Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki í eigu eftirtalinna sveitarfélaga í þeim eignarhlutföllum sem hér segir: Reykjavíkurborg 93,539%, Akraneskaupstaður 5,528%, Borgarbyggð 0,761%, og Borgarfjarðarsveit 0,172%. Orkuveita Reykjavíkur starfar á grundvelli laga nr. 139 frá 21. desember 2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur og reglugerðar þessarar.
Heimili og varnarþing er í Reykjavík, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.
Heimilt er að sameina Orkuveitu Reykjavíkur við sambærilega starfsemi annarra sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila eða félaga í þeirra eigu.
Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna.
Hver eigandi um sig er í einfaldri hlutfallslegri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Hlutfallsleg einföld ábyrgð hvers eiganda um sig tekur mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Nýjar ábyrgðir og skuldbindingar stjórnar umfram 5% af höfuðstól á ári hverju skulu lagðar fyrir eigendur fyrirfram til samþykktar.
Með höfuðstól er átt við bókfært eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í lok næstliðins árs.
Heimild til að skuldbinda sameignarfyrirtækið, með þeim takmörkunum sem fram koma í 5. mgr. þessarar greinar, er í höndum stjórnar þess og nægir atkvæði meirihluta stjórnarmanna til þessa. Með skuldbindingum er í ákvæði þessu átt við lántökur, kaup, sölu eða veðsetningu á fasteignum fyrirtækisins eða öðrum veigameiri eignum þess, hlutabréfum, lánveitingum o.þ.h.
Tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.
Stjórn fyrirtækisins er skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs formann og varaformann stjórnarinnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á stjórnarfundum vegur atkvæði formanns tvöfalt.
Varamenn, jafnmargir, skulu kjörnir á sama hátt og aðalmenn. Kjörtímabil stjórnarinnar er eitt ár í senn, frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur á viðkomandi ári til aðalfundar á næsta ári.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fer með málefni fyrirtækisins og annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Einungis stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur veitt prókúruumboð.
Aðalfund skal halda í júnímánuði ár hvert. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
1. | Skýrsla stjórnar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðið starfsár. |
2. | Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins, lagður fram til staðfestingar. |
3. | Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Orkuveitu Reykjavíkur á reikningsárinu. |
4. | Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið starfsár. |
5. | Lýst kjöri stjórnar. |
6. | Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags. |
7. | Umræður um önnur mál. |
Rétt til setu á aðalfundi eiga borgar- og bæjarstjórar eignaraðila, stjórn og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Borgar- og bæjarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga fara með atkvæðisrétt eignaraðila á aðalfundi og skal atkvæðisréttur vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra. Heimilt er stjórn fyrirtækisins að bjóða öðrum að sitja aðalfund félagsins.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun þess og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Forstjóra ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem þeir kunna að óska eða veita ber samkvæmt lögum. Stjórn skal setja forstjóra starfslýsingu.
Forstjóri sér um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
Orkuveita Reykjavíkur hefur einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Álftanes, Akranes, Borgarnes og Þorlákshöfn. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að starfrækja hitaveitur á öðrum svæðum og í öðrum sveitarfélögum. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að selja vatn öðrum sveitarfélögum, sem sjálf annast dreifingu heits vatns.
Orkuveita Reykjavíkur hefur einkarétt til sölu og dreifingar rafmagns á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær norðan Hraunholtslækjar og Akranes.
Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Reykjavíkur leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það. Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur við gildistöku reglugerðar þessarar skulu halda þeim rétti sínum.
Orkuveita Reykjavíkur ber skyldur Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga. Ennfremur ber Orkuveita Reykjavíkur skyldur Borgarbyggðar til starfrækslu vatnsveitna í Borgarnesi og á Bifröst.
Stjórn sameignarfyrirtækisins setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda.
Gjaldskrár fyrir dreifiveitu rafmagns skal sett samkvæmt 17. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Gjaldskrá heits vatns, sem selt er á grundvelli 30. gr. orkulaga nr. 58/1967, öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum. Aðrar gjaldskrár heits vatns og rafmagns sem samþykktar eru af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið birtar opinberlega. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.
Orkuveita Reykjavíkur hefur sjálfstætt reikningshald og tekur sjálf við greiðslu fyrir selda orku og öðrum tekjum. Skal tekjunum varið til að standa straum af öllum greiðsluskuldbindingum, svo sem afborgunum áhvílandi skulda, vöxtum og öðrum rekstrarkostnaði. Þá skal tekjunum varið til fullnægjandi viðhalds og endurnýjunar mannvirkja og tækja.
Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegum arði miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun arðsins skal tekin af aðalfundi.
Rekstur deilda Orkuveitu Reykjavíkur skal aðgreindur reikningslega og fjárhagslega í samræmi við þarfir Orkuveitu Reykjavíkur og lagaáskilnað. Aðgreiningunni skal þannig háttað að unnt sé að sannreyna raunverulegan kostnað af orkuöflun, flutningi, dreifingu og sölu. Sameiginlegum kostnaði skal skipt á deildir fyrirtækisins samkvæmt áætlun sem staðfest skal af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi.
Um skyldu Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og slíkan rekstur hafa með höndum. Orkuveita Reykjavíkur skal undanþegin stimpilgjöldum.
Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur skulu gera með sér sameignarsamning þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið. Til breytinga á sameignarsamningnum þarf samþykki eigenda 3/4 eignarhluta fyrirtækisins. Setja skal nánari ákvæði um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur með reglugerðum sem ráðherrar staðfesta. Í reglugerðum skal meðal annars kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.
Innan Orkuveitu Reykjavíkur skal starfrækt sérstakt svið eða deild sem sinnir nýsköpun og markaðsstarfi vegna sölu á orku, þróunar- og rannsóknarverkefnum, hérlendis og erlendis. Skal starfsemi þessari markaður rammi í stefnumótun fyrirtækisins.
Orkuveita Reykjavíkur aflar orku í eigin orkuverum eða með kaupum á markaði.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að kaupa orkuver og starfrækja slík mannvirki, enda fáist til þess tilskilin leyfi.
Orkuveita Reykjavíkur flytur orku um eigin flutnings-, aðveitu-, og dreifikerfi, eða eftir slíkum kerfum í eigu annarra enda fáist til þess tilskilin leyfi. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að kaupa flutnings-, aðveitu- og dreifikerfi af öðrum til eigin nota eða rekstrar.
Orkuveita Reykjavíkur annast lagningu, viðhald og endurnýjun flutnings-, aðveitu- og dreifikerfis, þ.m.t. heimlagna.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að setja í tengiskilmála ákvæði um lagningu heimlagna og tengingu þeirra við húsveitur húseigenda. Húsveita sem tengist veitukerfi Orkuveitu Reykjavíkur skal fullnægja kröfum sem settar eru í reglugerðum og tengiskilmálum.
Heimtaugar ásamt stofnvarkassa þar sem það á við og heimæðar ásamt tengigrind eru eign Orkuveitu Reykjavíkur ef ekki er sérstaklega um annað samið og þótt tengigjald hafi verið greitt.
Nú eru sérstakir erfiðleikar á tengingu húss og húsveita fullnægir ekki þeim skilyrðum sem sett eru í raforkulögum, skipulagslögum, byggingarlögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þá getur Orkuveita Reykjavíkur ákveðið að tengja hús samkvæmt sérstöku samkomulagi við húseiganda eða að hús sé ekki tengt. Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að krefjast þess að húseigandi láti þinglýsa yfirlýsingu á húseignina um að hún hafi verið tengd samkvæmt sérstöku samkomulagi. Um tengingu húsveitna við raforkudreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur gilda ákvæði raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum. Heimilt er að krefja eiganda um kostnað við úrbætur á húsveitu sem óskar tengingar.
Umsókn um heimlögn eða breytingar á þeim skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig jafnframt til þess með undirskrift sinni að greiða heimlagnagjald það sem kveðið er á um í verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur getur heimilað afgreiðslu umsóknar sem berst með rafrænum hætti. Húseigandi ber kostnað við þær breytingar á heimlögnum sem framkvæmdar eru að hans ósk. Þegar heimlögn hefur verið lögð er heimlagnagjald gjaldkræft.
Telji Orkuveita Reykjavíkur nauðsynlegt að komið verði upp tengivirki í húsi eða á lóð viðkomandi húseignar vegna væntanlegrar orkuafhendingar, skal Orkuveitu Reykjavíkur látið í té húsrými með sérstökum samningi eða lóð án endurgjalds enda sé tengivirkið nauðsynlegt fyrir viðkomandi hús. Þetta gildir þó aðeins ef um er að ræða mikla orkunotkun og hagkvæmnissjónarmið eiga við að mati Orkuveitu Reykjavíkur.
Óski Orkuveita Reykjavíkur eftir spennubreytingu á húsveitu, er húseiganda/orkukaupanda skylt að hlíta því, enda sé breytingin gerð á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur. Óski húseigandi eftir spennubreytingu á húsveitu sinni verður Orkuveita Reykjavíkur við þeirri ósk verði því við komið m.t.t. dreifikerfis. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að láta umsækjanda greiða kostnað við slíka breytingu nýtist hún dreifikerfinu ekki að öðru leyti.
Viðskiptavinur skal gæta þess að ekki sé hætta á að vatn frjósi í tengigrind eða inntaki og viðskiptavinur skal tryggja nægjanlegt rennsli til þess eða gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru. Sé þess ekki kostur ber honum að tilkynna það Orkuveitu Reykjavíkur eins fljótt og auðið er, svo unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Sér í lagi ber viðskiptavinum sem reka húsveitur þar sem ekki er dagleg viðvera að tryggja óhindrað rennsli heita vatnsins gegnum inntak, tengigrind og stjórnbúnað húsveitnanna til varnar frosthættu.
Kostnaður við aftengingu og endurtengingu húsveitna við dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur skal greiddur af viðskiptavini samkvæmt verðskrá. Varanleg aftenging eftir skriflegri beiðni húseiganda er þó gjaldfrjáls.
Orkuveita Reykjavíkur getur krafist breytinga á húsveitum eða sett skilyrði fyrir tengingu þeirra ef af þeim er bein slysahætta og ef tækjabúnaður eða virkni húsveitna hafa óæskileg áhrif á rekstur veitukerfa orkuveitunnar eða á nærliggjandi viðskiptavini. Sinni viðskiptavinur ekki kröfum orkuveitunnar um úrbætur er heimilt að stöðva orkuafhendingu.
Ef viðskiptavinur óskar eftir því að aftengjast dreifikerfinu um tíma, er heimilt að taka gjald samkvæmt verðskrá.
Komi til skömmtunar á heitu vatni í lengri eða skemmri tíma, skal þess gætt að orka til húshitunar njóti forgangs.
Komi til skömmtunar á raforku skal farið að reglum um skömmtun, settum á grundvelli reglugerðar um framkvæmd raforkulaga.
Við afhendingu orku til fjarliggjandi staða eða til staða þar sem lóðareigendur neita að leggja til lóð fyrir nauðsynlega spennistöð og lóð eða aðstöðu fyrir stólpa eða festur fyrir raflínur án endurgjalds, getur Orkuveita Reykjavíkur krafist sérstakra greiðslna frá viðskiptavini.
Orkuveitu Reykjavíkur er ekki skylt að veita afslátt af sölu heits vatns vegna lágs hitastigs þess á afhendingarstað enda geri Orkuveita Reykjavíkur þær ráðstafanir sem má ætlast til af henni til að halda hitastiginu í eðlilegu horfi.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að nota bakrennslisvatn sem runnið hefur í gegnum húsveitur.
Stöðvun á rekstri veitunnar, eða hluta hennar, vegna viðgerða og tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er, og koma skal á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem unnt er.
Réttur viðskiptavinar til afnota af hitaveituvatni skuldbindur ekki Orkuveitu Reykjavíkur til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur, enda geri Orkuveita Reykjavíkur þær ráðstafanir sem ætlast má til af henni til að halda þrýstingnum í eðlilegu horfi.
Orkuveita Reykjavíkur undanþiggur sig, að svo miklu leyti sem lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 heimila, bótaábyrgð á tjóni, jafnt beinu sem óbeinu, sem rekja má til frosts, bilana eða takmarkana á orkuvinnslunni, spennubreytinga rafmagns, þrýstibreytinga heits vatns, stöðvunar orkuafhendingar eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í hitaveituæð er stöðvað eða rafstraumur rofinn vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra aðgerða Orkuveitu Reykjavíkur. Viðskiptavinir eiga ekki bótakröfu á hendur Orkuveitu Reykjavíkur, þótt straumur hafi verið rofinn eða rennsli stöðvað fyrirvaralaust. Orkuveita Reykjavíkur ber ekki ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni orkukaupanda eða húseiganda. Orkuveita Reykjavíkur tekur ekki ábyrgð á veitu viðskiptavinar með úttekt eða tengingum.
Ábyrgðartakmörkun samkvæmt þessari grein er bundin því að beint tjón orkukaupanda/húseiganda verði ekki rakið til mistaka starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur eða faggiltur aðili sem Orkuveita Reykjavíkur hefur gert samning við á og setur upp nauðsynleg mælitæki vegna sölu og ákveður fjölda, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja til án samþykkis Orkuveitu Reykjavíkur en Orkuveita Reykjavíkur getur krafist flutnings þeirra, ef staðsetningin er óhentug. Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og verktakar á vegum Orkuveitu Reykjavíkur skulu ætíð hafa aðgang að mælitækjum og þeir einir mega rjúfa innsigli þeirra. Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og verktakar skulu ætíð bera skilríki sem sannar heimild þeirra til aðgengis að mælitækjum.
Eiganda fasteignar er skylt að tryggja aðgengi Orkuveitu Reykjavíkur að mælitækjum. Orkuveita Reykjavíkur getur sent eiganda fasteignar áskorun um aðgengi að mælitækjum með 7 daga fyrirvara. Verði eigandi ekki við áskorun Orkuveitu Reykjavíkur ber eigandi fulla ábyrgð á orkunotkun frá þeim tíma er fresturinn rann út og einfalda ábyrgð á öllum kostnaði sem hlýst af aðgerðum Orkuveitu Reykjavíkur við lokun á orkuafhendingu.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að flytja mælitæki, sem hafa verið lokuð þrjá mánuði eða lengur, á nafn eiganda fasteignar einum mánuði eftir tilkynningu þess efnis, þar sem eiganda er gefinn kostur á að veita aðgang að mælitækjum svo unnt verði að taka þau niður.
Verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda þann orkukaupanda sem ábyrgur er fyrir notkun um mælitækið til að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess.
Mælitæki telst rétt ef mesta skekkja þess er innan 4% marka. Hafi mælitækið sýnt meira en sem nemur mestri leyfilegri skekkju þess, ber Orkuveitu Reykjavíkur að leiðrétta reikninga viðkomandi orkukaupanda. Hafi mælitækið sýnt minna en sem nemur mestri leyfilegri skekkju þess er félaginu heimilt að leiðrétta reikninga viðkomandi viðskiptavinar, enda sé um veruleg frávik frá hámarksskekkju að ræða.
Við leiðréttingu á reikningum skal miða við mælt frávik mælitækisins að teknu tilliti til fyrri notkunar viðkomandi orkukaupanda og annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingar um það hvenær mælitækið bilaði. Ekki skal miða leiðréttingu reikninga við lengra tímabil en eitt ár enda hafi orkukaupanda ekki verið ljóst eða mátt vera það ljóst, að um bilun mælitækis væri að ræða.
Orkuveita Reykjavíkur selur orku í samræmi við reglugerð þessa, tengiskilmála og gjaldskrár.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að gera sérsamninga um sölu á þjónustu og orku.
Orkuveita Reykjavíkur skal setja sér gjaldskrár og fer um gildistöku þeirra eftir því sem segir í 6. gr. reglugerðar þessarar.
Notkunargjöld verða krafin mánaðarlega samkvæmt nánari ákvæðum gjaldskrár, en heimilt er að láta lengri tíma líða milli gjalddaga. Við verðbreytingar á orku og fastagjöldum skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til. Orkuveita Reykjavíkur ákveður gjalddaga reikninga.
Orkuveita Reykjavíkur má byggja orkureikninga á áætlun um orkunotkun viðskiptavinar og innheimta reglulega skv. slíkri áætlun. Reikningar sem eru byggðir á orkunotkun nefnast "uppgjörsreikningar", en reikningar sem eru byggðir á áætlaðri orkunotkun nefnast "áætlunarreikningar".
Orkunotkun skal sannreyna u.þ.b. árlega. Þegar orkunotkun hefur verið sannreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar.
Leiði aukin orkunotkun af galla á búnaði orkukaupanda, er Orkuveitu Reykjavíkur ekki skylt að lækka orkureikning vegna þess.
Viðskiptavinur getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við mælda notkun. Enn fremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um orkunotkun vegna nýrra forsendna.
Heimilt er að skipta reikningi vegna orkukaupa um einn mæli. Sé það gert bera orkukaupendur um þann mæli hver um sig ábyrgð in solidum á greiðslu hvers reiknings. Við vanskil á einum eða fleiri reikningum er heimilt að stöðva orkuafhendingu um hinn sameiginlega mæli. Bera viðkomandi viðskiptavinir allan aukakostnað sem hinni auknu þjónustu er samfara.
Reikninga skal að jafnaði senda viðskiptavini á notkunarstað.
Heimilt er að beita rafrænni greiðslumiðlun til greiðslu á reikningum að ósk viðskiptavinar. Í þeim tilfellum skal senda viðkomandi viðskiptavini yfirlit um skuldfærslur og notkun árlega. Notkun greiðslumæla er heimil með samþykki Orkuveitu Reykjavíkur og viðskiptavinar.
Viðskiptavinum er skylt að hlíta ákvæðum gildandi gjaldskrár og breytingum sem þar kunna að verða á.
Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunar- eða uppgjörsreikning, má Orkuveita Reykjavíkur áskilja sér og innheimta dráttarvexti frá og með gjalddaga reiknings til greiðsludags, auk kostnaðar sem af innheimtu kröfunnar hlýst.
Orkuveita Reykjavíkur hefur rétt til að loka fyrir rafmagn og rennsli heits vatns að húsi eða íbúð viðskiptavinar, sem vanrækir að greiða orkureikninga, þ.m.t. reikninga vegna heimlagnagjalda, ásamt vöxtum og öllum innheimtukostnaði. Einnig ef húseigandi vanrækir skyldur sínar skv. reglugerð þessari. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir gjalddaga og að undangenginni skriflegri aðvörun, sem send er viðskiptavini með hæfilegum fyrirvara, sem eigi skal vera skemmri en þrír dagar. Orkuveita Reykjavíkur ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar.
Heimild þessi er til staðar hvort sem um er að ræða uppgjörsreikning eða áætlunarreikning.
Beri viðskiptavinur ábyrgð á orkukaupum um fleiri en einn mæli má stöðva orkuafhendingu um hvern þeirra sem er eða alla, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við einn þeirra.
Stöðvun orkuafhendingar hefur engin áhrif á greiðsluskyldu orkukaupenda á skuldum við Orkuveitu Reykjavíkur.
Skuldari greiðir allan kostnað af lokun og opnun á ný samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.
Sé lokað vegna vanskila getur Orkuveita Reykjavíkur ákveðið að opna ekki aftur, nema ekki sé lengur um vanskil eða aðrar vanefndir að ræða og/eða trygging sé sett fyrir skilvísri greiðslu framvegis.
Skráður orkukaupandi ber ábyrgð á notkun um þau mælitæki húsveitu sem hann er skráður fyrir, þar til hann lætur af notkun hennar og hefur sagt upp notkun eða tilkynnt flutning. Uppsögn eða flutning skal tilkynna Orkuveitu Reykjavíkur með eðlilegum fyrirvara, sem annast lokaálestur.
Orkuveita Reykjavíkur getur átt kröfu á hendur öðrum en skráðum notanda, færi fyrirtækið sönnur á að um málamyndagerning sé að ræða.
Þegar um er að ræða sameiginlega notkun í fjöleignarhúsi er húseigendum skylt að skrá húsfélag fyrir notkuninni. Sé sameiginlegt mælitæki fjöleignahúss skráð á einstakling er Orkuveitu Reykjavíkur heimilt að gera húsfélagið ábyrgt fyrir notkuninni eða þá einstaklinga sem notið hafa hennar, eftir því sem við á.
Ef fasteign er seld nauðungarsölu er Orkuveitu Reykjavíkur heimilt að skrá orkunotkun á nýjan eiganda fasteignar frá þeim degi sem uppboðsafsal er gefið út.
Hafi eigi annar viðskiptavinur sótt um að fá mælitæki skráð á sitt nafn, skal loka því, og eigi skal hefja orkusölu á ný um tækið, fyrr en tilkynnt hefur verið um nýjan notanda.
Tilkynningu um breytingu á notkun, þannig að hún geti fallið undir annan gjaldskrárlið, skal senda Orkuveitu Reykjavíkur með mánaðar fyrirvara.
Ef húseigandi eða trúnaðarmaður hans verður þess var, að orkukaupendaskipti hafa orðið, án þess að þau hafi verið tilkynnt Orkuveitu Reykjavíkur, ber honum að gera Orkuveitu Reykjavíkur aðvart um það án tafar. Vanræki húseigandi þessa tilkynningarskyldu sína ber hann einfalda ábyrgð vegna ógreiddrar orkunotkunar þess aðila.
Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna orkunotkunar. Skilgreining á orðinu nákominn er bundin við maka, foreldra og börn, en hvað varðar félög er skilgreining sú sama og er í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að krefjast tryggingar vegna áætlaðrar notkunar allt að þrjá mánuði fram í tímann.
Verði uppvíst að orka hafi verið notuð með öðrum hætti en um er samið, raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingum, þannig að ekki komi fram öll notkun, skal Orkuveita Reykjavíkur áætla þá orku sem notuð hefur verið í óleyfi og gera reikning fyrir þá orku í samræmi við verðskrá og skal notandi greiða fyrir það gjald eftir verðskrá þann tíma sem liðinn er frá síðasta aflestri. Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um sennilega notkun má miða við undangengna hámarksnotkun. Við endurtekningu skal rjúfa tengingar viðkomandi við veitukerfið.
Brot á reglugerð þessari eða skilmálum Orkuveitu Reykjavíkur skal fara með að hætti opinberra mála.
Brot á reglugerð þessari getur og varðað bótaskyldu samkvæmt almennum reglum.
Vanræki viðskiptavinur að gera úrbætur sem Orkuveita Reykjavíkur hefur mælt fyrir um, í samræmi við reglugerð þessa, getur Orkuveita Reykjavíkur látið framkvæma það sem þörf krefur, á kostnað viðskiptavinar.
Reglugerð þessi sem samþykkt er af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er hér með staðfest skv. lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 139, 21. desember 2001, orkulögum nr. 58 29. apríl 1967 og raforkulögum nr. 65, 27. mars 2003 og öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felldar eftirtaldar reglugerðir: Reglugerð nr. 793/1998 um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 892/2001, sbr. nr. 976/2000 fyrir Akranesveitu og nr. 245/2001 fyrir Hitaveitu Þorlákshafnar.