framkvæmd eldvarnareftirlits á liðnu ári og hvaða árangur hefur náðst. Senda skal Mannvirkjastofnun afrit af skýrslunni, eftir atvikum rafrænt.

21. gr.

Samvinna og fræðsla.

Slökkvilið skal hafa samvinnu við önnur stjórnvöld, þannig að lögum og reglugerðum sem settar eru til að hafa stjórn á brunaáhættu sé beitt í samvinnu eftirlitsaðila.

Slökkviliðið skal standa fyrir fræðslu og veita leiðbeiningar um hættuna á og við eldsvoða, um forvarnir og um aðgerðir við eldsvoða.

22. gr.

Uppbygging og mönnun eldvarnareftirlits.

Á öllum starfssvæðum slökkviliða skal vera tryggt að eldvarnareftirlit slökkviliðs sé þannig skipu­lagt, mannað, menntað og þjálfað að það geti annast eftirlit með þeirri áhættu sem er á starfssvæði slökkviliðs og nauðsynlegt forvarnarstarf.

Eldvarnareftirlit skal framkvæmt í samræmi við verklagsreglur og skoðunarhandbækur Mann­virkja­stofnunar.

Í öllum slökkviliðum skal vera starfandi eldvarnareftirlitsmaður sem sinnir eldvarnareftirliti, eftir atvikum samhliða öðrum störfum, sbr. þó 23. gr. Fjöldi starfandi eldvarnareftirlitsmanna skal taka mið af þeim áhættuþáttum sem eru í sveitarfélaginu. Í slökkviliði skal þó að lágmarki vera einn eldvarnareftirlitsmaður í fullu starfi fyrir hverja 10.000 íbúa á starfssvæði slökkviliðsins, nema rökstutt sé í brunavarnaáætlun að annað sé nægjanlegt. Ef íbúar eru færri skal lágmarks­starfs­hlut­fall eldvarnareftirlits vera í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Meta verður í bruna­varna­áætlun hvort aðstæður og áhættuþættir í sveitarfélaginu krefjist aukins fjölda eld­varnar­eftirlits­manna.

Sveitarfélög skulu leitast við að hafa samstarf um eldvarnareftirlit til að nýta sem best hæfni starfs­manna.

Þeir sem sinna eldvarnareftirliti og stjórnendur þess skulu a.m.k. hafa lokið viðeigandi námi sam­kvæmt reglugerð um brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna eða hafa menntun sem Mannvirkjastofnun metur jafngilda. Þeir skulu jafnframt hafa menntun skv. einum af eftir­töldum liðum:

  1. Menntun fyrir atvinnuslökkviliðsmenn eða
  2. hafa lokið 32 einingum í byggingartækni að loknu sveinsprófi, þ.e. jafngildi meistararéttinda á byggingasviði eða byggingariðnfræði eða
  3. hafa lokið prófi í byggingartæknifræði, byggingarverkfræði, arkitektúr eða byggingarfræði.

Fáist ekki aðili til starfa sem uppfyllir framangreind hæfisskilyrði er sveitarstjórn heimilt að höfðu samráði við Mannvirkjastofnun að ráða eldvarnareftirlitsmann tímabundið til starfa, þó ekki lengur en til tveggja ára í senn.

23. gr.

Skoðunarstofur.

Slökkviliðsstjóri getur, að fengnu samþykki sveitarstjórnar, falið óháðri skoðunarstofu eld­varnar­eftirlit í heild eða að hluta og skal þá eftirlitið framkvæmt í samræmi við verklagsreglur og skoðunarhandbækur Mannvirkjastofnunar. Skilyrði er að skoðunarstofa hafi gæðastjórnunarkerfi í sam­ræmi við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar. Sé eldvarnareftirlit falið skoðunarstofu ber slökkvi­liðs­stjóri eftir sem áður ábyrgð á framkvæmd eftirlitsins.

Skoðunarmenn skoðunarstofu skulu uppfylla hæfniskröfur 22. gr. Taka stjórnvaldsákvarðana og beiting réttar- og þvingunarúrræða skal ávallt vera í höndum slökkviliðsstjóra í samræmi við ákvæði laga um brunavarnir.

24. gr.

Tilkynning um eftirlit.

Almennt skal tilkynnt um eldvarnareftirlit áður en það fer fram. Skyndiskoðanir má þó gera eftir þörfum. Við eftirlit sem hefur verið tilkynnt um skal eldvarnarfulltrúi vera viðstaddur.

25. gr.

Framkvæmd eftirlits og málsmeðferð.

Sá sem framkvæmir eftirlit skal meta hvort allir þættir sem geta haft áhrif á brunaáhættu og þær aðgerðir sem eru notaðar til að takmarka afleiðingar við bruna séu nægjanlega útfærðir. Að loknu eftirliti skal eftirlitsaðili gera skýrslu þar sem fram koma frávik frá kröfum um brunaöryggi, athuga­semdir og upplýsingar um þörf fyrir nýjar aðgerðir í öryggismálum. Skýrslan skal án tafar send eiganda og/eða forráðamanni sem og eldvarnarfulltrúa. Eiganda og/eða forráðamanni ber að gefa upplýsingar, innan setts tímafrests, um hvernig brugðist verði við til þess að leiðrétta þau frávik sem bent er á.

Sé ekki farið að fyrirmælum í eftirlitsskýrslu og úrbætur ekki gerðar skal beita viðeigandi úrræðum í samræmi við ákvæði VIII. kafla laga um brunavarnir.

26. gr.

Eigið eftirlit.

Slökkviliðsstjóri getur heimilað að eigið eftirlit eiganda og/eða forráðamanns komi í stað skoðunar eldvarnareftirlits slökkviliðs. Slík heimild skal veitt skriflega og skal tíðni skoðana tilgreind sér­stak­lega. Heimildin er háð eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að skoðun sé framkvæmd af eldvarnarfulltrúa, sbr. 11. gr. og skal hann þá uppfylla hæfnis­kröfur 5. mgr. 22. gr. reglugerðar þessarar.
  2. Að fyrir liggi skjalfesting þess að brunaöryggi í mannvirkinu sé nægjanlegt, sbr. 10. gr. og að ekki hafi verið gerðar umtalsverðar breytingar á þáttum er varða eldvarnir frá síðustu skoðun eldvarnareftirlits.
  3. Að ekki hafi undanfarin fjögur ár verið gerðar kröfur um úrbætur af hálfu eldvarnareftirlits sem ekki hefur verið brugðist við með fullnægjandi hætti.

Skoðun skv. 1. mgr. skal framkvæmd í samræmi við verklagsreglur og skoðunarhandbækur Mannvirkjastofnunar. Eldvarnarfulltrúi skal gera skýrslu um framkvæmd eigin eftirlits og skila til slökkviliðsins innan tveggja vikna frá framkvæmd skoðunar. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir þeim úrbótum sem gerðar voru í kjölfar eftirlitsins. Slökkvilið skal yfirfara skýrsluna og staðfesta móttöku hennar. Ef tilefni er til athugasemda skulu þær gerðar innan fjögurra vikna frá móttöku skýrslunnar.

Eldvarnareftirlit slökkviliðs skal reglulega gera úrtaksskoðanir á þeim mannvirkjum, lóðum og starfsemi þar sem fengist hefur heimild til eigin eftirlits skv. 1. mgr. Komi í ljós við slíka skoðun að eldvörnum er áfátt skal heimildin tafarlaust felld úr gildi.

VII. KAFLI

Önnur verkefni sveitarfélags.

27. gr.

Vatnsöflun.

Vatnsveita sveitarfélagsins að lóðarmörkum í þéttbýli skal vera nægjanleg til að tryggja slökkvi­liðinu slökkvivatn eftir þörfum. Í íbúðarhverfum, frístundahúsahverfum o.þ.h. þar sem aðstæður eru góðar að mati slökkviliðsstjóra, lítil hætta er á útbreiðslu elds og aðgengi að vatni innan hæfilegrar vegalengdar er nægjanlegt að slökkviliðið hafi yfir að ráða hæfilegum tankbílum.

Á svæðum sem skipulögð eru þannig að þar geti verið starfsemi sem hefur þörf fyrir úðakerfi skal sveitarfélagið sjá til þess að nægjanlegt vatn sé frá vatnsveitu til að uppfylla þarfir slíkra kerfa á svæðinu. Í sveitarfélagi þar sem vatnsöflun er erfið skal leita annarra lausna til að tryggja nauðsyn­legt slökkvivatn.

28. gr.

Aðkoma slökkviliðs.

Tryggja skal eins og unnt er að slökkviliðið hafi aðgang að byggingum við bruna, og að aðkoma að mannvirkjum sé þannig að hægt sé að koma tækjum slökkviliðsins að.

Við byggingar þar sem gert er ráð fyrir að rýming sé gerð með tækjum slökkviliðsins, skal vera hægt að koma slíkum tækjum að þeim stöðum sem ætlaðir eru sem björgunarleiðir.

VIII. KAFLI

Málsmeðferð og ýmis ákvæði.

29. gr.

Leiðbeiningar.

Mannvirkjastofnun getur gefið út leiðbeiningar um nánari framkvæmd einstakra greina í reglugerð þessari.

30. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt 34. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

31. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir um eigið eldvarnareftirlit eigenda og for­ráða­manna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði nr. 200/1994 og um eldvarnareftirlit sveitar­félaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hefur verið í notkun nr. 198/1994.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júlí 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Jón Geir Pétursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica