Iðnaðarráðuneyti

1033/2005

Reglugerð um breytingu á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004. - Brottfallin

1. gr.

2. gr. orðist svo:

Skilgreiningar.

Eftirfarandi skilgreiningar eru notaðar í reglugerð þessari:

Afhendingarstaður: Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.

Afltoppur: Afltoppur er hæsta meðalálag raforku, mælt í skilgreindan tíma. Mælieining afltopps er kW eða kVAr.

Almennur notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota, en er ekki stórnotandi.

Ábyrgðaraðili jöfnunarorku: Sá aðili sem ábyrgist með skriflegum samningi við kerfisstjórn að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar, og ráðstöfunar, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.

Ábyrgðaraðili mælinga: Flutningsfyrirtæki og dreifiveitur.

Gagnaflutningssamband: Fjarskiptasamband til flutnings á mæligögnum.

Hámarksúttekt: Mesta leyfilega afl í kW og kVA sem flytja má um tengingu eins og kveðið er á um í tengisamningi.

Heimilisnotandi: Almennur notandi sem kaupir raforku til heimilisnota, þar með talið húshitunar.

Innmötun: Raforka sem er mötuð inn á flutningskerfi eða dreifikerfi.

Jöfnunarorka: Mismunur innmataðrar/úttekinnar orku og kaup-/söluskuldbindinga hvers ábyrgðaraðila jöfnunarorku.

Kennitala mælistaðar: Hlaupandi talnakóði fyrir hvern mælistað (mæliverk) í raforkukerfinu.

Mælibúnaður: Mælibúnaður er safnheiti yfir allan nauðsynlegan búnað til að mæla raforkunotkun. Til mælibúnaðar teljast m.a. raforkumælar, straumspennar, spennuspennar, tímarofar, mælitaugar, einangrun, varnarbúnaður, gagnasafnverk og samskiptabúnaður.

Mælisnúmer: Sérstakt eigandanúmer raforkumælis eða raðnúmer á upplýsingaskildi mælis.

Notkunarferill: Mismunur heildarorkuúttektar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar, og tímamældrar notkunar einstakra notenda og ómældrar þekktrar notkunar hins vegar. Töp í raforkukerfinu teljast hluti af notkunarferli.

Notkunarstaður: Sá staður þar sem dreifiveita afhendir raforku til almenns notanda.

Ómæld þekkt notkun: Raforka sem seld er samkvæmt afltaxta, þar sem uppsett afl og nýtingartími er notað til útreiknings á raforkunotkun og mælingu verður ekki komið við af tæknilegum ástæðum eða vegna kostnaðar.

Raforkumælir: Mælir, sem ætlaður er til að mæla raun- eða launorku.

Raforkusölusamningur: Samningur milli sölufyrirtækis og notanda um sölu hins fyrrnefnda á raforku til hins síðarnefnda.

Stoðþjónusta: Kaup á aðföngum eins og tíðnireglun, spennureglun, varaafli, o.fl., sem nauðsynleg eru til að uppfylla skyldur um kerfisþjónustu.

Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma í 8000 stundir eða meira.

Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.

Sölumælir: Mælir sem notaður er til uppgjörs á sölu raforku.

Tengisamningur dreifiveitu: Samningur dreifiveitu við almennan notanda eða vinnslufyrirtæki um tengingu þessara aðila við dreifikerfið, dreifingu raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

Tengisamningur flutningskerfis: Samningur flutningsfyrirtækis við vinnslufyrirtæki, dreifiveitu eða stórnotanda um tengingu þessara aðila við flutningskerfið, flutning raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

Tímamæling: Mæling raforkunotkunar sem safnað er klukkustund fyrir klukkustund.

Töp í raforkukerfinu: Mismunur á mældri innmataðri orku á svæði og því sem mælt er út af sama svæði ásamt ómældri þekktri notkun sem til uppgjörs er á hverjum tíma.

2. gr.

1. mgr. 6. gr. breytist og orðist svo:

Dreifiveita skal annast dreifingu þeirrar raforku sem kemur frá flutningskerfinu og þeim virkjunum sem framleiða beint inn á dreifikerfi hennar, til notenda á viðkomandi dreifiveitusvæði. Dreifiveita ber ábyrgð á mælingum og ómældri þekktri notkun á sínu dreifiveitusvæði og að skila gögnum til viðkomandi aðila.

Við 2. mgr. 6. gr. bætist nýr tl., sem verður 1. tl. Númer síðari töluliða breytast til samræmis. Nýr 1. tl. orðast svo:

Tengja alla sem eftir því sækjast við dreifikerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því og greiði tengigjald sem skal tilgreint í gjaldskrá. Gerður skal tengisamningur við notendur. Dreifiveitu er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að kerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu, öryggi og gæði kerfisins. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd.

3. gr.

1. mgr. 7. gr. breytist og orðist svo:

Notandi á frá og með 1. janúar 2006 rétt á að velja sér sölufyrirtæki sem hann gerir raforkusölusamning við um afhendingu raforku á tilgreindum stað.

Við 7. gr. bætast 2 nýjar málsgreinar er verða 2. og 3. mgr. Önnur málsgreinanúmer breytast til samræmis:

Í þeim tilvikum sem um nýja neysluveitu eða notendur sem ekki hafa síðastliðna 12 mánuði verið í raforkuviðskiptum fyrir eigin reikning er að ræða, ber dreifiveitu þegar við skráningu að leiðbeina notendum skriflega um rétt þeirra til að velja sér raforkusala, fresti til þess og um álag á raforkuverð ef raforkusali er ekki valinn. Dreifiveitu er óheimilt að vekja athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað. Notandi skal innan 4 vikna frá tengingu gera samning við raforkusala. Hafi samningur ekki verið gerður við sölufyrirtæki innan tilgreinds frests ber dreifiveitu að gera samning við sölufyrirtæki um að afhenda viðkomandi notanda raforku með 50% álagi á lægsta verð fyrir almenna notkun hjá því sölufyrirtæki sem dreifiveita skiptir við. Á reikningi ber að upplýsa um álagið og ástæður þess.

Í þeim tilvikum sem um er að ræða notendur sem ekki eiga kost á að velja sér raforkusala, t.d. vegna vanskila, ber dreifiveitu að útvega raforku með 50% álagi á lægsta verð fyrir áætlaða notkun. Um áhrif vanskila fer skv. 10. gr.

Núverandi 2. mgr., sem verður 4. mgr., breytist og orðist svo:

Staðlaður samningur um viðskipti með raforku milli sölufyrirtækis og almenns notanda skal liggja til grundvallar viðskiptum með raforku. Slíkan samning er heimilt að gera rafrænt, að því tilskildu að hann sé í kjölfarið staðfestur með sannanlegum hætti. Samningsaðilum er þó heimilt að gera með sér sérsamning, og skal slíkur samningur vera skriflegur. Uppsögn raforkusamninga skal vera sannanleg.

Núverandi síðasti ml. 5. mgr. (sem verður 7. mgr.) 7. gr. breytist og orðist svo:

Tilkynning um uppsögn raforkusölusamnings skal hafa borist dreifiveitu fyrir 1. dag mánaðar eigi skipti á sölufyrirtæki að taka gildi næstkomandi mánaðamót.

4. gr.

9. gr. breytist og orðist svo:

Raforkusölusamningum milli heimilisnotenda og sölufyrirtækja er heimilt að segja upp með a.m.k. 1 mánaðar fyrirvara, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar. Þó er heimilt að gera samninga til allt að tveggja ára með upplýstu samþykki og gegn betri viðskiptakjörum notanda.

5. gr.

1. mgr. 41. gr. breytist og orðist svo:

Sölufyrirtækjum, sem hafa hlotið heimild ráðherra til að stunda sölustarfsemi, er heimilt að innheimta gjöld fyrir sölu og dreifingu raforku. Þegar innheimtan er í höndum sölufyrirtækis ber því að beina innheimtunni um viðskiptabanka og skal halda greiðslu dreifiveituþjónustu aðskilinni á sérgreindum bankareikningi sem einungis er heimilt að ráðstafa til greiðslu fyrir dreifiveituþjónustu. Heimilt er að sölu- og dreififyrirtæki innheimti gjöld fyrir þjónustu hvort í sínu lagi. Á reikningi ber að sérgreina gjald fyrir flutning, dreifingu og sölu raforku.

3. mgr. 41. gr. fellur út. Önnur málsgreinanúmer breytast til samræmis.

6. gr.

2. mgr. 46. gr. breytist og orðist svo:

Dreifiveitum er heimilt að skilgreina fleiri en einn notkunarferil á dreifiveitusvæði sínu. Þó er ekki heimilt að leggja fleiri en einn notkunarferil til grundvallar úttekt á hverjum afhendingarstað úr flutningskerfinu. Samtengdir og sammældir afhendingarstaðir teljast í þessu sambandi einn afhendingarstaður. Breytingar á notkunarferlum skulu gerðar í samráði við flutningsfyrirtækið.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 20. gr. raforkulaga nr. 65/2003 tekur þegar gildi.

Iðnaðarráðuneytinu, 14. nóvember 2005.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica