1. gr.
Í stað 29. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar svohljóðandi:
29. gr.
Endurgreiðsla kostnaðar.
Sé farbann lagt á skip skv. 19. gr. skal útgerð greiða sérstakt gjald vegna farbannsins. Gjaldið skal vera til endurgreiðslu þess kostnaðar sem fellur til hjá Samgöngustofu í tengslum við farbannið. Til kostnaðar telst vinna starfsmanna samkvæmt tímagjaldi, ferðakostnaður, gistikostnaður, fæðiskostnaður, efniskostnaður og annar kostnaður sem kann að falla til sérstaklega vegna farbanns. Farbanni skal ekki aflétt fyrr en full greiðsla hefur borist eða fullnægjandi tryggingar settar fyrir greiðslu gjaldsins.
Gjaldið skal birt í gjaldskrá Samgöngustofu samkvæmt lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012.
29. gr. a.
Sektir.
Ef útgerð skips, sem sæta skal víðtækri skoðun samkvæmt 14. gr. og er á leið til hafnar eða akkerislægis á Íslandi, uppfyllir ekki kröfur 9. gr. um tilkynningaskyldu, skal útgerðin greiða stjórnvaldssekt skv. 45. gr. skipalaga nr. 66/2021.
Sé farbann lagt á skip skv. 19. gr. skal útgerð skips greiða stjórnvaldssekt skv. 45. gr. skipalaga nr. 66/2021. Farbanni skal ekki aflétt fyrr en full greiðsla hefur borist eða fullnægjandi tryggingar verið settar fyrir greiðslu sektarinnar.
2. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 33. gr. skipalaga nr. 66/2021, öðlast þegar gildi.
Innviðaráðuneytinu, 8. maí 2024.
Svandís Svavarsdóttir.
Aðalsteinn Þorsteinsson.