1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi flugumferðar með setningu samræmdra reglna um flug.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi skal gilda fyrir flugumferð íslenskra og erlendra loftfara innan þess loftrýmis sem Ísland hefur yfirráð yfir. Reglugerðin tekur einnig til flugs íslenskra loftfara erlendis nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum, reglugerðum og/eða verklagsreglum þeirra ríkja sem loftfarið flýgur yfir.
3. gr.
Mælieiningar í flugstarfsemi.
Í flugi og flugstarfsemi á jörðu niðri skal stuðst við mælieiningar sem byggja á alþjóðlega SI-einingakerfinu. Um er að ræða samræmt einingakerfi sem almenna þingið fyrir vog og mál (CGPM) hefur samþykkt og lagt til að verði notað. Um kerfið gilda lög um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, reglugerðir samkvæmt þeim sem og staðlar Staðlaráðs sem eru mælieiningunum til fyllingar.
Þar sem notast er við mælieiningar sem ekki eru í SI-einingakerfinu skulu þær þó ávallt byggja á viðmiðun í kerfinu eða stöðlum þeim til fyllingar.
4. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi viðauki 2 um flugreglur (Rules of the Air) við Chicago-samninginn um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation).
Í Flugmálahandbók (AIP Iceland) eru birtar upplýsingar um yfirráðasvæði Íslands, ákvæði og upplýsingar um bann-, hafta- og hættusvæði flugumferðarþjónustu, mörk flugstjórnarrýmis, flugleiðir og flugvelli, sbr. 140. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 ásamt síðari breytingum og reglugerð um upplýsingaþjónustu flugmála.
5. gr.
Viðaukar.
Viðauki I og II fylgja reglugerð þessari og eru hluti hennar.
Viðauki I við reglugerð þessa tekur mið af viðauka 2 við Chicago-samninginn. Viðauki II byggir á viðbætum og fylgiskjölum við viðauka 2 við Chicago-samninginn.
6. gr.
Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 56. gr., 5. mgr. 75. gr., 2. og 3. mgr. 76. gr. og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi auglýsing um setningu flugreglna nr. 55/1992 með síðari breytingum og reglugerð um einelti loftfara í almenningsflugi nr. 450/1999.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 24. september 2010.
Ögmundur Jónasson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)