Iðnaðarráðuneyti

458/1992

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 264, 31. desember 1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Grein 1.1.4 hljóði svo:

1.1.4 Réttindi til eftirlits og rannsókna

Rafmagnseftirlit ríkisins skal ætíð hafa óhindraðan aðgang að þeim raforkuvirkjum sem það hefur eftirlit með og rétt til að gera þær athuganir og rannsóknir er það telur nauðsynlegar. Eigendum og umráðamönnum raforkuvirkja er skylt að veita Rafmagnseftirlitinu til þess þá aðstoð er þörf krefur og það kann að óska eftir.

Skoðunarstofu á vegum Rafmagnseftirlitsins er heimilt að kanna rafföng hjá ábyrgðaraðilum og öðrum seljendum.

Rafmagnseftirlitið getur tekið í sína vörslu eða innsiglað rafföng eða hverskyns hluta raforkuvirkja sem ekki fullnægja skilyrðum reglugerðar þessarar. Rafmagnseftirlitið getur skyldað ábyrgðaraðila til að afturkalla tæki eða búnað sem seldur hefur verið eða afhentur og ekki fullnægir skilyrðum reglugerðar þessarar. Með dómi er heimilt að gera upptæk þau rafföng sem framleidd eru, seld, afhent, eða notuð andstætt skilyrðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Grein 1.4 hljóði svo:

1.4 Eftirlit með rafföngum

1.4.1 Almennt

Grein 1.4 nær til raffanga sem boðin eru fram í atvinnuskyni og tekur til framleiðslu, innflutnings, sölu, gjafar, notkunar, framsals, afnotaréttar og annarrar meðhöndlunar. Raffang merkir í þessu sambandi hvers konar hlut sem að einhverju leiti kemur að gagni við nýtingu raforku, þ.e. til vinnslu, flutnings, dreifingar, geymslu, mælinga, breytinga og notkunar raforku, svo sem spennar hreyflar, mælitæki, neyslutæki, varnarbúnaður og búnaður til raflagna og ætlaður er til notkunar við málspennu til og með 1000 V riðspennu og 1500 V jafnspennu.

Rafmagnseftirlit ríkisins gefur út skrár yfir rafföng eða flokka raffanga samkvæmt grein þessari.

1.4.2 Ákvæði um öryggi raffanga

Rafföng má því aðeins setja á markað að faglegum vinnubrögðum hafi verið beitt við hönnun og gerð þeirra og þau stofni ekki öryggi manna, húsdýra eða eigna í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim við haldið og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast. Helstu þættir þeirra öryggismarkmiða sem um getur í 1. mgr. eru sett fram í greinum 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3.

1.4.2.1 Almenn ákvæði um öryggi raffanga

(1) Helstu kennistærðir sem þekkja þarf og taka tillit til svo að örugg og rétt notkun raffanga sé tryggð skulu skráðar á rafföngin eða, sé slíkt ekki mögulegt, í leiðbeiningum sem þeim fylgja.

(2) Nafn framleiðanda eða vörumerki skal standa skýrum stöfum á rafföngum eða, sé slíkt ekki mögulegt, á umbúðum raffanga.

(3) Rafföng og íhlutir þeirra skulu þannig gerð að tryggt sé að hægt sé að setja þau saman og tengja rétt og örugglega.

(4) Hönnun og framleiðsla raffanga skal vera með þeim hætti að tryggð sé vörn gegn hættum

sem nefndar eru í greinum 1.4.2.2. og 1.4.2.3, að því tilskildu að rafföngin séu rétt tengd, notuð eins og til er ætlast og viðhald þeirra sé fullnægjandi.

1.4.2.2 Vörn gegn hættum sem stafa af rafföngum

Ráðstafanir tæknilegs eðlis skulu miðaðar við að:

(1) fólk og húsdýr séu nægilega varin gegn hættu á meiðslum eða öðrum hættum sem stafað geta af beinni eða óbeinni snertingu við rafmagn;

(2) ekki myndist hiti, ljósbogar eða geislun sem valdið geta hættu;

(3) fólk, húsdýr og eignir séu nægilega varin gegn hættum sem ekki eru raftæknilegs eðlis, en reynsla sýnir að rafföng geta valdið;

(4) einangrun raffanga sé fullnægjandi við þær aðstæður sem sjá má fyrir.

1.4.2.3 Vörn gegn hættum sem orsakast geta af ytri áraun á rafföng

Ráðstafanir tæknilegs eðlis skulu miðaðar við að:

(1) rafföngin fullnægi þeim kraftrænu kröfum sem af þeim má vænta þannig að fólki, húsdýrum eða eignum sé ekki stofnað í hættu;

(2) rafföngin þoli þá áraun sem þau verða fyrir við þær umhverfisaðstæður sem vænta má, og ekki er kraftræn, þannig að fólki, húsdýrum og eignum sé ekki stofnað í hættu;

(3) rafföngin stofni ekki fólki, húsdýrum né eignum í hættu við óeðlileg rekstrarskilyrði sem sjá má fyrir, þ.m.t. fyrirsjáanlegt yfirálag.

1.4.3 Skyldur ábyrgðaraðila og annarra seljenda

Ábyrgðaraðilar og aðrir seljendur skulu aðeins setja á markað rafföng sem fullnægja ákvæðum um öryggi (greinar 1.4.2, 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3).

Ábyrgðaraðili er sá aðili sem ber ábyrgð á markaðssetningu raffangs hér á landi.

Ábyrgðaraðili getur verið framleiðandi, umboðsmaður framleiðanda eða innflytjandi. Á ábyrgðaraðila hvíla ákveðnar skyldur umfram aðra seljendur.

Seljandi getur verið framleiðandi raffangs, umboðsmaður framleiðanda, innflytjandi, milliliður á síðari stigum, dreifingaraðili eða smásali.

1.4.4 Staðlar

Telja verður að rafföng uppfylli ákvæði um öryggi (greinar 1.4.2, 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3) ef þau uppfylla öryggisákvæði staðla.

Með stöðlum er í þessu sambandi fyrst og fremst átt við staðla Evrópska raftæknistaðlasambandsins (CENELEC), sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar.

Einnig getur verið átt við öryggisákvæði Alþjóðanefndarinnar um reglur um samþykki raffanga (CEE) eða Alþjóðaraftækninefndarinnar (IEC) ef staðlar skv. 2. mgr. hafa ekki verið staðfestir.

Ef samhæfðir evrópskir staðlar skv. 2. mgr. eða öryggisákvæði skv. 3. mgr. eru ekki til, er heimilt að styðjast við öryggisákvæði þeirra staðla sem gilda í framleiðslulandi sem er aðili að Samkomulagi evrópska raftæknistaðlasambandsins um vottanir (CCA).

Rafmagnseftirlit ríkisins birtir skrár yfir staðla eða flokka staðla skv. grein þessari.

1.4.5 Markaðssetning og samræmi við öryggisákvæði staðla

Heimilt er að setja rafföng á markað ef sýnt er fram á samræmi þeirra við öryggisákvæði staðla skv. grein 1.4.4.

Heimilt er að setja á markað rafföng sem hafa gilda viðurkenningu raffangaprófunar Rafmagnseftirlits ríkisins.

Einnig er heimilt að setja rafföng á markað, án þess að þau uppfylli ákvæði greinar 1.4.4, ef þau hafa verið prófuð af prófunarstofu sem viðurkennd er af Samkomulagi evrópska raftæknistaðlasambandsins um vottanir (CCA).

Sýna skal fram á samræmi raffanga við staðla og öryggisákvæði. Hægt er að sýna fram á samræmi með því að setja merki um samræmi á rafföngin og leggja fram vottorð um samræmi eða að öðrum kosti með því að leggja fram yfirlýsingu framleiðanda um samræmi.

Merkin og vottorðin skulu vera staðfest af aðilum sem viðurkenndir eru af CCA.

Ef rafföng eru sett á markað án þess að þau uppfylli ákvæði greinar 1.4.4 skulu ábyrgðaraðilar leggja fram prófunarskýrslur um samræmi raffanganna við ákvæði um öryggi (greinar 1.4.2, 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3), samda af prófunarstofu sem viðurkennd er af CCA.

Rafmagnseftirlitið birtir skrár yfir aðila skv. grein þessari, ásamt sýnishornum af merkjum og vottorðum og yfirlýsingum um samræmi.

1.4.6 Opinber markaðsgæsla með rafföngum

Rafmagnseftirlit ríkisins annast opinbera markaðsgæslu, þ.e. heldur uppi skipulagðri og skilgreindri starfsemi með því markmiði að tryggja að rafföng á markaði uppfylli ákvæði um öryggi (greinar 1.4.2, 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3) og séu ekki hættuleg. Það fellir úrskurði og tekur ákvarðanir um aðgerðir skv. reglugerð þessari.

Skoðunarstofa annast framkvæmd markaðseftirlits, þ.e. hefur markvisst og skipulegt eftirlit með rafföngum á markaði. Hún framkvæmir markaðsskoðun og aflar á skipulegan hátt upplýsinga um rafföng á markaði og tekur við kvörtunum frá neytendum og öðrum aðilum.

Samstarf Rafmagnseftirlitsins og skoðunarstofu fer fram í sérstakri samvinnunefnd. Þar er fjallað um framkvæmd markaðseftirlits, áherslur í markaðseftirliti og athugasemdir skoðunarstofu um einstök rafföng. Samvinnunefnd gerir tillögur um aðgerðir til Rafmagnseftirlitsins sem tekur endanlega ákvörðun. Samvinnunefnd gerir tillögur um verklagsreglur um framkvæmd markaðsskoðunar, tíðni markaðsskoðunar, viðbrögð við kvörtunum o.fl.

1.4.7 Markaðsskoðun og rannsókn raffanga

Skoðunarstofa á rétt á því að skoða rafföng hjá seljanda og krefjast upplýsinga um ábyrgðaraðila. Hún á rétt á að taka sýnishorn raffanga til rannsóknar. Seljanda er skylt að halda skrá með upplýsingum um ábyrgðaraðila allra þeirra raffanga sem hann hefur á boðstólum.

Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir öll rafföng sem hann hefur á boðstólum. Hann skal einnig ávallt hafa tiltæk afrit af vottorðum eða yfirlýsingum um samræmi. Séu rafföng ekki í samræmi við staðla eða öryggisákvæði skv. grein 1.4.4 skal ábyrgðaraðili ávallt hafa tiltæk afrit af prófunarskýrslum. Skoðunarstofa getur krafið ábyrgðaraðila um prófunarskýrslur, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um rafföng. Ábyrgðaraðila skal veittur eðlilegur frestur til að afla slíkra upplýsinga.

Skoðunarstofa skoðar rafföng hjá ábyrgðaraðilum og öðrum seljendum. Ef ástæða þykir til, rannsakar skoðunarstofan rafföngin nánar og ákvarðar hvort þau samræmist stöðlum og öryggisákvæðum skv. grein 1.4.4. Samræmismat fer fram með faglegu mati sem lýtur skilgreindum reglum eða með prófun. Prófun skal framkvæmd af prófunarstofu sem viðurkennd er af Samkomulagi evrópska raftæknistaðlasambandsins um vottanir (CCA).

Rafmagnseftirlit ríkisins gefur út leiðbeiningar um skrár yfir rafföng og um skjalavistun vottorða og samræmisyfirlýsinga skv. grein þessari.

Starfsmenn Rafmagnseftirlits og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og varða atvinnuleyndarmál.

1.4.8 Aðgerðir ef raffang uppfyllir ekki formskilyrði

Ef raffang uppfyllir ekki formleg skilyrði til markaðssetningar skv. grein 1.4.5 getur Rafmagnseftirlit ríkisins bannað sölu þess.

Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn raffangs eða hefur ekki tiltæk gögn skv. grein 1.4.7 getur Rafmagnseftirlitið bannað sölu þess.

1.4.9 Aðgerðir ef raffang uppfyllir ekki ákvæði um öryggi

Ef rökstuddur grunur leikur á að raffang uppfylli ekki ákvæði um öryggi (greinar 1.4.2, 1.4.2.1, 1.4.2.2 og 1.4.2.3) getur Rafmagnseftirlit ríkisins ákveðið tímabundið bann við sölu þess á meðan á rannsókn stendur.

Þyki það ljóst að raffang uppfylli ekki ákvæði um öryggi getur Rafmagnseftirlitið bannað sölu þess.

Ef raffang er álitið sérstaklega hættulegt getur Rafmagnseftirlitið krafist tafarlausrar afturköllunar allra eintaka raffangsins. Ábyrgðaraðili skal lagfæra raffangið þannig að það uppfylli settar reglur eða afhenda kaupendum samskonar raffang en hættulaust eða greiða kaupendum andvirði raffangsins. Hægt er að skylda framleiðanda til að eyðileggja öll eintök raffangsins með öruggum hætti.

1.4.10 Samvinna við ábyrgðaraðila, rökstuðningur ákvörðunar og málskot til ráðherra Rafmagnseftirlit ríkisins leitast við, eftir því sem unnt er, að hafa samvinnu við

ábyrgðaraðila um málsmeðferð, s.s. öflun gagna, skoðun og prófun raffanga og aðgerðir s.s. stöðvun sölu og afturköllun raffanga.

Rafmagnseftirlitinu ber að tilkynna ábyrgðaraðilum um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum, sem eftir aðstæðum geta verið skoðunarskýrslur, prófunarskýrslur eða önnur gögn.

Ábyrgðaraðilum skal veittur eðlilegur frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.m.t. að fara fram á prófun eða endurprófun raffangs. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef raffang er álitið sérstaklega hættulegt.

Heimilt er Rafmagnseftirlitinu að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi. Ákvörðunum Rafmagnseftirlitsins má skjóta til iðnaðarráðherra, en málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

1.4.11 Kostnaður við sýnishorn o.fl.

Ábyrgðaraðilar bera kostnað vegna þeirra sýnishorna raffanga sem þeir láta af hendi vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti.

3. gr.

Grein 1.6.4 hljóði svo:

1.6.4 Uppfylli raffang ekki formskilyrði skal ábyrgðaraðili bera kostnað vegna skoðunar og málsmeðferðar.

Uppfylli raffang ekki ákvæði um öryggi skal ábyrgðaraðili bera kostnað vegna skoðunar, rannsóknar, prófunar, afturköllunar og málsmeðferðar.

Heimilt er að ákveða gjöld skv. grein þessari í gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra. Reglugerð þessi, um breytingu á reglugerð um raforkuvirki nr. 264, 31. desember 1971, er sett skv. lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60, 31. maí 1979, til að taka gildi 1. janúar 1993 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Iðnaðarráðuneytið, 18. desember 1992.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

Rán Tryggvadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica