708/2000
Reglugerð um breytingu á reglugerð um skemmtibáta nr. 168/1997. - Brottfallin
Stofnreglugerð:
Felld brott með:
1. gr.
Í stað 1. – 8. gr. koma nýjar greinar, 1. – 11. gr., svohljóðandi:
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um skemmtibáta með mestu lengd frá 2,5 m að 24 m, bæði fullsmíðaða og hálfsmíðaða, sem og búnað skemmtibáta sem tilgreindur er í II. viðauka.
Skemmtibátur er í reglugerð þessari allar tegundir af bátum, óháð knúningsmáta, frá 2,5 m til 24 m að bollengd, mælt í samræmi við viðeigandi samhæfða staðla, ætlaður til íþrótta og tómstunda. Sú staðreynd að hægt er að nota sama bátinn til leiguflutninga eða til að kenna/þjálfa skemmtisiglingar ætti ekki að koma í veg fyrir að hann heyri undir tilskipun þessa þegar hann er settur á markað í tómstundaskyni.
Eftirtaldir bátar og tæki eru undanskilin ákvæðum þessarar reglugerðar:
a. |
Bátar sem eingöngu eru ætlaðir til æfinga og keppni, þar með taldir kappróðrarbátar og árabátar til þjálfunar sem eru merktir sem slíkir af framleiðendum. |
b. |
Kanúar, kajakar, gondólar og hjólabátar. |
c. |
Seglbretti. |
d. |
Vélknúin brimbretti, sjóþotur o.þ.h. (e. personal water craft) og önnur svipuð vélknúin farartæki. |
e. |
Upprunalegir sögulegir bátar og einstaka eftirlíkingar báta sem hannaðir voru fyrir 1950 og eru smíðaðir úr sams konar efni og fyrirmyndin og svo flokkaðir hjá framleiðendum. |
f. |
Bátar sem smíðaðir eru í tilraunaskyni að því tilskildu að þeir verði ekki síðar settir á markað á EES-svæðinu. |
g. |
Bátar smíðaðir til eigin nota, að því tilskildu að þeir verði ekki settir á markað á EES-svæðinu næstu fimm ár eftir að smíði líkur enda verði notkun takmörkuð með tilliti til ástands bátsins. |
h. |
Bátar sem ætlaðir eru til atvinnustarfsemi, einkum þeir sem eru tilgreindir í tilskipun Evrópusambandsins nr. 82/716/EBE frá 4. október 1982 um tæknilegar kröfur vegna skipa á skipgengum vatnaleiðum, óháð farþegafjölda. |
i. |
Kafbátar. |
j. |
Svifbátar. |
k. |
Skíðabátar. |
2. gr.
Markaðssetning, markaðseftirlit og heimild til notkunar.
Siglingastofnun hefur markaðseftirlit með skemmtibátum, búnaði og innflutningi þeirra. Siglingastofnun skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðeins sé unnt að markaðssetja og taka í notkun skemmtibáta og búnað þeirra í samræmi við fyrirhugaða notkun þeirra, en þó aðeins að notkun þeirra hafi ekki í för með sér hættu fyrir öryggi og heilsu manna, eignir eða umhverfið þegar þeir eru smíðaðir og viðhaldið á réttan hátt.
3. gr.
Grunnkröfur.
Skemmtibátar skv. þessari reglugerð skulu uppfylla kröfur um öryggi, heilsu, umhverfisvernd og neytendavernd sem kveðið er á um í I. viðauka.
4. gr.
Frjáls innflutningur skemmtibáta og búnaðar skemmtibáta.
Siglingastofnun skal ekki banna, takmarka eða hindra að settir verði á markað eða teknir í notkun skemmtibátar eða búnaður þeirra, sem eru merktir CE-merkinu sem um getur í IV. viðauka sem gefur til kynna samræmi þeirra við öll ákvæði þessarar reglugerðar, þar með taldar samræmingarreglurnar í II. kafla.
Siglingastofnun skal ekki banna, takmarka eða hindra að settir verði á markað hálfsmíðaðir bátar ef bátasmiðurinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða einstaklingur sem er ábyrgur fyrir markaðssetningu lýsir því yfir í samræmi við a-lið í III. viðauka, að þeir verði fullgerðir af öðrum.
Siglingastofnun skal ekki banna, takmarka eða hindra að búnaður sem um getur í II. viðauka og er merktur með CE-merkinu, sem gefur til kynna samræmi búnaðarins við viðeigandi grunnkröfur, verði settur á markað og tekinn í notkun, ef ætlunin er að setja þennan búnað í skemmtibáta, í samræmi við yfirlýsingu, sem um getur í b-lið III. viðauka, frá framleiðandanum, viðurkenndum fulltrúa hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða, í tilviki innflutnings frá þriðja landi, frá einstaklingi sem setur þennan búnað á markað á EES svæðinu.
Siglingastofnun skal ekki hindra, á kaupstefnum, vörusýningum, í auglýsingum o.s.frv. að skemmtibátum og búnaði þeirra sem er ekki í samræmi við þessa reglugerð verði komið á framfæri, að því tilskildu að það sé greinilega tekið fram að slíka skemmtibáta eða slíkan búnað megi ekki markaðssetja eða taka í notkun þar til samræmingu er náð.
Ef skemmtibátar og/eða búnaður þeirra heyra undir aðrar reglugerðir á öðrum sviðum sem kveða einnig á um CE-merkingu skal CE-merkingin gefa til kynna að skemmtibátarnir og/eða búnaður þeirra uppfylli einnig ákvæði þeirra reglugerða. Ef ein eða fleiri slíkra reglugerða heimila framleiðandanum, á aðlögunartímabili, að velja hvaða fyrirkomulag hann vilji hafa skal CE-merkingin þó gefa til kynna að skemmtibáturinn og/eða búnaður hans uppfylli aðeins ákvæði þeirra reglugerða sem framleiðandinn notar. Í slíku tilviki skulu upplýsingar í þessum reglugerðum, eins og þær birtast í B-deild Stjórnartíðinda, tilgreindar í skjölum, auglýsingum eða leiðbeiningum sem krafist er í þessum reglugerðum og fylgja slíkum skemmtibátum og/eða búnaði þeirra.
5. gr.
Íslenskir staðlar.
Siglingastofnun skal ganga út frá því að skemmtibátar og/eða búnaður þeirra sem eru í samræmi við viðeigandi innlenda staðla sem samþykktir eru samkvæmt samhæfðum stöðlum, uppfylli grunnkröfurnar sem um getur í 3. gr. ef tilvísanir í þá hafa verið birtar í Stjórnartíðindum ESB.
Siglingastofnun skal birta tilvísanir í slíka íslenska staðla eða aðra sambærilega staðla frá öðru landi á EES-svæðinu.
6. gr.
Öryggisákvæði.
Ef Siglingastofnun Íslands kemst að raun um að skemmtibátar eða búnaður þeirra sem um getur í II. viðauka, merktir með CE-merkinu sem um getur í IV. viðauka, rétt smíðaðir, útbúnir, viðhaldið og notaðir á fyrirhugaðan hátt, geti stofnað öryggi og heilsu manna í hættu og skaðað eignir eða umhverfið ber stofnuninni að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að innkalla þá af markaðinum eða banna eða takmarka markaðssetningu þeirra eða að þeir verði teknir í notkun.
7. gr.
Samræmismat.
Áður en framleiðsla og markaðssetning hefst sem um getur í 1. mgr. 1. gr. skal framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu fara eftir eftirfarandi reglum um bátahönnunarflokka A, B, C og D eins og um getur í 1. lið í I. viðauka.
1. |
Flokkar A og B. |
|
— Fyrir báta styttri en 12 m að mestu lengd; innri framleiðslustýring og prófanir (aðferðareining Aa) sem um getur í VI. viðauka. |
|
— Fyrir báta með mestu lengd frá 12 m til 24 m; EB-gerðarprófun (aðferðareining B) sem um getur í VII. viðauka ásamt aðferðareiningu C (gerðarsamræmi) sem um getur í VIII. viðauka eða einhver af eftirfarandi aðferðareiningum: B + D, B + F eða G eða H. |
2. |
Flokkur C. |
|
a) Fyrir báta með mestu lengd frá 2,5 m til 12 m: |
|
— Þar sem samhæfðir staðlar varðandi liði 3.2 og 3.3 í I. viðauka eru uppfylltir; innri framleiðslustýring (aðferðareining A) sem um getur í V. viðauka. |
|
— Þar sem samhæfðir staðlar varðandi liði 3.2 og 3.3 í I. viðauka eru ekki uppfylltir; innri framleiðslustýring ásamt prófunum (aðferðareining Aa) sem um getur í VI. viðauka. |
|
b) Fyrir báta með mestu lengd frá 12 m til 24 m; EB-gerðarprófun (aðferðareining B) sem um getur í VII. viðauka ásamt aðferðareiningu C (gerðarsamræmi) sem um getur í VIII. viðauka eða einhver af eftirfarandi aðferðareiningum: B + D, B + F, G eða H. |
|
|
3. |
Flokkur D. |
|
Fyrir báta með mestu lengd frá 2,5 m til 24 m; innri framleiðslustýring (aðferðareining A) sem um getur í V. viðauka. |
|
4. Fyrir íhluta sem um getur í II. viðauka; ein af eftirfarandi aðferðareiningum: B + C eða B + D eða B + F eða G eða H. |
8. gr.
Tilkynntir aðilar.
Samgönguráðuneytið tilkynnir Eftirlitsstofnun EFTA og hinum aðilum hins Evrópska efnahagssvæðis um þá aðila sem þau hafa tilnefnt til að inna verkefni af hendi sem lúta að reglum um samræmismatið sem um getur í 8. gr., ásamt sérverkefnum sem þessir aðilar hafa verið tilnefndir til að inna af hendi og kenninúmerin sem framkvæmdastjórnin ESB hefur úthlutað þeim fyrirfram.
Samgönguráðuneytið notar viðmiðanir þær sem mælt er fyrir um í XIV. viðauka til að meta hvaða aðila eigi að tilnefna. Litið skal svo á að aðilar sem uppfylla matsviðmiðanirnar sem ákveðnar eru með samhæfðum stöðlum uppfylli þessar viðmiðanir.
Samgönguráðuneytið dregur tilnefninguna til baka ef tilkynnti aðilinn telst ekki lengur uppfylla viðmiðanirnar sem um getur í XIV. viðauka.
9. gr.
CE-merki.
Skemmtibátar og búnaður þeirra sem um getur í II. viðauka og álitið er að samræmist grunnkröfum sem um getur í 3. gr., skulu merktir með CE-merkinu þegar þeir eru settir á markað.
CE-merkið, eins og það er sýnt í IV. viðauka, skal fest á skemmtibáta eins og tilgreint er í lið 2.2 í I. viðauka og á þann búnað þeirra sem tilgreindur er í II. viðauka, og/eða á umbúðir þeirra á greinilegan, læsilegan og óafmáanlegan hátt.
CE-merkingunni skal fylgja kenninúmer þess tilkynnta aðila sem er ábyrgur fyrir þeim aðgerðum sem um getur í viðaukum VI, IX, X, XI og XII.
Óheimilt er að festa á skemmtibáta merki eða áletranir sem geta valdið því að þriðji aðili fái villandi upplýsingar um þýðingu og útfærslu CE-merkisins. Heimilt er að festa öll önnur merki á skemmtibáta og framangreindan búnað þeirra, að því tilskildu að þau geri CE-merkið ekki ógreinilegra eða ólæsilegra.
Ef Siglingastofnun Íslands telur að CE-merki hafi verið fest á rangan hátt, er framleiðandinn eða fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skyldugur að ráða bót á merkingunni.
Ef ekki er farið eftir ábendingum um ranga merkingu, skal Siglingastofnun Íslands gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna markaðssetningu vörunnar sem í hlut á eða til að tryggja að hún verði afturkölluð af markaðinum, í samræmi við 6. gr.
10. gr.
Rökstuðningur ákvarðana.
Allar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar og hafa í för með sér takmarkanir á markaðssetningu eða heimild til að nota skemmtibáta og/eða búnað þeirra skulu rökstuddar. Hlutaðeigandi aðila skal tilkynnt án tafar um slíka ákvörðun og honum um leið kynnt þau lagaúrræði sem hann getur nýtt sér og um þann frest sem hann hefur til þess.
11. gr.
Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 29. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum með síðari breytingum.
2. gr.
Í stað orðanna "Haffærir bátar" í 1. tölul. I. viðauka komi "Úthafsbátar".
3. gr.
Í stað orðanna "Bátar á vötnum og vatnaleiðum" í 1. tölul. I. viðauka komi "Bátar á skýldum hafsvæðum/vatnaleiðum".
4. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 35/1993 ásamt síðari breytingum og með hliðsjón af tilskipun 94/25/EB frá 16. júní 1994 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna um skemmtibáta, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytinu, 7. september 2000.
Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.