Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

825/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 930/2012 um girðingar meðfram vegum.

1. gr.

2. ml. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Skulu upphæðir viðaukans endurskoðaðar árlega að fenginni umsögn Bændasamtakanna.

2. gr.

5. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Viðhaldskostnaður girðinga með stofn- og tengivegum greiðist að jöfnu af Vegagerðinni og land­eiganda í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Innan mánaðar frá því að landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofn- og tengivegum skal hann tilkynna það til sveitarstjórnar og viðkomandi þjónustustöðvar Vegagerðarinnar og óska eftir greiðslu á kostnaðarhlutdeild veghaldara. Vegagerðin skal greiða landeiganda sem svarar helmingi af áætluðum viðhaldskostnaði girðinga eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. Uppgjör vegna kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar skal fara fram innan mánaðar frá því að tilkynning berst Vegagerðinni eða frá úttekt skv. 3. mgr. fari hún fram.

Vegagerðinni er heimilt að gera að skilyrði kostnaðarþátttöku að úttekt fari fram á viðhaldi girðinga. Komi í ljós við úttekt að viðhaldi hefur ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti að mati Vega­gerðar­innar eða sveitarstjórnar er Vegagerðinni heimilt að synja um greiðslu. Tilkynni land­eigandi ekki fyrir 1. október að árlegu viðhaldi sé lokið er Vegagerðinni heimilt að synja um greiðslu helmings viðhaldskostnaðar þess árs.

Við uppgjör vegna kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar í viðhaldskostnaði girðinga meðfram stofn- og tengivegum skal við það miðað að árlegur viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga, sbr. 3. gr. Þó skal miða við að viðhaldskostnaður geti numið allt að 7% af stofnkostnaði í erfiðu girðinga­landi eða vegna snjóþyngsla, sbr. nánari ákvæði í viðauka reglugerðarinnar.

3. gr.

Í stað viðauka við reglugerðina kemur nýr viðauki sem birtur er með reglugerð þessari. 2. liður við­aukans er uppfærður í samræmi við áskilnað 2. ml. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. mgr. 52. gr., sbr. 58. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breyt­ingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 12. september 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica