I. KAFLI
Stjórn og rekstur.
1. gr.
HS Veitur hf. eru sjálfstæður lögaðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjanesbæ.
2. gr.
Tilgangur HS Veitna hf. er rekstur dreifiveitu rafmagns, rekstur hitaveitu, öflun og sala á heitu vatni, öflun og sala á köldu vatni, ásamt viðhaldi og uppbyggingu þeirra kerfa sem nauðsynleg eru rekstrinum. Um tilgang félagsins að öðru leyti ákveður stjórn félagsins hverju sinni.
3. gr.
HS Veitur hf. hafa einkaleyfi til reksturs hitaveitu á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. Um einkaleyfið gilda ákvæði orkulaga, nr. 58/1967.
HS Veitur hf. reka ferskvatnsveitu fyrir hönd Reykjanesbæjar, Garðs, Vestmannaeyja auk hluta Keflavíkurflugvallar. Þá aflar fyrirtækið vatns fyrir fyrrgreinda aðila auk Sandgerðis, Grindavíkur og Voga. Um vatnsveitu gilda ákvæði laga, nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga.
4. gr.
Við gerð gjaldskrár skal stjórnin gæta almennra arðsemissjónarmiða og arðsemiskrafna í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Skal að því stefnt, að fyrirtækið skili nægjanlegum greiðsluafgangi svo það geti jafnan, með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum, tryggt viðskiptavinum sínum afhendingu orku á sem hagkvæmustu verði.
5. gr.
Tekjum fyrirtækisins skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði og fjárfestingu, þannig að öruggur rekstur þess sé tryggður, þar með talin greiðsla afborgana og vaxta af skuldum þess.
6. gr.
Semja skal fyrir hvert reikningsár fjárhags- og framkvæmdaáætlun fyrir fyrirtækið og leggja hana fyrir stjórn til samþykktar eigi síðar en í desember ár hvert.
II. KAFLI
Hitaveita.
7. gr.
HS Veitur hf. láta leggja allar utanhússlagnir, aðalæðar, dreifiæðar og heimæðar. Í húsi leggur félagið lögnina sem endar í tengigrind. Heimilt er HS Veitum hf. að setja nánari ákvæði um lögn heimæða í ný byggðahverfi í skilmála þá er fylgja lóðarúthlutun.
Húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg kjallara eða 1. hæðar, ef hús er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir tengigrind og annað tilheyrandi tengingu við HS Veitur hf. Þessi staður skal ætíð vera aðgengilegur starfsmönnum HS Veitna hf., og þar skal vera niðurfall í gólfi.
Ef inntak hitaveitu og mælir eða hemill eru ekki í sama herbergi, skal lögn þar á milli vera óhulin.
Stjórn HS Veitna hf. getur heimilað einstaklingum og félögum fjarhitun á tilteknum svæðum, undir yfirstjórn félagsins.
8. gr.
HS Veitur hf. hafa eignarrétt og viðhaldsskyldu á lögnum, sem fyrirtækið lætur leggja. HS Veitur hf. geta endurkrafið húseigendur um kostnað vegna tjóns á kerfi eða tækjum, eftir almennum skaðabótareglum.
9. gr.
Þeim sem á húseign við götu eða veg, þar sem dreifiæð hitaveitu liggur, er skylt að láta tengja hitakerfi hússins við hitaveituæðina. Séu sérstakir erfiðleikar á tengingu húss eða tenging þykir af einhverjum ástæðum ekki ráðleg getur félagið ákveðið að húsið skuli ekki tengt við hitaveitukerfið.
10. gr.
Sú hitaorka sem HS Veitur hf. láta í té er ætluð til upphitunar húsa og almennra heimilisnota.
Óheimilt er með öllu að tengja annað en neysluvatnslögn við grein þá, sem til þess er ætluð. Komi fram ósk um að nota hitaorku til annarra þarfa, en greinir í 1. mgr., þarf til þess heimild HS Veitna hf.
11. gr.
Réttur notanda til afnota af hitaorku skuldbindur ekki HS Veitur hf. til þess að tryggja, að þrýstingur í dreifiæð sé ávallt nægilegur, en stefnt skal að því að þrýstingur sé í samræmi við tæknilega tengiskilmála hitaveitna.
Stöðvun á rekstri hitaveitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds og tenginga skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, og koma skal á eðlilegum rekstri aftur, svo fljótt sem verða má.
12. gr.
HS Veitur hf. bera ekki, að svo miklu leyti sem lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 heimila, fjárhagslega ábyrgð á tjóni, er leiða kann af rekstrartruflunum er verða vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika.
Sama gildir, ef rennsli í æð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða og annarra nauðsynlegra aðgerða HS Veitna hf.
HS Veitur hf. ábyrgjast ekki tjón, sem verða kann á ofnakerfum og tilheyrandi búnaði vegna tæringar og áskilja sér rétt til að krefjast þess að forhitarar verði settir á öll húskerfi, sem tengjast HS Veitum hf.
Ábyrgðartakmörkun samkvæmt þessari grein er bundin því að beint tjón orkukaupanda/húseiganda verði ekki rakið til mistaka starfsmanna HS Veitna hf.
13. gr.
HS Veitum hf. er heimilt að nota aftur vatn, sem runnið hefur gegnum hitakerfi húss, svo og þéttivatn, ef um jarðgufuveitu er að ræða.
Ef HS Veitur hf. óska ekki eftir að nota slíkt afrennslisvatn, skal húseigandi sjá um að leiða það í frárennsliskerfi hússins, og má hitastig þess þá ekki vera hærra en 35°C.
14. gr.
Eftirlitsmaður HS Veitna hf. skal jafnan hafa frjálsan aðgang að hitalögnum, bæði innanhúss og utan. Húseiganda er skylt að láta honum í té allar þær upplýsingar, er máli geta skipt um hitun hússins. Er húseiganda skylt að hlíta tafarlaust fyrirmælum hans um viðgerð á bilunum og sérhverjar ráðstafanir til varnar misnotkun á heita vatninu.
15. gr.
Þar sem hús eru hituð með hitaveituvatni, ber húseiganda að hafa á hitakerfinu sjálfvirkan loka, sem tryggir, að þrýstingur á húskerfinu verði ekki of mikill, og að nýting vatnsins verði nægjanleg samanber 20. gr.
16. gr.
HS Veitur hf. geta, þegar selt er um hemil, ákveðið visst lágmark selds magns um hvern hemil. Jafnframt getur hún ákveðið, að notendur geti aðeins á vissum ákveðnum árstíma breytt keyptu magni til lækkunar.
17. gr.
Á öllum hitakerfum tengdum hitaveitu, skulu vera þrýstimælar og öryggisloki, samkvæmt fyrirmælum HS Veitna hf. Ekki þarf þó öryggisloka, ef hitakerfið hefur síopna útrás um yfirfall (slaufu) og rennsli er stýrt á innrennsli eingöngu.
Á hitakerfum, tengdum einföldu dreifikerfi hitaveitu, skal nota sjálfvirka loka á afrennsli, sem halda eiga hæfilegum þrýstingi á hitakerfinu, samkvæmt nánari fyrirmælum HS Veitna hf.
18. gr.
Á þeim svæðum þar sem fjarvarmaveitu nýtur ber að taka hitaveituvatn í gegnum forhitara og með öllu óheimilt að taka hitaveituvatn beint úr veitunni sjálfri.
19. gr.
Að öðru leyti gilda tæknilegir tengiskilmálar hitaveitna.
III. KAFLI
Rafmagn.
20. gr.
Umsókn um heimtaug eða breytingu á heimtaug skal undirrituð af húseiganda, er skuldbindur sig til þess með undirskrift sinni að greiða heimtaugargjald það, sem ákveðið er í gjaldskrá HS Veitna hf. og að hlíta settum reglum um dreifingu á raforku frá HS Veitum hf.
HS Veitur hf. geta krafist þess, að skrifleg greinargerð, byggð á tækniþekkingu, sé lögð fram varðandi afl- og orkunotkun.
Sé um tiltölulega mikla notkun að ræða og HS Veitur hf. þurfa, til þess að fullnægja henni, sérstaklega að auka háspennukerfi, auka afl spennistöðvar, eða gera meiriháttar viðbætur í lágspennukerfi, er HS Veitum hf. heimilt að gera umsækjanda að taka þátt í kostnaði.
Sé um óskipulagt svæði að ræða, eða aðstæður óvenjulegar að því er varðar fjarlægð húsveitu frá veitukerfi eða fyrirhugaða raforkunotkun húsveitunnar, skal heimtaugargjald ákveðið samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni, þar sem hliðsjón er höfð af stofnkostnaði við framkvæmdir.
HS Veitum hf. er heimilt að krefjast lágmarksgjalds, vegna notkunar um heimtaug.
Heimtaugar með stofnvara eru eign HS Veitna hf., enda þótt heimtaugargjald hafi verið greitt, nema um annað hafi verið sérstaklega samið.
HS Veitur hf. annast viðhald og endurnýjun heimtauga sinna án sérstaks endurgjalds, nema heimtaug þurfi að breyta, vegna breytinga á húsi eða lóð. Skal húseigandi greiða kostnaðinn við þá breytingu.
21. gr.
Engir aðrir en umboðsmenn HS Veitna hf. mega setja spennu á veitu í fyrsta sinn eftir úttekt. Sé út af þessu brugðið, varðar það þann sektum, sem verkið er unnið fyrir, þann sem setur spennu á veituna og hinn löggilta rafverktaka, er um verkið sá.
HS Veitur hf. taka ekki á sig ábyrgð, að svo miklu leyti sem lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 heimila, á veitu með úttekt eða tengingum.
22. gr.
Vélar og önnur tæki skulu vera þannig sett og þannig útbúin, að þau starfi án þess að truflunum valdi á annarri notkun.
Misbrest á þessu, eða aðra galla á veitu eða tækjum, skal húseigandi/notandi þegar í stað og á sinn kostnað láta lagfæra.
Starfsmenn HS Veitna hf. eiga rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang til skoðunar á veitum til athugunar á mælitækjum og því, hvort öll notkun komi rétt til mælis samkvæmt gjaldskrá, til álestrar á mælitæki, til lokunar vegna vanskila og til annarra þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar eru, samkvæmt réttindum og skyldum HS Veitna hf.
23. gr.
Að öðru leyti gilda tæknilegir tengiskilmálar rafveitna.
IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
24. gr.
Reglugerð þessi gildir um allt veitusvæði HS Veitna hf., nema annað sé tekið fram.
25. gr.
Eigandi húsveitu eða annarrar veitu, sem tengist veitukerfi HS Veitna hf., nefnist húseigandi (veitueigandi).
26. gr.
Tengigjöld eru gjaldkræf eftir að tengingu heimæðar/heimtaugar í nýbyggingu er lokið. HS Veitum hf. er þó heimilt að fresta innheimtu tengigjalds vegna hluta bygginga vegna sérstakra aðstæðna, svo sem ef ljóst má telja að sá hluti byggingar verði ekki upphitaður. Neyslugjöld verða krafin samkvæmt ákvæðum gjaldskrár.
Notandi skal greiða HS Veitum hf. orkukaupin samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar á orku skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili, sem reikningurinn tekur til.
Félagið má grundvalla orkureikninga á áætlun um orkunotkun notanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun, en í henni skal orkunotkuninni jafnað niður á daga. Reikningar, sem byggjast á staðreyndri orkunotkun, nefnast álestrarreikningar, en reikningar, sem byggjast á áætlaðri orkunotkun, nefnast áætlunarreikningar.
Raunverulega orkunotkun skal staðreyna að jafnaði á um það bil 12 mánaða fresti en álestur mæla skal þó fara fram eigi sjaldnar en annað hvert ár. Þegar orkunotkun hefur verið staðreynd, skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra. Notandi getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við staðreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlaðri orkunotkun vegna nýrra forsendna. Mælar sem mæla vatnsnotkun og varmaorku skulu uppfylla gildandi ákvæði viðeigandi tilskipana um vatns- og varmaorkumæla eins og þær samhæfðu evrópsku reglur eru innleiddar hér á landi í lögum og reglugerðum sem gilda um mælitæki til þeirra nota.
Reikninga skal senda orkunotanda á notkunarstað eða annan stað, sem hann tiltekur.
Gjalddagi er við útgáfu reiknings. Eindagi er 15 dögum síðar, og skal hann tilgreindur á reikningi. Einnig skal tilgreina greiðslustað.
Sé reikningur ekki greiddur á eindaga, hvort sem um er að ræða áætlunarreikning eða álestrarreikning, hafa HS Veitur hf. rétt til að innheimta dráttarvexti, sem reiknast frá gjalddaga reiknings hverju sinni auk kostnaðar sem af innheimtu kröfunnar hlýst.
HS Veitum hf. er heimilt að afhenda ógreiddar kröfur, vegna áætlunar- eða álestrarreikninga, þriðja aðila sem hefur þá umsjón með innheimtu krafnanna. Hefur notandi sömu skyldu til að greiða kröfu eftir að hún hefur verið afhent þriðja aðila og er innheimtuaðila heimilt að innheimta dráttarvexti í kjölfarið.
Heimilt er að beita rafrænni greiðslumiðlun til greiðslu á reikningum og skal þá birta reikninga í heimabanka viðskiptavina eða á viðskiptasíðum fyrirtækisins með tengingu við heimabanka viðskiptavina. Í þeim tilfellum skal senda viðkomandi viðskiptavini yfirlit um skuldfærslur og notkun árlega. Notkun greiðslumæla er heimil með samþykki HS Veitna hf. og viðskiptavinar.
Viðskiptavinum er skylt að hlíta ákvæðum gildandi gjaldskrár og breytingum sem þar kunna að verða á.
27. gr.
Sé orkureikningur ekki greiddur á eindaga, eða ef notandi vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari, eða skriflegum samningi um orkukaup, mega HS Veitur hf. stöðva orkuafhendingu til notanda, að undangenginni skriflegri aðvörun, sem sendist honum með minnst þriggja daga fyrirvara.
Vanskil á greiðslu áætlunarreikninga heimila HS Veitum hf. sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar á orkuafhendingu og vanskil á álestrarreikningum. HS Veitur hf. bera ekki ábyrgð á afleiðingum slíkrar stöðvunar.
Beri kaupandi ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli), má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra. Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartímanum.
HS Veitur hf. hafa rétt til þess að krefja notanda um greiðslu kostnaðar við undirbúning og stöðvun orkuafhendingar (lokun), ennfremur við framkvæmd lokunar, svo og opnun veitunnar.
HS Veitur hf. mega stöðva orkuafhendingu með hverjum þeim hætti, sem henta þykir, með straumrofi eða lokun fyrir aðrennsli heita vatnsins í íbúð eða húsnæði notanda eða utanhúss.
HS Veitum hf. er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun orkuafhendingarinnar, enda sé ekki óeðlilega langur tími liðinn frá aðvörun um hana.
Sé lokað fyrir veitu vegna skulda, skal að jafnaði ekki opna aftur, nema skuldin sé að fullu greidd og/eða trygging sett fyrir skilvísri greiðslu.
Enginn má rjúfa straum, loka fyrir aðrennsli heita vatnsins, endurtengja veitu né opna fyrir aðrennsli heita vatnsins, nema þeir, sem HS Veitur hf. hafa veitt umboð til þess hverju sinni. Óleyfilega tengda veitu mega HS Veitur hf. rjúfa fyrirvaralaust.
28. gr.
HS Veitur hf. setja upp nauðsynleg mælitæki og ákveða fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja til, án samþykkis HS Veitna hf., en HS Veitur hf. geta krafist flutnings þeirra, ef það þykir hentugra, að dómi HS Veitna hf.
Notandi mælitækis er sá, sem skráður er fyrir orkunotkun þeirrar veitu, sem mælitækið er fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og orkunotkun veitunnar, þar til hann lætur af notkun hennar og tilkynnir HS Veitum hf. um það. Uppsögn eða flutning skal tilkynna HS Veitum hf. með eðlilegum fyrirvara, sem annast lokaálestur.
HS Veitur hf. geta átt kröfu á hendur öðrum en skráðum notanda, færi félagið sönnur á að um málamyndagerning sé að ræða.
Hafi ekki annar viðskiptavinur sótt um að fá mælitæki skráð á sitt nafn, skal loka því, og eigi hefja dreifingu á ný um tækið fyrr en tilkynnt hefur verið um nýjan notanda.
Ef húseigandi eða trúnaðarmaður hans verður þess var, að orkunotandaskipti hafa orðið, án þess að þau hafi verið tilkynnt HS Veitum hf. ber honum að gera félaginu aðvart um það án tafar. Vanræki húseigandi þessa tilkynningarskyldu sína ber hann einfalda ábyrgð vegna ógreiddrar notkunar þess aðila.
Heimilt er HS Veitum hf. að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna notkunar. Skilgreining á orðinu nákominn er bundin við maka, foreldra og börn, en hvað varðar félög er skilgreining sú sama og er í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
29. gr.
HS Veitur hf. annast venjulegt viðhald mælitækjanna á sinn kostnað, en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum, er heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess. Sama gildir, ef mælitæki eyðileggst af völdum frosta.
Notandi greiðir leigu fyrir afnot mælitækja samkvæmt gjaldskrá HS Veitna hf. á hverjum tíma.
Fyrir hverju mælitæki er aðeins sendur einn reikningur og ber skráður notandi ábyrgð á greiðslu þeirrar notkunar sem um mælitækið fer. Séu sameiginleg mælitæki í fjölbýlishúsum ber að skrá húsfélag fyrir notkuninni og er það ábyrgt fyrir greiðslu vegna notkunar í fasteigninni. Sé sameiginlegur mælir í fjölbýlishúsi skráður á einstakling er HS Veitum hf. heimilt að gera húsfélagið ábyrgt fyrir greiðslu. Ef ekki er húsfélag í fjölbýlishúsinu er HS Veitum hf. heimilt að gera notendur ábyrga fyrir greiðslu. Bera notendur um þann mæli þá hver um sig ábyrgð in solidum á greiðslu hvers reiknings. Um ábyrgð eigenda vísast nánar til laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Óski notandi eftir að mælitæki verði prófað, skal beiðni um það vera skrifleg. Reynist skekkja +/‑5% eða minni er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófun.
Ef fram kemur við prófun, sem HS Veitur hf. framkvæma, að mælitækið hafi mælt 5% of lítið eða þaðan af minna, skal notandinn greiða það sem vanmælt var.
Hafi tækið mælt of mikið skal endurgreiða notandanum mismuninn með frádrætti á næsta orkureikningi, eða í reiðufé.
Ef notandi véfengir niðurstöður prófunar á mælitæki, skal leita ákvörðunar Neytendastofu. Ákvörðun Neytendastofu er bindandi fyrir báða aðila.
Við endurreiknun orkunotkunar skal taka tillit til fyrri notkunar viðkomandi aðila og annarra aðstæðna, sem gefið gætu vísbendingu um það, hvenær mælitækið bilaði. Ekki skal miða leiðréttingu reikninga til hækkunar við lengra tímabil en eitt ár enda hafi orkukaupandanum ekki verið ljóst eða mátt vera það ljóst að um bilun mælitækis væri að ræða. Eigi skal reikna vexti af umfram- eða vangreiðslum, sem að framan greinir.
30. gr.
Hætti skráður orkunotandi, skal hann í tæka tíð tilkynna það til HS Veitna hf., sem annast lokaálestur. Hafi eigi annar notandi sótt um að fá mælitækið skráð á sitt nafn, skal loka því. Eigi skal hefja orkuafhendingu á ný um tækið, fyrr en tilkynnt hefur verið um nafn og kennitölu nýs notanda.
31. gr.
Verði orkunotkun óvenjumikil vegna galla eða bilunar í heimilistækjum eða annars búnaðar hjá notanda ber HS Veitum hf. ekki að veita afslátt vegna þess, enda hafi orkan sannanlega verið afhent.
Ef svo reynist, að notkun hefur orðið meiri en álestur sýnir, eða álestur eða útreikningur á reikningsfjárhæð verið skakkur, áskilja HS Veitur hf. sér rétt til að leiðrétta þessa skekkju eftir á, undir eins og vitað er um hana.
32. gr.
Verði uppvíst, að seld orka sé notuð á annan hátt en um er samið, eða að raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingu, þannig að notkun komi ekki öll fram, skulu HS Veitur hf. áætla þá notkun. Skal notandi gjalda fyrir hana eftir gjaldskrá fyrir allan tímann, sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar, þar til leiðrétt er.
Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um líklega notkun á veitunni, má við matið hafa hliðsjón af stærð á t.d. vörum þeim, sem fyrir veitunni eru.
33. gr.
Starfsmenn HS Veitna hf. hafa heimild til að innsigla mælitæki, sem orkunotkun fer um, svo sem kWst-mæla, straumspenna, hemla, vatnsmæla og þess háttar. Einnig mega starfsmenn innsigla hluta veitu, sem ómæld orka fer um. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa, en starfsmenn HS Veitna hf. Önnur innsigli mega rafverktakar og pípulagningameistarar rjúfa, að fengnu leyfi HS Veitna hf. hverju sinni.
Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli, en þá skal viðkomandi, eigi síðar en næsta virkan dag á eftir tilkynna HS Veitum hf. skriflega um málsatvik.
Veiti notandi eða rafverktaki því athygli, að innsigli sé rofið eða vanti, er hann skyldur að tilkynna HS Veitum hf. slíkt án tafar.
Ef maður rýfur innsigli hemils eða annars mælitækis án gildrar ástæðu, varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.
34. gr.
Heimilt er að krefja húseiganda um greiðslu aukakostnaðar, vegna lagningar heimtaugar/heimæðar, sem að hans ósk er lögð í frosna jörð.
35. gr.
Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari, svo og gjaldskrá settri samkvæmt henni, má innheimta með fjárnámi.
36. gr.
Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að lögum.
37. gr.
Brot á reglugerð þessari eða skilmálum HS Veitna hf. skal farið með að hætti sakamála.
Brot á reglugerð þessari geta og varðað bótaskyldu samkvæmt almennum reglum.
Vanræki viðskiptavinur að gera úrbætur sem HS Veitur hf. hafa mælt fyrir um, í samræmi við reglugerð þessa, geta HS Veitur hf. látið framkvæma það sem þörf krefur á kostnað viðskiptavinar.
38. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 82. gr. orkulaga nr. 58/1967, og 45. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð fyrir Hitaveitu Suðurnesja, nr. 214/1997.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. október 2018.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hreinn Hrafnkelsson.