Dómsmálaráðuneyti

1048/2022

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir Íslenskar getraunir nr. 166/2016 með síðari breytingum.

1. gr.

Á eftir 38. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 38. gr. a, svohljóðandi:

Íslenskum getraunum er heimilt að starfrækja viðbótarleik við getraunir sem nefnist "XG". Sé annað ekki tekið fram gildir reglugerð um Íslenskar getraunir fyrir leikinn XG. Leikurinn fer fram einu sinni í viku eða oftar nema annað sé ákveðið.

Leikurinn felst í því að þátttakandi getur sér til um lokamarkatölu 13 leikja sem valdir eru á getraunaseðli. Giskað er á hvort leikur endar með 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6 eða 7 eða fleiri mörkum.

Þátttakandi hefur val um að merkja sjálfur við fjölda marka, velja þekkingarstýrt sjálfval (Albert) eða láta tölvukerfið velja fyrir sig með því að merkja í reit sem heitir "tölvuval". Þátttak­anda er óheimilt að kaupa fleiri en 20.000 raðir á hvern getraunaseðil og mega samanlögð kaup hvers þátttakanda í hverri umferð ekki fara yfir 30.000 raðir.

Verð á röð í XG skal vera það sama og verð hverrar getraunaraðar í getraunum, sbr. 16. gr.

Úrslit hvers leiks af þeim 13 leikjum sem eru í boði ákvarðast af því hvort honum lauk með engu marki, 1, 2, 3, 4, 5, 6 eða 7 eða fleiri mörkum.

Ef ákvarða þarf úrslit leiks með hlutkesti er átt við að dregið er um eina tölu af 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6 eða 7 eða fleiri með sérstökum hlutum eða einingum. Samtals eru 100 einingar með í útdrættinum. Þær ákvarðast af líkum á 0 mörkum, 1 marki, 2, 3, 4, 5, 6 eða 7 eða fleiri mörkum þann dag sem opnað er fyrir sölu á seðlinum. Í þeim tilfellum sem líkur liggja ekki fyrir ákvarðar Svenska Spel líkurnar. Ef ákvarða þarf með hlutkesti úrslit 7 eða fleiri leikja á getraunaseðli ógildist getrauna­seðillinn og skal þátttökugjald þá endurgreitt.

Fyrsti vinningur fyrir 13 rétta er að lágmarki 50 milljónir sænskra króna auk þriggja vinnings­flokka með breytilegum fjölda réttra leikja.

Íslenskar getraunir, Svenska Spel og aðrir samstarfsaðilar greiða 0,75 sænskar krónur í vinninga fyrir hverja selda röð.

Vinningsfjárhæðin skiptist þannig að annar vinningsflokkur fær 30%, þriðji vinningsflokkur fær 18% og fjórði vinningsflokkur fær 22%. 30% af vinningsfjárhæðinni rennur til fyrsta vinningsflokks og deilist milli tveggja sjóða, grunnsjóðs og vaxtarsjóðs, sbr. síðustu mgr.

Í fyrsta vinningsflokk fara raðir sem eru með 13 rétta, í annan vinningsflokk fara raðir sem eru með flestar raðir réttar, í þriðja vinningsflokk fara raðir sem eru með næstflestar raðir réttar og í fjórða vinningsflokk fara raðir sem eru með þriðju flestar raðir réttar. Ein röð má að hámarki vera með í einum vinningsflokki í einni og sömu umferðinni. Ef einhver eða einhverjir eru með 13 rétta fara næst­flestu raðirnar í annan vinningsflokk, þriðju flestu raðirnar fara í þriðja vinningsflokk og fjórðu flestu raðirnar í fjórða vinningsflokk.

Vinningsupphæð fyrir röð í lægri vinningsflokki má ekki vera hærri en vinningsupphæð fyrir röð í hærri vinningsflokki. Umframupphæðinni er skipt jafnt milli vinningsraða í viðkomandi vinn­ings­flokkum.

Ef væntanlegur vinningur fyrir röð í vinningsflokki nær ekki 15 sænskum krónum fellur vinn­ings­flokkurinn niður og flyst vinningsupphæðin yfir á vinningsflokk númer tvö í næstu umferð.

Sjóðir:

  1. Grunnsjóður: 16% af vinningsfjárhæðinni rennur í svokallaðan grunnsjóð sem nýttur er til að greiða vinningsfjárhæð að upphæð 50 milljónir sænskra króna ef einhver eða einhverjir fá 13 rétta. Svenska Spel og samstarfsaðilar tryggja að tilskilin fjárhæð sé til staðar í sjóðnum. Ef fjárhæðin í sjóðnum fer yfir 250 milljónir sænskra króna skiptist umfram­fjárhæðin jafnt á milli næstu þriggja vinningsflokka.
  2. Vaxtarsjóður: 14% af vinningsfjárhæðinni rennur í svokallaðan vaxtarsjóð. Þeir sem fá 13 rétta skipta með sér vaxtarsjóðnum eftir því hversu margar 13 réttar raðir hver viðskipta­vinur hefur. Ef fjárhæðin í sjóðnum fer yfir 250 milljónir sænskra króna skiptist umfram­fjárhæðin jafnt á milli næstu þriggja vinningsflokka.

 

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. gr. laga um getraunir nr. 59/1972, öðlast gildi 19. september 2022.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 13. september 2022.

 

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica