1. gr.
Við 1. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður er orðast svo:
3. Greiðslu styrkja til einkaleyfishitaveitna vegna yfirtöku starfandi einkahitaveitna.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:
a. Í stað tölunnar "35.000" í 1. og 4. málsl. 2. mgr. kemur: 40.000.
b. Í stað tölunnar "4.700" í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 5.375.
3. gr.
Á eftir III. kafla reglugerðarinnar kemur nýr kafli, IV. kafli, Yfirtaka starfandi hitaveitna, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra kafla og lagagreina samkvæmt því:
a. 17. gr. Skilyrði styrkja vegna yfirtöku starfandi hitaveitna.
Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til yfirtöku starfandi einkahitaveitna skal þeim fjármunum varið til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi, dreifa heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.
Hitaveitu ber að sýna fram á, með óyggjandi hætti, að einkahitaveita sé yfirtekin af starfandi einkaleyfishitaveitu, standi frammi fyrir endurnýjun dreifikerfis og eigi í rekstrarlegum örðugleikum af þeim sökum.
b. 18. gr. Fjárhæð styrkja.
Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi einkahitaveitu. Miðað skal við 20.000 kWst ársnotkun á hverja íbúð sem tengd er einkahitaveitunni. Við ákvörðun styrkfjárhæðar skal miðað við fjárhæð niðurgreiðslu í dreifbýli á veitusvæði Rarik hf.
Styrkir þessir skulu renna óskertir til hitaveitunnar.
c. 19. gr. Umsóknir.
Hitaveitur geta sótt um styrk til iðnaðarráðuneytisins. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um hitaveituna og viljayfirlýsing viðkomandi hitaveitna um samruna þeirra.
Umsóknum skulu fylgja eftirfarandi gögn:
Upplýsingar um notendur einkahitaveitu.
Upplýsingar um endurnýjun dreifikerfis og kostnað vegna framkvæmda.
Ársreikningur eða aðrar upplýsingar um fjárhag einkahitaveitu.
d. 20. gr. Úthlutun og ráðstöfun styrkja.
Greiðsla styrkja vegna yfirtöku starfandi hitaveitna skal miðast við það tímamark þegar samruni einkaleyfishitaveitu og einkahitaveitu á sér stað enda dugi fjárveiting á því ári til greiðslu styrks.
Styrkir skulu renna óskertir til einkaleyfishitaveitu. Beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi einkahitaveitu skulu ekki dregnir frá styrkfjárhæðinni.
e. 21. gr. Niðurfelling niðurgreiðslna.
Við samruna einkaleyfishitaveitu og einkahitaveitu fellur niður réttur til niðurgreiðslu á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á starfssvæði einkahitaveitunnar, nema ákvæði 2. tl. 1. mgr. 4. gr. eigi við.
4. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli heimildar í 21. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 78/2002, öðlast þegar gildi.
Iðnaðarráðuneytinu, 3. október 2006.
Jón Sigurðsson.
Kristján Skarphéðinsson.